24.10.2004

Sjálfumgleði í borgarstjórn - EFTA-dómstóll - bresk blöð.

Þriðjudaginn sat ég borgarstjórnarfund, þar sem meðal annars var rætt um nýtt stjórnkerfi fyrir starfsemina í ráðhúsinu, þriðju meginbreytinguna frá því að R-listinn komst til valda. Þessi miðar ekki síst af því að búa til það, sem er kallað skrifstofa borgarstjóra og mun að því er virðast einangra borgarstjóra að verulegu leyti frá sjö sviðum, sem verða undir stjórn sviðsstjóra og málefnanefnda, þar sem pólitískir formenn viðkomandi nefnda geta látið að sér kveða gagnvart stjórnsýslunni, án þess að  borgarstjóri komi að málinu. Stjórnkerfið er sem sagt sniðið að því sundurlyndi, sem einkennir R-listann, þar sem hver borgarfulltrúi hefur sitt gæluverkefni, en stjórnkerfið er á verksviði Dags B. Eggertssonar.

 

Umræðurnar í borgarstjórn báru þess merki, að Dagur fór þarna fyrir R-listanum ásamt  Þórólfi Árnasyni borgarstjóra, sem fagnaði því sérstaklega, að borgarstjóri væri nú á sinni eigin skrifstofu með hóp manna í kringum sig og síðan væru  sjö sjálfstæð svið einhvers staðar á sveimi í kringum hann. Í umræðunum kom fram, að það var rangt hjá borgarstjóra að til stæði að stofna embætti umboðsmanns Reykjavíkurborgar. Í umræðunum skýrðist, að R-listinn hefði árið 1997 fallið frá hugmyndinni um slíkan umboðsmann, eftir að lögum um umboðsmann alþingis var breytt. Verður því enn furðulegra en ella, að stofnun þessa embættis skuli hafa orðið tilefni sérstakrar forystugreinar í Morgunblaðinu laugardaginn 16. október, eins og ég vék að í síðasta pistli. Þar sem ég hef verið erlendis, frá því daginn eftir borgarstjórnarfundinn, hef ég ekk séð, hvort Morgunblaðið hafi leiðrétt þessa frásögn um umboðsmanninn.

 

Talið um umboðsmanninn sýnir hins vegar vel, hve losaralega er talað um þessar breytingar af hálfu borgarstjóra og Dags B. Eggertssonar. Þær eru að nokkru Potemkin-tjöld, því að allt er óljóst með framkvæmdina. Þegar gagnrýnt er, að embætti borgarlögmanns og borgarritara séu lögð niður, er sagt, að það skipti í raun ekki neinu, má helst skilja, að það sé bara nútímalegra að velja þessum störfum ný nöfn! Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn, velti fyrir sér, hvort þess yrði langt að bíða, að embættisheitið borgarstjóri hyrfi og í staðinn kæmi sviðsstjóri ráðhússviðs.

 

Í umræðunum vakti sjálfumgleði þeirra Dags og Þórólfs ekki síst athygli, enn á ný má segja, því að ánægju R-listans með allt sitt eru engin takmörk sett, eins og dæmin sanna. Þórólfur sá til dæmis ástæðu til að slá sér upp á kostnað fovera sinna á þeirri forsendu, að nú væri stjórnun fag – og í orðunum lá, að þetta fag kynni hann, en ekki þeir, sem stjórnuðu Reykjavíkurborg í tíð sjálfstæðismanna. Þá hafi verið hentistefnuaðgerðir, fyrirgreiðslupólitík og  sporslur hafi verið afhentar úr vösum, án þess að farið væri eftir því stjórnskipulagi, sem hefði borið að ríkja.  Hvatti Þórólfur borgarfulltrúa til að sýna það stjórnkerfi og skipurit sem var virkt fyrir 10 árum áður en þeir mæltu því bót.  Gorgeir af þessu tagi, sem að öðrum þræði byggist á því að tala niður til kjörinna fulltrúa í borgarstjórn, er fastur en óskemmtilegur liður á fundum borgarstjórnar, þegar Þórólfi Árnasyni þykir að sér þrengt.

 

Eins og áður sagði veit ekki, hvort fjölmiðlar endurspegluðu í frásögnum sínum þennan þátt á fundi borgarstjórnar 19. október. Ég birti hér á síðunni ræðu mína og svör við andsvörum við þessar umræður.

EFTA-dómstóll 10 ára.

 

Miðvikudaginn 20, október hélt ég til Lúxemborgar, þar sem ég á fimmtudaginn sat málþing EFTA-dómstólsins í tilefni af 10 ára afmæli hans. Var forvitnlegt að heyra fræðimenn ræða um starfsemi dómstólsins og hvernig honum hefur vegnað á þessum 10 árum.

Ég hitti þarna að nýju mér til ánægju Luzius Wildhaber, forseta mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg, en hann var á Íslandi fyrir rúmu ári til að fagna 50 ára afmæli aðildar Íslands að mannréttindasáttmála Evrópu. Á málþingi lögfræðinga af því tilefni flutti ég ræðu, þar sem ég lagði áherslu á nauðsyn þess að dómarar færu að lögum í niðurstöðum sínum en litu ekki á sig sem löggjafa. 

Í vikunni felldi þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe dóm, sem felur í sér, að dómar mannréttindadómstólsins í Strassborg hafi ekki fordæmisgildi í Þýskandi. Minni ég á, að í 2. gr. laga hér um mannréttindasáttmála Evrópu er tekið fram, að dómar frá Strassborg séu ekki bindandi fyrir íslenska dómstóla.

Ég hef ekki skipt um skoðun um svonefnda framsækna lögskýringu, eftir að hafa hlustað á ræður á málþinginu um EFTA-dómstólinn, en þar var staðfest, að hið sama á við um hann og aðra Evrópudómstóla, að þar er viðleitni til að smíða réttarreglur, telji dómarar það nauðsynlegt. Í því sambandi var mál Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur gegn íslenska ríkinu sérstaklega nefnt til sögunnar, en þar var ríkið dæmt skaðabótaskylt fyrir að hafa ekki farið að EES-samningnum vegna ábyrgðar á greiðslu launa við gjaldþrot.

Þá var fróðlegt að heyra vangaveltur vegn álits EFTA-dómstólsins í máli Harðar Einassonar hrl. um virðisaukaskatt á erlendum bókum, þar sem niðurstaðan varð, að hann skyldi ver 14% eins og á innlendum bókum. Þýskur prófessor velti því fyrir sér, hvort ekki hefði verið verjanlegt með hliðsjón af varðveislu tungumála til að tryggja menningarlega fjölbreytni.

Þátttaka í málþinginu var mikil og auk forseta mannréttindadómstóls Evrópu voru þar meðal annars forsetar dómstóla Evrópusambandsins auk stjórnmálamanna frá Noregi og Liechtenstein.

Þar sem mín beið að fara á ráðherrafund Schengen-ríkjanna næsta þriðjudag og fundi í Brussel mánudaginn 25. október, ákvað ég að nota helgina til að skoða mig um í Lúxemborg en þar hef ég aðeins verið á hraðferð til og frá flugvelli óteljandi sinnum áður. Sé ég ekki eftir þeim dögum í haustfegurðinni, hvort heldur ekið var upp til Clervaux í Ardennafjöllunum eða Móseldalinn til Trier.

 

Bresk blöð.

 

Í lestinni frá Lúxemborg til Brussel gafst mér góður tími til að lesa The Sunday Times og var þar ýmislegt forvitnilegt eins og við var að búast.

Tvennu ætla ég að halda til haga hér. Frásögn af furðulegri yfirbótarferð Boris Johnsons, ritstjóra The Spectator til Liverpool í síðustu viku. Ferðina fór Johnson að fyrirmælum Michaels Howards, leiðtoga Íhaldsflokksins, en auk þess að vera ritstjóri hins ágæta tímarits, sem er sagt meira lesið á Íslandi en nokkru í öðru landi heims (miðað við höfðatölu) er Johnson menningarmálaráðherra í skuggaráðuneyti Howards og þingmaður Íhaldsflokksins. Johnson gekk fram af Howard með leiðara, sem hann skrifaði um örlög Liverpoolbúans Kens Bigleys, sem mannræningar myrtu í Írak, og hvernig hann var syrgður af íbúum Liverpools. Sagði Johnson meðal annars, að þeir litu alltaf á sig sem fórnarlömb, ef færi gæfist, og sæju aldrei neitt athugavert við nokkurn hlut í eigin fari heldur skelltu skuldina á aðra o. s. frv., o. s. frv.

Frásögnin í The Sunday Times af iðrunarferð Johnsons gefur þá mynd af henni, að í Liverpool hafi menn almennt ekki verið mjög uppnæmir yfir því, hvað skrifað hefði verið í The Spectator, enda væru ekki nema sjö eintök seld þar af blaðinu í viku hverri í stærstu bókversluninni í borginni.  Blaðamaðurinn sagðist hafa spurt fólk á förnum vegi, hvort það vissi, hver Boris Johnson væri, en enginn hefði þekkt hann.

Síðari frásögnin, sem ég nefni, er um þá viðleitni breska vinstrablaðsins The Guardian að fá kjósendur í Clark County í Ohio í Bandaríkjunum að kjósa John F. Kerry í staðinn fyrir George W. Bush. Blaðið hvatti lesendur sína til að skrifa kjósendum í Clark County í þessu skyni og hét þeim lesendum, sem skrifuðu bestu bréfin, kosningaferð til Bandaríkjanna í verðlaun. Blaðamaður The Sunday Times lýsir ánægju kosningastjóra Bush í Clark County yfir tiltækinu, því að ekkert eitt athvik hafi orðið til þess að vekja meiri áhuga óráðinna og jafnvel demókrata til að styðja Bush.

Auk þessara viðbragða þeirra, sem fengu bréfin og þótti um óeðlilega afskiptasemi útlendinga að ræða, gripu stuðningsmenn Bush í netheimum til þess ráðs að senda ógrynni af tölvubréfum til The Guardian og einstakra blaðamanna þar, en netföng þeirra voru birt á vefsíðu eins bloggara í þágu Bush.

Sýnir þessi saga, hve tvíbent er fyrir útlendinga að ætla að hafa vit fyrir kjósendum í öðru landi, hvort heldur í Bandaríkjunum eða annars staðar.