15.1.2005

Leyndarmál í Fatíma – vitleysa og Gallup - viðtal við Kolbrúnu.

Í Hafnarfirði eru Karmelsystur í klaustri sínu. Hinar fyrstu þeirra komu árið 1939 frá Hollandi. Klausturbyggingin var notuð af hermönnum á stríðsárunum og eftir að bandarískir hermenn tóku við af breskum sumarið 1941 buðu þeir nunnunum að dveljast í Bandaríkjunum og fóru þær til Boston en þær sneru aftur til Hafnarfjarðar 1945. Næsta ár var klaustrið blessað. Hollensku nunnurnar hurfu á braut árið 1983 og katólska biskupsdæmið í Reykjavík tók að sér umsjón byggingarinnar. Árið 1985 komu 16 karmelsystur frá Póllandi og reglunni hefur bæst liðsauki á hverju ári. Tvisvar sinnum hefur orðið að skipta hópnum, árið 1990 var stofnað nýtt samfélag í Tromsö í Noregi og annað í Hannover í Þýskalandi 1998. Þegar ég var í Róm á dögunum og hitti fr. Karol, Karmelmunk frá Póllandi, sagði hann mér, að systurnar í Tromsö fengju að fara reglulega til Póllands, vegna þess að þær söknuðu svo sólarbirtunnar í mesta skammdeginu. Systurnar eru hér allan ársins hring og una sér vel.

Ég minni á þessa sögu hér og bendi á vefsíðuna www.karmel.is meðal annnars vegna þess að á dögunum rakst ég á frásögn af því, þegar Mel Gibson, leikari og leikstjóri myndarinnar um píslargöngu Krists, hitti á laun Karmelsystur Luciu í klaustri við Fatíma í Portúgal. Lucia er nú 98 ára gömul en hún er heimskunn fyrir að hafa talað við Maríu mey í Fatíma árið 1917.

 

Fyrir sex árum sagði ég frá því hér á síðunni, 17. janúar 1999, að þá hefði ég setið ráðstefnu í Vatíkaninu og rakti lýsingar á því, hve kraftaverkið í Fatíma skipti miklu fyrir Jóhannes Pál páfa II, eftir að hann var skotinn árið 1981.  Og 20. mars árið 2000 stendur hér á síðunni:

 

„Ráðstefnunni [ráðherrafundi í Lissabon] lauk upp úr hádegi laugardaginn 18. mars og þá gafst tími til þess að aka til bæjarins Fatima, sem er um 150 km fyrir norðan Lissabon, en þar gerðust þau undur árið 1917, að þrír ungir fjárhirðar sáu Maríu guðsmóður birtast nokkrum sinnum, hið fyrsta sinn 13. maí 1917 og síðan á mánaðarfresti og síðast 13. október 1917. Tvö barnanna dóu ung en hið þriðja, Systir María Lucia, er enn á lífi og býr hún í Karmel-klaustri í Portúgal 93 ára að aldri. Jóhannes Páll páfi II ætlar að heimsækja Fatima 13. maí næstkomandi, en í kringum staðinn, þar sem börnin sáu heilaga guðsmóður hefur nú skapast góð aðstaða fyrir pílagríma, sem koma langt að til að njóta blessunar staðarins. Hafði það yfir sér sérstakan blæ að fara þarna um og kynna sér lítillega sögu atburðanna, sem þarna gerðust.“

 

 

Föstuna 2004 óskuðu nunnurnar við Fatíma eftir því að sjá kvikmynd Gibsons, sem heitir á ensku The Passion of the Christ til að búa sig betur en ella undir föstudaginn langa og páskahelgina. Þær máttu ekki fara úr klaustrinu og áttu ekki DVD-tæki, en komu boðum til Gibsons og spurðu, hvort hann gæti orðið þeim innan handar. Gekk það eftir. Gibson er sagður hafa farið í pílagrímsferð til Fatíma í september 2003 til að leita styrks við gerð myndarinnar og Jim Caviezel, sem leikur Krist í myndinni, kom þangað til að ræða efnistök við gerð hennar. Hann vildi gjarnan fara í klaustrið og ræða við nunnurnar, en féll frá þeirri ósk, þegar honum var bannað að fara á bakvið grindurnar, sem skilja á milli svæðis nunnanna og gesta.

 

Gibson vildi að nunnunum yrði sýnd myndin með leynd, til að ekki væri sagt, að hann notaði áhuga þeirra í auglýsingaskyni. Síðar gerðist það, þegar Gibson var að kynna mynd sína í Portúgal, að hann og kona hans fóru til fundar við Luciu, án þess að sagt væri frá því opinberlega. Nú hefur það hins vegar verið gert og segir móðir Celina, sem veitir klaustrinu við Fatíma forstöðu, að systurnar, þar á meðal Lucia,  hafi átt ánægjulegt um klukkutíma samtal við Gibson-hjónin.

 

Ekkert hefur verið sagt frá því, sem Lucia sagði um myndina. Raunar er þess vandlega gætt, að ekki séu hafðar neinar yfirlýsingar eftir Luciu opinberlega, orð hennar vega þungt, því að eftir atburðinn í fyrri heimsstyrjöldinni árið 1917 býr hún yfir „þriðja leyndarmálinu frá Fatíma“ . Þau Jacinta og Francisco, leikfélagar Luciu, eru látin, eins og áður sagði, en María mey sagði börnunum þrjá spádóma: Ef maðurinn mundi ekki hætta að ögra Guði mundi annað stórstríð hefjast á tímum Píusar páfa XI. Tuttugu tveimur árum síðar hófst stríðið. Í öðru lagi var börnunum sagt, að Rússland myndi leiða hörmungar yfir heiminn. Spásögnin var mælt fyrir rússnesku byltginguna og  áður en Sovétríkin komu til sögunnar og hún laut að sovésku trúleysi.

 

María sagði börnunum einnig hið svonefnda þriðja leyndarmál, sem átti að kynna páfanum, sem sæti árið 1960 og síðan birt. Jóhannesi páfa XXIII. var sagt frá leyndarmálinu en ákvað, að það yrði ekki gert opinbert. Jóhannes Páll páfi II. skýrði frá leyndarmálinu í júní 2000. Það var stutt en varaði við þrengingum í heiminum, ofsóknum á hendur katólsku kirkjunni og skotárás á páfann.

 

Ýmsir telja, að árásin á páfann í maí 1981 sé til marks um, að síðasti spádómurinn hafi ræst. Aðrir eru þessu ósammála. Síðan eru þeir, sem efast um, að skýrt hafi verið frá öllu þriðja leyndarmálinu.

 

Vitleysa og Gallup.

 

Í síðasta pistli lýsti ég efasemdum um, að faglega hefði verið staðið að því hjá Gallup, þegar spurt var, hvort Íslendingar ættu að vera á lista með Bretum og Bandaríkjamönnum vegna stríðsins í Írak. Ég taldi, að skoða yrði þessi vinnubrögð Gallup sérstaklega í ljósi þess, að svonefnd Þjóðarhreyfing ætlaði að birta niðurstöðuna í auglýsingu sinni í The New York Times. Gallup sendi frá sér tilkynningu snemma í vikunni þess efnis, að án leyfis fyrirtækisins mætti ekki vitna til könnunarinnar, jafnframt sagðist fyrirtækið standa við spurningu sína. Hver bjóst við öðru?

 

Ég ítreka, að það sé óvandað af virtu fyrirtæki eins og Gallup að spyrja um þennan lista. Þegar málið er skoðað sést,  að „listinn“ er í raun ekkert annað en tveggja ára gömul fréttatilkynning frá Hvíta húsinu.  Líklega er einsdæmi, að efnt sé til þjóðarsöfnunar í nafni heillar Þjóðarhreyfingar til að andmæla í The New York Times tveggja ára gamalli fréttatilkynningu! Hvernig er hægt að krefjast þess með auglýsingu eða á annan veg að tveggja ára gamalli, bandarískri  fréttatilkynningu verði breytt? Þetta er augljóslega fráleitt. Hér er tengill á þessa tilkynningu: www.whitehouse.gov/news/releases/2003/03/20030321-4.html

 

Í síðasta pistli vakti ég athygli á því, að Jónína Benediktsdóttir hefði hirt Hallgrím Helgason rithöfund fyrir illkvittna grein hans í Fréttablaðinu á gamlársdag. Þar atyrti hann mig fyrir að breyta texta á vefsíðu minni . Hann lét þessi ógetið, að þessum texta var ekki breytt. Nú er þessi sami Hallgrímur í fremstu röð þeirra, sem safna peningum til að breyta texta á vefsíðu Hvíta hússins! Hvaða orð á að nota um þessa brellu Hallgríms? Er hann ekki að plata fólk, þegar hann gefur kynna, að þessari fréttatilkynningu verði breytt? Í Spegli hljóðvarps ríkisins 11. janúar, réðst Hallgrímur á Davíð Oddsson fyrir að leyfa að nota orðið „vitleysu“ um þessa skoðanakönnun um listann, sem er í raun fréttatilkynning.

 

Ég sé ekki betur en Costa Rica sé nefnt enn nefnt í þessari fréttatilkynningu Hvíta hússins. Í Speglinum sagði Hallgrímur Helgason um það ríki: „Síðast í september sagði Costa Rica, þjóðríkið Costa Rica sagði sig af þessum lista af reyndar mjög svipuðum ástæðum og Íslendingar eða margir Íslendingar vilja láta segja sig af þessum lista hér. Því að þar komst hæstiréttur landsins að því að vera ríkisins á þessum lista samræmdist ekki hlutleysisstefnu og friðarvilja þessa ríkis.“

 

Er Hallgrímur Helgason þeirrar skoðunar, að Ísland sé hlutlaust ríki? Síðan hvenær? Ef hann vill vera í hlutlausu ríki, ætti hann að berjast fyrir úrsögn Íslands úr NATO og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Ef ekki má nota orðið „vitleysu“ um þennan málatilbúnað allan hjá Hallgrími og félaga hans um listann og tilgang auglýsingarinnar, veit ég satt að segja ekki, hvenær tilefni er til að gera það.  – Varla vill rithöfundurinn, að orðið sé þurrkað úr orðabókinni?

 

Viðtal við Kolbrúnu.

 

Fimmtudaginn 13. janúar fór ég í viðtal við Kolbrúnu Bergþórsdóttur á Útvarpi Sögu og ræddum við um það, sem efst er á baugi.

 

Hún spurði mig um R-listann. Ég sagði forvitnilegt að rifja upp, að hann hefði losað við við Ingibjörgu Sólrúnu úr stól borgarstjóra, af því að hún bauð sig fram til þings, og við Þórólf Árnason vegna olíusamráðs, en R-listinn stæði traustan vörð um Alfreð Þorsteinsson. Það væru aðeins framsóknarmenn, sem segðu pólitíska daga hans talda. Samfylkingarfólk og vinstri/grænir í Reykjavík stæðu með Alfreð í gegnum þykkt og þunnt og enginn þeirra segði hann eiga að víkja. Kannski mætti rekja þetta til þess, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefði starfað náið með Alfreð í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og væri samábyrg fyrir öllu, sem þar væri gagnrýnt, og Stefán Jón Hafstein hefði setið með Alfreð í stjórn Línu.nets og bæri þar ábyrgð á öllu með honum. Samfylkingarforystan er ekki í neinni aðstöðu til að gagnrýna Alfreð og vinstri/grænir eru forystulausir, eftir að Árni Þór Sigurðsson fór í nokkurra mánaða dvöl á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel.

 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins laugardaginn 15. janúar brá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skildi fyrir Alfreð með því að segja gagnrýni á hann innan Framsóknarflokksins „storm í vatnsglasi“. Hún staðfesti þar með enn það traust, sem samfylkingarfólkið í R-listanum ber til Alfreðs. Jafnframt talaði hún niður til framsóknarmanna í Reykjavík og sagði þá of veikburða til að bjóða fram í Reykjavík. Fyrir nokkru lýsti hún Framsóknarflokknum sem „ömurlegum“ en nú vill hún halda áfram samstarfi við hann í R-listanum. Í forystugrein Morgunblaðsins er laugardaginn 15. janúar rætt um væntanlegar formannskosningar í Samfylkingunni og þar segir meðal annars:

 

„Vandi Ingibjargar Sólrúnar er sá, að henni hefur fatast flugið eftir að hún nánast hrökklaðist úr embætti borgarstjóra í Reykjavík. Meginástæðan fyrir því kann að vera sú, að hana hefur skort pólitískan vettvang, þar sem hún situr ekki á þingi, en svo er auðvitað hugsanlegt að hún hafi einfaldlega ekki jafn mikið fram að færa í pólitíkinni og stuðningsmenn hennar hafa kannski haldið.“

 

Kolbrún spurði um fjölmiðlamál. Ég sagði enn hafa sannast síðustu daga, hve brýnt væri að setja fjölmiðlalög, 70% fjölmiðlunar væri á einni hendi Baugsveldisins undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar. Snemma síðasta sumar hefðu þessir eigendur og talsmenn þeirra rekið upp ramakvein, því að hætta væri á, að einhverjir starfsmenn þeirra misstu vinnuna vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Nú væru starfsmenn reknir skýringarlaust úr stjórnunarstöðum og stöðvum lokað fyrirvaralaust með tafarlausri uppsögn tuga starfsmanna, svo að þeir notuðu ekki öldur ljósvakans til að segja hugsanlega eitthvað gagnrýnisorð um þá, sem sviptu þá vinnunni. Og Róbert Marshall, formaður Blaðamannafélags Íslands, sem skar upp herör gegn stjórnvöldum síðasta sumar til að verja hagsmuni félagsmanna sinna, segðist núna ekki sinna málum einstaklinga! Hvað þyrfti að skerða hár á höfði margra, til að hann tæki til varna fyrir umbjóðendur sína? (Mánudaginn 17. janúar barst mér þessi athugasemd frá Róberti Marshall: Þú hefur rangt eftir mér í pistli þínum. Ég hef hvergi sagst ekki sinna málum einstaklinga. Hins vegar sagði ég blaðamanni Morgunblaðsins að ég ætlaði ekki að tjá mig um uppsögn Sigríðar Árnadóttur; það hafði verið ákveðið að trúnaðarmaður starfmanna gerði það fyrir þeirra hönd. Það vill svo til að stór hluti  minnar vinnu fyrir Blaðamannfélag Íslands fer í að
sinna málum einstaklinga. Mér er því nokkuð sárt um þetta.)

 

Nú hefur verið ákveðið að skipta enn einu sinni um nafn á öllu batteríinu og velja því svo óþjált heiti, að líklega eiga menn ekki annarra kosta völ en nota orðið „Baugsmiðlar“ til að skiljist við hvað er átt. Það orð verður áreiðanlega til áfram, þótt hvað eftir annað sé gerð tilraun til að stinga upp í þá, sem grípa til þess. Kannski er bara einfaldast að banna það eins og orðið „vitleysu“? Annars hafði vinur minn orð á því, að þessar sífelldu nafnbreytingar á fjölmiðlafyrirtækjum Baugs minntu aðeins á nafnasögu flokka kommúnista og sósíalista, sem vildu gjarnan auka vinsældir sínar með því að sigla sífellt undir nýju flaggi – raunar eru þeir komnir til föðurhúsa sameiningarsinna með því að velja sér nú heitið Samfylking.

 

Kolbrún rifjaði það upp í samtali okkar, að við værum bæði aðdáendur Bruce Willis og ég minntist þess, að það hefði fyrst verið frá því sagt í DV-samtali okkar 25. ágúst 2001 og oft verið til þess vitnað, taldi Kolbrún af og frá, að það væri gert mér til háðungar. Ég sagði henni, að nýlega hefði ég séð kóreanska mynd Oldboy, sem nú væri verið að sýna og fengi óskorað lof gagnrýnenda, en mig hefði undrað, að gagnrýnandi Morgunblaðsins hefði vikið af leið og hnýtt í Kill Bill í umsögn sinni, taldi Kolbrún þetta enn til marks um, hve mörgum væri lítt gefið um Bandaríkin.

 

Ég hitti Arnþrúði Karlsdóttur, stjórnanda og eiganda Útvarps Sögu, þegar ég var að búa mig undir útsendinguna með Kolbrúnu. Hún sagðist þá um kvöldið vera að fara í Ísland í dag með Hallgrími Thorsteinssyni, sem stofnaði Útvarp Sögu með Arnþrúði, Sigurði G. Tómassyni og Ingva Hrafni Jónssyni, þegar Baugur ákvað að loka fyrir þau undir sínum merkjum. Ég horfði á samtal þeirra Arnþrúðar og Hallgríms, var það stormasamt og ill skiljanlegt vegna þess hve báðum var mikið niðri fyrir í ágreiningi sínum. Þau deildu meðal annars hart um 5 milljónir króna, sem Jóhannes Jónsson í Baugi lánaði Arnþrúði til að stöðin gæti starfað áfram í eigu Arnþrúðar!