19.3.2005

Varsjá – Úkraína – rósamál – spenna í Frakklandi – nýr rektor.

Í vikunni var ég í Varsjá og sat þar fund dóms- og innanríkisráðherra Evrópuráðsríkja um varnir gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Pólverjar fara nú með formennsku í Evrópuráðinu og um miðjan maí verður leiðtogafundur aðildarríkjanna í Varsjá. Ætlunin er meðal annars, að þar verði ritað undir samninga um aðgerðir gegn hryðjuverkum, en á vegum sérfræðinga Evrópuráðsins hefur undanfarin ár verið unnið að gerð þeirra. Í þessum samningum er ekki verið að skilgreina hryðjuverk á nýjan hátt heldur er tekið á álitaefnum, sem lúta að valdbeitingu stjórnvalda og lögreglu í nafni þeirra til að sporna við hryðjuverkum. Í því efni er ekki verið að rannsaka glæpsamlegt atferli, eftir að verknaður hefur verið framinn, heldur er verið að vinna gegn því, að ólögmætur verknaður sé unninn. Þess vegna er í þessu sambandi mjög litið til þess, hve víðtækar heimildir eigi að veita, án þess að gengið sé of nærri friðhelgi þeirra einstaklinga, sem í hlut eiga.

Daginn áður en ráðherrafundurinn hófst í Varsjá, það er miðvikudaginn 16. mars voru fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, lögfræðingarnir Ragna Árnadóttir og Ásgerður Ragnarsdóttir, hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og svöruðu athugasemdum þeirra, sem sitja í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og höfðu farið yfir skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Bárust mér fregnir af því, sem gerst hafði í New York, fimmtudaginn 17. mars til Varsjár og vísaði ég meðal annars til þess í stuttri ræðu, sem ég flutti á ráðherrafundinum. Minnti ég á, að við framkvæmd allra samninga og laga um baráttu gegn hryðjuverkum væru stjórnvöld undir smásjá eftirlitsaðila, þar á meðal á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins.

Við höfðum verið í samandi við Rögnu í New York frá Varsjá daginn áður, en tímamunur var slíkur, að við höfðum ekki tök á að fylgjast með lyktum mála á miðvikudagskvöldið. Hins vegar fékk ég fimmtudaginn 17. mars frásögn og fréttatilkynningu um fundinn sendan til mín í tölvupósti frá Árna Snævarr. En hann er nú blaðafulltrúi á vegum Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Brussel, ef ég veit rétt.

 

Sannaði þetta mér enn einu sinni, hve nýja tæknin auðveldar alla miðlun upplýsinga – síðan sat ég á hótelherbergi mínu í Varsjá, þar sem ég hafði mjög góða nettengingu, og svaraði fyrirspurnum blaðamanna frá Íslandi um skýrslugjöfina í New York og viðbrögð við henni – gat ég notað tímann eftir að ráðherrafundinum lauk síðdegis á fimmtudeginum og þar til kvöldverður hófst til að sinna þessum tölvusamskiptum öllum.

 

Tvö atriði vöktu mesta athygli vegna skýrslugjafarinnar í New York. Hið fyrra snertir rétt stjórnvalda til að snúast gegn þeim, sem raska almannafriði, og hið síðara fjölda nauðgunarmála fyrir dómstólum. Fyrra atriðið er að sjálfsögðu nátengt umræðunum um varnir gegn hryðjuverkum. Hve langt er stjórnvöldum heimilt að ganga, þegar ekkert eiginlegt afbrot hefur verið framið? Síðara atriðið snýr að sönnunarbyrði, starfsháttum saksóknara og dómara, en hvorir tveggja gerar strangar kröfur til sönnunar, því að enginn er sekur nema á hann sannist brot með dómi. Að athugðu máli verður sú

 ályktun varla dregin af athugasemdum í New York, að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna vilji draga úr sönnunarkröfum. Afstaða nefndarmanna og athugasemdir um þessi mál og önnur verður gaumgæfilega skoðuð af mér með aðstoð þeirra, sem sóttu fundinn í New York fyrir hönd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

 

Úkraína.

Í kvöldverði á ráðherrafundinum í Varsjá sat ég við hlið Júrís Lutsenkos, nýskipaðs innanríkisráðherra Úkraínu. Hann sagði mér, að í forsetatíð  Leonids Kútsma hefði hann stofnað samtök með þann tilgang einan að koma forsetanum frá völdum. Ég spurði hann, hvort víst væri, að Kútsma eða útsendarar hans hefðu í september 2000 látið drepa Georgí Gongadze, gagnrýninn blaðamann, eins og mikið hefur verið rætt í fréttum. Ráðherrann taldi ekki neinn vafa á því, undir sinni stjórn væri verið að afla þess, sem þyrfti, til að sanna ódæðið og tengsl þess við forsetann fyrrverandi. Hann hefði heitið þeim leyniþjónustumönnum griða, sem hefðu fylgst með blaðamanninum. Ráðherrann sagðist raunar sjálfur þakka fyrir að vera á lífi, eftir að hafa verið andstæðingur Kútsma og verið einn af forystimönnum mótmæla gegn stjórn hans vegna morðsins á blaðamanninum.

 

Ráðherrann hefur verið þingmaður sósíalista en sagðist hafa verið skipaður ráðherra, eftir að hann hefði verið fremstur í flokki leiðtoga mannfjöldans, sem efndi til mótmælanna á torginu í hjarta Kiev, eftir að fyrstu úrslit í forsetaskosningnum lágu fyrir. Þá hefði hann staðið fyrir því að kalla fólkið á torgið og varðstaða þess hefði ráðið úrslitum um, að gengið var til kosninga að nýju og valdaklíkan í kringum Kútsma hefði ekki komist upp með ætlunarverk sitt, að að snúa kosningum sér í hag með svikum.

 

Hann hefði aldrei búist við jafnmiklum áhuga almennings, það hefðu 1,2 milljónir manna verið á torginu og götum Kiev, þegar mest var, en hann hefði séð til þess, að aldrei hefðu færri en 300 þúsund verið þar samtímis. Stjórnvöld hefðu látið lögreglu hafa alvörukúlur í byssur sínar, en aldrei hefðu verið gefin fyrirmæli um að beita vopnunum. Hann hefði sjálfur stýrt jarðýtum, sem hefðu verið notaðar til að ryðja her og lögreglu á brott, en það hefði engu mátt muna, að hæfist borgarastyrjöld.

 

Við, sem horfðum á þessu friðsamlegu byltingu í sjónvarpinu, sáum, að ekki voru allir jafnvel búnir í vetrarkuldanum skömmu fyrir jól, en kosið var að nýju 26. desember 2004. Lutsenko sagði, að vissulega hefði  oft verið kalt fyrir fólkið að sýna hug sinn með mótmælum, en hann og samstarfsmenn sínir með aðstoð hljómlistarmanna hefðu hvatt fólkið til dáða. Þá hefði fjöldi manna komið á vettvang með bíla sína og þeir hefðu verið opnir mótmælendum  til að setjast inn og hlýja sér.

 

Við hlið okkar sat kona frá Austurríki, mikils metin lögfræðingur og fyrirlesari á ráðherrafundinum. Hún minnti á hlut austurrískra lækna í að bjarga lífi Viktors Jutsenkos, sem að lokum var löglega kjörinn forseti. Læknar sjúkrahússins hefðu verið undir gífurlegum þrýstingi að halda að sér höndum, að minnsta kosti við frásagnir af því, sem hrjáðu sjúkling sinn, en það var eitrið dioxín, sem líklegt er, að Jútsenkó hafi verið byrlað af rússneskum útsendurum, þó ekki með aðild eða vitund rússneskra stjórnvalda. Í fréttum hefur verið sagt frá því, að lögregla í Úkraínu sé að kanna gögn, sem talin eru syna, að kosningaráðgjafi tengdur valdhöfum í Kreml, Gleb Pavlovskí, hafi komið við sögu, þegar lagt var á ráðin um að byrla Jutsenko eitur. Pavlovskí hefur harðlega neitað þessum áburði.  .

 

Úkraínska ráðherranum var mikið í mun að segja frá hinni friðsamlegu byltingu, bæði almennum orðum og í smáatriðum, eins og gjarnan er, þegar fólk hefur gengið í gegnum mikla og krefjandi lífsreynslu. Var augljóst, að hann var ekki aðeins að tala sig frá þessum atburðum heldur einnig að átta sig á því, hvað á hans herðum hvíldi, eftir að hann var orðinn ráðherra.

 

Innanríkisráðherra Úkraínu glímir við flókið og erfitt viðfangsefni. Innanríkisráðuneytið var talið eitt hið spilltasta í stjórnartíð Kútsma. Um 300 þúsund manns starfa á þess vegum og við þröngan fjárhag ríkisins er erfitt að halda öllum hjólum gangandi samtímis því, sem nauðsynlegt kann að vera að hreinsa til í æðstu stöðum eða jafnvel sækja menn til saka.  Landamæravarsla er meðal verkefna ráðuneytisins og Úkraína löng sameiginleg landamæri með öðrum ríkjum, svo að ekki sé sagt neitt um  áhuga Úkraínumanna á því að fara til annarra landa. Utanríkisráðherra Þýskalands á til dæmis í vandræðum heima fyrir, þar sem hann er talinn ábyrgur fyrir því, að Þjóðverjar slökuðu á útgáfu vegabréfsáritana til Úkraínumanna, sem hefur leitt til þess að hundruð þúsunda þeirra hafa fengið leyfi til að heimsækja Þýskaland til að skoða Kölnardómkirkju. Mun færri snúa til baka en fara í skoðunarferðina.

 

Samstarfsmaður ráðherrans sagði mér, að sendinefnd Úkraínu á ráðherrafundinum hefði notað tækifærið til tvíhliða viðræðna við fulltrúa þeirra ríkja, sem voru á fundinum og eiga landamæri að Úkraínu en þau eru Moldova, Rúmenía, Ungverjaland, Slóvakía, Pólland, Litháen, Hvíta-Rússland, Rússland og Tyrkland, handan við Svartahafið. Þessi embættismaður öfundaði okkur Íslendinga af því að hafa aðeins haf við landamæri okkar og taldi það auðvelda landamæravörslu til mikilla muna.

 

Rósamál.

 

Þegar ég fylgist með framgöngu R-listans, þar sem andi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur svífur yfir vötnunum, og greinum í Morgunblaðinu, sem tengjast formannskjöri Samfylkingunni, kemur orðið rósamál í hug mér. Í baráttunni er talað undir rós eða farið af stað með mál, án þess að nokkur innistæða sé á bakvið þau.

 

Þau Katrín Júlíusdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson, þingmenn Samfylkingarinnar í suðvestur-kjördæmi, hafa bæði skrifað undir rós um kosningarnar í Samfylkingunni. Ég skil þau þó bæði þannig að þau séu andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar.

 

Katrín skrifaði grein um það, að ekki væri nýnæmi, að kona væri formaður í stjórnmálaflokki, eins og má skilja af áróðri stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar – þær Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir hefðu verið flokksformenn.

 

Guðmundur Árni skrifaði grein til að vekja athygli á því, að í nefnd á vegum Ingibjargar Sólrúnar innan Samfylkingarinnar hefðu komið fram tillögur, sem væru eins og ör í hjartastað á Samfylkingunni í Hafnarfirði og í hjartastað flokksins alls, því að Samfylkingin mætti alls ekki ljá máls á sjálfstæðum skólum.

 

Ingibjörg Sólrún situr í borgarstjórn og starfar innan R-listans. Þar ber starfið allt þess merki undir forystu Steinunnar Valdísar, að kosningar séu á döfinni. Rokið er upp til handa og fóta með ýmis málefni.

 

Borgarstjóri skrifar undir minnisblað með samgönguráðherra, sem ekki er unnt að túlka á annan veg en þann, að Reykjavíkurflugvöllur geti verið áfram í Vatnsmýrinni að uppfylltum skilyrðum – þetta friðar kjósendur Ingibjargar Sólrúnar á landsbyggðinni. Síðan lætur borgarstjóri eins og ekkert hafi breyst, það á að friða kjósendur í Reykjavík.

 

Háskólanum í Reykjavík er allt í einu boðið að reisa framtíðarhúsnæði sitt á sérstaklega umhverfisvænum en þröngum bletti við ylströndina í Nauthólsvík – helstu skrautfjöður Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra.

 

Borgarstjóri kynnir upp úr þurru hugmyndir R-listans um að lækka leikskólagjöld. Þótt ekki séu fyrir hendi neinar samþykktir um þetta innan borgarstjórnar, er eins víst, að Ingibjörg Sólrún muni reyna að nýta sér þessa óvæntu tilkynningu borgarstjóra til að höfða enn frekar til kjósenda í samkeppni við vinstri/græna, sem hafa boðað, að leikskólinn skuli gjaldfrjáls.

 

Ég veit að sjálfsögðu ekki neitt um það, hvernig þetta allt höfðar til kjósenda í formannskjöri innan Samfylkingarinnar. Ég er ekki heldur að blanda mér í þá baráttu en tónninn, sem þar er gefinn, kann að setja svip á almennar stjórnmálaumræður, þótt hann lýsi fyrst og síðast djúpstæðum ágreiningi innan Samfylkingarinnar bæði um menn og málefni. Þessi ágreiningur hverfur hvorki með rósamáli né vísan til hjáfræða, sem kennd eru við umræðustjórnmál.  

 

Spenna í Frakklandi. 

Meðal þeirra, sem ég hitti á ráðherrafundinum í Varsjá, var þingmaður frá Frakklandi, hægri maður, án þess að vera í flokki Jacques Chiracs, forseta Frakklands.

 

Við ræddum frönsk stjórnmál og fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu Frakka 29. maí um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þingmaðurinn sagði, að í 40 ár hefðu frönsk stjórnmál snúist um Chirac og aftur Chirac og hið sama væri uppi á teningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Með því að segja já, væru kjósendur að styðja Chirac, þess vegna væri mikil hætta á því, að meirihlutinn segði nei!

 

Ég sá það síðan í fréttum föstudaginn 18. mars, að í skoðanakönnun blaðsins Le Parisien segðist 51% Frakka ætla að fella stjórnarskrána en 49% styðja hana. Hvort þetta gangi eftir kemur í ljós – en hitt er að gerast, að franska stjórnin lætur undan öllum kröfugerðarhópum, sem ganga um götur Parísar og Chirac hefur sjálfur tekið af skarið um, að svonefnd þjónustutilskipun Evrópusambandsins sé meingölluð og Frakkar geti aldrei samþykkt hana. Hún er meðal annars gagnrýnd af vinstrisinnum og andstaða við hana er ein af meginröksemdum franskra sósíalista gegn stjórnarskránni – það er að hún heimili of mikið frjálsræði og þrengi meðal annars að starfsemi alþýðusambanda og verkalýðsfélaga.

 

Líklega sannast nú enn í Frakklandi eins og svo víða annars staðar, að þjóðaratkvæðagreiðslur snúast oft meira um annað en málið, sem um er kosið. Eitt er víst, að reynslan frá frönsku þjóðaratkvæðagreiðslunni um Maastricht-sáttmálann hræðir, þá munaði litlu, að andstæðingar sáttmálans ynnu. Hinu má þó ekki gleyma í þessu sambandi, að innan Evrópusambandsins er nei ekki tekið gilt sem lokasvar um neitt, sem framtíð sambandsins varðar – það er aðeins látinn líðan nokkur tími og síðan er greitt atkvæði að nýju, þar til sagt er já.

 

Nýr rektor.

 

Kristín Ingólfsdóttir var fimmtudaginn 17. mars kjörin rektor Háskóla Íslands og bar sigurorð af Ágústi Einarssyni. Ég óska Kristínu til hamingju með sigurinn í kosningunum og velfarnaðar í mikilvægu starfi. Ég vék að væntanlegu rektorskjöri í fyrsta pistli mínum á þessu ári og taldi enn breytinga þörf við stjórn háskóla og skipulag stjórnsýslu þeirra, ekki síst ríkisháskólanna.

 

Þótt kosningabarátta innan Háskóla Íslands hafi að ýmsu leyti um of snúist um það, hvernig unnt er að afla meira fjár úr ríkissjóði, hefur einnig verið rætt um önnur mál. Samkeppnisstaða ríkisrekinna háskóla á alls staðar undir högg að sækja og vandi þeirra verður ekki leystur með því að krefjast meira af ríkinu.