3.10.2004

Jón Steinar í hæstarétt – málsvörn þingforseta – loftslagsbreytingar.

Deilur um skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar í embætti hæstaréttardómara eru hvorki mjög heitar né ákafar, enda liggur í augum uppi, að Jón Steinar er vel að embættinu kominn. Aðdragandi að skipun Jóns Steinars einkenndist af mun heitari umræðum en eftirleikurinn.

Fólki finnst hæstiréttur einfaldlega hafa gengið of langt í viðleitni sinni til að binda hendur Geirs H. Haarde, sem var falið að skipa í dómaraembættið vegna vanhæfis míns. Hvað sem öðru líður, nýtur sú skoðun ekki almenns fylgis, að hæstaréttardómarar eigi að ákveða, hverjir taka sæti við hlið þeirra á dómarabekknum.

Eiríkur Tómasson segir í fjölmiðlum, að umboðsmaður alþingis hafi lýst skipan mína á Ólafi Berki Þorvaldssyni í hæstarétt ólögmæta. Hvernig unnt er að lesa þetta út úr áliti umboðsmanns, jafnvel þótt lesandi sé lagaprófessor, er ekki auðskiljanlegt, enda segir umboðsmaður þetta hvergi.

Ef skipan Jóns Steinars í hæstarétt leiðir til þess, að rétturinn verði ósjálfstæður og háður ríkisstjórninni, hefur það ekki verið stutt neinum rökum. Sjálfstæðari mann í krafti skoðana sinna en Jón Steinar er erfitt að finna. Yfirlýsing um ósjálfstæði dómstóla getur auk þess ekki stuðst við, hver skipar í réttinn, hún hlýtur að byggjast á trausti á þeim, sem í réttinum sitja. Innviðir hæstaréttar og þar með sjálfstæði hans hafa styrkst með því að Jón Steinar bætist þar í hóp dómara.

Vegna skipunar Jóns Steinars hafa enn hafist umræður um hlut kvenna í hæstarétti og er ástæða fyrir mig til að fara yfir þann þátt sérstaklega, enda byggjast þessar umræður öðrum þræði á rangfærslum um afstöðu mína til þeirra mála.

Fyrir nokkru gaf kærunefnd jafnréttismála út það álit, að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar Ólafi Berki Þorvaldssyni var verið veitt embætti hæstaréttardómara en ekki þeirri konu sem kærði til nefndarinnar. Ég sagði þá, að væri þetta rétt túlkun hjá nefndinni  þyrfti að endurskoða lögin og við það stend ég. Ég er hins vegar sannfærður um að jafnréttislög hafi ekki verið brotin. Ég tel að kærunefndin hafi farið út fyrir heimildir sínar og að niðurstaða hennar sé röng.

Sjálfsagt taka einhverjir meira mark á lögskýringum umboðsmanns alþingis en mínum, þótt hvorugur séum við óskeikulir. Í máli nr. 2214/1997 kvartaði einstaklingur yfir málsmeðferð og niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Í niðurstöðu sinni sagði umboðsmaður alþingis meðal annars:

 „Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að kærunefnd jafnréttismála hafi við meðferð máls nr. 7/1996 farið út fyrir verksvið sitt eins og það er markað í lögum nr. 28/1991. Var nefndinni ekki heimilt að byggja álit sitt á öðrum sjónarmiðum um einstaka hæfnisþætti eða vægi þeirra innbyrðis varðandi þá umsækjendur sem hér koma við sögu heldur en byggt var á í ákvörðun skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ um ráðningu í starf áfangastjóra við skólann umrætt sinn enda var hún byggð á málefnalegum sjónarmiðum.“

Þegar ég valdi hæstaréttardómara í fyrra, þurfti ég að velja á milli átta hæfra umsækjenda; átta lögfræðinga sem hver og einn hafði ýmsa kosti umfram hina sjö. Ég varð að byggja val mitt á málefnalegu sjónarmiði og niðurstaða mín varð sú, eins og flestum mun kunnugt, í ljósi mikilla og stöðugt vaxandi áhrifa Evrópuréttarins á þróun réttarreglna hér á landi, að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á því sviði réttarins. Ég álít að það hafi verið fullkomlega málefnalegt sjónarmið. Kærunefndinni hafi því einfaldlega ekki verið heimilt, sé miðað við álit umboðsmanns alþingis í máli nr. 2214/1997, að  „byggja álit sitt á öðrum sjónarmiðum um einstaka hæfnisþætti eða vægi þeirra innbyrðis varðandi þá umsækjendur sem hér koma við sögu.“ Ég hef ekki tekið eftir því að fjölmiðlamenn eða álitsgjafar hafi mikinn áhuga á þessu atriði, nú þegar hver endurtekur eftir annan að kærunefnd jafnréttismála hafi „úrskurðað“  að ég hafi brotið jafnréttislög. Það er veitingavaldshafinn en ekki kærunefnd jafnréttismála sem metur það á hvaða atriði á að leggja áherslu hverju sinni, og það er í ljósi þeirra atriða en ekki einhverra annarra, sem nefndarmenn hefðu kannski fremur viljað, sem bera skal umsækjendur saman.

Þegar ég kynnti í fyrra að ég hefði ákveðið að gefa þekkingu í Evrópurétti sérstakt vægi, þá sögðu ýmsir að ekki stæðist að setja slík sjónarmið fram eftir að umsóknarfrestur væri liðinn. Það hefði þá átt að taka það fram í auglýsingunni um embættið. En sömu menn virtust ekki sjá neitt athugavert við það, að dómarar Hæstaréttar hefðu í sinni umsögn lagt áherslu á annað réttarsvið, réttarfar, auk þess sem þeir minntu á að einungis einn dómara við réttinn hefði reynslu sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Umsögn dómaranna var vitaskuld gefin eftir að umsóknir lágu fyrir og ekkert hafði verið minnst á réttarfarskunnáttu í auglýsingu um embættið. Ég var vitaskuld þeirrar skoðunar að nýr hæstaréttardómari þyrfti að vera vel heima í réttarfari og sá maður sem skipaður var, Ólafur Börkur Þorvaldsson, hafði verið héraðsdómari í tæplega hálfan annan áratug og uppfyllir þetta skilyrði því prýðilega. Á því ári sem liðið er frá skipun Ólafs Barkar hef ég ekki skipt um skoðun á því að þar hafi afar hæfur maður verið valinn á fullkomlega málefnalegum forsendum. Hitt viðurkenni ég fúslega að aðrir hafa fullan rétt til að vera ósammála mér um það á hvaða forsendur á að leggja áherslu hverju sinni. Það er ekki þannig að hægt sé að reikna út hæfni umsækjenda þannig að ekki verði lengur deilt. Það er engin almenn verðleikavísitala til. Sumir vilja telja tímaritsgreinar sem menn hafa skrifað, aðrir leggja mikið upp úr fjölbreyttri starfsreynslu, framhaldsmenntun eða kynferði og svo framvegis, eða þá einhvers konar óskýrðu samblandi af slíkum atriðum. Á endanum verður hins vegar einhver að taka af skarið og gera upp á milli þeirra umsækjenda sem uppfylla hæfisskilyrði. Þegar valið er í opinbert starf þá verður sá sem hefur veitingavaldið að velja þann einstakling sem hann telur hæfastan. Hann verður svo, ef óskað er, að greina frá því hvers vegna hann valdi þennan tiltekna umsækjanda, en það er engin leið að sanna vísindalega hver var hæfastur.
 
Smáatriði kemur upp í hugann varðandi álit kærunefndar jafnréttismála. Í fyrrnefndu áliti sínu segir umboðsmaður alþingis einnig að það sé skoðun sín að nefndinni beri að gefa þeim einstaklingi, sem hlaut þá stöðu sem veitt var, kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, enda snerti málið hann verulega. Ætli kærunefnd jafnréttismála hafi farið eftir þessum tilmælum umboðsmanns alþingis og þá væntanlega gefið Ólafi Berki Þorvaldssyni færi á að tjá sig um málavexti? Ég veit það ekki en ég hef engan fréttamann heyrt velta þessu fyrir sér og eru þeir þó margir áhugasamir um álit umboðsmanns. Það er svo annað mál að tilmæli og álit umboðsmanns eru ekki annað en tilmæli og álit, og hvorki kærunefnd né öðrum er skylt að fara að þeim álitum sem þeim þykja ekki standast nánari skoðun. Sjálfur er ég ekki alltaf sammála umboðsmanni og virði fyllilega rétt annarra til þess sama.
 
 

Geir H. Haarde kynnti ákvörðun sína um nýjan dómara miðvikudaginn 29. september, daginn eftir að þingflokkur framsóknarmanna ákvað, að Kristinn H. Gunnarsson skyldi ekki sitja í neinum þingnefndum á hans vegum. Fjölmiðlar voru greinilega á báðum áttum um það, hvort þeir ættu að gera meira úr brottvísun Kristins H. eða skipun Jóns Steinars.

Málsvörn þingforseta

Föstudaginn 1. október dró Halldór Blöndal, nýendurkjörinn forseti alþingis, fjölmiðlaathygli að sér með skorinorðri og merkri þingsetningarræðu um stöðu alþingis og synjunarvald forseta Íslands. Og forystumenn Samfylkingar og vinstri/grænna urðu sér til skammar með því að ganga úr þingsalnum undir ræðu forseta. Ef forseti má ekki við þingsetningu segja skoðun sína á alþingi um stöðu alþingis, án þess að formenn stjórnmálaflokka gangi  úr þingsalnum í mótmælaskyni, er enn meiri ástæða en ella til að hafa áhyggjur af stöðu þingsins.

Halldór Blöndal sagði meðal annars:

„Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar eru leifar af þeirri trú að konungurinn — einvaldurinn —, fari með guðs vald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín. Alþingi er kjörið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi. Ég geri ekki öðrum háttvirtum alþingismönnum upp orð né skoðanir en mér kom aldrei til hugar að forseti Íslands synjaði um staðfestingu á lögum frá Alþingi. Svo hefur verið um fleiri.“

Ég var í hópi þeirra þingmanna, sem trúði því ekki, að forseti Íslands mundi synja lögum frá alþingi. Ég hafði skipað mér í flokk þeirra, sem litu á þetta sem dauðan bókstaf. Þá tek ég heilshugar undir þessa skoðun Halldórs Blöndals:

„[E]ftir atburði sumarsins stendur löggjafarstarf Alþingis ekki jafntraustum fótum og áður. Það er alvarleg þróun og getur orðið þjóðinni örlagarík nema við sé brugðist.“

Þetta þola stjórnarandstöðuþingmenn ekki að heyra og ganga úr þingsal í mótmælaskyni.

Ég tek undir með Morgunblaðinu, sem segir í forystugrein 2. október:

„ Lítill var og er metnaður þeirra þingmanna fyrir hönd þingsins, sem í gær urðu sér til minnkunar með því að ganga út á meðan þingforsetinn talaði. Er Alþingi Íslendinga ekki höfuðvettvangur frjálsrar umræðu í landinu? Þola þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki aðrar skoðanir en sínar eigin? Er það til marks um virðingu þeirra fyrir tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi, sem bundið er í stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins, að þeir þola ekki að forseti Alþingis njóti og nýti sér þau mannréttindi, sem stjórnarskráin kveður á um?“

Ég undrast sjónarmið Fréttablaðsins, sem er ritað af Guðmundi Magnússyni 2. október, þegar hann segir forseta alþingis fyrir verkum um það, hvenær hann hefði átt að flytja þessar skoðanir sínar, það „hefði þó verið meira við hæfi að hann reifaði þessi mál á reglulegum fundi í þinginu þegar fyrir lægju tillögur um hvernig ætti að bregðast við þeirri stöðu sem upp er kominn.“

Þetta sjónarmið Guðmundar um það, hvenær Halldór Blöndal hefði mátt láta í ljós skoðun sína, er álíka skrýtilegt og sjónarmið sama Guðmundar um síðustu helgi, að ég hefði ekki mátt segja skoðun mína á þremur dómum hæstaréttar til að svara spurningu Lögfræðingafélags Íslands, vegna þess að fyrir dyrum stóð að skipa dómara í hæstarétt. Guðmundur var líka þeirrar skoðunar, að ekki væri rétti tíminn núna til að skipa Jón Steinar hæstaréttardómara. Af sjónarmiði Guðmundar um  ræðu Halldórs Blöndals verður ekki fyllilega ráðið, hvort honum hafi þótt rétti tíminn hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar að yfirgefa þingsalinn undir ræðu þingforseta, þó sýnist hann telja það afsakanlegt! 

Í fréttatíma Stöðvar 2 laugardagskvöldið 2. október var komist þannig að orði, að Morgunblaðið hefði í leiðara hrósað ræðu Halldórs Blöndals í hástert og mátti greina, að fréttastofunni þótti ræðan varla eiga slíkt hrós skilið.

Sunnudaginn 3. október má lesa í Fréttablaðinu , að Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur segi í grein á póstlistanum Gammabrekku, að synjunarvald konungs hafi  vissulega verið tengt guði. Öðru máli gegni um synjunarvald þjóðkjörins forseta sem leyst hafi konung af hólmi, þökk sé þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. „Við höfnuðum guðkjörnum konungi og stofnuðum lýðveldi,“ segi hann. Árni Daníel segi auk þess, að með því að tengja vald forseta við guð sé Halldór Blöndal að svíkja grundvöll lýðveldisins: „Hann lýgur því að stjórnarskrá Íslands sé tengd við guð. Þær lygar verða ekki samþykktar af þjóðinni. Þjóðfrelsisbaráttan var ekki til einskis, lygarar fá ekki að sitja í sæti forseta Alþingis. Niður með Halldór Blöndal.“

Segir Fréttablaðið jafnframt, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor svari Árna Daníel á sama vettvangi og segi, að Halldór Blöndal hafi „sögulega rétt fyrir sér“. Prófessorinn segi, að synjunarvaldið hefði verið orðinn dauður bókstafur við lýðveldisstofnun 1944, enda hefðu fræðimenn þá aðeins gert ráð fyrir því að því yrði beitt við mjög óvenjulegar aðstæður svo sem stríðsástandi eða annarri ógn.

„Núverandi forseti kaus hins vegar að beita því þegar í hlut átti fyrirtæki, sem var nátengt honum en kosningastjóri hans er forstjóri þess.“ Segi Hannes að hafi Árni Daníel viljað vera trúr sögulegri hefð Íslendinga hefði hann átt að segja: „Niður með Bessastaðavaldið!“


Þessi frásögn Fréttablaðsins sýnir, að forseti alþingis snerti viðkvæma strengi með ræðu sinni. Halldór Blöndal sagði réttilega, að synjunarákvæðið í stjórnarskránni væri „leifar af þeirri trú að konungurinn — einvaldurinn —, fari með guðs vald.“ Halldór er ekki að fjalla um það hvort stjórnarskráin sé tengd við guð, eins og Árni Daníel fullyrðir, hann er að lýsa sögulegum uppruna þess ákvæðis stjórnarskrárinnar, sem orðað er í 26. grein hennar. Að neita þeim uppruna eins og Árni Daníel gerir, sýnir ekki mikla virðingu fyrir stjórnskipunar- eða stjórnarskrársögunni.

Við þingsetningu fluttu fleiri ræður en Halldór Blöndal. Séra Pálmi Matthíasson prédikaði í Dómkirkjunni og vék meðal annars að álitaefni, sem ég hef oft nefnt hér á síðunni, það er aðför nafnleysingja að heiðri og æru fólks á spjallsíðum hér á netinu. Minnti hann á dæmi þess, að ungt fólk hefði gengið í gegnum alvarlegar raunar vegna slíkra árása. Hið sama gæti gerst hjá þeim, sem eldri eru. Velti séra Pálmi því fyrir sér, hvort löggjafinn þyrfti að láta þetta til sín taka. Auðvitað þarf að láta á það reyna fyrir dómstólum, hvort menn geti ábyrgðarlaust í skjóli nafnleyndar atað aðra menn auri á vefsíðum. Tregðan til að skjóta þessu álitaefni fyrir dómara ræðst líklega helst af þeirri skömm, sem menn hafa almennt á þessari vesælu aðför að mannorði nafnkunnra einstaklinga. Þeir skirrast við að tengja nafn sitt þessum skrifum með því að snúast opinberlega til varnar gegn þeim.

Loftslagsbreytingar

 

Þá flutti forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson ræðu og varaði við hættunni á heimsslitum vegna loftlagsbreytinga og þá einkum hér á norðurslóðum, ef hafstraumar myndu breytast. Taldi hann, að alþingi hefði sögulegu hlutverki að gegna til að afstýra þessari vá og verulegur árangur hefði náðst til að átta sig á henni undir formennsku Íslands í Norðurheimskautsráðinu auk þess sem Vestnorræna þingmannaráðið hefði hér miklu hlutverki að gegna.

Í júlí/ágúst hefti ritstins Foreign Affairs skrifar John Browne, aðalforstjóri BP, um loftlagsbreytingar og áhrif Kyoto-samkomulagsins, sem hann telur standa á veikum grunni.  Hann segir, að líklegustu áhrif hitabreytinga verði þau, að yfirborð sjávar hækki um 5 til 32 cm til ársins 2050, en á sama tíma hækki hitastig um 0.5 til 2.5 gráður á Celsius. Fram til 2100 geti hiti hækkað um 1.4 til 5.8 og yfirborð sjávar hækkað um 1 metra.  Í greininni segir einnig:

„The most dramatic scenarios, although unlikely, would have grave consequences for humanity and ecosystems. Rapid changes in climate could upset the circulation of the North Atlantic, for example – which, ironically, would cause much colder regional temparatures in northern Europe by weakening the heat-rich Gulf Stream.“

Þótt John Browne telji ólíklegt, að straumbreytingar verði hér í Norður-Atlantshafi, sem muni leiða til fimbulkulda á norðurslóðum,  þykir honum óvarlegt annað en ræða málið. Hann er hins vegar þeirrar skoðunar, að vilji þjóðir axla nauðsynlegan kostnað, megi á skipulegan og viðráðanlegan hátt stuðla að því að halda loftslagsbreytingum innan hóflegra marka, að svo miklu leyti sem þær séu af mannavöldum.