19.2.2005

Afmælisdagur vefsíðunnar

Nú er afmælisdagur vefsíðunnar, 10 ár liðin frá því að fyrsti pistillinn var settur á hana. Fréttablaðið er svo vinsamlegt í dag að segja frá þessum tímamótum og birta við mig viðtal af því tilefni.

 

Þar segi ég frá því eins og er, að tæplega 1200 manns séu á póstlista mínum, ég rifja upp að þeir Arnþór Jónsson og Gunnar Grímsson (ekki Jónsson eins og segir í Fréttablaðinu) hjá Miðheimum hafi hvatt mig til að hefja færslur á síðuna, þeir hafi talið, að þekktur ritfær maður gæti stuðlað að því að ryðja þessum nýja miðli braut. Ég hafi bitið á agnið og hangið á önglinum síðan. Það hafi verið gagnrýnt, að menn þyrftu að eiga tölvu til að hafa samband við mig, en þessi samskiptaleið þúsunda mann við mig hefði sparað mér mikinn tíma. Menn hafi ekki fyrir 10 árum áttað sig á því, að netið yrði ein greiðfærasta leiðin til samskipta við fólk.

 

Ég hafi strax frá upphafi ákveðið, að annað hvort færði ég reglulega nýtt efni á síðuna eða lokaði henni. Ég eigi ekki erfitt með að finna efni til að skrifa um vikulega, á laugardögum eða sunnudögum, pistlarnir séu frekar of langir en stuttir. Á netinu noti ég beinskeyttari stíl en til dæmis í fræðilegri grein. Það komi fyrir þegar ég skoði gamla pistla, að ég hugsi, að kannski hafi ég verið í harðari kantinum, þegar einhver færsla var skrifuð. Á hinn bóginn beri að líta á pistlana sem hluta af andrúmslofti þess tíma – ég sjái ekki eftir neinu, sem ég hafi látið frá mér. Ég sé ekki vísvitandi að „stuða“ neinn en aldrei sé unnt að vita, hvað hitti einhvern illa. Stundum undrist ég, hvaða punkt lesendur staldri helst við.

 

Í pistlum mínu sé oft rætt um fjölmiðla og efnistök þeirra, enda hafi ég mikinn áhuga á því efni og hafi starfað í 12 ár sem blaðamaður. Ég hafi áhuga á bloggsíðum, mismunandi stílbrögðum, en slíkar síður séu almennt mun persónulegri en síðan mín, ég fjalli meira um annað fólk og skoðanir þess en sjálfan mig og reyni að halda mig við hinn opinbera vettvang frekar er persónulega hluti.

 

Láti ég af stjórnmálastörfum muni ég sjálfsagt hafa áhuga á að halda síðunni úti, ég hafi gaman af að skrifa um það sem hæst beri á líðandi stundu og það veiti mér útrás. Með síðunni hafi ég að vissu leyti haldið í blaðamannsstarfið. Bergsteinn Sigurðsson tók viðtalið fyrir Fréttablaðið.

 

Á þeim tíu árum, sem ég hef haldið úti síðunni, hefur íslenska þjóðfélagið tekið miklum breytingum. Festa hefur ríkt í stjórnmálum, því að svo að segja allan þennan tíma, hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur setið saman í ríkisstjórn, en 10 ára afmæli stjórnarsamstarfs þeirra verður 23. apríl næstkomandi.

 

Í fyrsta pistlinum á síðunni, 19. febrúar 1995, er einmitt sagt frá því, að við sjálfstæðismenn vorum í óða önn að undirbúa þingskosningarnar þá um vorið og baráttu okkar fyrir þær. Á þessum tíma vorum við í samstarfi við Alþýðuflokkinn, en Samfylkingin var ekki komin til sögunnar.

 

Í kosningabaráttunni kom mér á óvart, hve alþýðuflokksmönnum var mikið í mun að höggva til okkar sjálfstæðismanna. Átti það ríkan þátt í því, að ég hafði ekki áhuga á stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn að kosningum loknum.

 

Á fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana þriðjudaginn 15. febrúar ræddi ég meðal annars um hina nýju Sögu stjórnarráðsins og minnti á, að sex stjórnmálaflokkar hefðu átt aðild að ríkisstjórnarsamstarfi á tímabilinu 1963 til 2003. Af þeim hefði Sjálfstæðisflokkurinn setið lengst í ríkisstjórn eða í ríflega 30 ár af þessum 40 árum og væru þá undanskilin aðild hluta flokksins að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens á árunum 1980 til 1983. Framsóknarflokkurinn hefði verið tveimur árum skemur í ríkisstjórn eða í rúm 28 ár. Alþýðuflokkurinn hefði átt aðild að ríkisstjórn í rúmlega 17 ár á þessu tímabili og Alþýðubandalag í rúman áratug. Tvisvar hefðu aðrir flokkar átt aðild að ríkisstjórnarsamstarfi, Samtök frjálslyndra og vinstri manna árin 1971 til 1974, í rúmlega þrjú ár og Borgaraflokkurinn árin 1989 til 1991 í hálft annað ár.

 

Samfylkingin hefur aldrei setið í ríkisstjórn og er ég viss um, að stór hluti af fylgi hennar er sprottinn af því, hve lengi við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn höfum setið í stjórn. Að minnsta kosti er hugsjónarkraft ekki að finna meðal samfylkingarfólks og samstaða um einstök stefnumál er ekki mikil, fyrir utan átökin um forystuna, sem nú setur svip sinn á starf flokksins.

 

Á fyrrgreindum fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana var því hreyft af einum fundarmanna, að á þeim fjörutíu árum, sem ég ræddi með vísan til Sögu stjórnarráðsins, hefðu tvö tímabil skorið sig nokkuð úr sem umbótatímabil, það er viðreisnarárin og fyrstu forsætisráðherraár Davíðs Oddsson, 1991 til 1995 en í báðum tilvikum hefðu Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn átt menn í ríkisstjórn.

 

Ég tók undir þetta, en bætti því við, að þeim mun erfiðara væri fyrir mig að skilja, að Alþýðuflokkurinn hefði verið þurrkaður út og þessi stefnu- og skoðanalausa Samfylking komið í hans stað.  Í raun er það mikill skaði – Samfylkingin er stefnulaus til að draga að sér óánægjufylgi,  hugsjónarlegi þröskuldurinn er hár fyrir þá, sem vilja ganga til liðs við vinstri/græna.

 

Já, þetta hefur verið ævintýralegur áratugur, sem ég hef haldið úti vefsíðu minni og ég hef leitast við að skrá það, sem mér finnst merkilegast hverju sinni á líðandi stundu – stundum hef ég kannski verið of dómharður, en vonandi aldrei ósanngjarn. Ég hef alltaf reynt að færa fram dæmi fyrir því, sem mér finnst hefði mátt betur fara.

 

Margt af því, sem ég hef reynt að halda til haga er með nokkrum ólíkindum. Stundum er ástæða til að spyrja, skiptir í raun engu máli, hvað stjórnmálamenn segja og gera, geta þeir alltaf gert kröfu um, að tekið sé mark á þeim. Þegar ég lít til síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum og hve hart var gengið fram í því að sýna fram á, að ekki væri unnt að treysta orðum Johns Kerrys, er það, sem gert er hér til að halda stjórnmálamönnum við efnið hreinn barnaleikur. Þar var hann lýstur ósannindamaður, af því að hann fullyrti ranglega, að hann hefði verið í Kapmpútseu á aðfangadag jóla árið 1968. Atvik eins og þetta varð honum að alvarlegu fótakefli í kosningabaráttunni. John Kerry kom í fyrsta sjónvarpssamtal sitt eftir að hafa tapað fyrir Geroge W. Bush 2. nóvember 2004 hjá Tim Russert í Meet the Press sunnudaginn 30. janúar 2005 og þá spyrt Russert hann: Varstu í Kampútseu aðfangadag jóla 1968? Og Kerry svarar: „We were right on the border, Tim.  What I explained to people and I told this any number of times, did I go into Cambodia on a mission? Yes, I did go into Cambodia on a mission.  Was it on that night?  No, it was not on that night.  But we were right on the Cambodian border that night.  We were ambushed there, as a matter of fact.“

 

Ég veit ekki, hvort það vakir fyrir þeim, sem sífellt nauða í Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra um það hvað gerðist 18. mars 2003, þegar íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að standa með Bandaríkjamönnum gegn Saddam Hussein, að sýna fram á, að Halldór sé ósannindamaður. Það tekst ekki, því að þar er verið að lýsa atburðarás, sem krefst þess af stjórnmálamanni eða stjórnmálamönnum að bregðast við atburðum og taka ákvarðanir í ljósi þeirra.

 

Allt fram undir hið síðasta var það von allra, að tækist að ná samstöðu um árás á Saddam í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þegar það reyndist borin von, varð að bregðast við á annan hátt. Ég endurtek þá skoðun, að það hefði verið í algjöru ósamræmi við íslenska utanríkisstefnu frá því að Íslendingar tóku utanríkismálin í eigin hendur, að hafna samvinnu við Bandaríkjastjórn, banna bandarískum hervélum afnot af Keflavíkurflugvelli og leitast við að leggja stein í götu sameiginlegs hernaðarlegs átaks Bandaríkjamanna og Breta.

 

Fimmtudaginn 17. febrúar var umræða utan dagskrár á alþingi um kosningarnar í Írak. Meðal ræðumanna í þeim var Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og forseti Norðurlandaráðs. Hún vakti meðal annars máls á því, að staða kvenna hefði verið forgangsmál í Írak frá því það varð sjálfstætt og kvennasamtök hefðu verið sterk í Írak frá 1968. Saddam Hussein hefði ekki hróflað ekki við þeim, enda eiginkonan Sadía ein af forustukonunum. Konur hefðu yfirleitt haft hátt hlutfall á þingi, oftast yfir 30% en hafi reyndar farið niður í 10% í stríðinu við Íran, en þá hafi írakskar konur haldið þjóðfélaginu gangandi.

 

Að nokkrum þingmanni lýðræðisríkis skuli detta í hug að bera blak af Saddam Hussein á þennan veg og hrósa honum fyrir skilning á málefnum kvenna er með ólíkindum – þetta er eitt af þeim dæmum úr samtímasögunni, sem ég vil geyma hér á síðunni minni.

 

Einnig vil ég eiga það skráð hér, að þriðjudaginn 15. febrúar voru langar umræður um niðursetningu landnámsminjanna í hótelkjallara við Aðalstræti. Þar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talsmaður R-listans en hún hafði ekki hugmynd um það, hvað þessi dæmalausa ráðstöfun mundi kosta, eins og sjá má nýrri vefsíðu okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Kostnaður er að minnsta kosti orðinn 620 milljónir króna, það er um það bil tíu sinnum meira en kostnaðurinn við að byggja fræðslumiðstöð og setja upp margmiðlunarsýningu um Þingvelli á Hakinu við Almannagjá. Á Þingvöllum var staðið þannig að verki, að uppfyllti kröfur á heimsmælikvarða eins og viðurkenningin á heimsminjaskrá UNESCO staðfestir, við Aðalstræti er staðið þannig að verki, að minjarnar komast aldrei á þá skrá.