28.11.2004

Skattar lækka – barátta Guðmundar Sesars – norræn sakamál.

Sjálfstæðismenn efndu til fjölmenns fundar á Grand hótel að morgni laugardagsins 27. nóvember, þar sem Geir H. Haarde, varaformaður flokks okkar og fjármálaráðherra, skýrði á glöggan og rökvísan hátt meginefni skattabreytinganna, sem kynntar voru með frumvarpi því, sem hann flutti á alþingi þriðjudaginn 23. nóvember.

Með frumvarpinu og þeim breytingum, sem þar er að finna, er verið að efna meginloforð okkar fyrir síðustu kosningar, en Davíð Oddsson tók af skarið í kosningabaráttunni um það efni, að skattar skyldu lækkaðir. Rökin fyrir því að fara þá leið eru skýr fyrir þá, sem á annað borð hafa þá stjórnmálaskoðun, að skattheimtu skuli stillt í hóf, svo að einstaklingar geti ráðstafað aflafé sínu sem mest sjálfir.

Rökin eru þau, að hin árangursríka stefna í efnahags- og atvinnumálum, sem fylgt hefur verið undir stjórnarforystu sjálfstæðismanna í rúm þrettán ár, er að skila þjóðarbúinu miklu í aðra hönd. Með því að lækka skatta er ríkisvaldið að tryggja, að stærri hlutur en ella væri, verði eftir í hendi borgaranna – hér er alls um 22 milljarði að ræða, þegar litið er fram til ársins 2007. Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir 10 milljarða afgangi, þótt fyrsta skrefið til lækkunar skatta sé stigið þá.

Geir H. Haarde sagði réttilega, að hér væri um hápólitískt mál að ræða. Við afgreiðslu þess skilur á milli feigs og ófeigs, þegar litið er til hefðbundinna pólitískra deilna á milli þeirra, sem vilja láta ríkisútgjöld ráða skattheimtu, og hinna, sem vilja setja ríkisútgjöldum skorður og þar með skattheimtu.

 

Fleyg urðu þau gamansömu orð Ronalds Reagans: að fjárlagahallinn væri orðinn nógu stór til að sjá um sig sjálfur! Reagan hafði meiri áhyggjur af þeim, sem ríkisvaldið væri að sliga með of þungum sköttum, enda lækkaði hann skatta og lagði grunn að góðu hagvaxtarskeiði í Bandaríkjunum. Hið sama hefur George W. Bush verið að gera í forsetatíð sinni.

 

Skattalækkunarstefna er í hróplegri andstöðu við viðhorf, sem ég kynntist á fundi okkar norrænna menntamálaráðherra, þegar rætt var um, hvort taka bæri upp skólagjöld á háskólastigi. Ég reifaði þá skoðun mína, að háskólar yrðu ekki samkeppnisfærir, ef þeim yrði haldið í viðjum ríkisútgjalda – þeir myndu gjalda þess gagnvart einkareknum keppinautum sínum eða háskólum, sem hefðu heimild til að innheimtra skólagjöld. Þá sagði sænski ráðherrann, að hann gæti ekki fallist á það viðhorf, að hinn almenni borgari hefði meira á vit á því en stjórnmálamaðurinn eða stjórnvöld, hvernig fé skyldi varið til háskólanáms. Þess vegna teldi hann, að hækka ætti skatta, ef meira fé skorti til háskólanna, og stjórnmálamennirnir ættu að skipta því fé á sínum forsendum!

 

Þessi tvenns konar viðhorf sjáum við í stjórnmálaumræðum um skatta hér á landi. Vinstri/grænir vilja ekki lækka skatta. Innan Samfylkingarinnar togast á sjónarmið í afstöðunni til skattalækkunar, gömlu alþýðubandalagsmennirnir sjá eftir hverjum eyri, sem ríkið tekur ekki úr vasa borgarans. Gömlu kratarnir eru hallari undir það sjónarmið, að skattheimtu skuli stillt í hóf.

 

Geir H. Haarde brá upp glæru í ræðu sinni til að sýna okkur fundarmönnum svart á hvítu, hver hefði verið afstaða Samfylkingarinnar til lækkunar virðisaukaskatts á matvæli í mars 2003, það er í aðdraganda þingkosninganna í maí 2003. Samtök verslunar og þjónustu spurðu stjórnmálaflokkana, hvort þeir hefðu á stefnuskrá sinni að lækka virðisaukaskatt á matvörur og svar Samfylkingarinnar var eitt orð og skýrt: Nei!

 

Nú stendur það upp úr Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, að það hefði auðvitað átt að lækka virðisaukaskatt á matvörur! Hringdlandahátturinn er algjör í þessu máli eins og öðrum.

 

Staðreynd er, sem Davíð Oddsson sagði á sínum tíma, og Geir H. Haarde endurtók í lok ræðu sinnar á Grand hótel: Engin skattalækkun án Sjálfstæðisflokksins! Með öðrum orðum, beiti Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki fyrir lækkun skatta, verða þeir ekki lækkaðir.

 

Andstæðuna við fjármálastjórn ríkisins er auðveldast að sjá með því að líta til R-listans í Reykjavík. Ég hef í tveimur greinum í Morgunblaðinu nú í vikunni 22. og 27. nóv. vakið máls á þeim mikla mun, sem er á fjármálastjórn Reykjavíkurborgar annars vegar og ríkisins hins vegar.

 

R-listinn ætlar að hrifsa hluta af skattalækkuninni af okkur Reykvíkingum með hækkun útsvarsins – mér heyrist Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og oddviti hennar í borgarstjórn, vera sama sinnis og sænski kratinn: Við þurfum meira fé til skólanna, þess vegna hækkum við skattana. Við vitum betur en hinn almenni borgari, hvernig á að fara með fjármuni, þess vegna ætlum við að ná meira fé af honum. ( Innan sviga er rétt að minna á, að sem formaður fræðsluráðs hefur Stefán Jón ekki aðeins lagst hart gegn öllum hugmyndum um einkarekstur grunnskóla heldur einnig unnið að því leynt og ljóst að koma Ísaksskóla og Landakotsskóla á kaldan klaka.)

 

Geir H. Haarde sagði í ræðu sinni, að með því að lækka skuldir ríkissjóðs undanfarin ár hefði verið unnt að draga úr vaxtagreiðslum ríkisins af lánum um 11 milljarði króna. Það munar um annað eins – en þróunin hjá Reykjavíkurborg er í öfuga átt, þar hækka skuldirnar jafnt og þétt, en þeim er aðeins sópað undir teppið, þegar R-listinn er sýna búið sitt og hreykja sér af því. Skuldir í dag eru hins vegar skattar á morgun hjá opinberum aðilum, hvort heldur ríki eða borg.

 

Morgunblaðið er himinlifandi yfir því í forystugrein laugardaginn 27. nóvember, að fleiri konur hafi verið ráðnar sem sviðsstjórar hjá Reykjavíkurborg– ég óska öllum nýju sviðsstjórunum til hamingju og farsældar í starfi.

 

Í sömu andrá og forystugreinin er lesin er rétt að hafa í huga, að Kvennalistinn sálugi barðist undir því kjörorði í efnahagsmálum, að þar ættu sjónarmið hinnar hagsýnu húsmóður að ráða. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk frá Kvennalistanum dauðum á sínum tíma og einnig því kjörorði hans í efnahagsmálum, að flokkskonur tryggðu, að viðhorf hinnar hagsýnu húsmóður réðu við opinbera fjármálastjórn. Skulda- og skattastefna R-listans er ekki til marks um hagsýni. Hvort sem konur eða karlar eru við stjórnvölinn, skiptir auðvitað mestu fyrir þá, sem stjórnað er, hvernig haldið er á málum – illa hefur verið haldi á fjármálum Reykjavíkurborgar síðustu 10 ár.

 

 

Barátta Guðmundar Sesars.

 

Ein af þeim bókum, sem ég hef fengið fyrir jólinn er bókin Sigur í hörðum heimi,  sögu föður sem lagði allt í sölurnar fyrir dóttur sína, sem Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir (öflugur bloggari) skráir eftir frásögn föðurins, Guðmundar Sesars Magnússonar.

 

Ég hafði ekki setið lengi á stóli dóms- og kirkjumálaráðherra, þegar Guðmundur Sesar kom á minn fund og rakti fyrir mér baráttu sína í þágu dóttur sinnar, sem hafði dregist inn í fíkniefnaheiminn. Við ræddum lengi saman og áttaði ég mig á því, hve Guðmundi Sesari var mikið í mun að ná sigri í þessu máli.

 

Á bls. 147 í bókinni segir Guðmundur Sesar:

 

„Við hjónin vorum ráðþrota í vandræðum með dóttur okkar og okkur var í ofanálag hótað af þeim sem vildu fá að selja henni eiturlyf óáreittir. Þá áttu bæði Barnaverndarnefnd og lögreglan að axla sína ábyrgð og gera eitthvað í málunum strax. Til þess voru þessi apparöt búin til, eins og svo mörg önnur sem samfélagið þarf reglulega á að halda.“

 

Ég er ekki sammála þeirri ályktun Guðmundar Sesars, að þær stofnanir, sem sinna þessum verkum hér hjá okkur séu „ónýtar“ eins og hann orðar það. Á hinn bóginn er ljóst, að stöðugt þarf að laga starfsemi þeirra að breyttum aðstæðum. Ég tel, að lögreglan í Reykjavík hafi lagt sig fram í því efni og enn er verið að stíga mikilvæg skref um þessar mundir, þegar auglýst er eftir 25 nýjum lögreglumönnum í Reykjavík og tilkynnt, að þeir muni enn frekar en áður sinna hverfalöggæslu.

 

Guðmundur Sesar beinir athygli að vinnubrögðum í fíkniefnaheiminum, ofbeldi og hótunum. Að sjálfsögðu ber opinberum aðilum, lögreglu og öðrum, að snúast gegn þessum ofbeldisverkum innan þeirra marka, sem lög heimila.

 

Í ræðu, sem ég flutti á aðalfundi Dómarafélags Íslands á dögunum, komst ég meðal annars svo að orði;

 

„Rétturinn til málsvarnar má ekki verða til þess, að rannsókn máls verði þrautum lagt völundarhús, sem ekki skilar réttri niðurstöðu nema endrum og eins.Réttur borgaranna til að mál séu upplýst og að sekir menn sleppi ekki, má ekki verða til þess, að ákærður maður geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér og varist því, sem hann er sakaður um. Hér þarf að fara þann meðalveg, sem skynsemi og sanngirni bjóða, og það er að mínu mati sjálfsagt, að lög um meðferð opinberra mála séu skoðuð með það í huga, hvernig þau sinna sínu hlutverki á hverjum tíma.“

 

Norræn sakamál.

 

Í bók sinni segir Guðmundur Sesar frá máli tengdu brotaflokki, fíkniefnaneyslu, þar sem seint verður upplýst allt, sem þörf er að draga fram í dagsljósið. Í bókinni Norræn sakamál er á hinn bóginn að finna frásagnir af úrvali upplýstra sakamála á Norðurlöndunum.

 

Í bókinni er unnt að kynnast því í endursögn lögreglumanna, hvernig að því hefur verið staðið að upplýsa flókin sakamál. Bókin hefur að geyma lýsingar á störfum rannsóknarlögreglumanna og leiða þær í ljós, að þar er síður en svo um „ónýtar“ stofnanir að ræða.

 

Fjórða bindi Norrænna sakamála er að koma út um þessar mundir og er hún gefin út að tilhlutan Íþróttasambands lögreglumanna. Í bókinni er að finna fjórtán frásagnir þar af þrjár frá Íslandi: Skeljungsránið eftir Árna Þór Sigmundsson, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík; Trúaði barnaníðingurinn eftir Kristján Inga Kristjánsson, rannsóknarlögreglumann í Reykjavík; Allt er hey í harðindum eftir Árna Þór Sigmundsson, þar sem hann segir frá þjófnaði á flaghefli og stórri heyrúllubindivél af gerðinni Totter, þeirri einu sinnar tegundar á landinu.

 

Eins og vitað er nýtur lögreglan mikils trausts og virðingar meðal okkar Íslendinga. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þetta traust muni aðeins vaxa við lestur Norrænna sakamála auk þess sem skilningur á starfsumhverfi lögreglumanna og skyldum þeirra til að leita af sér allan grun um sekt þess, sem er rannsóknar, sé til þess fallinn að eyða misskilningi, sem kann að ríkja um heimildir lögreglu til að svipta fólk frelsi.