6.2.2005

Stjórnarráðssaga – Írakskosningar – flugvallardeilur – landnámsminjar.

Stjórnarráðssaga.

Sögufélag efndi til málþings þriðjudaginn 1. febrúar 2005 um Sögu stjórnarráðsins 1964 til 2004, en þennan dag voru 101 ár liðin frá stofnun þess með heimastjórninni og eitt ár liðið frá því að fyrstu tvö bindin af þremur komu út af sögunni, og raunar einnig eitt ár liðið frá því, að stjórnarráðinu var sett ný reglugerð á ríkisráðsfundi, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sat ekki, eins og frægt er.

Málþingið var haldið í ágætum sal í húsi Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu, hafði ég ekki áður setið fund þar. Loftur Guttormsson, prófessor og forseti Sögufélags, stjórnaði samkomunni en þar töluðu auk hans Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, Helga Jónsdóttir borgarritari, Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi alþingismaður.

Þau luku öll lofsorði á verkið og töldu mikinn feng að því, en á síðasta ári var tveggja binda verk Agnars Kl. Jónssonar sendiherra um stjórnarráðið 1904 til 1964 endurútgefið, þannig að nú er 100 ára saga stjórnarráðsins til í heild og í sama broti og bandi.

Ég áréttaði þá skoðun mína, að nauðsynlegt væri að gefa út sögu þingræðis á Íslandi, við í ritstjórn þessarar sögu hefðum ekki litið á það sem hlutverk hennar að ná til þess þáttar sérstaklega. Þá tel ég einnig, að á sama hátt og ritað hefur verið um stjórnarráðið beri að rita um embætti forseta Íslands og þróun þess í 60 ár. Auk þess er mikið verk óunnið við ritun sögu einstakra ráðuneyta.

Morgunblaðið sagði vel og myndarlega frá málþinginu bæði áður en það var haldið og einnig að því loknu. Ég varð ekki var við neinn fulltrúa DV í Þjóðminjasafninu, en á vinnslutíma verksins hafði blaðið áhuga á því og sérstaklega kostnaðarþættinum, en útgjöldin voru í samræmi við áætlun og heimildir alþingis í fjárlögum.

Mér þótti fróðlegt og ánægjulegt að vinna að útgáfu þessa verks og fagna því, hve vel hefur til tekist. Það var meðal annars forvitnilegt að kynnast ólíkum vinnubrögðum og aðferðum sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga auk þess sem fyrsta bindi verksins ryður braut vegna heildarsýnar á stjórnsýsluna.

Írakskosningar.

Daginn eftir þingkosningarnar í Írak sunnudaginn 30. janúar birtist forystugrein í franska blaðinu Le Figaro, þar sem George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, var lýst sem sigurvegara kosninganna í Írak. Var óvenjulegt að sjá svo fast að orði kveðið um Bush á þeim vettvangi.

Vikuritið The Economist snerist gegn Bush í forsetakosningunum í nóvember 2004, þar sem hann hefði ekki staðið sig nógu vel við að vinna úr sigrinum yfir Saddam Hussein. Nú eftir kosningarnar í Írak segir The Economist í forystugrein:

„Að mörgu leyti voru kosningarnar stórkostlegar. Sú staðreynd, að svo margir Shítar og Kúrdar fóru á kjörstað sannar, að flestir Írakar styðja framtíðaráætlanirnar um land þeirra undir forystu Bandaríkjamanna og með stuðningi Sameinuðu þjóðanna, og flestir Írakar hafna „andspyrnunni“ sem lætur eins og morð hennar séu framin í þeirra nafni.“ 

Í umræðunum um Írak hér á landi hefur því miður lítið breyst eftir þessar mögnuðu kosningar. Umræðurnar snúast einkum um, hvað menn sögðu eða áttu að hafa sagt fyrir tveimur árum.  Ég heyrði Ögmund Jónasson meira að segja að halda því fram í Silfri Egils sunnudaginn 6. febrúar, að Bush og Blair ættu í vök að verjast vegna framvindu mála í Írak. Ég hef að vísu aldrei getað sett mig inn í heimsmynd Ögmundar og ekki var þessi yfirlýsing til að auðvelda mér það. 

Mér finnst, að það, sem gerðist hér í stjórnmálaumræðum um Íraksmálið sé orðinn hluti af sögu þingræðisins og aðeins til áréttingar þeirri skoðun, hve mikilvægt er, að hún sé skráð. Margt af því, sem nú er sagt um samskipti ráðherra og utanríkismálanefndar, er aðeins endurtekning á sambærilegum deilum í áranna rás og við gætum kannski sparað okkur stór orð og upphrópanir, ef við kynntum okkur söguna, hefðir, sem hún hefur skapað, og fordæmi. Þingræðið ræðst að verulegu leyti á fordæmum og þess vegna enn mikilvægara en ella að skrá sögu þess. 

Ef ég tók ekki vitlaust eftir var Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, að ræða Íraksmálið og utanríkisstefnuna í Silfri Egils sunndaginn 30. janúar og lét þá gagnrýnisorð falla um þátttöku Íslands í störfum hermálanefndar NATO, eins og seta fulltrúa Íslands þar kæmi honum á óvart. Til þessarar setu í nefndinni var stofnað fyrir um 20 árum, þegar Steingrímur var forsætisráðherra og Geir Hallgrímsson utanríkisráðherra. Síðan var gengið enn lengra með því, að Einar Benediktsson, sendiherra Íslands hjá NATO, sat fundi kjarnorkuáætlananefndar bandalagsins (Nuclear Planning Group). 

Flugvallardeilur.

Miðvikudaginn 2, febrúar birtist viðtal við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra á Stöð 2, þar sem hún boðaði sátt um framtíð Vatnsmýrar, þar sem flugvöllur yrði áfram í minnkaðri mynd og ný samgöngumiðstöð gæti risið við Loftleiðahótelið innan þriggja ára. Í fréttinni var sagt frá því, að viðræður ríkis og borgar um samgöngumiðstöðina væru á lokastigi. Steinunn Valdís sagði í fréttinni: 

„ Ja, eins og ég hef sagt að mér finnst umfang vallarins eins og það er í dag vera fullmikið og ég hef sagt að mér finnst það ekki vera spurning um hvort heldur hvenær að aðalumfang hans flytjist eitthvað annað, en ég opna á það og hef gert það áður að hluti af flugstarfseminni geti áfram verið í Vatnsmýrinni, en að sjálfsögðu ekki í jafnmiklum mæli eins og er í dag .“ 

Yfirlýsingar borgarstjóra sögulegar í fleiru en einu tilliti. Ég minnist þess til dæmis glögglega frá því í kosningabaráttunni vorið 2002, að R-listamenn þóttust yfir sig hneykslaðir vegna þess, sem þeir kölluðu stefnuleysi okkar sjálfstæðismanna, þegar við sögðum, að borgin gæti ekki leyst flugvallarmálið ein, hún yrði að ræða og semja við ríkisvaldið. Nú er málið sem sé komið í þann farveg og Steinunn Valdís  borgarstjóri vel sátt við það. 

Þá er hitt ekki síður merkilegt, ef samgönguráðuneytið telur unnt að semja á þeim grundvelli, sem borgarstjóri nefnir, það er að unnt sé tryggja innanlandsflug með einni braut. Flugrekendur hafa sagt, að ein braut veiti ekki nægilegt öryggi fyrir innanlandsflug frá Reykjavík. Á þessi afstaða ekki við rök að styðjast? 

Egill Helgason (Silfur Egils) er einlægur andstæðingur Reykjavíkurflugvallar. Hann ræðir sinnaskipti Steinunnar Valdísar á vefsíðu sinni 4. febrúar og segir meðal annars: 

„Hver er skýringin á snöggum sinnaskiptum borgarstjórans í flugvallarmálinu? Er Steinunn Valdís svona mikill vingull, er hún huglaus eða er búið að gera eitthvert samkomulag bak við tjöldin? Til dæmis um að byggingu Sundabrautar verði hraðað ef flugvöllurinn er látinn í friði? Það væri gott að fá skýringu á þessu. 

Nema að hún hafi allt í einu fengið opinberun og hún telji eina flugbraut allt í einu svona góðan kost. Það er þá væntanlega málamiðlunin sem R-listinn vill fara með í næstu kosningar. Samt kemur forstjóri Flugfélags Íslands, gamall vinur minn úr Vesturbænum, í fréttir og segir að þessi leið sé ekki fær. Ein flugbraut sé ekki nóg til að halda uppi starfseminni. Er einhver sérstök ástæða til að ætla að hann sé að blöffa?“ 

Ég get ekki svarað þessum spurningum Egils, en þær eru réttmætar, fyrir utan þá, sem snertir Sundabrautina. Það er fráleitt að tengja saman Sundabraut og flugvöllinn á þennan hátt. Það er hins vegar Reykjavíkurborg til lítils sóma, að borgarstjórn skuli ekki hafa tekið ákvörðun um legu brautarinnar. 

Egill lætur hjá líða að spyrja, hvort sinnaskipti Steinunnar Valdísar eigi eitthvað skylt við formannskosningar í Samfylkingunni, þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skjólstæðingur Steinunnar Valdísar, á undir högg að sækja vegna þeirrar stefnu samfylkingarfólks í borgarstjórn að leggja niður flugvöllinn. Pólitíska spurningin er þessi: Hvers vegna hefur Samfylkingin skipt um skoðun í flugvallarmálinu. 

Landnámsminjar.

Í  kosningabaráttunni vorið 2002 gagnrýndum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins harðlega þá hugmynd R-listans, að fela landnámsminjar við Aðalstræti í hótelkjallara. Okkur þótti það í senn virðingarleysi við þessar minjar og alltof kostnaðarsamt. Auk þess væri með þeirri metnaðarlitlu ráðstöfun komið í veg fyrir, að minjarnar kæmust á heimsminjaskrá UNESCO. 

Á fundi borgarráðs fimmtudaginn 3. febrúar svaraði Ágúst Hrafnkelsson, forstöðumaður innri endurskoðunardeildar Reykjavíkurborgar, spurningum borgarráðsfulltrúa sjálfstæðismanna um kostnað við landnámsskálann í Aðalstræti. Ágúst segir kostnaðinn nú vera orðinn 321,4 m. kr. en heildarkostnaður sé áætlaður 528,4 m. kr. og verði framkvæmdum lokið árið 2006. Ekki er til nein áætlun um rekstrarkostnað vegna sýningar á þessum fornminjum, þó liggur fyrir, að Reykjavíkurborg hefur selt eignarhlut sinn í sýningarskálanum fyrir 160 m. kr. til Stoða hf. (í eigu Baugs) og ætla Stoðir að ljúka byggingaframkvæmdum fyrir 90 m. kr. við skálann, en Reykjavíkurborg ætlar að greiða Stoðum leigu fyrir skálann í 25 ár, frá 1. mars 2005 til 28. febrúar 2030, 1.662.880 á mánuði með vísitölubótum, eða að minnsta kosti 510 milljónir króna. 

Í borgarráði spurðu sjálfstæðismenn einnig: 1. Hvernig var staðið að því að ráða þýska fyrirtækið ART+COM til að vinna margmiðlunarverkefni vegna landnámsminjanna? 2. Fram kemur að greiða á að minnsta kosti 38 m. kr. fyrir þetta verk. Var það boðið út? 3. Hvers vegna var ekki leitað samstarfs við innlenda aðila um margmiðlunarþáttinn? 

Þessar spurningar byggðust á skýrslu, sem verkefnisstjórn undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, lagði fyrir borgarráð 16. desember og ekki var unnt að skilja á annan veg en samið hefði verið við ART+COM. Vegna spurninganna þriggja sneri innri endurskoðunardeildin sér til Hjörleifs Stefánssonar, verkefnisstjóra, sem einnig hefur stjórnað framkvæmdum á vegum Stoða. Af orðum Hjörleifs dregur endurskoðandinn þá ályktun, að ekki hafi verið samið við ART+COM um margmiðlunarþáttinn, heldur hafi fyrirtækið verið fengið til að gera tillögur um slíka sýningu, auk kostnaðaráætlunar. 

Af svari innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar dreg ég þá ályktun, að enginn viti í raun, hvað þessi niðursetning landnámsminjanna muni kosta að lokum. Ég tek heilshugar undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, oddvita okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn, þegar hann segir í Fréttablaðinu laugardaginn 5. febrúar: 

„Mér finnst þetta gríðarlega mikill kostnaður við þennan skála, Síðan á eftir að reka þetta og kostnaðurinn á því bara eftir að aukast. Ég er ekki viss um að þeir sem byggðu þennan bæ á landnámstímanum hafi gert ráð fyrir því að borgarsjóður Reykjavíkur ætti eftir að verða fyrir slíkum búsifjum vegna hans á 21. öldinni.“ 

Í sama blaði svarar Steinunn Valdís út í hött eins og jafnan, þegar R-listinn kemst í vanda vegna slakrar fjármálastjórnar, Hún lætur eins og þessi útgjöld séu bara sjálfsögð, af því að „ heildarkostnaður borgarinnar vegna landnámsbæjarins sé í fullu samræmi við áætlanir.“  Blaðamaðurinn spyr því miður ekki: Hvaða áætlanir? Hvar hafa þær verið birtar? Ég hef ekki séð neinar slíkar áætlanir, þær er ekki að finna í greinargerðinni, sem lögð var fyrir borgarráð 16. desember, því að þar er það enn skilið eftir opið, hvað þetta muni kosta allt saman.

Steinunn Valdís hefur setið sem varaformaður Alfreðs Þorsteinssonar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og tileinkar sér greinilega takta hans í umræðum um fjármálastjórn. Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarmaður í OR rakti það vel í viðtali  við Morgunblaðið, hve illa OR hefði farnast vegna fjárfestinga í fjarskiptum.  Daginn eftir ræddi blaðið við Alfreð Þorsteinsson, sem réðst að Símanum með rakalausum fullyrðingum. Hvers vegna spurði blaðamaðurinn Alfreð ekki að því, hvers vegna hann vildi fyrir tæpu ári að OR keypti Símann? Hvers vegna var Alfreð ekki spurður að því, hvers OR kærði Símann fyrir samkeppnisyfirvöldum fyrir að lækka gjöld fyrir gagnaflutninga? Hvers vegna var Alfreð ekki látinn skýra frá því, að OR tapaði málinu?