7.11.2004

Borgarstjóraóvissa.

Í fréttum sjónvarpsins klukkan 22.00 þriðjudaginn 26. októbervar sagt frá því, að Samfylkingin hefði þá um kvöldið efnt til fundar um framtíð R-listans. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi hefði verið málshefjandi og hafði sjónvarpið þetta beint eftir henni:

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að Þórólfur Árnason hann hafi staðið sig vel í stóli borgarstjóra og ég tel að flokkarnir eigi sem fyrsta kost að sammælast um að bjóða hann fram í 8. sætið. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ýmsir, bæði innan og hugsanlega utan borgarstjórnarflokks Reykjavíkurlistans horfi á stól borgarstjóra með vonarglampa í augum.“

 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins miðvikudaginn 27. október var þetta haft eftir Alfreð Þorsteinssyni, oddvita Framsóknarflokksins innan R-listans:

 

„Því að ef Reykjavíkurlistinn starfar áfram að þá finnst mér bara einboðið að Þórólfur Árnason verði í framboði fyrir listann og þá í baráttusæti.“

 

Í sama fréttatíma sagði Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna á R-listanum:

 

„Og við viljum frekar ræða þetta á grunni þeirra málefna sem að menn eru tilbúnir til þess að berjast fyrir og þannig munum við nálgast málið þegar þar að kemur.“

 

Fréttastofan hafði hins vegar eftir Þórólfi Árnasyni, að hann teldi ekki tímabært að ræða þessi mál og síðan orðrétt:

 

„Ja, ég hef náttúrulega ekkert ákveðið í þessu því ég tel það bara ekki tímabært og ég held að það sé best að flokkarnir sem standa að Reykjavíkurlistanum að þeir náttúrulega þurfa fyrst að ákveða hvort að þeir ætli að bjóða fram sameiginlega og mér bara þykir vænt um það þegar þeir flokkar sem standa að Reykjavíkurlistanum eru ánægðir með samstarfið við mig.

Nú síðan þegar að nær dregur kosningum þá er nú hefð fyrir því að flokkarnir og borgarstjóri fari yfir málin saman og væntanlega stilli upp sigurstranglegasta liðinu um þau málefni sem að þeir vilja berjast fyrir.“

 

 

Að morgni þriðjudagsins 2. nóvember er rætt við Árna Þór Sigurðsson á Morgunvaktinni í hljóðvarpi ríkisins, þar sem þessi orðaskipti verða:

 

Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur: Mér sýnist nú að það sé ýmislegt í þessu [skýrslu samkeppnisstofnunar sem er dagsett 28. október 2004] nýtt sem ekki hefur komið fram áður og það er þá eðlilegt að menn fari yfir það og skoði hvort að það hefur þá einhverjar afleiðingar í för með sér.

Óðinn Jónsson, fréttamaður RÚV: Þú ert þá að gefa í skyn væntanlega að þetta sé hugsanlega alvarlegra heldur en þú bjóst við?

Árni Þór Sigurðsson: Já ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál, ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég held að þjóðinni
allri séalgerlega misboðið við framferði olíufélaganna og þá að sjálfsögðu þeirra sem að því stóðu.

 

.........

 

 

Árni Þór Sigurðsson: Ég hef orðið var við mikla óánægju og mikinn urg, að minnsta kosti í mínu baklandi.

Óðinn: Ég hef séð traustsyfirlýsingar frá forystumönnum Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar en þú ert ekki tilbúinn að gefa út slíka traustsyfirlýsingu núna eða hvað?

Árni Þór Sigurðsson: Veistu Óðinn, ef ég á að vera alveg heiðarlegur með það þá get ég ekki svarað til um það mál á þessu stigi og ég ætla ekki að gera það. Ég hérna, mér finnst þetta vera svo stórt mál og alvarlegt að að ég vil fá ráðrúm til þess að fara betur í saumana á því. Ég hef aðeins rætt við lögmenn sem að hafa verið að koma nálægt þessu máli og ég vil fá líka tækifæri til þess að tala við mína félaga. Þannig að ég ætla að spara mér það á þessu stigi málsins, já.

 

 

 

Rætt er við Þórólf Árnason í fréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 þriðjudaginn 2. nóvember og orð falla á þennan veg:

 

Þórólfur Árnason, borgarstjóri: Það er óbreytt staða hvað varðar þá sem réðu mig til starfa. Það er Reykjavíkurlistinn og ég er að starfa fyrir almenning og það kom nú fram á fundinum að það ber engan skugga á samstarf okkar og ég er mjög þakklátur fyrir það eins og þið hafi fylgst með örugglega.

Ólöf Rún Skúladóttir fréttamaður: En Þórólfur, þú hlýtur miðað við þá umræðu sem að hefur verið í þjóðfélaginu núna að átta þig á að þetta getur haft veruleg áhrif á þína pólitísku framtíð. Þú ert, þú ert...

Þórólfur Árnason: Ég hef aldrei haft neinar áhyggjur af minni framtíð sérstaklega, hvað þá pólitískri. Ég er ráðinn hér til starfa sem borgarstjóri og ég sóttist ekki sérstaklega eftir þessu starfi þannig að ég hef aldrei gengið með einhverja mikla pólitíska framtíð í maganum. Ég hef alltaf hugsað, það er bara eitthvað sem að ég þarf að taka ákvörðun um þegar þar að kemur þannig að...

Ólöf Rún: Þannig að það fer svolítið eftir því hvernig viðrar hvort að þú ferð á þennan lista eða ekki?

Þórólfur Árnason: Mér heyrist þið hafa aðaláhugann á því hvort ég ætli í framboð eða ekki.

 

*




 

 

Í þessu máli hefur enn sannast að ein vika er langur tími í pólitík. Að kvöldi 2. nóvember héldu trúnaðarmenn vinstri/grænna í Reykjavík fund og þar kom fram, að Þórólfur Árnason nyti ekki „óvefengjanlegs trausts“, eins og sagði í frétt Bylgjunnar í hádeginu 3. nóvember.

 

Miðvikudagskvöldið 3. nóvember var ég í Kastljósi sjónvarpsins að ræða um kosningarnar í Bandaríkjunum, olíusamráðið og stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, sem var einn af lykilmönnum olíufélaganna, eins og sjá má á 127 færslum um hann í  tæplega 1000 síðna skýrslu Samkeppnisstofnunar, sem ákvað að fella þungar stjórnsýslusektir á olíufélögin.

 

Í þættinum gekk ég að því sem vísu, að vinstri/grænir mundu standa við þá ákvörðun sína að falla frá stuðningi við Þórólf á vettvangi R-listans. Síðar þetta sama kvöld var hringt í mig út tveimur ólíkum áttum til þess að segja mér, að þá um kvöldið hefði borgarstjórnarflokkur R-listans ákveðið að falla frá stuðningi við Þórólf sem borgarstjóra og helst væri rætt um Dag B. Eggertsson sem eftirmann hans, en líklega væri ekki full eining um hann.

 

Daginn eftir, fimmtudaginn 4. nóvember, var á forsíðu Fréttablaðsins frétt undir fyrirsögninni: Dagur verði borgarstjóri. Morgunblaðið hafði greinilega farið síðar í prentun þetta miðvikudagskvöld  en Fréttablaðið eða verið varkárara, því að á forsíðu þess fimmtudaginn 4. nóvember stóð þetta:

 

„Um tíma í gær var samkvæmt heimildum Morgunblaðsins útlit fyrir að Þórólfi yrði gert að segja af sér í dag, virtist sem samstaða gæti orðið um að Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjóra og „kláraði kjörtímabilið“ eins og það var orðað, en ljóst væri að ekki yrði leitað út fyrir raðir borgarfulltrúa R-listans að næsta borgarstjóra. Í gærkvöldi breyttist þetta og fær Þórólfur nú ráðrúm til þess að fara yfir málið, jafnvel fram í næstu viku. Óvíst er hvað þá gerist, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er inni í myndinni að hann muni þá láta af embætti.“

 

Í Morgunblaðinu sagði einnig:

 

„Að loknum fjögurra tíma fundi [borgarstjórnarflokks R-listans] kom Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi fram á tólfta tímanum og las eftirfarandi samþykkt flokksins fyrir fréttamenn, sem hefði verið samhljóða:

 

„Borgarstjórnarflokkur Reykjavíkurlistans telur að umræða síðustu daga um skýrslu Samkeppnisstofnunar hafi gert stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra erfiða. Borgarstjórnarflokkurinn vill gefa Þórólfi tóm til að kynna sjónarmið sín fyrir borgarbúum. Borgarfulltrúar og borgarstjóri eru sammála um að leiða málið sameiginlega til lykta.““

 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 fimmtudaginn 4. nóvember urðu þessi orðaskipti:

 

Róbert Marshall [fréttamaður]: Stefán, hvað er í gangi núna?

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi (R): Æ, fyrirgefðu...

Róbert: Allt í lagi. Hvað stendur til?

Stefán Jón Hafstein: Fundur.

Róbert: Þið eruð að fara til fundar við væntanlega borgarstjóra til þess að kynna honum einhverja ákvörðun eða hvað?

Stefán Jón Hafstein: Við erum bara að fara á fund.

Róbert: Er þetta eðlileg framkoma við hérna borgarbúa sem vilja fá fréttir af því sem er að gerast í borginni?

Stefán Jón Hafstein: Já, já.

Róbert: Æðstu stjórn borgarinnar? Er það fyrir þetta sem að Reykjavíkurlistinn stendur núna?

Stefán Jón Hafstein: Fyrir hvað? Að svara ekki hrópum og köllum?

Róbert: Fyrir launung og að, fundi í bakherbergjum?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarfulltrúi (R): Málið snýst um það fyrir alla sem standa að Reykjavíkurlistanum. Geta þeir staðið vörð um borgarstjórann sinn án þess að lenda í því að standa vörð um þetta samráð olíufélaganna sem allir fordæma að sjálfsögðu.

Róbert: Geta þeir það?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Þetta er vandamálið.

Róbert: En geta þeir það?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Þetta er vandamálið eins og ég segi og þetta er það sem við erum með til úrlausnar.


 

Á forsíðu Fréttablaðsins föstudaginn 5. nóvember var þessi fyrirsögn: Þórólfur neitar að hætta. Í fréttinni er sagt frá því, að borgarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks í R-listanum hefðu á fundinum á miðvikudagskvöld lýst yfir stuðningi við Þórólf en engu að síður orðið sáttir við tillögu vinstri/grænna um að Þórólfur hætti störfum. Það hefði hins vegar komið mönnum í opna skjöldu, að Þórólfur neitaði að segja starfi sínu lausu, niðurstaðan hefði þá orðið, að hann fengi tóm til að kynna sjónarmið sín, en viðmælendum Fréttablaðsins bæri engu að síður saman um, að Þórólfur yrði látinn segja af sér á næstu dögum.

 

Fimmtudaginn 4. nóvember var Þórólfur í Íslandi í dag á Stöð 2 og Kastljósi sjónvarpsins, þá hefur birst við hann viðtal í Morgunblaðinu laugardaginn 6. nóvember og í Fréttablaðinu sunnudaginn 7. nóvember. Á þennan veg hefur hann kynnt mál sitt.

 

Sunnudaginn 7. nóvember er Fréttablaðið með skoðanakönnun og spyr um afstöðu almennings til Þórólfs. 55,6% eru þeirrar skoðunar, að hann eigi að segja af sér vegna olíumálsins en 44% telja afsögn hans ekki nauðsynlega. Fréttablaðið ber þessa niðurstöðu undir Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem segir, að sér finnist þetta ekki mjög mikill stuðningur við Þórólf, stuðningur við hann sem borgarstjóra hafi „að miklu leyti fjarað út.“

 

Þessari sögu um óvissa tíma borgarstjórans í Reykjavík er ekki lokið. Þegar hún er lesin er nauðsynlegt að hafa í huga, að við ráðningu Þórólfs á sínum tíma skýrði hann Ingibjörgu Sólrúnu frá því, að hann ætti þetta samráðsmál olíufélaganna yfir höfði sér og sagði hún frá þessu samtali þeirra í viðtali við Stöð 2 25. júlí 2003 með þessum orðum: „Hann sagist ekki geta greint mér frá efnisatriðum málsins þar sem þetta væri trúnaðarmál á þessu stigi og ég spurði hann bara að því hvort að það væri eitthvað sem að hann persónulega gæti ekki staðið undir og sagði hann svo ekki vera. Ég treysti bara hans dómgreind í því.“ Þetta var einnig til umræðu við Ingibjörgu Sólrúnu í fréttatíma sjónvarpsins 25. júlí 2003 og þar sagði hún: „Og ég spurði náttúrlega hvort það væri eitthvað í skýrslunni [frumskýrslu samkeppnisstofnunar, sem var lekið til fjölmiðla á þessum tíma] sem að hann gæti ekki varið persónulega og hann sagði svo ekki vera og ég treysti hans dómgreind, hef gert það hingað til og mun gera það hér eftir.“

 

Fjallað var um lekann á þessar frumskýrslu hér á síðunni á sínum tíma, meðal annars 2. ágúst 2003 en þar segir meðal annars:

 

„Í orrahríðinni vegna starfa Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í viðskiptalífinu fyrir ESSO hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, sem ræddi í trúnaði um þessi mál við Þórólf, áður en hann varð borgarstjóri, sagt, að Þórólfur hefði ekki orðið borgarstjóri, ef menn hefði órað fyrir orrahríðinni núna á þeim tíma, þegar Þórólfur var valinn. Vísar Ingibjörg Sólrún nú á neikvæðan hátt til reynslu Þórólfs úr viðskiptalífinu, þvert á orð hennar um ágæti reynslunnar, þegar hún kynnti Þórólf sem eftirmann sinn. Í fréttum á Stöð 2 að kvöldi 30. júlí [2003] spurði Eva Bergþóra Guðbergsdóttir Ingibjörgu Sólrúnu:

 

„Hefðirðu vitað það sem þú veist í dag hefðirðu samt mælt með því að hann [Þórólfur] yrði ráðinn í þessa stöðu?“

 

Ingibjörg Sólrún svaraði:

 

„Það er önnur saga vegna þess að auðvitað er þessi orrahríð sem hann er að fara í gegnum mun meiri heldur hún væri ella ef hann hefði verið í einhverju öðru starfi. Og ég er ekki viss um að ef Þórólfur hefði sjálfur gert sér grein fyrir því að þetta kynni að kom upp með þessum hætti að þá hefði hann yfirleitt þegið þetta starf. Pólitíkin er grimm og hún er miklu grimmari heldur en ég held að Þórólfur hafi gert sér grein fyrir og hann er úti á miklu bersvæði vegna þess hann er í þessari stöðu. Meira  bersvæði heldur en aðrir þeir sem að um er fjallað í skýrslu samkeppnisstofnunar og ég hugsa að enginn hefði eða menn hefði órað fyrir þessu að þá hefði hvorki hann né aðrir hugað að þessu starfi.“

 

Þetta sagði Ingibjörg Sólrún, þegar frumskýrslunni hafði verið lekið. Nú liggur skýrsla samkeppnisstofnunar fyrir í heild sinni og einmitt þess vegna er Þórólfur Árnason í þeirri stöðu, sem við blasir. Hann ræddi það við Ingibjörgu Sólrúnu í janúar 2003, að mál gætu þróast á þenna hátt, og 30. júlí 2003 segir Ingibjörg Sólrún, að hvorki Þórólfur né aðrir hefðu hugað að borgarstjórastarfinu fyrir Þórólf, ef nokkurn hefði órað fyrir umræðunum í júlí 2003 um hlut Þórólfs. Þær voru þó aðeins forsmekkurinn að því, sem nú er að gerast, og þá segir Ingibjörg Sólrún málið snúast um það fyrir alla, sem standa að Reykjavíkurlistanum, hvort þeir geti staðið vörð um borgarstjórann sinn, án þess að lenda í því að standa vörð um þetta samráð olíufélaganna, sem allir fordæmi að sjálfsögðu.

 

Þórólfur Árnason hefur lagt höfuðáherslu á það í fjölmiðlasamtölunum síðustu daga, að hann fagni því sérstaklega, að niðurstaðan varðandi stöðu hans sjálfs verði sameiginleg ákvörðun hans og R-listans. Erfitt er að átta sig á því nákvæmlega, hvað felst í því, að þetta sé sameiginlegt viðfangsefni, því að R-listinn sviptir Þórólf ekki rétti til uppsagnar og Þórólfur getur ekki hindrað, að R-listinn ákveði að slíta við hann ráðningarsamninginn. Hvorugur getur talið sér fært að gangast undir, að um bræðrabyltu verði að ræða, ef niðurstaðan er sú, að ekki sé unnt að skilja á milli borgarstjórans og olíufélaganna á grundvelli skýrslu samkeppnisstofnunar.

 

Frá sjónarhóli þeirra, sem bera hag Reykjavíkurborgar fyrir brjósti, er þessi óvissa um borgarstjórann alvarleg á þeim tíma, þegar síðustu hönd á að leggja á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2005. Þá er einnig óvissa í stjórnkerfi borgarinnar almennt vegna breytinga á því og vegna þess að allir æðstu stjórnendur borgarinnar hafa sýnt, að þeir vilja gjarnan komast til starfa annars staðar. Borgarverkfræðingur, sem hafði starfað í nokkra mánuði, hefur ráðið sig sem sparisjóðsstjóra í Hafnarfirði. Borgarlögmaður hvarf til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sá sem kom í stað hans hætti eftir nokkra mánuði og þá var ákveðið að fela skrifstofustjóra borgarstjórnar að gegna embættinu til bráðabirgða. Borgarritari og borgarhagfræðingur hafa sótt um stöðu utan Reykjavíkurborgar.

 

Þó ekki væri nema hagsmuna Reykjavíkurborgar er nauðsynlegt að binda á skjótan hátt enda á óvissu um stöðu borgarstjórans í Reykjavík. Ástandið hefur verið brothætt í stjórnkerfinu, frá því að frumskýrsla samkeppnisstofnunar lak í júlí 2003, þá ákváðu R-listamenn að ýta vandanum á undan sér og bíða eftir lokaskýrslunni, nú er hún komin, en enn er leitað að leiðum til að horfast í augu við vandann og leysa hann.

 

Svar Samfylkingarfólks í sjónvarpsþáttum hefur verið að kenna stjórnarflokkunum um, að málið haf ekki verið rannsakað fyrr eða á skemmri tíma. Aðrar og fyrri tímasetningar hefðu því einu breytt um stöðu Þórólfs Árnasonar, að hann hefði, miðað við orð Ingibjargar Sólrúnar, aldrei verið ráðinn borgarstjóri.