10.11.2004

Nýr borgarstjóri – leyndarhyggja í orkuveitustjórn – nýir stjórnarhættir?

Þórólfur Árnason tilkynnti um afsögn sína sem borgarstjóri í beinni útsendingu klukkan 18.00 þriðjudaginn 9. nóvember á blaðamannafund í Höfða. Kom það mér ekki á óvart, að hann skyldi komast að þessari niðurstöðu, bæði vegna þáttar hans í samráði olíufélaganna samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar og vegna andstöðu við hann innan R-listans, sem virtist fara vaxandi eftir því sem viðtölum við hann fjölgaði í fjölmiðlum. Tveir þingmenn lýstu opinberlega stuðningi við Þórólf, þeir Guðmundur Árni Stefánsson og Mörður Árnason í Samfylkingunni.

Ég hafði fréttir af því, að sumir í R-listanum töldu, að nú ætti að nota tækifærið til að segja skilið við hann, en hið sama varð ofan á og áður, að enginn treysti sér til að stíga fyrsta skrefið til þess opinberlega.

Ágreiningur var eðlilega um eftirmann Þórólfs en nú varð ofan á innan hópsins, að velja einn úr honum í stað þess að leita út fyrir hann. Dagur B. Eggertsson og Stefán Jón Hafstein voru að eigin dómi og líklega einhverra fleiri sjálfsagðir í borgarstjórastólinn – en þeim kemur svo illa saman, að í þriggja manna nefnd, þar sem þeir sitja með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, til að ræða um fjölmenningarmál, líta þeir báðir á sig sem formann, án þess að hann hafi verið kjörinn, og sitja sitt við hvorn borðsenda til að árétta stöðu sína og virðingu, og gefa hvor öðrum orðið til skiptis.

 

Niðurstaða langra funda R-listafólks um eftirmann Þórólfs lá fyrir klukkan 18.30 miðvikudaginn 10. nóvember, þegar þau komu þrjú fram á blaðamannafundi í ráðhúsinu Stefán Jón, Anna Kristinsdóttir í framsókn og Árni Þór Sigurðsson vinstri/grænn. Anna setti fundinn og gaf Stefáni Jóni orðið til að kynna, að flokkssystir hans Steinunn Valdís Óskarsdóttir úr Samfylkingunni hefði orðið einróma fyrir valinu. Með þessu hefur Stefán Jón viljað sýna ótvírætt, að hann væri ekki ósáttur við valið.

Seta þeirra þriggja þarna við ræðupúltið staðfesti enn, að ákvarðanir R-listans um þessi mál eru teknar af þröngum hópi fólks, sem ber ekki síst eigin hag og völd fyrir brjósti og telur sig ekki þurfa að leita eftir umboði út fyrir hópinn eða leggja ákvarðanir sínar fyrir neina félagsfundi eða fulltrúaráð. Það er helst meðal vinstri/grænna, þar sem menn verða varir við pólitískt samráð við umbjóðendur kjósenda. Minnst félagsleg virkni er innan Samfylkingarinnar, þar sem flokksbroddarnir leggja mesta áherslu á samræðustjórnmál - í þessu tilviki eru það greinilega samræður þeirra, sem beinna hagsmuna hafa að gæta,  bak við luktar dyr.

 

Ingibjörg Sólrún sást hvergi í fjölmiðlum vegna skiptanna þennan miðvikudag, en hún var bæði í Íslandi í dag og Kastljósi að kvöldi þriðjudagsins til að ræða afsögn Þórólfs og árétta nauðsyn þess, að einn úr R-listahópnum yrði valinn í hans stað. Hvers vegna hlutur hennar var gerður svona mikill af þessu tilefni, er óljóst, það var engu líkara en þetta væri skipulagt til að hún gæti rétt hlut sinn vegna falls Þórólfs, sem hún ábyrgðist hann á sínum tíma gagnvart R-listanum. Kannski var það vegna þess, að hún komst að lokum að þeirri niðurstöðu, að R-listinn gæti ekki staðið vörð um borgarstjórann sinn, án þess að lenda í því að standa vörð um samráð olíufélaganna?

 

Ég óska Steinunni Valdísi til hamingju með embættið!

 

Ég gat ekki skilið orð Steinunnar Valdísar um pólitíska framtíð á annan veg en þann, að allt væri óljóst um, hvort hún yrði sameiginlegur frambjóðandi R-listans í næstu borgarstjórnarkosningunum. Framsóknarmenn í Reykjavík norður vildu velja borgarstjóra utan borgarstjórnarflokksins. Í blöðum var sagt, að Björk Vilhelmsdóttir, vinstri/græn, hefði alls ekki mátt heyra á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn minnst og hefði Árni Þór orðið að sætta sig við það, þá kom fram, að sjálfstæðismenn gætu ekki unnið með framsóknarmönnum nema tryggt væri, að Alfreð Þorsteinsson sæti ekki áfram sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Steingrímur Ólafsson, fyrrverandi formaður vinstri/grænna í Reykjavík, ritar forvitnilega grein um Orkuveitu Reykjavíkur í Morgunblaðið þriðjudaginn 9. nóvember, þar sem segir meðal annars:

 

„Nú hefur það gerst að undanfarna mánuði hefur borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Guðlaugur Þór Þórðarson, sem jafnframt á sæti í stjórn OR, farið þess ítrekað á leit að fá upplýsingar um hver hin raunverulega staða þeirra dóttur- og skúffufyrirtækja sem um ræðir er. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að hann er lýðræðislega kjörinn fulltrúi og hefur því væntanlega rétt til að fá aðgang að þessum gögnum. Það virðist vera sama hvað hann sendir inn margar fyrirspurnir um árshlutauppgjör, ársreikninga eða niðurstöðutölur hverskonar, aldrei fær maðurinn svar. Ýmist er það vegna anna þeirra sem eiga að svara fyrirspurnunum, það hefur gleymst að taka gögnin til eða að mönnum leiðast almennt svona fyrirspurnir. Ekki fæ ég séð að þessi framkoma í garð kjörins fulltrúa sé í anda gegnsæis, lýðræðislegrar umfjöllunar eða þess að koma böndum á óstjórn og óráðsíu. Hvað þá þeirrar samræðupólitíkur sem sumir stjórnmálamenn boða nótt sem nýtan dag. Þessi vinnubrögð ein og sér eru því algerlega óviðunandi.

 

Það hlýtur að vera krafa borgarbúa, hvort sem þeir styðja Reykjavíkurlistann eða önnur stjórnmálaöfl, að mál sem þessi séu sett upp á borðið og jafnframt gerð upp með einum eða öðrum hætti. Það er ekki trúverðugt að í sömu andrá og upplýsingum er haldið vísvitandi frá kjörnum fulltrúum sé sagt að í þeim sömu gögnum sé ekki neitt sem ekki megi líta dagsins ljós. Það er ekki í lagi að halda upplýsingum frá kjörnum fulltrúum í borgarstjórn. Það er ekki í lagi að fara þrjátíu og fimm- til fertugfalt fram úr upphaflegum áætlunum. Fram að þeim degi að þetta mál er gert upp hljóta Reykvíkingar að spyrja sig þeirrar einföldu spurningar hvað verið er að fela?“

 

Ég get borið það sem fyrrverandi stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, að leyndarhyggja stjórnarformannsins þar og forstjóra er með ólíkindum og líklega einsdæmi, að stjórnarmenn fái ekki þær upplýsingar, sem óskað er eftir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur tekið þátt í því með Alfreð í stjórn OR að neita óskum okkar sjálfstæðismanna um upplýsingar. Ég geri mér engar vonir um, að Alfreð Þorsteinsson breyti um stjórnarhætti í OR, en ég verð sífellt meira undrandi á því, hve langt samstarfsmenn hans í R-listanum og fulltrúar frá bæjarstjórn Akraness í stjórn OR eru tilbúnir að ganga í þá átt að halda aftur af opnum umræðum um málefni OR í sjálfri stjórn OR. Hinn nýi borgarstjóri hefur verið virkur þátttakandi í því að halda upplýsingum leyndum á þann veg, sem Steingrímur Ólafsson lýsir í grein sinni – þar er að finna orð í tíma töluð. Skora ég á vinstri/græna innan R-listans að fylgja þessari grein fyrrverandi formanns síns eftir á vettvangi borgarstjórnar og innan stjórnar OR.

 

Um leið og ég þakka Þórólfi Árnasyni samstarfið í borgarstjórn, tel ég, að hann hafi aldrei náð þeim takti, sem dugar til að eiga farsælt samstarf við pólitíska andstæðinga. Það mátti raunar oft ráða það af orðum hans á borgarstjórnarfundum, að honum þótti lítið til þess koma, þegar brugðið var pólitískum sverðum í umræðum þar. Stökk hann þá gjarnan upp á nef sér og vildi setja ofan í við okkur, lét ég oftar en einu sinni orð falla um það í umræðum, að ég þyrfti ekki siðaprédikanir frá borgarstjóra til að átta mig á því, hvernig ég „mætti“ haga orðum mínum. Þórólfur leit á sig sem „stjórnanda“ í okkar hópi, hann kynni „fagið“ stjórnun, væri því „fagmaður“ en við eitthvað allt annað eins og forverar hans úr röðum sjálfstæðismanna á borgarstjórastóli.

 

Það verður spennandi að sjá, hvaða svip Steinunn Valdís setur á borgarstjóraembættið og hvaða myndugleiki fylgir henni á borgarstjórnarfundum. Hún kemur þó úr röðum stjórnmálamanna og hefur háð baráttu sem slík. Henni er margur vandi á höndum, til dæmis sá að skapa að nýju stöðugleika í mannahaldi meðal helstu embættismanna Reykjavíkurborgar, en þar hefur verið upplausn og óvissa undanfarna mánuði.  Þá þurfa Reykvíkingar borgarstjóra, sem þorir að horfast í augu við hina hrikalegu skuldasöfnun borgarinnar og taka á því máli á annan veg en þann, að lýsa allt í himna lagi.