6.3.2005

Nýr háskóli - áfangi fyrir gæsluna - vefsíðubreytingar - saga Íraksstríðsins.

Um það voru greidd atkvæði á alþingi á fimmtudag, hvort heimila ætti sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Þau ólíkindi gerðust, að bæði vinstri/grænir og Samfylking snerust gegn þessari ráðstöfun, þótt um hana lægi fyrir eindregin ósk stjórnenda, kennara og nemenda beggja skóla. Afgreiðsla málsins hafði dregist á þingi vegna þess að þingmenn flokkanna tveggja létu sér ekki nægja að snúast efnislega gegn málinu heldur beittu þeir einnig þeim aðferðum, sem þingsköp leyfa, til að tefja mál á þingi.

Í sjálfu sér ekki nýlunda, að vinstri/grænir séu andvígir því, að ríkisstofnun, það er Tækniháskóla Íslands í þessu tilviki, sé breytt í einkafyrirtæki en samfylkingarmenn settu það fyrir sig, að nýi skólinn yrði hlutafélag en ekki sjálfseignarstofnun. Björgvin G. Sigurðsson, málsvari Samfylkingarinnar í menntamálum á þingi, talaði fyrir þessari skoðun, sem er ekkert annað en fyrirsláttur, því að hlutafélag um skóla er að sjálfsögðu fullgilt rekstrarumhverfi.

 

Skólastefna Samfylkingarinnar er mikið kraðak – fyrrnefndur Björgvin er málsvari hennar á þingi en Stefán Jón Hafstein sem formaður menntaráðs í Reykjavík talar eins og sá sem valdið hefur. Þeir virðast ekki samstiga, til dæmis þegar kemur að því, hve einkaaðilar eigi að hafa mikið svigrúm til að reka grunnskóla. Ég viðurkenni, að ég hef ekki lagt mig eftir því, sem Morgunblaðið og Stefán Jón eru að deila í skólamálum. Ég hef hins vegar hlustað á Stefán Jón tala um einkaskóla á fundum borgarstjórnar Reykjavíkur og veit, að hann vill veg þeirra sem minnstan.

 

Tal samfylkingarfólks um skólamál sannar, að hafi flokkurinn einhverja stefnu í málaflokknum stendur hún á brauðfótum og mundi aðeins kalla á óvissu og ringulreið. Í Reykjavík er verið að murka lífið úr einkareknum grunnskólum og gagnrýni vegna þess er svarað með útúrsnúningi. Á alþingi eru talsmenn Samfylkingarinnar einfaldlega alltaf á móti því, sem kemur frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

 

Í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Hafnarfjarðar bregður Samfylkingin fæti fyrir einkaframtakið við rekstur grunnskóla. Á alþingi vill Samfylkingin ekki, að einkaframtakið njóti sín sem best við rekstur háskóla. Samfylkingin er með öðrum orðum málsvari stöðnunar vegna skorts á skólastefnu og ekki er til álitsauka fyrir Viðskiptaháskólann á Bifröst að fá það orð á sig vegna mannaráðninga, að hann sé eitthvert skólavígi Samfylkingarinnar.

 

 

Með sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík er haldið áfram á þeirri braut að virkja einkaframtakið í þágu æðri menntunar. Um árabil var rætt, hvort sameina ætti Tækniskóla Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands og voru samdar ítarlegar skýrslur um málið en án árangurs. Þá var einnig rætt, hvort breyta ætti Tækniskóla Íslands í einkaskóla, þegar hann yrði fluttur á háskólastig. Ekki náðist nægileg samstaða um það. Þá ákvað ég að undirbúa frumvarp um að tækniskólinn yrði fluttur á háskólastig sem ríkisskóli og nú er hann sem sagt orðinn að hlutafélagi í Háskólanum í Reykjavík. Ég óska öllum, sem í nýja skólanum starfa innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

 

Áfangi fyrir gæsluna.

 

Mikilvægur áfangi náðist í málefnum Landhelgisgæslu Íslands á ríkisstjórnarfundi föstudaginn 4. mars, þegar samþykkt var tillaga frá mér um, að hafinn yrði undirbúningur að því að kaupa bæði nýtt varðskip og nýja flugvél fyrir gæsluna.

 

Lengi hefur verið á döfinni að gæslan fengi nýtt varðskip og Fokker-flugvél hennar er að verða safngripur. Um árabil hefur verið hugað að því að sérsmíða stórt varðskip, en nú hefur ríkisstjórnin samþykkt að hverfa frá áformum um það og þess í stað verði hugað að því að leigja eða kaupa fjölnota varðskip fyrir um það bil helming þess verðs, sem sérsmíðaða skipið myndi kosta, ef marka má mat sérfræðinga.

 

Athuganir á vegum gæslunnar hafa leitt í ljós, að kostnaður við að kaupa eða leigja flugvél er álíka mikill og við fjölnota varðskipið. Þannig má fyrir svipað verð og greiða hefði þurft fyrir stóra, sérsmíðaða varðskipið væntanlega fá bæði varðskip og flugvél.

 

Lokaákvörðun um tímasetningu á kaupum eða leigu á þessum tækjum hefur ekki verið tekin enn, því að næst fer fram athugun á vegum fjármálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis og síðan verða samin útboðsgögn og málið að nýju lagt fyrir ríkisstjórn, áður en leitað verður til fjárveitingarvaldsins. Á hinn bóginn liggur skýr stefna ríkisstjórnarinnar fyrir um að endurnýja beri bæði varðskip og flugvél landhelgisgæslunnar.

 

Vefsíðubreytingar.

 

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, opnaði vefsíðu á dögunum. Glöggir lesendur síðunnar hafa tekið eftir því, að sumt að því, sem Össur skrifar að kvöldi, er horfið að morgni. Eftir því sem upplýst ber í Staksteinum Mogurnbkaðsins snerta þessar útþurrkuðu setningar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, keppinaut Össurar um formannsstól Samfylkingarinnar.

 

Sérhver síðuhöfundur í netheimum hlýtur að ráða því, hvernig hann hagar meðferð efnis á síðu sinni, hverju hann breytir þar og hvenær.

Ég fylgi þeirri ritstjórnarstefnu að breyta ekki efni á síðu minni, eftir að það er þangað komið. Ég læt við það sitja að leiðrétta prent- eða staðreyndavillur. Stundum bæti ég inn nýjum efnisatriðum, eins og í síðasta pistli, til að árétta skoðun mína en ekki til að draga hana til baka.  Fréttablaðið sakaði mig síðastliðið sumar um hafa breytt texta á síðu minni. Hann er óbreyttur, en ég sannreyndi – frá hótelherbergi í Peking - vöktun Fréttablaðsins á síðunni í hita fjölmiðladeilunnar.

 

Menn geta verið sammála eða ósammála því, sem Össur segir á vefsíðu sinni, en að gagnrýna hann fyrir að ritstýra eigin síðu er næsta langsótt, - allir eiga leiðréttingu orða sinna.

 

Saga Íraksstríðsins

 

Vef-Þjóðviljinn segir laugardaginn 5. mars:

 

„Í frétt RÚV segir: „Sumir sagnfræðingar staðhæfa að milljón manna hafi verið líflátin í hreinsunum Stalíns á fjórða áratugi aldarinnar sem leið, milljónir hafi látist þegar samyrkjubúum var komið á fót og að minnsta kosti hálf fimmta milljón veslast upp í fanga- og þrælkunarbúðum einræðisherrans, Gúlaginu.“ „Sumir sagnfræðingar“ staðhæfa þetta sem sagt. Aðrir staðhæfa þá vafalítið eitthvað allt annað. Fjöldamorð Stalíns eru þá ef til vill bara eitthvað sem sagnfræðingar deila um en ekki nokkuð sem fréttastofa RÚV treystir sér til að fullyrða að hafi átt sér stað.“

 

Ástæða er til að taka undir undrun Vef-Þjóðviljans á þessum efnistökum fréttastofu RÚV . Hitt er staðreynd, að fjölmiðlar ekki síður en aðrir umgangast blóðuga einræðisherra á ólíkan hátt. Eftir fall þriðja ríkisins var markvisst unnið að því að koma í veg fyrir, að goðsögn yrði til um Adolf Hiter auk þess sem í Vestur-Þýskalandi var með stjórnarskrá og lögum leitast við að uppræta pólitíska arfleifð einræðis nasista og útiloka, að öfgafull stjórnmálastefna gæti skotið þar rótum að nýju. Ekkert sambærilegt átak hefur verið gert til að lýsa hinu sanna eðli stalínismans og meira að segja hér láta fréttamenn eins og um það kunni að vera ágreiningur, að milljónir manna hafi látið lífið vegna ofríkis hans og grimmdar.

 

Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, var lærisveinn Stalíns og tileinkaði sér margt af stjórnarháttum hans. Um stríðið gegn Saddam Hussein er hart deilt og erfitt að henda reiður á því, hvað er satt og hverju er logið í þeirri deilu.

 

Til að átta sig á Íraksstríðinu bendi ég á bókina The Iraq War eftir John Keegan einn fremsta stríðs-sagnfræðing Breta. Þar er aðdraganda stríðsins lýst á skýran og glöggan hátt, gangi þess og eftirleiknum fram á haust 2004. Samkvæmt henni væri ástæða fyrir fréttamenn að setja fyrirvara um fleira í frásögnum sínum en það, hvort Stalín og stefna hans hafi orðið milljónum manna að bana.

 

Í pistli mínum 19. febrúar undraðist ég, að Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og forseti Norðurlandaráðs, hefði talið sér sæma í þingræðu að bera blak af stefnu Saddams Husseins í málefnum kvenna með þeim rökum, að kona hans hefði verið formaður í kvennasamtökum. John Keegan segir í bók sinni, að við skipan ríkisráðsins í Írak í júlí 2003 (það er eftir sigurinn yfir Saddam) hafi þremur konum verið valin þar sæti, konum hafi aldrei áður verið sýndur slíkur trúnaður við stjórn landsins, jafnvel ekki í tíð Saddams, sem hafnaði trúarreglum og hét konum jafnrétti að nafninu til (nominal equality) en leyfði þeim ekki nein bein afskipti af stjórnmálum.