26.2.2005

Bush í Brussel

Í vikunni var ég á fundum í Brussel, má segja, að ég hafi siglt í kjölfarið á George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem var þar frá sunndegi til miðvikudags, þegar hann hélt til Mainz í Þýskalandi og síðan til Bratislava í Slóvakíu, þar sem hann hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

 

Meðal þeirra ræðumanna, sem ég hlustaði á í Brussel var Rockwell Schnabel, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu (ESB). Hann var á sínum tíma sendiherra lands síns í Finnlandi en hann er einn þeirra sendiherra Bandaríkjanna, sem er valinn vegna persónulegra tengsla  við forsetann. Sér hefði ekki verið kappsmál að verða sendiherra gagnvart ESB, þegar Bush hefði hringt í sig árið 2001 og boðið sér starfið. Hann hefði beðið um tækifæri til að hugsa sig um, en forsetinn tekið því frekar illa, hann  væri ekki vanur því að þurfa að hringja tvisvar í menn út af svona málum. Sendiherrann sagðist þá hafa spurt um hvert ætti að verða hlutverk sitt og eftir að forsetinn hefði lýst því, hefði hann samþykkt boðið um sendiherrastarfið.

 

Sendiherrann sagði engan efa í sínum huga um eindreginn áhuga forsetans á því að efla og treysta samstarf Bandaríkjanna og ESB, það væri raunar illskíljanlegt, hvers vegna það væri fyrst núna, sem Evrópumenn virtust vera að átta sig á því. Forsetinn hefði í raun ekki getað áréttað skoðun sína á þessum málum betur heldur en með því að fara fyrst til Brussel, þegar hann héldi út fyrir landsteinana á nýju kjörtímabili. Í þeirri ákvörðun einni fælist mikilvægasta yfirlýsing hans og henni hefði verið vel tekið á fundum með evrópskum forystumönnum.

 

Sendiherrann sagði ekkert geta komið í stað sambands Bandaríkjanna og Evrópuþjóða innan Atlansthafsbandalagsins (NATO), þar væru Bandaríkjamenn einn af hópnum. Tvíhliða samskipti Bandaríkjanna og ESb gætu aldrei komið þar í staðinn.

 

Robert Cooper, æðsti embættismaður ESB á sviði utanríkis- og öryggismála, það er nánasti samstarfmaður Javier Solana, utanríkismálastjóra ESB, var einnig ræðumaður á þessum fundi. Cooper er þekktur víða um lönd fyrir bók sína Breaking of Nations. Hann staðfesti orð sendiherrans um hinn góða anda á fundunum með Bush. Hann sagði einnig, að ESB gegndi mikilvægu hlutverki við að ýta undir lýðræði í heiminum og festa það í sessi. Benti hann á Spán og Portúgal í vesturhluta Evrópu og síðan nýju aðildarríki ESB í austri. Hann sagði einnig, að kosningarnar í Írak og þróunin þar til lýðræðis væri einstaklega mikilvæg og myndi vonandi leiða til þess, að fleiri arabaríki myndu fara sömu leið. Ef lýðræði næði að festa rótum í tveimur arabaríkjum myndi hugsanlega fara af stað skriða til betri og þar með friðasamlegri stjórnarhátta. Það væri merkilegt að leiða hugann að því, að lýðræðið hefði svo sterka skírskotun, að jafnvel einræðisherrar eins og Saddam Hussein hefðu sett lýðræðislegar kosningar á svið í þeirri von að bæta ímynd sína. Þess vegna hefðu Írakar ekki verið utangátta, þegar boðað var nú til alvörukosninga. Enginn vissi í raun, hvort tækist að ýta lýðræði endanlega úr vör í Írak að þessu sinni en það eitt, sem nú hefði gerst þar, myndi hafa varanleg áhrif ekki síður en tilraunir íbúa Austur-Evrópubúa til að brjóta af sér hlekki sovét-kommúnismans á sínum tíma.

 

Ræða Bush í Brussel snerist um frelsi og lýðræði eins og embættistökuræða hans 20. janúar og þá sýn forsetans, að með áherslu á þessi grundvallargildi í stjórnmálum væri bestur grunnur lagður undir frið og góða sambúð ríkja.

 

Í helgarblaði sínu núna í vikulokin fjallar The Wall Street Journal um Evrópuferð Bush í leiðara sínum. Þar er rifjað upp, að Woodrow Wilson forseti hafi komið sem friðmælandi til Parísar 1919, Harry Truman sem sigurvegari til Potsdam 1945, John F. Kennedy sem hinn hugprúði til Berlína 1963 og Ronald Reagan sem framsýnn hugsjónamaður árið 1987. Það mætti segja um Bush, að hann hefði komið sem sáttasemjari en að mati blaðsins hefði hann í raun fetað í fótspor Regans.

 

The Wall Street Journal segir Þessa kenningu að vísu ekki nýstárlega, því að Der Spiegel hafi vakið máls á henni. Það segi vissulega sína sögu um breyttar áherslur, að þetta vinstrisinnaða þýska vikurit, sem fyrir tveimur árum hafi haft „blóð-fyrir-olíu“ sem aðalefni sitt um markmið Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum hafi nú spurt: „Hefur Bush kannski rétt fyrir sér?“ Der Spiegel segir:

 

„Þegar Reagan heimsótti Þjóðverja á sínum tíma var afstaða þeirra til Bandaríkjanna lík því sem hún er núna, þeir höfðu miklar efasemdir um forseta Bandaríkjanna og utanríkisstefnu hans. Þegar Reagan stóð við Brandenborgarhliðið – og Berlínarmúrinn – og krafðist þess af Gorbatsjov að hann rifi niður þennan múr, vógu leiðarahöfundar blaðanna harkalega að honum daginn eftir. Fréttaskýrendur sögðu hann vera að dreyma... En sagan hefur sýnt, að Reagan var ekki að dreyma, þegar hann krafðist þessa. Þvert á móti skorti þýska stjórnmálamenn hugmyndaflug – þeir gátu ekki ímyndað sér, að eitthvað gæti komið í stað tvískipts Þýskalands.“

 

The Wall Street Journal segir, að líklega hefði Der Spiegel ekki skrifað svona, ef Bush hefði heimsótt Evrópu skömmu fyrir kosningarnar í Írak. Forsetinn hafi ekki komið til Evrópu til að kynna á sér nýja hlið, hann hafi hins vegar viljað gefa Jacques Chirac, Gerhard Schröder og Valdimír Pútín tækifæri til að sýna á sér nýja hlið eftir allt það, sem gerst hefði í Írak.

 

Að lesa þetta og fá tækifæri til að kynnast umræðum um Írak og stöðuna þar á fundum eins og þeim, sem ég sótti hjá Centre for European Policy Studies (CEPS), er hressandi tilbreyting frá því viðhorfi til Íraks, Bush og Bandaríkjanna, sem einkennir stjórnmála- og fjölmiðlaumræður okkar Íslendinga. Mér finnst skírskotun til umræðna um stefnu Reagans á níunda áratugnum vel við hæfi, því að þá sátum við undir þungum árásum, sem héldum því sjónarmiði á loft, að ekki bæri að láta undan kjarnorkuvopnaþrýstingi Sovétríkjanna og friðarhreyfinganna svonefndu, sem studdu málstað þeirra Vesturlöndum. Þá eins og nú var látið í veðri vaka, að NATO væri að splundrast.

 

Vissulega væri ánægjulegt, ef stefna Bush og barátta í þágu frelsis og lýðræðis yrði eins árangursrík og stefna Reagans. Of snemmt er að slá nokkru föstu um  það á þessu stigi – hitt er þó ljóst, að Evrópuferð forsetans í þessari viku skilur eftir sig jákvæðara viðhorf í hans garð en áður en hún var farin.

 

ps. að morgni sunnudags 27. febrúar, þegar ég skoðaði póstinn minn benti glöggur lesandi síðu minnar mér á, að þennan sama sunnudag er fréttaskýring eftir David Brooks í The New York Times, þar sem hann leggur út af þessum sama punkti úr Der Spiegel og gert er hér að ofan og hann minnir á það, sem The Washington Post hafði eftir Jumblatt forystumanni Drúsa í Líbanon, að lýðræðisþróunin í írak hefði breytt skoðun sinni á innrásinni í landið. Auk þess sæki Líbanir nú gegn hernámi Sýrlendinga með stöðugum mótmælum eftir morðið á Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra. David Brooks segir:

„But this is clearly the question the United States is destined to provoke. For the final thing that we've learned from the papers this week is how thoroughly the Bush agenda is dominating the globe. When Bush meets with Putin, democratization is the center of discussion. When politicians gather in Ramallah, democratization is a central theme. When there's an atrocity in Beirut, the possibility of freedom leaps to people's minds.“

Þá er þess að geta, að í fyrsta sinn í 50 ár er rætt um það í Egyptalandi, að fólkið fái að velja á milli frambjóðenda í raunverlega lýðræðislegum kosningum og það er enginn annar en Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sem boðaði þetta í gær, laugardaginn 26. febrúar.