16.10.2004

Köld kveðja – varastjórnstöð – borgarstjóri – verkfallsábyrgð.

 

Jón Steinar Gunnlaugsson settist í hæstarétt sem dómari 15. október. Hinn sama dag birtist furðuleg grein um hann í Morgunblaðinu eftir séra Pétur Þorsteinsson, prest óhaða safnaðarins í Reykjavík. Hafi greinin átt að vera fyndin, hlýtur það að hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá fleirum en mér, helst virtist hún illkvittin og skrifuð í þeirri vissu, að Jón Steinar gæti ekki svarað fyrir sig, eftir að hann hefði tekið við stöðu dómara. Þótt sú líking eigi illa við um Jón Steinar vegna almennrar snerpu hans við að svara fyrir sig, má segja, að með grein sinni hafi presturinn kosið að sparka í liggjandi mann.

 

Jón Steinar á þessa köldu kveðju alls ekki skilið, þegar hann sest í hæstarétt. Hann er vel að því embætti kominn ekki síður en aðrir dómarar þar.

 

*

 

Ég er norður á Akureyri þegar ég skrifa þetta í yndislega fallegu veðri á laugardagsmorgni og bíð eftir því að fara yfir í Skagafjörð að Reynistað, en síðar í dag á að jarðsyngja Sigurð Jónsson, bónda þar, en hann var sonur Jóns Sigurðssonar alþingismanns og Sigrúnar Pálmadóttur en til þeirra og Sigurðar og Guðrúnar Steinsdóttur, konu hans, fór ég í sveit fyrir um það bil hálfri öld og var þar hvert sumar í níu ár. Vakna því margar minningar við andlát Sigurðar um lífið á Reynistað og hin mótandi áhrif þess.

 

Í gær tók ég þátt í því að opna hér á Akureyri endurgerða lögregustöð og varastjórnstöð fyrir Neyðarlínu, fjarskiptamiðstöð lögreglu, almannavarnir og vaktstöð siglinga, stöð, sem speglar starfið í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík, þar sem tekist hefur á einstæðan hátt að sameina krafta allra sem fara með stjórn björgunarmála í landinu.

 

Það var mikið fjölmenni í lögreglustöðinni og ánægjulegt að sjá hve miklum breytingum hún hefur tekið síðan ég heimsótti hana síðast. Var vissulega kominn tími til þess að færa starfsaðstöðu lögreglunnar í nútímalegt horf en meðal þeirra, sem þarna voru í gær, má nefna Gísla Ólafsson, fyrrverandi yfirlögregluþjón, sem nú er á tíræðisaldri, en hann beitti sér mjög fyrir því, að lögreglustöðin var reist á Akureyri undir lok sjöunda áratugarins. Þá var byggt svo vel við vöxt, að húsið dugar prýðilega enn og við það eru fangageymslur, sem nýta má til vara fyrir fangelsi á Suðurlandi. Sá hluti hússins bíður enn viðgerðar og ef til vill væri skynsamlegt að huga þar að einhverri stækkun til að auka sveigjanleika innan fangelsiskerfisins.

 

*

 

Morgunblaðið fagnar í forystugrein í dag, að R-listinn sé með hugmyndir um að koma á fót embætti umboðsmanns borgarannar í ráðhúsinu og Þórólfur Árnason borgarstjóri hafi kynnt hugmynd um það efni.

 

Síst af öllu er ástæða til að vera á móti því, að borgararnir hafi aðgang að umboðsmanni gagnvart borgarkerfinu, en hingað til hefur verið litið þannig á, að borgarstjórinn sé þessi umboðsmaður. Einmitt þess vegna hefur almennt verið lögð jafnrík áhersla og raun ber vitni á, að borgarstjórinn komi úr hópi kjörinna fulltrúa og unnt sé að kalla hann til ábyrgðar í kosningum. Þórólfur er hins vegar ráðinn en ekki kjörinn borgarstjóri.

 

Í vikunni gekk framsóknarmaðurinn Gestur Gestsson, sem sat í kosningastjórn R-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum, fram fyrir skjöldu og lýsti R-listann dauðadæmdan. Hann fór næstum hæðnisorðum um hlutverk Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, gaf greinilega til kynna, að enginn vissi í raun hvar hann stæði. Borgarstjóri á þó að heita umboðsmaður R-listans og honum ber, hvort sem hann er kjörinn eða ráðinn, að vera umboðsmaður borgaranna.

 

Helga Vala Helgadóttir veitti R-listanum ráðningu í Spegli hljóðvarps ríkisins föstudaginn 15. október og sagði fnyk leggja úr ráðhúsinu, líkti hún Þórólfi borgarstjóra við flagg, sem dregið væri að húni við hátíðleg tækifæri, en minnti á að flögg dygðu ekki, þegar taka þyrfti á málum, eins og nú yrði að gera vegna kennaraverkfalls, en foreldrar væru búnir að fá meira en nóg af vesaldómi borgarfulltrúa og sendu þeim nú tölvubréf til að mana þá til dáða.

 

Viti menn! Eftir að hafa hlustað á reiðilestur Helgu Völu um aumingjaskap R-listans, skoðaði ég póstinn minn í tölvunni í anddyri Hótel KEA og þar var meðal ávítunar- og hvatningarbréfa eitt frá Helgu Völu Helgadóttur, móður.

 

Við skammir Helgu Völu í garð borgarstjóra með skrautlegu líkingamáli um innantóm embættisverk hans varð mér hugsað til þess, hve illa Þórólfur brást við á sínum tíma í borgarstjórn, þegar ég undraðist allar „silkihúfurnar“, sem ættu að koma að stjórn miðborgarinnar. Taldi hann, að með þessu orði væri ég að móðga embættismenn Reykjavíkurborgar! Stjórnkerfisbreytingin núna, hin þriðja af stærra taginu á 10 ára stjórnarferli R-listans, miðar öðrum þræði að því að fækka þessum silkihúfum, enda augljóst frá upphafi, að um stjórnunarlegt klúður var að ræða.

 

Dagur B. Eggertsson hefur verið talsmaður þessara stjórnkerfisbreytinga á vegum R-listans, að sumu leyti eru þær eðlilegar en að öðru leyti einkennast þær af óraunsæi. Hið markverða er, að þær draga enn fram brotalömina í stjórnarháttum R-listans. Hún felst í því, að þar á bæ hafa menn komið sér saman um að vera ósammála um mörg grundvallaratriði við stjórn borgarinnar en samt láta hluti yfir sig ganga, sem þeir samþykkja í raun ekki og munu brjótast fram sem ágreiningsmál, þegar raknar upp úr samstarfinu.

 

*

 

Undarlegt er, að á alþingi skuli þingmenn Samfylkingar og vinstri/grænna tala á þann veg, að blanda eigi saman kennaraverkfalli og fjárhagslegum samskiptum sveitarfélaga, en í borgarráði Reykjavíkur standa forystumenn sömu flokka í sveitarstjórnarmálum að bókun, sem segir að ekki skuli tengja þetta tvennt saman.

 

Að sjálfsögðu er spjótunum beint að röngum aðila, þegar þess er krafist, að ríkisvaldið leysi þessa deilu grunnskólakennara og sveitarfélaga. Ekkert af því sem sagt er um, að eitthvað standi út af í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna, stenst gagnrýni eða skoðun. Um þessa þætti var samið, niðurstaða samninganna hefur verið þaulskoðuð og það var samdóma álit, að við þá hefði verið staðið.

 

Flutningur grunnskólans hefur orðið til þess að efla sveitarstjórnarstigið og þar verða menn að sjálfsögðu að axla þá ábyrgð, sem þeim ber í samningum við kennara og aðra. Hitt er jafnframt ljóst, að forysta kennara ber hér mikla ábyrgð og minnti Kristján Gunnarsson, nýkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins, á hana, þegar hann sagði, að kennarar yrðu eins og aðrir að haga kröfum sínum og samningum á þann veg, að launa- og efnahagskerfi þjóðarinnar færi ekki úr böndunum.