27.3.2005

Páskar - Bobby Fischer - mannréttindaverkefni - fjármálastjórn borgarstjóra.



Páskadagur! Vorblíðan er svo mikil hér í Fljótshlíðinni, að við gátum setið úti á stétt austan við húsið og snætt morgunverðinn. Við okkur blasti Eyjafjallajökull í allri sinni dýrð. Í gærkvöldi var jökullinn baðaður tunglskini, sem náði aðeins til hans, áður en skýjahulan hvarf af öllum himninum eftir þoku og rigningu dagsins, Veðrið er svo milt, að sjá má grasið grænka.

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði í Dómkirkjunni í morgun og tók rösklega upp hanskann fyrir kristna kirkju í fjölmenningunni. Hvatti biskup til þess, að ekki yrði látið undan kröfum þeirra, sem vilja helst afnema kristinfræðslu í skólum. Ef prédikarar halda ekki fram hlut kristinnar kirkju og kristins málstaðar í þjóðlífinu, gerir það enginn.

Trúarlífið fram að uppstigningardegi er sérkennilegt, því að þessa daga kirkjuársins gengur Kristur upprisinn meðal okkar mannanna og við getum slegist í för með honum, eins og þeir, sem voru á leið til Emmaus og sagt er frá í Lúkasarguðspjalli. Þótt Jesús væri nýlátinn, þekktu göngumennirnir tveir hann ekki, þegar hann slóst í för með þeim, það var eins og augu þeirra væru slegin blindu. Augu þeirra opnuðust ekki fyrr en um kvöldið, þegar þeir settust til máltíðar og hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann, áður en hann hvarf þeim sjónum.

Ég minnist þess að hafa heyrt lagt út af þessum magnaða texta í messu, sem ég sótti vorið 2000 í Cambridge, þar sem Harvard-háskóli hefur aðsetur. Með predikun sinni opnaði presturinn nýja sýn á þessi orð guðspjallamannsins og ræddi, hvenær við værum í sömu sporum og göngumennirnir á leið til Emmaus, að átta okkur ekki á því, þegar Jesús slægist í för með okkur– hvað þyrfti að gerast, til að við þekktum hann.

Ég fór oft með foreldrum mínum í messu í Dómkirkjunni klukkann 08.00 á páskadagsmorgun. Eru það eftiriminnlegar stundir með súkkulaði að lokinni messu.  Nú ferðast menn meira um páskana en þá var gert, bæði innan lands og utan. Ég hef oft verið um hátíðarnar á Þingeyrum hjá vinafólki okkar Valgí og Ingimundi og ókum við einu sinni þaðan í páskamessu klukkan 08.00 hjá séra Hjálmari Jónssyni á Sauðárkróki.

 

Héðan úr Fljótshlíðinni hef ég farið ég páskamessur að Breiðabólstað, Odda og Keldum.

Pólitíkin hefur ekki alltaf verið fjarlæg á páskum – þeir hafa undanfarin ár oft veitt vel þegna hvíld frá kosningabaráttu. Fyrir 10 árum var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð fjarri fjölmiðlum um páska og varð ég þá ráðherra.

 

Bobby Fischer.

 

Um þessa páska hefur athygli fjölmiðla einkum beinst að því, að Bobby Fischer, nýorðinn íslenskur ríkisborgari með lögfestingu alþingis mánudaginn 21. mars, kom til landsins frá Japan fimmtudaginn 24. mars, skírdag. Lögin voru gefin út 22. mars, sama dag ritaði ég undir ríkisborgarabréfið og síðan snerust hjólin hart í Japan. Fyrr en varði var Fischer kominn út á flugvöll í Japan með stóryrði á vörunum á leið í SAS-vél, sem flaug honum til Kaupmannahafnar, þar sem Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, hópur heimildarmyndarmanna og Sæmundur Pálsson, einkavinur Fischers, tóku á móti honum. Héldu með hann til Svíþjóðar til móts við smáþotu á vegum Baugs, að því er sagt var, sem gat ekki lent í Kaupmannahöfn vegna þoku.

 

Kvartanir um að fulltrúar Stöðvar 2 í flugvél hafi ráðið mestu um það við hverja Bobby Fischer talaði við komuna til Reykjavíkurflugvallar að kvöldi skírdags, 24. mars, og jafnvel platað lögregluna til að halda öðrum frá hinum nýja íslenska ríkisborgara sýna, hve skrýtin tilvik geta orðið að fréttaefni í tengslum við söguleg atvik.

 

Lögum samkvæmt er krafist 1350 kr. fyrir hvert ríkisborgarabréf. Þessi óverulegi kostnaður við útgáfu bréfsins hefur ekki verið fréttaefni,  fyrr en nú hefur Einar S. Einarsson í stuðningshópi Fischers oftar en einu sinni minnt á það í fjölmiðlum, að hann hafi greitt um 1300 kr. fyrir bréfið vegna Fischers.

 

Í morgunfréttum RÚV klukkan 08.00 föstudaginn langa var þetta haft eftir Einari S., þegar hann undraðist framgöngu Stöðvar 2 við komu Fischers:

 

„ Ég var nú bara með í höndum þetta ríkisfangsbréf sem að er staðfesting á ríkisborgararétti hans og ég lagði út fyrir, einhverjar 1.300 krónur, en það er nú ekki málið. En við ætluðum nú bara að hafa þetta svona sem táknrænt atriði.“

 

Smáatriði  eins og þessi við komu Fischers mega ekki gleymast frekar en að Helgi H. Jónsson flutti skírdagskvöld fréttaskýringu í sjónvarpinu um aðdraganda að komu Fischers til landsins, án þess að minnast einu orði á þátt Davíðs Oddssonar. Ef Davíð hefði ekki tekið af skarið skömmu fyrir jól, hefði atburðarásin, sem leiddi til komu Fischers, ekki hafist. 

 

 

Mannréttindaverkefni.

 

Eftir að hafa barist fyrir því, að Bobby Fischer losnaði úr prísund Japana, segir Einar S. Einarsson í fréttum, að stuðningshópurinn hafi fleiri málefni á dagskrá sinni. Þetta séu einskonar mannréttinda- eða mannfrelsissamtök, sem ætli nú að skoða fleiri mál og kannski að taka þau upp á sína arma. Hópurinn sé ekki bundinn við réttindabaráttu Fischers.

 

Hér á landi starfa ýmis samtök að mannréttindamálum og láta að sér kveða bæði heima og erlendis. Sum þeirra eins og Amnesty leggja metnað sinn í að standa fjárhagslega á eigin fótum og eiga að minnsta kosti ekki neitt undir fjárveitingum frá ríkisvaldinu komið.

 

Fyrrr á þessum vetri urðu nokkrar umræður um þá ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að fjárveitingar, sem færu um þess hendur og rynnu til mannréttindamála, skyldu ekki eyrnamerktar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Tekið skyldi mið af því, að fleiri en hún létu mannréttindamál til sín taka. Alþingi samþykkti þessa tilhögun og auglýsti ráðuneytið síðan eftir umsóknum um styrki til sérgreindra verkefna.

 

Ákveðið var að styrkja tvo viðurkennda umsækjendur: Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Við ákvörðun um styrkfjárhæð var tekið mið af verkefnum, sem umsækjendur kynntu í umsóknum sínum.

 

Taldi ráðuneytið sig þannig vera að koma til móts við óskir mannréttindaskrifstofunnar með 2,2 m. kr. styrk til hennar til nokkurra af þeim verkefnum, sem skrifstofan tíundaði í umsókn sinni.

 

Brynhildur Flóvenz, stjórnarformaður skrifstofunnar, gagnrýndi, eftir að tilkynnt hafði verið um styrkinn,  ráðuneytið fyrir að hafa ætlað að koma í veg fyrir, að skrifstofan ynni álitsgerðir og umsagnir um lagafrumvörp, með því að styrkja tilgreind verkefni í umsókn skrifstofunnar. Þetta er ósanngjörn og röng túlkun á styrkveitingunni. Að sjálfsögðu ræður stjórn skrifstofunnar, hvað hún gerir samhliða því að sinna styrktum verkefnum.

 

Ég hef víða og um langt árabil komið að því að veita opinbera styrki til hundruð umsækjenda og man ekki eftir gagnrýni fyrir að hafa veitt styrk á grundvelli umsóknar. Að sjálfsögðu er engum skylt að taka við opinberum styrk og nógir eru um hituna.

 

Fjármálastjórn borgarstjóra.

 

 

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins innan R-listans, telur sér nú sæma að boða ágreining innan ríkisstjórnarinnar til að afsaka frumhlaup Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, þegar kynnt voru drög að samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um aukið fjárstreymi úr ríkissjóði til sveitarfélaganna.

 

Í fréttum Stöðvar 2 miðvikudaginn 23. mars var sagt ágætlega frá framgöngu Steinunnar Valdísar í þessu máli. Þar sagði í frétt Kristjáns Más Unnarssonar:

 

„R-listinn taldi útsvarshækkun um áramótin nauðsynlega til að bæta erfiðan fjárhag borgarsjóðs. Nú, aðeins þremur mánuðum síðar, er svigrúm til að lofa gjaldfrjálsum leikskóla. Kostnaður við það er álíka mikill og sem nemur útsvarshækkuninni.

Af stærri sveitarfélögum var það Reykjavíkurborg sem hækkaði skatta mest á þegna sína með hækkun útsvars um 0,33 prósentustig. Útsvarshækkun borgarinnar um síðustu áramót er drjúg fyrir meðalheimili og kostar þannig hjón með meðaltekjur um 40 þúsund króna viðbótarskatta á þessu ári. Borgin hugðist einnig hækka álagningarprósentu fasteignaskatta en féll frá því þar sem verðhækkanir fasteigna einar sér, leiða til nærri eins milljarðs króna tekjuauka borgarinnar af fasteignasköttum milli ára. En heyrum hvað borgarstjóri sagði fyrir þremur mánuðum til að réttlæta auknar álögur á borgarbúa.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri: Við vorum að semja við grunnskólakennara, sá samningur einn og sér kostar borgarsjóð á næsta ári um einn milljarð króna. Við gerum líka ráð fyrir að greiða niður skuldir borgarinnar um 1,5 milljarð króna þannig að það veitir ekki af hverri krónu í þennan borgarsjóð.

Þegar kynnt voru áform um gjaldfrjálsan leikskóla í síðustu viku var komið annað hljóð í strokkinn. Nú sá borgarstjóri nóg af peningum í borgarsjóði til að greiða niður leikskólagjöldin.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir: Það er borð fyrir báru þar, rekstur Reykjavíkurborgar er í jafnvægi og þetta sýnir auðvitað líka trausta fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar að stíga þetta skref.

Áætlað er að hækkun útsvarsins skili Reykjavíkurborg 740 milljóna króna viðbótarsköttum á ári. Í fréttatilkynningu borgarstjóra í síðustu viku vegna gjaldfrjálsa leikskólans kemur fram að kostnaðaraukinn er áætlaður 846 milljónir króna á ári en þetta á koma í áföngum á nokkrum árum. Nú vaknar sú spurning, var verið að gabba fólk þegar erfið fjárhagsstaða borgarsjóðs var notuð til að réttlæta skattahækkun?“

 

Fjármálastjórn er og verður ekki sterka hlið R-listans – hann felur ekki vandræði sína við hana með því að tala um  gjaldfrjálsan leikskóla. Það er fráleitt að blanda þessu tvennu saman og enn fáránlegra, að Alfreð Þorsteinsson skjaldi Steinunni Valdísi í þessum vandræðum hennar með tilraun til að sprengja ríkisstjórnina.