19.12.2004

Evrópunefnd – hugmyndafræði í borgarmálum – brottflutningur – Bobby Fischer.

Ýmislegt hefur á dagana drifið í nýliðinni viku og er mér alltaf undrunarefni, þegar látið er eins og störf ráðherra dragist mikið saman, um leið og hlé verður á störfum alþingis. Málum er síður en svo þannig háttað um ráðherra og ekki heldur um þingmenn, því að starfsskyldur eru langt út fyrir það, sem felst í því að sækja fundi alþingis. Raunar mundu fundarstörfin oft verða markvissari og skila meiru, ef menn byggju sig betur undir þau utan fundar.

Eins og ég hef sagt frá áður var ég í sumar skipaður formaður Evrópunefndar, það er nefndar á vegum forsætisráðuneytis til að fjalla um ýmis álitamál, sem tengjast þátttöku okkar í evrópska efnahagssvæði og spurningum varðandi hugsanlega aðild að Evrópusambandinu (ESB). Nefndin réð sér starfsmann, þegar haustaði, Hrein Hrafnkelsson, sem hefur meðal annars starfað hjá EFTA, og síðan hittumst við reglulega og viðum að okkur upplýsingum í samræmi við erindisbréf okkar og verkáætlun, sem við samþykktum.

 

Störf nefndarinnar hafa leitt í ljós, að margt hefur verið athugað og greint, er snertir samskipti okkar við Evrópusambandið, en á stjórnmálavettvangi hafa menn ekki sest sameiginlega yfir þessar upplýsingar til að meta þær og leitast við að átta sig á því, hvar er þörf á frekari athugunum. Nefndin hittist í hádeginu sl. miðvikudag og þá ræddum við til dæmis, hvað það myndi hugsanlega kosta okkur Íslendinga í útlögðum peningum að gerast aðilar að ESB. Við ákváðum einnig fundardaga fram á næsta vor, en nefndinni er ekki settur neinn tímarammi og er við það miðað, að unnið verði að málinu fram undir lok þessa kjörtímabils.

 

Hugmyndafræði í borgarstjórn

 

Ég hafði ráðgert að fara norður á Blönduós á fimmtudag til að taka þátt í athöfn við lyktir á framkvæmdum við sýsluskrifstofuna þar. Veðurútlit var hins vegar svo slæmt, að við sýslumaður ákváðum  síðdegis á miðvikudag að slá heimsókninni á frest. Þess vegna gat ég setið aukafund í borgarstjórn síðdegis á fimmtudag og fram undir klukkan 22.00, þegar ég hvarf af þeim vettvangi til að búa mig undir störf næsta dags, en varamaður settist í stól minn og var á fundinum fram um 02.30 um nóttina,  þannig að umræður stóðu í um 12 klukkustundir.

 

Í ræðu minni á fundinum ræddi ég um muninn á viðhorfi vinstrimanna og okkar sjálfstæðismanna til þess, hvernig haga bæri stjórn opinberra mála.

 

Almennt vísa ég ekki til þeirra, sem rita mér tölvupóst vegna þess, sem birtist hér á síðunni en vegna umræðna um fjárhag Reykjavíkurborgar og stöðu hennar undir stjórn R-listans geri ég undantekningu að þessu sinni.

 

Annað bréfið, sem ég fékk, snerist um muninn milli hægri og vinstri Bjarni Jónsson er höfundur þess en þar sagði:

 

„Ræða þín á fundi borgarstjórnar um fjárhagsáætlun borgarinnar, sem birtist á vefsetri þínu 16.12.2004, varpar skýru ljósi á muninn á stjórnarháttum vinstri manna og hægri manna í opinbera geiranum, þ.e. hjá sveitarfélögum og ríkinu.  Meirihluti borgarstjórnar, sem ekki nær að halda fjárhagnum í horfinu í bullandi góðæri með 4-6 % hagvexti, fær falleinkunn fyrir lélega stjórnarhætti.  Með þessu áframhaldi fer Reykjavík á vonarvöl, þegar að kreppir.  R-listanum er alls varnað, af því að hann er illa haldinn af kreddum.  Kreddufestan ræður ferðinni.  Dæmi um það er Reykjavíkurflugvöllur.  Flugvöllurinn er tekjulind fyrir borgina.  Verði hann aflagður, tapast mörg störf, og engar aukatekjur koma til borgarinnar, þó að byggt verði í Vatnsmýrinni, af því að Vatnsmýrin mun ekki fjölga Reykvíkingum.  Það er líklegt, að afnám Reykjavíkurflugvallar jafngildi dauða áætlunarflugs innanlands.  Það yrði þjóðhagslega óhagvæmt, yki mengun í heildina séð, og umferðarslysum mundi fjölga með aukinni vegaumferð.  Það er þess vegna rétt og sjálfsagt af Sjálfstæðismönnum að berjast fyrir Reykjavíkurflugvöll, enda er hann eitt af einkennum höfuðborgar Íslands.

 

Önnur kredda R-listans varðar skipan vegasamgangna í Reykjavík.  Hinn vinstr/græni Árni, forseti borgarstjórnar, hefur nú játað villur síns vegar um léttlestirnar, með semingi þó.  Hann ætlar að fjýja í strætó og vill setja milljarða í að fjölga ferðum.  Á móti þessu stendur vilji fólksins og stefna Sjálfstæðismanna.  Fólkið vill og getur átt einkabíl og komizt leiðar sinnar á honum.  Til þess þarf þó hið opinbera að setja fé í umferðarmannvirki, en bíleigendur eru svo hátt skattlagðir með eldsneytisgjaldi, að þeir eiga slíkt inni.  Sjálfstæðismenn eiga að feta í fótspor George Bush, sem nú á seinna kjörtímabilinu ætlar að setja „Ownership and market policy“ á oddinn.  Við eigum alls staðar að vinna ötullega að eflingu einkaeignar, þ.e. einkabíla, eigin húsnæðis fólks, hlutabréfaeignar og síðast en ekki sízt einkasparnaðar.  Með eflingu lífeyrissparnaðar, sameignar og einka,  ætti að verða unnt að draga úr ríkisframlagi til almannatrygginga.  Þá þarf að vinna að einkavæðingu á öllum sviðum, þar sem hana vantar enn.  Þetta á t.d. við um heilbrigðisgeirann, heilsugæzlustöðvar og öldrunarþjónustu. 

 

Nú um áramótin verður tekið upp markaðsskipulag í raforkugeiranum á Íslandi.  Ýmsir, þ.á m. Steingrímur J. S., formaður vinstri/grænna, spá því, að breytingin muni leiða til glundroða og verðhækkunar.  Ég tel hins vegar, að markaðsöflin muni nýta sér tækniþróun og knýja fram enn meiri raunlækkun orkuverðs en raunin hefur á orðið undanfarið.  Þróun raforkuverðs hefur verið almenningi hagfelld, af því að unnt hefur verið að virkja stórt og nýta hagkvæmni stærðarinnar með samningum við stóriðjufyrirtæki.  Hjáróma rödd í þessum kór er Orkuveita Reykjavíkur, sem telur sig þurfa að hækka raforkuverð margfalt meira en Orkustofnun hefur áætlað.  Það er búið að veikja fjárhag OR með gríðarlegum, þvinguðum arðgreiðslum til eigenda.  Ógætilegar fjárfestingar í húsnæði og óskyldri atvinnustarfsemi hafa veikt fyrirtækið fjárhagslega.  Ónóg hagræðing hefur átt sér stað vegna kreddufestu aðaleiganda um stjórnunarfyrirkomulag og eignarhald.  Það á að vera baráttumál okkar Sjálfstæðismanna að gera OR að hlutafélagi til að styrkja samkeppnistöðu hennar og selja hlut Reykjavíkur í félaginu með tíð og tíma til að greiða niður skuldir borgarinnar.  Það er ekki lengur þörf á því fyrir borgina að eiga orkufyrirtæki til að tryggja borgarbúum hagkvæma orku.  Markaðsöflin munu sjá til þess.

 

OR er á mjög hálli braut núna, af því að hún er búin að gera orkusölusamning við stóriðju.  Í lögum stendur, að orkusala til stóriðju megi ekki leiða til orkuverðshækkunar hjá almenningi.  Hvernig ætlar OR að sýna fram á það, að verðhækkun hjá þeim umfram hækkun annarra sé ekki vegna heildsölusamninga við stóriðju, verði hún beðin um slíkar útskýringar?“

 

Hér er vakið máls á málefnum, sem munu setja svip á umræður framtíðarinnar. Ég tek undir viðvaranir vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sjást menn ekki alls kostar fyrir. Bréfritari vitnar í George W. Bush og þá stefnu, sem hann boðar. Þegar úrslit kosninganna í Bandaríkjunum og sigur Bush er metinn, staldra menn einmitt mjög við hina róttæku stefnu hans í innalandsmálum og hve hún höfðar til kjósenda. Í hinni hugmyndafræðilegu samkeppni hafa repúblíkanar borið sigurorð af demókrötum, af því að þeir höfða til ábyrgðar einstaklingsins á eigin málum og þar með samfélagsins en láta ekki eins og samfélagið geti tekið þessa ábyrgð á sínar herðar.

 

Brottflutningur

 

Hinn bréfritarinn hafði hlustað á ræðu mína, en útvarpað er af fundum borgarstjórnar, og hann staldraði við það, sem sagði í niðurlagi hennar um, að Reykjavík heldur ekki í við fjölgun fólks í nágrannabyggðum né á landsvísu. Bréfritari ákvað fyrir nokkru að flytja úr Reykjavík í Hafnarfjörð. Hann sagðist undir ræðunni hafa verið að aka um hverfi rétt hjá heimili sínu, í fyrra hafi þar verið eyðilegt hraun en 16. desember 2004 taldi hann þar á þriðja tug byggingarkrana og fjögur hringtorg, átta blokkir og nokkra tugi raðhúsa og annað eins af einbýlishúsum.

 

Bréfritari er með tvær litlar stúlkur og bjó í miðborg Reykjavíkur en vildi forða þeim frá því að miðborgin yrði leiksvæði þeirra. Ástæðurnar voru þessar: 1) Stóraukin bílaumferð. 2) Klámvæðing miðborgarinnar – klámbúllur, verslanir með slíkt dót og lausung. 3) Drykkjulæti í miðborginni um helgar. 4) Stöðumælar og ómannleg óþægindi í viðskiptum við þá stofnun sem um þá sér. 5) Stress í umhverfinu. 6) Umferðarteppur og árekstrar alls staðar á annatímum á alltof litlum götum. 7) Að því er virðist ótakmörkuð uppbygging barmenningar.

 

Bréfritari setti börnin í fyrirrúm, þegar hann ákvað að flytja og sá þessa kosti: 1) Húsnæði við grænt svæði. Hægt að ganga á grænu svæði án þess að koma nálægt umferð til og frá skólum og leikskólum. 2) Húsið nærri sundlaug. 3) Örstutt í góðar gönguleiðir - niður á höfn og göngubrautir um hverfið innan um trjágróður. 4) Í Hafnarfirði eru engir stöðumæklar. 5) Klámbúllur eru bannaðar innan bæjarmarka. 6) Miðbærinn af viðráðanlegri stærð og er að vaxa og dafna - skemmtilegt að fylgjast með þeirri þróun. 7) Viðmótið öðruvísi - minna samfélag. 8) Barnvænt samfélag.

 

Það er fróðlegt og gagnlegt að fá ígrundaðar ábendingar af þessu tagi. Minnumst við sjálfstæðismenn á miðborg Reykjavíkur í borgarstjórn, fer R-listinn strax í varnarstöðu og helsta vörn hans gagnvart okkur er sú, að ekki megi ræða málefni miðborgarinnar, því að þar með sé kastað rýrð á hana! Sýnir þetta kannski best í hvert óefni er komið. Svipuð sjónarmið eru notuð í tilraunum til að kveða niður umræður um málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Þá er sagt, að vegið sé að starfsmönnum OR, þegar fyrirhyggjuleysi stjórnenda er gagnrýnt.

 

Þessi borgarstjórnarfundur var hinn fyrsti, sem ég sat með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem borgarstjóra og finnst strax munur á því, að borgarstjóri komi úr hópi kjörinna fulltrúa og beri þar með pólitíska ábyrgð en nálgist viðfangsefnið ekki á sama hátt og Þórólfur Árnason, sem lét oft eins og stjórnmálaleg rök á stjórnmálavettvangi væru eitthvað verri sjónarmið en þau, sem kenna mætti við „að stjórnun væri fag“.

 

Steinunn Valdís bað um orðið, eftir að við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðum talað og fór með fyrirfram samin texta, sem átti að tengjast ræðum okkar á einhvern hátt. Hún las til dæmis yfir mér talnarunur, sem áttu víst að sýna, að ríkissjóður væri verr á vegi staddur en borgarsjóður! Ég veit ekki, hvort nokkur skildi, hvað hún var að fara, og ég sagðist einfaldlega ekki taka þátt í stjórnmálaumræðum með vísan til slíkra talnaruna – í samanburði ríkis og borgar skipti borgarana mestu, að ríkið væri að lækka skatta og skuldir en borgin að hækka skatta og skuldir, ríkið væri að auka fjárhagslegt svigrúm borgaranna en borgin að þrengja það, ríkið hefði efni á þessu en borgin ekki. Ef borgin væri svona miklu betur stæð en ríkið, hvers vegna R-listinn væri þá að hækka skatta?

 

Bobby Fischer

 

Miðvikudaginn 15. desember var tilkynnt, að íslensk stjórnvöld myndu veita Bobby Fischer, heimsmeistara í skák, dvalarleyfi, ef hann æskti þess, en hann er nú í búðum innflytjenda eða hælisleitenda í Japan og án vegabréfs, þar sem bandarískt vegabréf hans er útrunnið. Bandaríkjastjórn lítur á hann sem afbrotamann, þar sem hann hafi tekið þátt í skákmóti í Júgóslavíu fyrrverandi þvert á viðskiptabann, sem Sameinuðu þjóðirnar settu.

 

Hvort Fischer kemur eða ekki er óljóst og sagði einn talsmanna hans í Japan, að ákvörðun íslenskra stjórnvalda kynni að brjóta ísinn og leiða til þess, að fleiri ríkisstjórnir byðu honum dvalarleyfi. Í orðunum felst, að Ísland sé ekki endilega óskastaður Fischers, þótt við Íslendingar lítum hann sérstökum vinaraugum vegna þátttöku hans í heimsmeistaramótinu 1972. Fáir hefðu líklega búist við því þá, að 32 árum síðar hefði þessi sérstaka staða skapast vegna tengslanna, sem þá mynduðust milli Íslendinga og Fischers. Gekk ekki svo lítið á þá, að fá Fischer til að koma til leiks hér á landi, og hafði hann þá flest, ef ekki allt, á hornum sér.

 

Í sjónvarpsþætti á Skjá 1 í hádeginu í dag, sunnudaginn 19. desember, með þeim Illuga Gunnarssyni og Katrínu Jakobsdóttur sem stjórnendum og Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, auk mín, sagði ég, þegar spurt var um afstöðu Bandaríkjastjórnar til ákvörðunar okkar, að ég vissi ekki um hana, en ég teldi víst, að bandarísk stjórnvöld væru undrandi eins og margir aðrir. Það hefðu einnig margir orðið undrandi, þegar íslensk stjórnvöld ákváðu fyrst allra að viðurkenna Eystrasaltsríkin -  í málum sem þessum stigu menn aðeins eitt skref í einu.

 

Við vorum sammála um það í þættinum, að mál Fischers væri svo einstakt, að ekki væri unnt að draga af því neina ályktun um breytingu á stefnu í málefnum útlendinga. Ég lagði áherslu á, að þar væri mál hvers einstaks skoðað sérstaklega og lagt mat á það í ljósi gildandi laga og reglna. Ef menn væru ósáttir við niðurstöðuna, væri leitað að rökum gegn stjórnvöldum, sem setti þau í neikvæðast ljós, og vegna gagnrýni á svonefnda 24 ára reglu væri látið í veðri vaka, að hún réði mestu um þá niðurstöðu, sem fengist og gagnrýnd væri, til dæmis ætti þetta við í umræðum um 23 ára Úkraínumann, sem var nýlega farið með úr landi.

 

Ég taldi honum hafa verið í lófa lagið að leita eftir dvalarleyfi á öðrum grundvelli en hjúskap, en það hefði hann ekki gert, eftir að dvalarleyfi hans sem námsmanns hefði runnið sitt skeið, og þess vegna hefðu lög staðið til að vísa honum úr landi, nú hefði lögmaður hans óskað eftir fresti fram í febrúar til að leggja fram gögn í dómsmálaráðuneytinu í því skyni að hnekkja brottvísuninni og yrði farið yfir þau, þegar að því kæmi og allt, sem varðaði þennan einstakling grandskoðað. Ég var spurður, hvort eitthvað væri hæft í því, sem birst hefði í DV, að maðurinn væri talinn brotlegur við hegningalög og staðfesti ég grun um það.