2.1.2005

Velgengni við áramót – háskólar – vísindagarðar – tvískinnungur- nýársleikur.

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegs og farsæls árs! Ég þakka samfylgdina á liðnum árum, en á árinu 2005 verða 10 ár liðin, frá því að vefsíða mín hóf göngu sína, eins og ég mun minnast, þegar þar að kemur.

Í áramótagrein í Morgunblaðinu á gamlársdag sagði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

„Við Íslendingar eigum nú einstakt sóknarfæri. Í hartnær áratug hefur efnahagslífið eflst mjög að vöxtum og burðum og nú benda spár til þess að nýtt hagvaxtarskeið sé hafið. Talið er að árlegur hagvöxtur verði á næstu þremur árum um og yfir fimm prósent og fram til ársins 2010 verði hann um tvö og hálft prósent. Þjóðarframleiðsla okkar verði ríflega þúsund milljarðar árið 2006 og sé sú stærð vegin í dollurum á hvern mann sé ljóst að Ísland mun færast jafnt og þétt ofar í hópi ríkustu þjóða heims. Skattar hafa verið lækkaðir umtalsvert, skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar niður í stórum stíl, framlög til heilbrigðis- og félagsmála hafa verið aukin til mikilla muna og lífeyrissjóðskerfi landsmanna stendur styrkum fótum, en þetta síðasta er öfundarefni margra þróaðra þjóða. Framlög til menntamála og vísindastarfsemi hafa verið aukin og nú nýverið ákvað ríkisstjórnin að framlag til opinberra vísinda- og tæknisjóða yrði tvöfaldað á kjörtímabilinu.“

 

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sagði í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld:

 

„Við Íslendingar búum við betri afkomu en almennt gerist og eitt öflugasta velferðarkerfi heims.  Við sjáum fleiri stoðir styrkja innviði þjóðlífsins. Fjármálastarfsemi, ferðaþjónusta, þekkingariðnaður og stóriðja skipa vaxandi sess í efnahagsstarfseminni. Við verðum að halda áfram á þessari braut. Á næstu árum verða framlög til vísinda- og tæknirannsókna tvöfölduð og verður þannig einum milljarði bætt við þennan mikilvæga málaflokk sem leiðir okkur inn í framtíðina.“

 

Ég vek sérstaka athygli á þeirri áherslu, sem báðir forystumenn stjórnarflokkanna leggja á framlög til vísinda- og tæknirannsókna. Í mínum huga er þetta árangur af þeirri stefnumörkun, sem fólst í nýrri löggjöf um vísindi og tækni, sem undirbúin var í minni tíð sem menntamálaráðherra og nú hefur verið hrundið í framkvæmd. Ég er sama sinnis og ég var þá, að sókn á þessum sviðum muni styrkja íslenska þjóðfélagið hvað mest til frambúðar.

 Breytingar á háskólastigi.

Í sömu andrá vil ég fagna þeim umræðum, sem nú fara fram um breytta stjórn á háskólum. Ég beitti mér fyrir því að sett var ný löggjöf um háskólastigið á sínum tíma, svo að ekki væri unnt að efast um lögmæti samstarfs ríkisins við einkaaðila um rekstur háskóla. Í krafti þeirrar löggjafar hafa einkareknu háskólarnir síðan eflst og dafnað, ekki síst Háskólinn í Reykjavík, sem er enn að eflast og stækka með sameiningu við Tækniháskóla Íslands, um leið og sá skóli verður einkavæddur.

 

Unnt er að sjá hér á síðu minni viðhorf mín til stöðu ríkisháskólanna í hinu nýja starfsumhverfi, en ég taldi á sínum tíma og hef sannfærst betur um það síðan, að einkaframtakið verði að fá að njóta sín mun meira innan ríkisreknu skólanna, til að þeir standist samkeppni, nú bæði hér heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Í Morgunblaðinu hafa undanfarið birst fróðlegar hugleiðingar rektora háskóla, þar sem einmitt er vikið að þessu sama.

 

Á fáeinum árum hefur viðhorf til háskólastarfs í landinu gjörbreyst og með því að gefa fleiri en áður tækifæri til að njóta sín, hafa nýjar skoðanir komið til sögunnar og hníga þær til þeirrar niðurstöðu, að ríkið eigi enn að slaka á klónni gagnvart háskólum, auk þess sem ríkisháskólar verði ekki lengur lokaðir fyrir stjórnendum utan raða þeirra, sem þar stunda kennslu og fræðistörf. Tímabært er að breyta skipan háskólaráða ríkisreknu skólanna og búa þannig um hnúta, að rektorar þeirra hætti að gegna þar formennsku og leitað verði eftir formanni utan skólanna.

 

Þegar litið er á þróun háskólastigsins frá hausti 1994 til hausts 2003 sést, að fjöldi háskólastúdenta hefur tvöfaldast, það er úr 7.310 nemendum í 15.466 nemendur, ef farið er aftur til ársins 1990 er um tæpa þreföldun nemendafjölda fram til haustsins 2003 að ræða. Á árunum 2000 til 2004 jukust fjárveitingar til kennslu í háskólum um tæp 53% og til rannsókna í háskólum um 40%. Hitt er ekki síður athyglisvert, hve nemendum í meistara- og doktorsnámi hefur fjölgað, þeir voru 135 árið 1994 en 1.640 árið 2003, þeir hafa meira en tólffaldast!

 

Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, skýrði frá því í september 2004, að hann mundi ekki gefa kost á sér við rektorskjör, sem fer fram núna í vor. Páll varð rektor árið 1997 og áttum við mjög gott samstarf, þegar ég gegndi starfi menntamálaráðherra. Háskóli Íslands hefur vaxið og dafnað á allan hátt í stjórnartíð Páls og er flaggskipið í rannsóknum og vísindum í landinu.

 

Þegar ég hreyfði fyrst hugmyndum um breytingar á stjórnkerfi Háskóla Íslands, var þeim mætt af nokkurri tortryggni, svo að ekki sé meira sagt. Þegar Páll var í kjöri til rektors, var meðal annars tekist á um hugmyndir um skipulag og stjórnkerfi skólans, en innan Háskóla Íslands hefur því sjónarmiði meðal annars verið hreyft, að skólanum skuli skipt í meira eða minna sjálfstæðar einingar. Páll lagðist gegn þeim hugmyndum en háskólalögin eru hlutlaus gagnvart þeim.

 

Nýjar hugmyndir um stjórnarhætti og skipulag Háskóla Íslands hljóta að setja svip sinn á stefnuskrár frambjóðenda við rektorskjör. Er miklu frjórra að takast á um slík málefni en að frambjóðendur hafi það eitt að markmiði að ná meira fé fyrir skólann úr ríkissjóði. Ef kosningaloforð um slíka hluti er hið eina, sem talið er til vinsælda fallið innan Háskóla Íslands, ber það ekki vott um mikla nýsköpun.

 

Nú í byrjun janúar auglýsir menntamálaráðuneytið embætti rektors Háskóla Íslands laust til umsóknar. Embættisgengir eru skipaðir eða ráðnir ótímabundið prófessorar eða dósentar við háskólann í fullu starfi. Berist einungis ein umsókn og fullnægi umsækjandi skilyrði um embættisgengi telst hann hafa hlotið tilnefningu til embættis rektors. Ef fleiri umsóknir berast verður kosið milli umsækjenda, væntanlega 15. mars næstkomandi.

 Vísindagarðar.

 

Á liðnu ári var fyrsti vísindagarður í landinu tekin í notkun við Háskólann Akureyri, en Þorsteinn Gunnarsson lýsti gildi hans þannig í Morgunblaðinu á gamlársdag: „Þar fær Háskólinn á Akureyri til afnota mjög fullkomna rannsóknaraðstöðu og er þar í sambýli við margar rannsóknarstofnanir á vegum hins opinbera; það má segja að þarna sé risinn fyrsti vísindagarður á Íslandi og áhrif af því starfi sem þar fer fram eiga eftir að koma fram á ýmsum sviðum atvinnulífs og þjóðlífs.“

 

Það var ekki alveg þrautalaust að koma byggingu þessa húss á framkvæmdastig en það var reist af einkaaðilum á skömmum tíma, eftir að öllum hindrunum hafði verið rutt úr vegi. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að hið nýja starfsumhverfi verði til þess að efla rannsóknir og vísindi og styrkja stöðu Háskólans á Akureyri og bæjarfélagið allt á þessu sviði.

 

Lítið hefur frést nýlega af hugmyndum um vísindagarða við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Að vísu var skýrt frá því á dögunum, að nefnd sérfróðra mann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að flytja ætti Tilraunastöðina á Keldum í Vatnsmýrina. Hér á síðunni má sjá greinar og hugleiðingar, sem snerta starfsemina á Keldum en vegna hugmynda um að hún flyttist í Vatnsmýrina, var ég sakaður um að vilja rústa öllu vísindastarfi þar. Hvar eru talsmenn þeirra sjónarmiða núna? Hafa þeir kynnt sér niðurstöðu sérfræðinganna, sem mæla nú með flutningi? Eða var það aðeins pólitísk óvild í minn garð, sem réð skrifum þessara manna?

 

Garðabær er á fullri ferð við að undirbúa jarðveginn í orðsins fyllstu merkingu fyrir háskóla- og vísindabyggð á Urriðaholti. Reynsla mín af hægferð og vandræðagangi við töku skipulagsákvarðana á vegum R-listans í Reykjavík segir mér, að verulegar líkur séu á því, að Garðabær verði fyrri til að skapa kjöraðstæður fyrir háskóla- og vísindabyggð en yfirvöld Háskóla Íslands og R-listinn í Reykjavík.

 

Vísindi og tækni, góð menntun og rannsóknir eiga eftir að setja meiri svip á þjóðlífið, þegar fram líða stundir. Ég hef hins vegar aldrei verið þeirrar skoðunar, að aukin gróska á þessum sviðum eigi til dæmis að spilla fyrir því, að við nýtum okkur auðlindir landsins. Engin rök eru fyrir því, að eitt útiloki annað í þessu efni, heldur þarf að virkja alla krafta samhliða og samtímis. Í þessu efni greinir til dæmis á milli mín og sjónarmiða vinstri/grænna, sem fylgja útilokunarstefnu í atvinnumálum og segjast gera það í nafni umhverfisverndar. Forverar þeirra í Alþýðubandalaginu voru hins vegar á móti stóriðju vegna þess óvildar í garð alþjóðafyrirtækja.

 

Tvískinnungur vinstri/grænna

Tvískinnungur er hins vegar greinilegur í stefnu vinstri/grænna bæði er varðar skuldasöfnun og virkjanir í þágu stóriðju, þegar litið er til þess annars vegar, sem Steingrímur J. Sigfússon formaður þeirra segir og hvernig þeir ganga fram í borgarstjórn Reykjavíkur.

 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, sagði í Morgunblaðinu á gamlársdag:

 

„Til lengri tíma litið er þó viðskiptahallinn og hinar gríðarlegu erlendu skuldir þjóðarbúsins alvarlegastar. Heimili og fyrirtæki á Íslandi eru með þeim skuldsettustu meðal OECD-ríkja. Sveitarfélögin safna skuldum og þjóðarbúið í heild er skuldugra en nokkru sinni fyrr.“

 

Ég er sammála Steingrími J. um það, að vara eigi við of mikilli skuldasöfnun einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins. Þess vegna hef ég fagnað því, að ríkissjóður hefur lækkað skuldir sínar jafnt og þétt á undanförnum árum, vaxtagreiðslur ríkissjóðs hafa minnkað um 11 milljarði króna vegna lækkunar á skuldum.

 

Á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur höfum við sjálfstæðismenn hins vegar talað fyrir daufum eyrum vinstri/grænna og annarra í R-listanum, þegar við vörum við hinni geigvænlegu skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Ég hef ekki orðið var við að Steingrímur J. Sigfússon hafi látið nokkur varnaðarorð falla um það efni eða hann hafi beitt sér gagnvart flokksbræðrum sínum á þeim vettvangi í þeim tilgangi að fá til að draga saman lántökuseglin.

 

Er Steingrímur J. kannski að skjóta á R-listann, þegar hann segir í sömu áramótagrein: „Gríðarlega aukin skuldsetning er vísbending um að við höfum í alltof miklum mæli tekið batnandi lífskjör að láni og stílað þann reikning á framtíðina.“?

 

R-listinn afsakar hina miklu skuldasöfnun ekki síst með því að vísa á Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar sem milljörðum króna hefur verið varið í nafni Línu.nets. Talsmenn OR segjast hins vegar vera að nýta fjármuni í þágu arðbærra framkvæmda og þar með í þágu fleiri álvera í landinu. Um þau segir hins vegar Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna í borgarstjórn, í áramóta hugleiðingu í Morgunpóstinum, vefblaði VG:

 

„Þá vil ég nefna orkumálin. Þar eru miklar breytingar framundan í kjölfar nýrra raforkulaga og þar er brýnt að VG móti sér skýra afstöðu til þróunar þeirra mála og til þróunar í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Eins og við vitum hafa stjórnvöld verið afar upptekin af atvinnustefnu sem byggir á áli og við þurfum að gæta að því að sogast ekki inn í þá atburðarás, heldur stuðla að framgangi sjálfbærrar atvinnustefnu eins og stefna flokksins býður og þingflokkur okkar hefur verið duglegur við að mæla fyrir á vettvangi Alþingis.“

 

Hvað hafa vinstri/grænir verið að gera á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, sem fer með tæplega 100% eignarhluta í OR og í stjórn OR? Hafa þeir ekki verið að hampa atvinnustefnu „sem byggir á áli“? Hver hefur sogað þá inn í þessa atburðarás? Hvernig geta þeir talið sig standa utan við hana? Steingrímur J. var ekki að skafa utan af áliti sínu á þessari atvinnustefnu, þegar hann sagði í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu: „Í siðblindri eigingirni fremjum við sögulegt mannorðssjálfsmorð.“

 

Nýársleikur.

Í tilefni þess, að þetta er fyrsti pistill minn á nýju ári, ætla ég að bregða á nýársleik með því að birta ráð frá Bernard Pivot um það, hvernig greina má hugsanir, tilfinningar og skoðanir einstaklinga. Bernard Pivot er kunnur sjónvarpsmaður í Frakklandi, en hann hélt þar úti einstaklega fróðlegum og menningarlegum umræðuþáttum um bókmenntir, menningu og listir. Er hann ásamt Tim Sebastian með Hardtalk  í BBC auk Tim Russert með Meet the Press í NBC í Bretlandi í hópi bestu þáttastjórnenda. Eru þættir þeirra á allt öðru og hærra plani en umræðuþættir í íslensku sjónvarpi og er raunar merkilegt eftir um 40 ára starfrækslu íslensks sjónvarps, hafi enginn stjórnandi sjónvarpsumræðna hér komist með tærnar, þar sem menn af þessum toga hafa hælana.

 

Spurningarnar frá Bernard Pivot eru þessar:

 

1.     Hvaða orð er þér kærast?

2.     Hvaða orð vilt þú síst?

3.     Hvað vekur þig til sköpunar eða andlega og tilfinningalega?

4.     Hvað dregur úr þér allan vilja og mátt?

5.     Hvaða blótsyrði er þér tamast?

6.     Hvaða hljóð eða hávaði finnst þér bestur?

7.     Hvaða hljóð eða hávaði finnst þér verstur?

8.     Hvaða starf annað en það, sem þú sinnir, langar þig helst að reyna?

9.     Hvaða starfi mundir þú ekki vilja gegna?

10.  Sé himnaríki til, hvað vilt þú vilja heyra Guð segja, þegar þú kemur að Gullna hliðinu?