5.12.2004

Tungutækniverkefnið – til Rómar – spenna í Úkraínu.

Í tíð minni sem menntamálaráðherra var oft rætt um nauðsyn þess að tryggja stöðu íslenskrar tungu í upplýsingaþjóðfélaginu og varð orðið tungutækni þá til. Ég beitti mér fyrir því á vettvangi ríkisstjórnarinnar, að fé yrði veitt til verkefnis í tungutækni og var verkinu hrundið af stað haustið 1998, þegar ég réð Rögnvald Ólafsson eðlisfræðing til að kanna stöðu tungunnar með tilliti til upplýsingatækninnar. Hann fékk þá Eirík Rögnvaldsson, íslenskuprófessor við Háskóla Íslands, og Þorgeir Sigurðsson, rafmagnsverkfræðing og íslenskufræðing, hjá Staðlaráði Íslands til liðs við sig. Sömdu þeir skýrslu, sem menntamálaráðuneytið gaf út í apríl 1999.

 

Hinn 30. nóvember var efnt til ráðstefnu um framvindu þessa verkefnis, en því lýkur um næstu áramót. og þar gerði Rögnvaldur meðal annars grein fyrir því, hvernig að málum hefur verið staðið. Hann segir:

 

„Í skýrslunni [ apríl 1999] kom fram að þörf væri fyrir átak á sviði tungutækni til þess að tryggja stöðu íslenskrar tungu í upplýsingaþjóðfélaginu. Slíkt átak þyrfti að gera með stuðningi hins opinbera og það mundi borga sig til lengri tíma litið. Átakið þyrfti að gera á fjórum sviðum:

 

*         Byggja upp sameiginleg gagnasöfn, málsöfn, sem geti nýst fyrirtækjum sem hráefni í afurðir

*          Hagnýtar rannsóknir á sviði tungutækni þyrfti að styrkja

*         Fyrirtæki ætti að styrkja til þess að þróa afurðir tungutækni

*          Menntun á sviði tungutækni og málvísinda yrði að efla

 

Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið fjallaði um skýrsluna og hún var síðan lögð fyrir ríkisstjórnina og í framhaldi af því lagði þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason til að fé yrði veitt til þessara mála. Á fjáraukalögum 2000 var 40 milljónum króna veitt til tungutækni og á fjárlögum 2001 64,5 milljónum króna. Alls voru því 104,5 milljónir króna til ráðstöfunar á árinu 2001. Á árunum 2003 og 2004 var síðan veitt 28,5 milljónum króna til verkefnisins þannig að alls hefur verið veitt 133 milljónum króna til þess.

 

Í stuttu máli má segja að tilgangur Tungutækniverkefnisins sé að koma fótum undir tungutækni á Íslandi. Í því felst að byggja upp þekkingu á viðfangsefninu og þá gagnagrunna sem þarf til þess að hægt sé að nýta íslenskt mál, bæði ritað og mælt í nýjustu samskipta- og tölvutækni, 

 

Þegar Tungutækniverkefnið fór af stað var lítil sem engin þekking hér á landi á þessu sviði. Smátt og smátt byggðist þekkingin upp og nú í lok árs 2004 hefur ákveðnum áföngum þegar verið náð og aðrir eru í sjónmáli. Þegar Tungutækniverkefninu lýkur í árslok 2004 á tungutæknin að vera komin á það stig að hún þurfi ekki lengur sérstakan stuðning heldur  geti hún sótt um styrki í hið almenna styrkjakerfi. Síðustu verkum sem Tungutækniverkefnið hefur styrkt mun þó ekki ljúka fyrr en á árinu 2005 og einu ekki fyrr en 2007.“

 

Lokaorð Rögnvalds eru þessi:

„Segja má að öllum helstu markmiðum Tungutækniverkefnisins hafi verið náð eða að þau náist á næstu árum þegar verkefnum sem styrkt hafa verið lýkur. Eins og fyrr sagði hefur um 133 milljónum króna verið veitt til verksins. Kostnaður við verkefnið hefur verið mun minni en ætlað var í upphafi. Kemur þar margt til, m.a. að ýtrustu hagsýni hefur verið gætt, reynt hefur verið að byggja sem mest á reynslu annarra þjóða og síðast en ekki síst hafa fyrirtæki og stofnanir lagt í verkið, fé, tíma og fyrri verk. Þótt mikill árangur hafi orðið og markmið Tungutækniverkefnisins hafi náðst, er enn margt ógert á sviði tungutækni, til dæmis vantar góðan íslenskan talgervil og vélrænar þýðingar á texta. Eigi íslenska að vera tungumál sem nýtir nýja tækni þarf áfram að rannsaka og þróa hvernig málið samhæfist tækni hvers tíma.“

Af þessu má ráða, að undir forystu Rögnvalds, verkefnisstjórnar undir formennsku Ara Arnalds verkfræðings og samstarfsmanna þeirra hafi verið vel af verki staðið við að stýra verkefninu og gera það sjálfbært. Ef menn lesa margt af því, sem sagt var á þeim tíma, þegar vinna við verkefnið var að hefjast, má sjá, að sumir töldu ekki unnt að ná markverðum árangri á þessu sviði nema stórfé, jafnvel milljörðum króna yrði varið til þess af hinu opinbera.

Rætt er um verkefnið í forystugrein Morgunblaðsins hinn 2. desember og hefst hún á þessum orðum: „Tungutækniverkefnið, sem hrundið var af stað 1998 og lýkur um áramótin, er eitthvert merkilegasta verkefni sem unnið hefur verið í þágu íslenzkrar tungu.“

Til Rómar.

Ég gat ekki sótt ráðstefnuna um tungutækni 30. nóvember, þar sem ég hélt þann dag til Rómar til að taka þátt í 50 ára afmælisráðstefnu Atlantic Treaty Association (ATA), þar sem fjallað var um samstarf Evrópu og Ameríku í öryggismálum, og ræða við fulltrúa Páfagarð auk þess sem ég heimsótti höfuðstöðvar Karmelreglunnar, en í Hafnarfirði eru pólskar nunnur af þessari reglu.

Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um breytingar á ráðstöfunum til að tryggja öryggi þjóða vegna óttans við hryðjuverkaárásir. Miðjarðarhafssvæðið er undir smásjá vegna þessa og ráðstafanir til að fylgjast með ólögmætri starfsemi þar hafa verið stórauknar, bæði til að stemma stigu við hættunni á hryðjuverkum og til að halda aftur af ólögmætri för fólks frá Norður-Afríku til Evrópu eða inn á Schengen-svæðið.

Fyrirlestur var fluttur um það, hvort NATO gagnaðist Evrópuþjóðum til samstarfs við bandaríska heimavarnarráðuneytið. Þegar verkefni ráðuneytisins eru skoðuð sést, að þau falla ekki að hlutverki NATO og þess vegna var það niðurstaða fyrirlesara, að Evrópusambandið væri hinn rétti samstarfsaðili bandaríska ráðuneytisins, en það gæti ekki sinnt verkefni sínu nema í samstarfi við aðrar þjóðir.

Ég sannfærðist um það í kynnisferð minni til Washington í maí sl., þegar ég heimsótti meðal annars heimavarnarráðuneytið, að þar gera menn sér glögga grein fyrir því, að þeir ná ekki markmiðum sínum nema í samstarfi við aðra. Var fróðlegt að heyra þessa greiningu á hlutverki NATO annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar, þegar tekist er á við hættuna frá hryðjuverkamönnum. Við Íslendingar tengjumst samstarfi Evrópuþjóðanna á þessum vettvangi í gegnum Schengen-samstarfið. Á hinn bóginn hefur ekki verið mikil umræða um þennan þátt öryggismálanna á opinberum vettvangi hér á landi.

 

*

Ég hitti fulltrúa utanríkisráðuneytis Vatíkansins og ræddum við skipan íslenskra kirkjumála, öflugt starf katólsku kirkjunnar hér og ýmis alþjóðamál. Einnig hitti ég yfirmann þeirrar stofnunar katólsku kirkjunnar, sem fer með samkirkjuleg málefni. Hann hefur góða sýn yfir þróun trúmála um heim allan og miðlaði mér fróðleik af mikilli þekkingu sinni.

„Friar“ er á íslensku þýtt með orðunum förumunkur eða betlimunkur og í höfuðstöðvum Karmelreglunnar skammt frá Vatíkaninu hitti ég Friar Karol, sem er Pólverji en var kallaður til starfa í Róm,  til að sinna fámennu Karmelklaustri þar og starfa jafnframt sem sóknarprestur í basilíku heilags Pancrazio.

Að lokinni máltíð fórum við um húsakynni reglunnar, en þarna rekur hún skóla og starfrækir bókasafn, þar sem er að finna allt, sem skráð hefur verið á bók um Karmelregluna.

 

Síðdegis ókum við með bróður Karol út fyrir Róm og heimsóttum klaustur í nágrenni borgarinnar og fengum að skoða það. Ef til vill segi betur frá þessu einstaka síðdegi hér á síðunni síðar.

Spenna í Úkraínu.

Atburðarásin í Úkraínu eftir að ljóst varð, að svik voru í forsetakosningunum, er þess eðlis, að þar gæti orðið kveikjan að heimspólitískri spennu, sem minnti ekki á annað en kalda stríðið. Forystumenn Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa nálgast deilurnar í Úkraínu af festu án þess að segja neitt, sem verði talin ögrun við Rússa. Vladimir Pútin Rússlandsforseti lét að sér kveða í kosningabaráttunni og er augljóst, að það særir hið rússneska þjóðarstolt, ef annar en skjólstæðingur Moskvuvaldsins nær forsetaembættinu.

Hæstiréttur Úkraínu hefur komist að þeirri niðurstöðu, að endurtaka eigi kosning milli þeirra Viktors Jústsjenkós og Viktors Janúkóvitsj, sem sigraði með kosningasvindli í síðari umferð kosninganna 21. nóvember sl. Samkvæmt niðurstöðu réttarins verður kosið að nýju 26. desember.

Stuðningsmenn Viktors Janúkóvitsj vildu margir, að rétturinn hefði mælt svo fyrir, að endurtaka ætti allt forsetakosningaferlið, svo að þeir gætu valið nýjan frambjóðanda, þar sem augljóst er af því, sem gerst hefur síðan 21. nóvember, að Janúkóvitsj kallar fólk til harðra mótmæla á götum úti og seint mun skapast sátt um hann vegna svindlsins 21. nóvember.

Niðurstaða hæstaréttar Úkraínu er til þess fallin að efla trú manna á stjórnkerfi landsins. Næstu vikur verður fylgst með því, hvort Pútín og hans menn í Rússlandi láta enn að  sér kveða  við kosningar í þessu nágrannaríki sínu.