Hátíð í París – stjórnsýsludómstóll – Dan Rather – umferðarvandi R-listans.
Í dagbókina hér á síðunni hef ég fært þetta 21. júní 1999:
„Við Rut héldum til Parísar á mánudeginum, þar sem ég sat ráðherrafund á vegum OECD 22. og 23. júní um rannsóknir og vísindi og tók þátt í umræðum. Einnig gafst okkur tækifæri til að fara í Bastillu-óperuna og sjá glæsilega sýningu á Don Carlos eftir Verdi, þar sem Kristinn Sigmundsson söng hlutverk yfirmanns spænska rannsóknarréttarins og hlaut gott lof áheyrenda. Hittum við Kristin í stutta stund baksviðs að sýningu lokinni og lýstum stolti okkar yfir að hafa verið meðal áheyrenda hans. Hann var einnig með veigamikið hlutverk í Don Giovanni í óperunni þessa sömu daga. Kristinn vakti athygli okkar á því, hve risavaxið óperuhúsið er, listrænn metnaður þess er ekki síður mikill og það talið meðal hinna bestu í Evrópu. Þá átti ég einnig fund með Íslendingum í París, sem hafa unnið að því að undirbúa víðtæka menningarkynningu þar og vilja stofna til samstarfs við menntamálaráðuneytið.“
Hinn 25. október 1999 segi ég í dagbókinni enn frá ferð til Parísar, þar sem ég var meðal annars við opnun sýningar Errós:
„Klukkan 19.00 þriðjudaginn 26. október fórum í Jeu de Paume, þar sem nokkur hundruð manns voru saman komin til að samfagna með Erró, þegar sýning hans var formlega opnuð. Meðal gesta var Catherine Trautmann, menningarmálaráðherra Frakklands, var hún rúmlega klukktíma að skoða sýninguna undir leiðsögn Errós. Lét hún eins og aðrir í ljós mikla hrifingu yfir listaverkunum. Daginn eftir sótti ég aðalráðstefnu UNESCO, sem var að hefjast í París. Síðdegis var síðan sameiginlegur fundur okkar frú Trautmann í menningarmálaráðuneytinu, sem André Malraux stofnaði undir de Gaulle fyrir réttum 40 árum. Stóð fundur okkar í rúma klukkustund og lögðum við þar á ráðin um samstarf þjóðanna í menningarmálum.“
Hinn 4. apríl 2001 færi ég í dagbókina um ferð til Parísar:
„Ráðherrafundi OECD lauk með hádegisverði. Klukkan 17.00 hitti ég Catherine Tasca, menningarmálaráðherra Frakka, í ráðuneyti hennar og ræddum við meðal annars fyrirhugaða íslenska menningardaga í París árið 2003.“
Í frásögn af ferð til Parísar segi ég í pistli 24. október 2001:
„Í undirbúningi er að efna til íslenskrar menningarkynningar í París árið 2004 og er undirbúningur undir hana hafinn og á fundi verslunarráðsins var sérlegur fulltrúi frönsku ríkisstjórnarinnar auk alþjóðafulltrúa menningarmálaráðuneytisins en ég hef rætt þetta verkefni við tvo menningarmálaráðherra auk þess sem það bar á góma á fundi Davíðs Oddssonar með Jacques Chirac Frakklandsforseta.“
Ég rifja þetta upp í dag, því að á mánudaginn hefst þessi menningarkynning með pompi og prakt í París, en á sínum tíma skipaði ég Svein Einarsson sem fulltrúa menntamálaráðuneytisins við að undirbúa kynninguna og hafa þau Sigríður Snævarr, sendiherra í París, unnið að því hörðum höndum með samstarfsfólki sínu um árabil að framkvæma hugmyndina, sem fæddist vegna áhuga Íslendinganna Eddu Erlendsdóttur, Æsu Sigurjónsdóttur, Ásdísar Ólafsdóttur í París á fundi okkar í sendiráðinu í júní 1999. Áður hafði Oddný Sen unnið að því í París að kanna áhuga á því að efna til íslenskrar kvikmyndahátíðar. Sigríður varð sendiherra í París 1. apríl 1999, svo að hún hefur frá upphafi verið þátttakandi í að láta drauminn frá fundinum góða rætast. Er fagnaðarefni, að tekist hafi að vinna af stórhug úr hugmyndinni.
Stjórnsýsludómstóll.
Föstudaginn 24. september sat ég málþing Lögfræðingafélags Íslands, þar sem fjallað var um, hvort ástæða væri til að setja á laggirnar stjórnsýsludómstól. Meðal ræðumanna var Matti Niemivou, skrifstofustjóri í finnska dómsmálaráðuneytinu, sem flutti erindi um stjórnsýsludómstóla í Finnlandi og lýsti einnig stjórnsýsludómstólum í Svíþjóð. Utan þessara landa á Norðurlöndunum eru ekki slíkir dómstólar þar og ekki heldur í Bretlandi. Páll Hreinsson prófessor sagði okkur undir dönskum áhrifum í þessu efni, en Danir hefðu þó sett ákvæði um stjórnsýsludómstól í stjórnarskrá sína 1953, þótt þeir hefðu ekki enn framkvæmt það, líklega vegna þess að á efsta dómstigið skyldi verða hjá hæstarétti en ekki sérstökum stjórnsýslu-yfirrétti. Friðgeir Björnsson, fyrrverandi dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur, greindi frá rannsókn sinni á úrskurðarnefndum í stjórnsýslunni, sem eru frábrugðnar nefndum á borð við kærunefnd jafnréttismála að því leyti, að þær ljúka máli en kærunefndin gefur aðeins álit. (Sá í Morgunblaðinu 25. september, að Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, telur ekki miklu skipta, að kærunefnd jafnréttismála telji ranglega hafa verið staðið að uppsögn tveggja fréttakvenna á Stöð 2, hann segir: „Af því að þetta mál snertir egósentrískar stéttir eins og fréttamenn þá halda menn að þetta sé einhver merkileg niðurstaða. Þetta er það ekki. Ég gef ekkert fyrir þetta álit “ Hvaða hamagangur hefði byrjað í Baugsmiðlunum, ef ég hefði tekið þannig til orða um kærunefndina?)
Á málþingi lögfræðinga fluttum við Gunnlaugur Claessen, varaforseti hæstaréttar, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, og Atli Gíslason hrl. stuttar ræður. Ég hef fært mína hér á síðuna.
Niðurstaða okkar ræðumanna var, að ekki væri endilega brýnt að koma á laggirnar sérdómstóli um stjórnsýslumál. Páll Hreinsson benti á leið til að koma til móts við kröfuna um aukna sérþekkingu og sérstakar réttarfarsreglur á tiltölulega einfaldan hátt. Ég taldi, að það þyrfti að tryggja betri þekkingu á þessum málaflokki í dómskerfinu, og skýrði þá skoðun með því að gagnrýna þrjá nýlega dóma hæstaréttar.
Fréttablaðið slær ræðu minni upp sem aðalfrétt á forsíðu sinni í dag, laugardaginn 25. september, og segir mig hafa gagnrýnt hæstarétt harðlega og hefur eftir Atla Gíslasyni hrl., að það virtist hafa komið fundarmönnum á óvart, hvað ég hafi verið „hatrammur“ um þá dóma hæstaréttar, sem ég nefndi til sögunnar.
Ég hitti marga málþingsgesti eftir að umræðum þar lauk og virtist mér þeir ekki kippa sér mikið upp við orð mín, en af Fréttablaðinu má helst ráða, að tala eigi í hálfum hljóðum um dóma hæstaréttar eða einhverja tæpitungu – að minnsta kosti um þessar mundir! Tepruskap af þeim toga læt ég blaðinu og starfsmönnum þess eftir.
Dan Rather
Í Spegli RÚV föstudagskvöldið 24. september heyrði ég vandlætingarræðu Hjálmars Sveinssonar þáttarstjórnanda um, að borgarstjórn hefði komið saman þriðjudaginn 21. september, án þess að ræða um verkfall grunnskólakennara, sem hófst daginn áður. Ég veit ekki, hvað Hjálmar taldi, að borgarstjórn ætti að ræða í þessu samhengi á öðrum verkfallsdegi. Vildi hann, að meiri og minni hluti deildu um málið? Vildi hann, að borgarstjóri lýsti yfir því, að hann teldi kröfur kennara fráleitar eða að það ætti einfaldlega að fallast á þær?
Launanefnd sveitarfélaga fer með samninga við grunnskólakennara, þeim hefur verið gert tilboð og þeir hafa það að engu. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari sagði fimmtudaginn 23. september, að ekki þýddi að efna til nýs samningafundar fyrr en eftir eina viku – bilið milli deiluaðila væri svo breitt.
Útvarpsþættir, þar sem þáttastjórnendur eru með skoðanamyndandi yfirlýsingar og haga frásögnum sínum á þann veg, að það þjóni ákveðnum málstað og tilgangi, eru víða vinsælir. Verið er að fara inn á nýja braut í því efni hér á landi á Skjá einum innan skamms, þegar tveir stjórnendur, sinn með hvora stjórnmálaskoðun, taka að sér að stjórna saman þætti. Ég hef áður vakið máls á því, að í Spegilinn sé sjálfsagt að vinstrisinnaðar skoðanir svífi yfir vötnum, spurningin er, hvers vegna ekki er leyft mótvægi við þær til að skapa eðlilegt jafnvægi.
Rush Limbaugh (sjá www.rushlimbaugh.com ) hefur í 16 ár haldið úti útvarpsþætti í Bandaríkjunum, þar sem hann vandar vinstrsinnum ekki kveðjur. Vinsældir þáttarins hafa aukist jafnt og þétt og hann kemur verulega við sögu í forsetakosningunum núna og á vafalaust ríkan þátt í því, hve fjarað hefur undan John Kerry. Limbaugh hefur ekki síst farið mikinn, vegna þess hvernig Dan Rather, fréttastjóri hjá CBS, hefur haldið á málum um herþjónustu George W. Bush.
Rather hefur verið staðinn að því að flytja lygafrétt til að sverta forsetann. Raunar voru það árvökulir netverjar, sem sögðu, innan fáeinna klukkustunda frá því að Rather birti skjöl um meint brotthlaup Bush frá störfum í flughernum í þættinum 60 Minutes II, að þau væru fölsuð. Ein hlið þessa frétta- og skjalafölsunarmáls er, að risafréttastofa hefur í fyrsta sinn verið afhjúpuð af netverja við heimatölvu, með sérþekkingu á stafagerð, ritvélum og ritvinnsluforritum. Þegar um hlut netverja í þessu máli er lesið, má skynja, að samtryggingarkerfi stóru fjölmiðlanna í Bandadríkjunum sé svo mikið, að enginn þeirra hefði líklega leitað að hinu sanna, eftir að Rather gerði árásina á Bush – án netverjanna hefði sannleikurinn legið í þagnargildi.
Umferðarvandi R-listans
Í borgarstjórn Reykjavíkur þriðjudaginn 21. september var meðal annars tekist á um, hvort undirbúa ætti mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Í umræðunum sannaðist enn, að R-listinn er einfaldlega á móti mislægri lausn á þessum fjölförnu slysa-gatnamótum.
Eftir að hafa hlustað á ræðu Árna Þórs Sigurðssonar. fulltrúa vinstri/grænna, forseta borgarstjórnar og formanns samgöngunefndar, dró ég þá ályktun, að hann liti þannig á, að þessi gatnamót væru víglína í stríði hans við einkabílinn – ef honum tækist að hindra, að gatnamótin yrðu mislæg, gæti hann snúist til varnar í stríðinu við einkabílinn.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður skipulags- og bygginganefndar, sagðist vera á móti mislægum gatnamótum á þessum stað, en dró í land, þegar ég bað hana að skýra ummæli sín nánar.
Í Vef-Þjóðviljanum á www.andriki.is sá ég 24. september frásögn af Kastljósi RÚV frá 16.september, þar sem Egill Helgason, þáttarstjórnandi á Stöð 2, skipaði sér í hóp andstæðinga einkabílsins með þeim orðum, að það þætti orðið svo fjarstæðukennt að vera andvígur mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, að það jafngilti því hér um bil að vera fylgjandi dauða og eyðileggingu.
Af grein í DV laugardaginn 25. september má ráða, að þessi andúð Egils á einkabílnum sé einhver angi af óbeit hans á Ameríku. Hann segir: „Reykjavík er að fá æ meira svipmót bílaborganna í Ameríku, borga sem hafa engan miðbæ og þar sem aðaleinkennið er algjört einkennaleysi. Fólk sem hefur komið til Ameríku veit hvað svona borgir eru lítið skemmtilegar. Þar vill varla neinn búa nema hann sé beinlínis fæddur á staðnum....Þetta er að verða eins og risastórt bílastæði þar sem aldrei sést neitt kvikt á sveimi nema gegnum bílrúðu.“
Alhæfingar af þessum toga eru í raun merkingalausar og líklega settar fram í von um, að menn lesi þær, án þess að velta fyrir sér, hvað í þeim felst – sniðug orð á blaði. Hvernig er unnt að halda því fram, að Reykjavík sé einkennalaus borg, þótt einkabíllinn fái þar svigrúm? Er það einkabílnum að kenna, hvernig miðborg Reykjavíkur hefur þróast? Er það svo, að R-listanum sé að takast að breyta Reykjavík í ameríska bílaborg? Hvað svo sem felst í því hugtaki.
Hinn 23. september ritaði Guðlaugur Sigurðsson á www. hriflu.is vefsíðu framsóknarfélaganna í Reykjavík um vandræði R-listans og sagði meðal annars:
„Af hverju geta R-listamenn ekki komist að niðurstöðu hvar Sundabrautin á að liggja? Það er orðið pínlegt að fylgjast með hvernig meirihlutinn fer af taugum við að taka grundvallarákvarðanir í samgöngumálum. Brú, göng, mislæg gatnamót, er ekki hægt að komast að niðurstöðu til að leysa vanda ökumanna er vilja ferðast um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þeir sem þurfa að sækja vinnu yfir þessi gatnamót á morgnana og síðan heim síðdegis, er ekki skemmt yfir skoðunum vesturbæinga inna R-listans um hversu miklu má kosta til við að lagfæra gatnamótin. Íbúar Reykjavíkur kjósa fulltrúa til að taka ákvarðanir en ekki til að hlaupa frá verkum. Fulltrúar R-listans í borgarstjórn verða að fara gera sér grein fyrir því.“
Það er rétt hjá Guðlaugi, að R-listinn getur ekki komist að niðurstöðu um legu Sundabrautar. Það er rangt hjá R-listanum, að velja verði á milli Sundabrautar og mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar við framkvæmdaröð. Oftar en einu sinni hefur hins vegar komið fram í ræðum R-listafólks í borgarstjórn, að það telur ástandið í umferðarmálum Reykjavíkur harla gott, menn séu ekkert of lengi að komast á milli staða. Útlendingar, sem ferðist með þeim í bíl, meira að segja prófessor í verkfræði, skilji ekki, að fólk sé að gera veður út af því að þurfa að bíða dálitla stund á Kringlumýrarbrautinni eftir að komast yfir Miklubrautina og spyrji: „What is the problem?“ Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. oddviti okkar sjálfstæðismanna, sagði svarið við þessari spurningu augljóst: R-listinn is the problem!