31.10.2004

Sjálfsbókmenntir (?) – Kleifarvatn – Mýrdalsjökull.

Sigurður Gylfi Magnússon er kynntur á þennan veg í Lesbók Morgunblaðsins í gær, laugardaginn 30. október: Höfundur er einsögufræðingur og vinnur að riti um sjálfsbókmenntir. Er þetta lesendum Lesbókarinnar til leiðbeiningar við lestur greinar Sigurðar Gylfa, sem heitir: Stóra Hannesarmálið, og sögð er hluti af væntanlegri bók hans.

Ég viðurkenni, að ég átta mig ekki alveg á því, hvert Sigurður Gylfi er að fara í grein sinni. Hann veður dáilítið úr einu í annað, þegar hann ræðir um það, hverjir hafi kvatt sér hljóðs til varnar Hannesi Hólmsteini vegna fyrsta bindis ævisögu hans um Halldór Kiljan Laxness.  

 

Sigurður Gylfi veitist til dæmis að okkur Jakobi F. Ásgeirssyni sameiginlega vegna þess, sem Jakob sagði um sjónvarpsgagnrýni Páls Björnssonar sagnfræðings um bók Hannesar Hólmsteins og telur, að Jakob sé þar að svara gagnrýni Páls á bókina Í hita kalda stríðsins, greinasafn eftir mig, sem Jakob ritstýrði og Páll ritaði með ólund um í tímaritið Sögu. Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni vikið orði að þessum ritdómi Páls, en ég man, að hann stakk í stúf við sjónarmið annarra, sem sögðu álit sitt opinberlega á þessari bók minni, en hún hefur að geyma greinar og hugleiðingar, einkum frá blaðamennskuárum mínum á Morgunblaðinu.

 

Sigurður Gylfi hampar fræðilegu ágæti Páls Björnssonar, sem ég dreg ekki í efa, enda þótt hann hafi allt aðra sýn á þróun mála á tímum kalda stríðsins en ég, þegar Páll lítur á samtímalýsingu á málefnum líðandi stundar á þeim tíma áratug eða áratugum, eftir að atburðirnir gerðust, sem um er fjallað. Er engu líkara en Páll telji, að á ritunartíma þessara blaðagreina hafi mátt átta sig á því, að fall kommúnismans væri á næsta leiti.

 

Þá segir í Lesbókargrein Sigurðar Gylfa:

 

„Í ljós kom að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var heldur ekki langt undan í þessari samtímaumræðu [um bók Hannesar Hólmsteins] í svartasta skammdeginu. Saman áttu þeir Jakob og Björn nefnilega óvini sem voru póstmódernistar á Íslandi. Jakob skrifaði einmitt grein þar sem hann sakaði þá um allt illt og taldi að þeir stæðu að baki gagnrýninni á Hannes Hólmstein. Þetta voðalega fólk væri að finna í nokkrum skrifstofum Háskóla Íslands, en þó aðallega í ReykjavíkurAkademíunni, í Lesbók Morgunblaðsins og í menningarþættinum Víðsjá á Rás 1 í Ríkisútvarpinu. Um þennan hóp skrifaði Jakob mikinn pistil sem hann birti einnig í Viðskiptablaðinu og hvatti þar hægrisinnaða og víðsýna einstaklinga til að stofna ársfjórðungsrit þar sem þessu fólki yrði svarað.

 

Það merkilega við þessa óvenjulegu umfjöllun um póstmódernismann sem enginn vissi hvaðan kæmi þegar Jakob fór að hafa hann í flimtingum á síðum Viðskiptablaðsins er að Björn Bjarnason hafði nokkrum sinnum vikið að póstmódernismanum í ræðu og riti á síðustu misserum og jafnan reynt að tengja hann við vinstrimenn, líklega í þeirri vissu að best sé að hafa alla óvini sína á einum stað (menn höfðu nefnilega reynt að ljúga því upp að kalda stríðinu væri lokið!). Björn hefur haldið úti vefsíðunni bjorn.is um árabil og þar tjáir hann sig um menn og málefni með reglulegu millibili. Það var óneitanlega áhugavert að fylgjast með pistlum hans á vefsíðunni þegar „Stóra Hannesarmálið“ stóð sem hæst. Jakob F. Ásgeirsson hefur, að því er virðist, sótt mikinn andlegan innblástur á þær slóðir.“

 

Þegar vefsíða mín  (sjá til dæmis þetta) frá því í desember 2003 og janúar 2004 er lesin, sést, að ég hef einkum lagt mig fram um að halda til haga hinum hatrömmu árásum á Jakob F. Ásgeirsson fyrir að taka upp hanskann fyrir Hannes Hólmstein, auk þess sem ég hef skráð á hana ýmislegt, sem til féll um málið í opinberum umræðum, enda lít ég öðrum þræði á síðuna sem minnsblað fyrir mig um margt af því, sem áhugavert er að halda til haga á líðandi stundu, hvaða augum, sem menn eiga eftir að líta það eftir nokkra mánuði eða ár. Kannski er ég á þennan hátt að skrá „einssögu“ í anda Sigurðar Gylfa  eða jafnvel „sjálfsbókmenntir“.

 

Að ég hafi blandað póstmódernisma inn í þetta mál er mér nýlunda, ég hef einkum gert það, þegar ég hef verið að vitna til ágætra skrifa Kristjáns Kristjánssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri. Hann hefur að mínu mati ritað best um þetta fyrirbæri hér á landi, fyrirbæri, sem er vonandi á undanhaldi, ef marka má strauma í alþjóðlegum umræðum, enda virðist það hafa verið bóla og byggst á einhverjum hindurvitnum eða kannski jafnlosaralegri röksemdafærslu og er að finna í umræddri Lesbókar-grein Sigurðar Gylfa, því að hún gengur einhvern ekki upp, nema tilgangurinn sé sá einn að setja okkur í dilk óverðugra, sem tókum upp hanskann fyrir Hannes Hólmstein.

 

Hafi félögum í Reykjavíkur-akademíunni fundist ég ráðast jafnómaklega á þá og greina má af grein Sigurðar Gylfa, er ég þeim enn þakklátari en ella fyrir að gera mig að heiðursfélaga akademíunnar nú miðvikudaginn 25. október. Var mér ljúft að taka við þeim heiðri og hitta félaga í akademíunni við hátíðlega og vinsamlega athöfn af því tilefni.

 

 

Kleifarvatn.

 

Útgefendur bóka Arnalds Indriðasonar voru svo vinsamlegir að senda mér kynningareintak nýjustu bókar hans, Kleifarvatns. Las ég hana í einni lotu og mæli hiklaust með henni. Plottið gengur upp en ekki er síður skemmtilegt og athyglisvert að lesa bókina, vegna þess að Arnaldur fjallar um þætti úr kalda stríðinu og hvernig örlagaþræðir eru tvinnaðir með vísan til samskipta íslenskra námsmanna við Austur-Þýskaland, njósnir og starfsemi erlendra sendiráða á Íslandi.

 

Mér finnst að lesa megi úr söguþræði Arnalds, að hann taki í senn mið af íslenskum lesendum sínum og sífellt stærri hópi erlendra lesenda, ekki síst í Þýskalandi. Verði þessi bók gefin út í Þýskalandi, sem ekki er að efa, mun hún draga athygli fleiri en áður að samskiptum Íslendinga og Austur-Þjóðverja, sem voru sérstök og ollu oft heitum umræðum hér á landi, ekki síst þegar SÍA-skýrslurnar svonefndu birtust fyrir rúmum fjörutíu árum, en þar er að finna samtímalýsingar íslenskra námsmanna í Austur-Þýskalandi á afstöðu þeirra til þjóðfélagsmála og stúdentalífinu.

 

Fræðimenn, sem vilja innleiða einssögur og sjálfsbókmenntir, setja á langar rökræður um aðferðir við sagnaritun og telja samtímaheimildir lítils virði, af því að þeir eru ekki sammála skoðunum höfunda heimildanna, munu halda áfram að skrifa langar og lítt skiljanlegar fræðilegar ritgerðir og bækur til að treysta virðingu sína og stöðu í fræðaheiminum. Þessar ritgerðir eða bækur móta hins vegar ekki skoðun almennings á sama hátt og bækur vinsælla höfunda á borð við Arnald Indriðason. Hann bregður raunsönnu ljósi á þá spennu, sem setti svip á mannleg samskipti á tímum kalda stríðsins, og það, sem hvatti stjórnvöld annarra ríkja til að halda hér úti starfsemi, en haun laut alls ekki að því einu að rækta tvíhliða samskipti við íslensk stjórnvöld.

 

Bækur Arnalds Indriðasonar hitta í mark, vegna þess að þær eru ritaðar af  kunnáttu til að segja sögu á spennandi og skemmtilegan hátt, án þess að slaka á kröfum um góð efnistök.

 

Mýrdalsjökull.

 

Á Visir.is má lesa þetta síðdegis sunnudaginn 31. október:

 

„Skemmdarverk hafa verið unnin á mælitækjum á Mýrdalssandi sem vakta Kötlu. Af þeim sökum fengu vísindamenn engar upplýsingar um rafleiðni í Múlakvísl í tólf daga. Leiðniskynjari í Múlakvísl hætti þann 19. október að senda upplýsingar en þær berast venjulega sjálfvirkt inn til Orkustofnunar. Þegar starfsmenn könnuðu tækjabúnaðinn á Mýrdalssandi í gær kom í ljós að einhver hafði opnað mælikassa og rifið leiðslur úr sambandi. Viðgerð fór fram í gær og er leiðniskynjarinn nú aftur farinn að senda upplýsingar. Beyting á leiðni í jökulvatni undan Kötlu er talin vísbending um aukið rennsli jarðhitavatns, sem aftur er talið benda til hræringa, eins og kvikuuppstreymis, undir eldstöðinni. “

 

Skemmdarfýsn er víða komin út fyrir öll skynsamleg mörk en að ráðast að öryggistækjum til að frá útrás fyrir þetta óeðli er með miklum ólíkindum. Mér er öryggisvarsla við Mýrdalsjökul ofarlega í huga, því að laugardaginn 30. október tók ég þátt í tveimur fundum, sem almannavarnanefnd Rangárvallasýslu boðaði til að kynna hættumat vegna hugsanlegs goss í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Fyrri fundurinn var haldinn að Goðalandi í Fljótshlíð en hin seinni að Gunnarshólma í Landeyjum.

 

Rúmt ár er liðið frá því að ríkisstjórnin ákvað að bregðast við tillögu almannavarnanefndarinnar undir forystu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns Rangárvallasýslu, um að vísindaleg athugun yrði gerð á hættunni af gosi í vesturhluta Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökli. Á fundunum voru bráðabirgðaniðurstöður þessa mats kynntar og einnig hvaða áætlanir almannavarnir eru með í smíðum til að bregðast við hættunni, ef svo ólíklega vildi til, að til goss kæmi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tryggja fjármagn til að gera þessar áætlanir.

 

Fundirnir voru ágætlega sóttir en fundarsóknin var ekki svo mikil, að hún sýndi, að íbúar á þessu blómlega svæði hefðu verulegar áhyggjur af því, að til þeirra stórtíðinda kynni að draga, sem versta líkanið gerir ráð fyrir.  Óhjákvæmilegt er, að Katla gjósi að nýju, spurningin er, hvert vatnsflóðið fer. Líkurnar eru yfirgnæfandi fyrir því, að það renni niður með Hjörleifshöfða eins og 1918.

 

Skemmdarverkið, sem sagt var frá á Visir.is, var einmitt unnið á tækjum, sem mæla vatnsmagn á þessum viðkvæma stað, austan við Mýrdalsjökul. Ef mæli- og viðvörunartækin eru eyðilögð, er til lítils að leggja í mikinn kostnað við gerð áætlana, sem á þeim byggjast, og miða að því að bjarga mannslífum.