23.1.2005

Bush að nýju – sögulegt tækifæri - stóra listamálið.

George W. Bush sór embættiseið í annað sem forseti Bandaríkjanna fimmtudaginn 20. janúar. Forsetinn vann öruggan sigur í kosningunum í nóvember 2004 og enginn dregur umboð hans í efa eins og leitast var við, þegar hann var kjörinn árið 2000.

Sigur Bush í forsetakosningunum, meirihluti flokksmanna hans í báðum deildum Bandaríkjaþings og meðal ríkisstjóra landsins auk almennrar hugmyndafræðilegrar forystu repúblíkana í bandarískum stjórnmálum, er staðfesting á pólitískum þáttaskilum, sem hófust, þegar Barry Goldwater bauð sig fram til forseta árið 1964, en tapaði fyrir Lyndon B. Johnson.

Barry Goldwater gaf árið 1960 út bókina The Conscience of a Conservative og þótti hún skyldulesning allra íhaldsmanna á Vesturlöndum og hafði selst í 3.5 milljónum eintaka, þegar Goldwater varð forsetaframbjóðandi 1964. Þess má geta, að um það leyti, sem bókin var mest til umræðu, var Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, formaður Heimdallar og beitti sér meðal annars fyrir því, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór á fund hjá Heimdalli til að ræða bókina.

 

Róttækar skoðanir Goldwaters dugðu honum ekki til mikils fylgis gegn Johnson, en á flokksþinginu í San Francisco, þegar Goldwater var tilnefndur forsetaframbjóðandi repúblíkana, var það Ronald Reagan, sem flutti tilnefningarræðuna. Sagt var þegar Ronald Reagan var kjörinn forseti árið 1980 hefði Barry Goldwater loks getað fagnað góðum sigri í forsetakosningum.

 

George Bush, eldri og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ráðlagði á sínum tíma George, elsta syni sínum, og núverandi forseta að lesa bók Goldwaters.  Í tíð Goldwaters tóku hægri menn í Bandaríkjunum að fylkja liði sínu og þeir studdu hann af mikilli einurð í forsetakosningunum. Þótt hann tapaði fyrir Johnson, voru stuðningsmenn Goldwaters mun meira áberandi, til dæmis settu þeir tíu límmiða á bíla á móti hverjum einum hjá Johnson.

 

Í ræðu sinni á flokksþinginu 1964 komst Goldwater þannig að orði og er enn til þess vitnað: „Öfgar til varnar frelsi eru ekki til neinnar bölvunar.“ Höfundur ræðunnar var Harry Jaffe, sem var meðal fyrstu lærisveina heimspekingisins Leo Strauss, en hann varð síðar „uppáhalds“ heimspekingur ný-íhaldsmanna (neo-conservatives).

 

Við þessa upprifjun hef ég stuðst við bókina The Right Nation – why America is Different, eftir tvo blaðamenn The Economist John Micklethwait og Adrian Woolridge. Bókin kom út fyrir forsetakosningarnar árið 2004 og segja höfundar, að kosningarnar skipti demókrata mun meiru en repúblíkana, í þeirri stöðu, þegar repúblíkanar ráði báðum deildum þingsins og meirihluta ríkisstjóra, sé forsetaembættið hið eina, sem demókratar geti nýtt til að ná vopnum sínum að nýju. Þó sé til þess að líta, að repúblíkanar virðist hafa strauminn meira með sér en demókratar, þeir séu flokkur frumkvöðla frekar en opinberra starfsmanna, flokkur fólks, sem kýs úthverfin í stað hnignandi miðborga, fólks sem kýs frekar að búa í vaxandi suðvestur ríkjunum en stöðnuðum norðaustur ríkjunum. Vinni Bush að nýju verði það til að kóróna sigurgöngu flokks hans.

 

Við vitum nú, að Bush sigraði með glæsibrag og repúblíkanar treystu enn tök sín á Bandaríkjaþingi. Höfundar bókarinnar segja, að Bush hefði ekki þurft að sigra til að tryggja framgang hægri stefnu í Bandaríkjunum, því að sigur demókrata hefði varla breytt miklu um íhaldssama stefnu Bandaríkjastjórnar. Demókratar verði um fyrirsjáanlega framtíð fremur íhaldssamir á evrópskan mælikvarða. Demókratar treysti á stórfyrirtæki og auðuga einstaklinga við fjáröflun til flokks síns og framboða. Í utanríkismálum myndu demókratar hafa haldið áfram stuðningi við Ariel Sharon í Ísrael og þeir mundu ekki fá þingið til að staðfesta Kyoto-samkomulagið. Bandaríkin mundu áfram hafa sérstöðu.

 

Fyrir þá, sem vilja leitast við að skilja stjórnmál líðandi stundar í Bandaríkjunum, er gagnlegt að lesa þessa bók til að átta sig á straumum og stefnum í þessu forystuveldi heimsins, sem það heldur áfram að vera, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Í ræðu sinni 1964 lagði Barry Goldwater áherslu á frelsi. George W. Bush lagði einnig höfuðáherslu á frelsi í ræðu sinni við embættistökuna 20. janúar, 2005. William Safire, dálkahöfundur The New York Times, segir, að orð um frelsi (freedom, free, liberty) komi 49 sinnum fyrir í ræðunni. Safire segir, að af 20 ræðum, sem forsetar hafi flutt við aðra embættistöku sína, telji hann ræðu Bush hina 5. bestu.

 

Bókin um framgang hægri manna í Bandaríkjunum er einnig forvitnileg fyrir þá sök, að unnt er að draga af henni ályktanir um margt, sem sett hefur svip á íslensk stjórnmál undanfarna áratugi. Áður sagði ég frá því, að bókin eftir Barry Goldwater var rædd á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um sama leyti og hún hafði mótandi áhrif í Bandaríkjunum. Milton Friedman og Friedrich von Hayek eru einnig nefndir til sögunnar sem lykil-hugmyndafræðingar hægri manna í Bandaríkjunum. Báðir komu þessir menn hingað til lands fyrir tilstilli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors og skildu eftir sig mótandi áhrif.

 

Án hugmyndafræðilegs öryggis, skýrra markmiða og stefnu að þeim ná menn ekki varanalegum árangri í stjórnmálum. Þessu höfum kynnst vel hér á landi og vitum, að slíkt öryggi við pólitíska stefnumörkun hefur skilað þjóðinni allri miklum árangri. Þetta á bæði við um stefnu í utanríkis- og innanlandsmálum. Ef stjórnmálamenn hlaupa af öruggum hugmyndafræðilegum grunni, verða þeir fljótt marklitlir og síðan einskis nýtir til annars en halda í eigin völd.

 

Sögulegt tækifæri.

 

Gengið verður til kosninga í Írak 30. janúar og ekki hefur farið fram hjá neinum, sem fylgist með fréttum, að hryðjuverkamenn í landinu eru að reyna fæla fólk frá því að greiða atkvæði. Umhverfis Írak eru auk þess stjórnarherrar, sem óttast ekkert meira, en að fólkið fái að segja hug sinn á þeim. Þessum herrum væri ekki á móti skapi, að lýðræðislega tilraunin í Írak misheppnaðist.

 

Thomas L. Friedman, dálkahöfundur The New York Times, er í hópi þeirra vestrænu blaðamanna, sem þekkja best til í arabalöndunum. Hann skrifar í blað sitt sunnudaginn 23. janúar um kosningarnar í Írak og segir þær annað hvort verða endalok upphafsins þar eða upphaf endalokanna. Annað hvort flykkist Írakar á kjörstað og ákveði eigin framtíð og stjórnarskrá – og Friedman telur, að þeir muni gera það – eða fasískum öfgamönnum í landinu takist að fæla þá frá því að kjósa.

 

Friedman segir sorglegt, að á þessum sögulegu tímamótum séu Vesturlönd algjörlega klofin í afstöðu sinni til Íraks. Hið eina, sem Evrópumenn vilji núna, sé að geta sagt við Bush: „Sögðum við ekki.“

 

Friedman segist hafa fært fyrir því rök frá 11. september 2001, að átökin við hryðjuverkamenn séu hugmyndafræðileg átök meðal múslima – átök milli þeirra, sem vilja einangra islam frá nútímanum og verja islam með sjálfsvígum, og hinna, sem vilja flytja islam inn í 21. öldina og leggja rækt við islam sem huggunarríka trú. Vesturlönd geti ekki háð þetta hugmyndafræðilega stríð, aðeins stutt þá múslima, sem vilja heyja það heima fyrir. Þetta sé í húfi í kosningunum í Írak. Þar sé háð fyrsta stórorrusta í hugmyndafræðilega stríðinu eftir 11. september.

 

Þetta stríð sé ekki unnt að sigra með herdeilum heldur aðeins með góðri kosningaþátttöku. Stríðið sé á milli íraksra kjósenda og ofbeldismanna – barist sé með kjörseðlum gegn byssukúlum. Fasísku ofbeldismennirnir átti sig best á því, sem sé í húfi. Þess vegna ráðist þeir ekki á bandaríska hermenn heldur á Íraka, sem vinni að undirbúningi kosninganna, frambjóðendur, opinbera starfsmenn og lögreglu. Ofbeldismennirnir hafi aðeins eitt að leiðarljósi: „Írakar mega ekki kjósa – það má alls ekki koma fram neinn vilji almennings um nútímalegt, friðsælt Írak. Gerist það, mun heimurinn sjá, að þetta er ekki stríð á milli múslima og heiðins hernámsliðs, heldur milli múslima með vondar hugmyndir og múslima með framsæknar hugmyndir.“

 

Ég ætla ekki vitna meira í Thomas L. Friedman en ég geri það hér, af því að ég er sammála honum, og vegna þess, að ég heyri enga svo skýra íslenska rödd , sem  þekkir til mála og segir okkur fréttir af því, sem er að gerast í Írak.

 

Eins og ég vík að hér að neðan eru umræður á algjörum villigötum um Íraksmálið meðal þeirra, sem hæst tala um það í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir. Óupplýst og vanþroskuð umræða um samtímamál af þessum toga er sorglegt dæmi um nesjamennsku, sem ætla mætti, að væri úr sögunni, eftir að tölvutækni og netið gerði fjarlægðir að engu.

 

Stóra listamálið.

 

Líklegt er, að eftir nokkra mánuði eða jafnvel aðeins eftir nokkrar vikur, verði „stóra listamálið“ orðið að einni af hlægilegu dægurflugunum, sem fara stundum um þjóðfélagið í skammdeginu. Ljóst er, að fjölskyldan, sem á The New York Times hagnast á málinu vegna hinnar makalausu auglýsingar svonefndrar þjóðarhreyfingar fyrir utan símafyrirtækin, sem taka 15% í sinn hlut, þegar fé er safnað á þann veg, sem hér var gert.

 

Á stjórnmálavettvangi er þegjandi samkomulag um, að standa ekki í deilum um pólitísk innanlandsmál á alþjóðavettvangi. Menn gera slík mál upp á heimavelli en eru ekki að flagga þeim í útlöndum. Þjóðarhreyfingin svonefnda kaus að hafa þessa meginreglu að engu með auglýsingunni.

 

Vegna auglýsingarinnar sneri fréttaritari Reuters  sér hinn 21. janúar til bandaríska forsetaembættisins og var svarað á þann veg, að listi frá því í mars 2003 væri ekki til.  Forsetaembættið hefði hætt að styðjast við  „lista hinna viljugu“ eftir framsal valda til bráðabirgðastjórnar í Írak í júní 2004. Háttsettur embættismaður Bandaríkjaforseta skýrði frá valdaframsalinu í Istanbúl 28. júní 2004 en þá var leiðtogafundur NATO haldinn þar. Frásögn af blaðamannafundinum er á vefsíðu Hvíta hússins http://www.whitehouse.gov/news/releases/2004/06/20040628 .

 

Nú segir háttsettur embættismaður Bandaríkjaforseta við fréttaritara Reuters, að  einhvern tíma eftir valdaframsalið 28. júní 2004 hafi  coalition list  - listi hinna viljugu –  vikið fyrir minni roster  - nafnaskrá – 28 ríkja, sem haldi úti herafla í Írak. Í lok júní og byrjun júlí 2004 var þjóðarhreyfingin að sjálfsögðu með hugann við allt annað en það, sem var að gerast í Írak, því að fjölmiðlafrumvarpið kollreið þá öllum umræðum hér á landi en alþingi kom saman til fundar 5. júlí 2004 til að fjalla um málið í ljósi synjunar forseta Íslands á lögunum.

 

Í síðasta pistli sagði ég þennan svonefnda lista ekki vera annað en fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu og sannast það enn með viðbrögðum embættismanns Hvíta hússins við spurningu fréttaritara Reuters 21. janúar. Viðbrögð talsmanns þjóðarhreyfingarinnar undirstrikar hins vegar hve skrýtilegur allur máltilbúnaður hreyfingarinnar er, en í Fréttablaðinu sunnudaginn 23. janúar segir Ólafur Hannibalsson meðal annars um frétt Reuters: „Þar fyrir utan er fréttin [hjá Reuter] öll hin undarlegasta og byggir á dularfullri nafnlausri heimild í Hvíta húsinu...“ Ef menn skoða fréttina frá Hvíta húsinu 28. júní 2004, sem vísað er til hér að ofan, sjá menn, að heimildarmaðurinn er nafnlaus og þykir engum neitt dularfullt við það.

 

Jón Kaldal, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, ritar leiðara blaðsins sunnudaginn 23. janúar og segir deilunum vegna listans ekki lokið, jafnvel þótt listinn sé úr sögunni, sem sé ekki öruggt, af því að heimildarmaðurinn í Hvíta húsinu sé nafnlaus! Hvað með forsíðufrétt Fréttablaðsins föstudaginn 21. janúar eftir nafnlausum heimildarmanni um það, sem á að hafa gerst á fundi utanríkismálanefndar alþingis 21. mars 2003? Hvers vegna segir Fréttablaðið ekki frá heimildarmanni sínum til að staðfesta trúverðugleika fréttarinnar? Aðstoðarritstjórinn skýrir ekki út fyrir lesendum Fréttblaðsins hvers vegna blaðið var ekki á undan fréttaritara Reuters að spyrja talsmann Hvíta hússins um listann og ríkin á honum. Það hefði getað sparað þjóðarhreyfingunni bæði fé og umstang.