Útlendingar – grunnnetið - hroðvirkni.
Yfirlit
Álitaefnin í íslenskum stjórnmálum taka sífelldum breytingum vegna örrar þróunar þjóðlífs, efnahags- og atvinnulífs. Umræður um stöðu útlendinga og innflytjenda eru til marks um þetta. Meginþorri þess erlenda fólks, sem flyst hingað til lands, hefur lagt og leggur mikið af mörkum til að styrkja innviði þjóðfélagsins. Markmið stjórnvalda er að sjálfsögðu að auðvelda því að verða sem fyrst virkir og ábyrgir borgarar í nýju landi.
Um komu útlendinga til landsins gilda lög og reglur, sem ber að framfylgja. Í umræðum líðandi stundar eru þær raddir annars vegar háværar, sem segja, að ekki sé nóg að gert við að vísa þeim úr landi, sem hér stunda störf vegna skorts á lögmæltum leyfum, og hins vegar eru þeir háværir, sem telja, að illa sé komið fram við þá, sem vísað er úr landi, sérstaklega ef þeir geta ekki öðlast hér dvalarleyfi með vísan til hjúskapar, þar sem þeir séu ekki orðnir 24 ára.
Ég svaraði fyrirspurn um brottvísun útlendinga úr landi á alþingi síðastliðinn miðvikudag, en Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði hana fram og var að fiska eftir því, hve mörgum hefði verið vísað úr landi vegna hinnar svonefndu 24 ára reglu. Í svari mínu þurfti ég í upphafi að leiðrétta misskilning þingmannsins, sem birtist í fyrirspurninni. Engum er vísað úr landi með vísan til 13. gr. útlendingalaganna, þar sem 24 ára regluna er að finna. Í reglunni felst hins vegar, að hjúskapur þeirra, sem ekki eru orðnir 24 ára, veitir þeim ekki rétt til dvalarleyfis. Þeir geta fengið hann á grundvelli annarra greina laganna, enda uppfylli þeir skilyrði þeirra. Brottvísun er byggð á 20. gr útlendingalaga og er sjálfstæð ákvörðun, aðskilin frá ákvörðun um útgáfu dvalarleyfis. Útlendingastofnun tekur þessar ákvarðanir en unnt er að kæra þær hvora um sig til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Í svari mínu til þingmannsins sagði, að tveimur karlmönnum hefði verið vísað úr landi, báðir voru í hjúskap með íslenskum konum, hvorugur var orðinn 24 ára, annar átti barn með annarri íslenskri konu en eiginkonu sinni, hinn átti stjúpbarn, annar kom frá Úkraínu hinn frá Jórdaníu. Hvorugur þeirra gat sýnt fram á neina aðra ástæðu til útgáfu dvalarleyfis en hjúskapinn, sem dugði þeim ekki. Þegar lögregla vísaði manninum frá Úkraínu úr landi fundust heróínleifar í fórum fram, eins og fram hefur komið í fréttum.
Þegar ég hafði svarað fyrirspurninni, stóð Katrín Júlíusdóttir fyrirspyrjandi upp og sagðist ekki ánægð með svarið, vegna þess ég notaði hluta af tíma mínum til að skýra fyrir henni, að misskilningur fælist í spurningu hennar. Þá sagði hún, að nú væri komin ákveðin reynsla á 24 ára regluna, henni þættu það háar tölur, að tveimur karlmönnum hefði verið vísað úr landi. Á Íslandi hefðum við enga ástæðu til að setja svo ströng lög, sérstaklega undir þeim formerkjum, að hér ætti að vernda einstaklinga gegn nauðungarhjónaböndum. Í ljós kæmi að þegar þetta hefði átt við væri um að ræða tvo karla, sem hefðu verið kvæntir íslenskum konum. Þetta hefði frekar átt við um karla en konur og hefði frekar verið beitt á karla en konur, en þegar raunveruleg nauðungarhjónabönd ættu sér stað væri frekar um konur að ræða en karla. Einnig vildi hún ítreka, að sér þætti alvarlegt, ef svo ströng regla skildi að föður og barn.
Ég svaraði:
„Ég var ekki að setja ofan í við þingmanninn eða veita henni neinar þær ákúrur sem voru óréttmætar. Ég sagði að ég gæti ekki svarað fyrirspurninni af því að hún byggðist á röngum forsendum. Hvernig er hægt að ætlast til þess að ráðherra svari fyrirspurnum sem byggjast á röngum forsendum? (Gripið fram í.) Það verður að svara fyrirspurninni á réttum forsendum og með vísan til laga eins og þau eru. Ef háttvirtir þingmenn vilja að ég svari hér út í hött get ég náttúrlega svarað fyrirspurnum sem eru út í hött þegar litið er til efnis þeirra eins og þær eru lagðar fram.
Háttvirtur þingmaður sagði að ég hefði ekki rætt málið á þeim forsendum sem þingmaðurinn vildi þegar ég svaraði fyrirspurninni. Um hvað vildi þingmaðurinn tala? Vildi hún t.d. tala um úrslit dönsku kosninganna þar sem mjög harkalega var tekist á um þetta ákvæði í dönsku lögunum? Við vitum hvernig úrslitin urðu þar. Þeir unnu á sem fluttu þann málstað að frekar þyrfti að líta til þess að menn laumuðu sér ekki inn í landið á fölskum forsendum, eins og tilraunir eru gerðar til hér og við vorum að koma í veg fyrir með breytingum á útlendingalögunum síðasta vetur.
Ég ætla ekki að ræða málefni þeirra tveggja einstaklinga sem hér koma við sögu. Ef menn vilja fara út í umræður um það í ræðustól á Alþingi þá skorast ég ekki undan því. Annar þeirra var tekinn með heróín í fórum sínum þegar hann var fluttur úr landi ? (Gripið fram í.) Nei, en hvað var verið að tala um? Þegar verið er að ræða málið, á þá ekki að segja alla söguna? Á ekki að ræða málið eins og það er?
Ég get farið lengra. Ef menn vilja ræða málefni þessara tveggja einstaklinga get ég hiklaust gert það hér á þinginu. Ég held að þingmenn verði að hafa það í huga, þegar þeir ræða þessi alvarlegu mál, að það sé gert á þeim forsendum sem lagt er upp með. Það var gert á fyrrgreindan hátt af þessum fyrirspyrjanda og ég svaraði á réttum forsendum.“
Brottvísanir þeirra manna, sem hér um ræðir, hafa verið kærðar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og því get ég ekki sagt meira um mál þeirra á þessu stigi. Á hinn bóginn er einsýnt, að ekki er unnt að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau sitji þegjandi undir því, þegar gengið er fram á opinberan umræðuvöll með ásakanir í þeirra garð til dæmis um mannréttindabrot gagnvart einstaklingum. Þau hljóta að hafa rétt til að skýra mál eins og þau horfa við þeim, þótt þau snerti persónulega hagi einstaklinga.
Það er rétt hjá Katrínu Júlíusdóttur, að meginrök fyrir 24-ára reglunni byggjast á viðleitni til að sporna gegn málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Íslenskar konur eldri eða yngri en 24 ára geta að sjálfsögðu gengið í slík hjónabönd við unga karlmenn.
Og fjarskipti eða Og Vodafone hefur hafið auglýsingaherferð í blöðunum gegn því, að grunnnet Símans verði selt með Símanum við einkavæðingu hans.
Alþingi tók ákvörðun um sölu grunnnetsins fyrir rúmlega þremur árum, eins og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði á viðskiptaþingi þriðjudaginn 8. febrúar. Hann benti á, að hvergi í Evrópu hefði grunnnet verið skilið frá við einkavæðingu símafyrirtækja, aðskilnaður netsins myndi minnka verðmæti Símans, þjónusta einkarekins grunnnets yrði betri en opinbers, lög hér og í Evrópu gerðu ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta, en hins vegar einkasölu við raforkudreifingu, Síminn ætti þegar í samkeppni um grunnnet við fjarskiptanet Orkuveitu Reykjavíkur, Og fjarskipti og Fjarska, tæpast ætti ríkið að standa í slíkri samkeppni, lög ættu að tryggja samkeppnisaðilum Símans greiðan aðgang að grunneti hans á sama verði og Síminn greiddi fyrir sambærilegan aðgang.
Sama dag og forsætisráðherra flutti þessa ræðu á viðskiptaþingi stóð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formannsframbjóðandi Samfylkingarinnar, upp á alþingi og ræddi málið ( þar situr hún nú vegna veikindaforfalla Bryndísar Hlöðversdóttur).
Ingibjörg Sólrún sagðist vilja vekja athygli þingmanna á því, að við Íslendingar værum að byggja upp vísi að öllum þeim dreifileiðum, sem hægt væri að bjóða í dreifikerfi fyrir sjónvarp og upplýsingar. Hún taldi það greinilega ofrausn miðað við fjölda landsmanna, að þeir ættu kost á ADSL eða gamla koparnum, MMDS, ljósleiðara, gervihnattasendingum og DVDT-sendingu. Miklu nær væri að sameina alla þessa kosti í einu fyrirtæki og reyna að ná utan um fjárfestingu í dreifikerfi landsins. Menn myndu ekki treysta Símanum, þótt hann segðist eiga koparkerfið, sem næði til flestra íbúa landsins. Þeir treystu Símanum ekki nú í ríkiseigu og þeir mundu enn síður gera það í höndum einkaaðila. Hún sagðist vilja eitt fyrirtæki, sem byði mismunandi kosti eftir aðstæðum á hverjum stað, kopar, ljósleiðara eða gervihnött. Þessa umræðu yrði að taka núna. Hún væri mjög mikilvæg áður en lengra yrði haldið í söluferli Símans. Eins og menn sæju af umræðunni í fjölmiðlunum væri engin sátt um það í samfélaginu að selja grunnnetið frá Símanum.
Ræða Ingibjargar Sólrúnar vekur spurningar um allt annað en efni þessa máls – alþingi hefur þegar tekið ákvörðun um sölu grunnnetsins með Símanum. Hvers vegna telur Ingibjörg Sólrún tímabært að ræða þetta mál núna? Af því að Og fjarskipti í eigu Baugs eru farin í áróðursherferð gegn Símanum? Af því að Alfreð Þorsteinsson vill ekki ræða ofurfjárfestingu Orkuveitu Reykjavíkur í ljósleiðarakerfum heldur beina spjótum sínum að Símanum? Af því að hún sér ofsjónum yfir því, að ríkissjóður hafi tekjur af sölu Símans?
Þegar ríkið seldi Landsbankann lét Ingibjörg Sólrún eins og ekkert væri sjálfsagðra en ríkið notaði peningana til að kaupa Landsvirkjun af Reykjavíkurborg.
Ef dreifileiðir eru of margar í höndum margra fyrirtækja, hvað er betra við að hafa margar dreifileiðir í höndum eins fyrirtækis? Á það að vera opinbert fyrirtæki? Á að skylda aðra til viðskipta við það? Alfreð Þorsteinsson boðaði fyrir tæpu ári, að Orkuveita Reykjavíkur ætti að kaupa Símann – vill hann kannski ekki eignast tvö grunnnet? Ef Ingibjörg Sólrún telur offjárfestingu í dreifikerfum, hvers vegna stendur hún að ljósleiðaravæðingu Orkuveitu Reykjavíkur?
Hér hef ég nefnt framgöngu tveggja þingmanna Samfylkingarinnar í tveimur ólíkum málum og í báðum tilvikum einkennir hroðvirkni málflutninginn. Í fyrra dæminu spurði þingmaður um mál, án þess að unnt væri að svara spurningunni nema með því að umorða hana. Í síðara dæminu telur þingmaður brýnt að ræða mál, sem alþingi afgreiddi fyrir sitt leyti fyrir rúmlega þremur árum.
Seinna tilvikið er alvarlegra en hið fyrra, því að þar talar formannsframbjóðandi stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Ef umræður um stjórnmál eiga eftir að þróast til þessarar áttar, nái Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kjöri í komandi formannskosningum innan Samfylkingarinnar, verður það skref aftur á bak. Tilgangsleysi umræðna um eitthvað, sem ákveðið hefur verið, ætti að vera öllum ljóst.
Í síðasta pistli lýsti ég undrun yfir því, að Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, hefði fundið að þátttöku Íslands í hermálanefnd NATO. Hann hefði verið forsætisráðherra, þegar ákvörðun var tekin um það mál. Ég sagði einnig, að enn lengra hefði verið gengið með þátttöku í hernaðarsamstarfi aðildarríkja NATO með setu fulltrúa Íslands í kjarnorkuáætlananefnd bandalagsins. Að athuguðu máli geti ég upplýst lesendur síðu minnar um, að Steingrímur Hermannsson var utanríkisráðherra, þegar þetta var ákveðið, að sjálfsögðu með samþykki hans.
Ólafur Hannibalsson ritar gjarnan um starfshætti stjórnvalda og stjórnlagareglur í Fréttablaðið auk þess að vera með viðtalsþátt á Útvarpi Sögu. Einn morguninn heyrði ég hann þar undrast yfir því, að allsherjarnefnd alþingis væri að ræða ítarlega um, hvort veita ætti Bobby Fischer ríkisborgararétt. Þetta gætu menn rætt í þingnefndum en ekki um afstöðu Íslands til innrásar í Írak. Hvers vegna í ósköpunum? Ólafur vissi greinilega ekki, að ekki er unnt að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt nema með lögum frá alþingi og frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar er að jafnaði flutt af allsherjarnefnd alþingis. Ekkert sambærilegt gildir um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.
Síðastliðinn miðvikudag svaraði ég fyrirspurn um reiknilíkan vegna fjárstreymis til embætta sýslumanna og sagði meðal annars frá því, að verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála hefði sagt álit sitt á málinu í nýlegri skýrslu sinni. Í umræðunum spurði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hvort skýrslan væri ef til vill dulin aðferð til árásar á að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni, eins og sýslumönnum, starfsmönnum sýslumannsembætta og lögreglumönnum. Hann sagðist ekki hafa lesið alla skýrsluna en sér virtist að verið væri að ganga einhverja slíka göngu. Hvort hér væri dulin árás á opinber störf á landsbyggðinni í þessum geira.
Ég dreg ekki í efa, að Kristján hafi lesið eitthvað í þessari skýrslu en hvað það var veit ég ekki, eitt er víst, að til gerðar hennar var ekki stofnað í þeim tilgangi að fækka sýslumönnum, eins og ég hef margoft ítrekað, frá því að verkefnisstjórnin hóf störf. Markmiðið er að bæta löggæslu í landinu öllu og þar með að efla öryggi borgaranna. Erfitt er að skilja, hvað fyrir þeim mönnum vakir, sem telja allar hugmyndir um breytingar árás á opinber störf á landsbyggðinni. Í stað þess að tala á þennan veg um þessa skýrslu ættu þingmenn og aðrir að velta því fyrir sér, hvað sé skynsamlegast að gera til að styrkja og efla sýslumannsembættin með auknum verkefnum og þjónustu í heimabyggð – það er ekki skilyrði fyrir tilvist sýslumanns, að hann stjórni lögregluliði.