19.9.2004

Nýr forsætisráðherra - fjarskipti og útvarp - öryggissamfélag við Bandaríkin

 

 

 

 

Síðasta pistil skrifaði ég að kvöldi 14. september í tilefni af síðasta ríkisstjórnarfundi Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra að þessu sinni. Daginn eftir, hinn 15. september, var haldinn ríkisráðsfundur klukkan 13.00 á Bessastöðum, hinn fyrsti með forseta Íslands síðan á gamlársdag 2003, en eins og kunnugt er sat hann ekki fund ríkisráðsins 1. febrúar 2004, þegar reglurgerð um Stjórnarráð Íslands var staðfest á 100 ára afmæli heimastjórnar.

 

Fundurinn í ríkisráðinu 15. september var einstæður að því leyti, að aldrei fyrr hafa farið fram forsætisráðherraskipti með þessum hætti. Þeir Davíð og Halldór Ásgrímsson skiptu um stóla í orðsins fyllstu merkingu á fundinum, Halldór varð forsætisráðherra og færði sig á hægri hönd forseta en Davíð tók sem utanríkisráðherra sæti forseta á vinstri hönd.

 

Á ríkisráðsfundinum gerðist það einnig, að Sigríður Anna Þórðardóttir tók sæti Sivjar Friðleifsdóttur sem umhverfisráðherra og er Sigríður Anna fyrst sjálfstæðismanna til að skipa það ráðherraembætti. Þær Siv of Sigríður Anna eru á svo svipuðum stað í stafrófinu, að ekki þurfti að breyta sætaskipan í ríkisráðinu vegna þessara skipta. Í ríkisráði sitja oddvitar stjórnarflokka næst forseta en síðan aðrir í stafrófsröð. Í ríkisstjórn sitja utanríkisráðherra og fjármálaráðherra næstir forsætisráðherra en síðan aðrir ráðherrar í aldursröð sem ráðherrar.

 

Að morgni föstudagsins 17. september klukkan 11.00 stýrði Halldór Ásgrímsson fyrsta fundi sínum sem forsætisráðherra. Halldór hefur langa reynslu sem þingmaður og ráðherra og býr yfir mikilli og góðri þekkingu á öllum meginþáttum þjóðlífsins auk þess hafa verið þátttakandi við mótun og framkvæmd alþjóðastjórnmála í níu ár sem utanríkisráðherra. Fylgja honum góðar óskir í hinu nýja ábyrgðarstarfi fyrir land og þjóð.

 

Nokkrar umræður urðu í vikunni um forsætisráðherrabókina svonefndu, það er um ráðherra Íslands og forsætisráðherra fyrstu hundrað ár heimastjórnar. Af þeirri bók má vel sjá, hve stólaskiptin 15. september eru einstök í stjórnmálasögunni og þar sést einnig hve mikil undantekning er, að aðrir en sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn leiði ríkisstjórnir. Einnig sýnir bókin, að sjaldgæft er, að menn setjist í stól forsætisráðherra með jafnmörg ár að baki sem þingmaður eða í öðru ráðherrembætti og Halldór Ásgrímsson hefur. Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 30 apríl 1991, hafði hann hvorki setið á þingi né gegnt ráðherraembætti.

 

Alþýðubandalagsmaður leiddi aldrei ríkisstjórn, síðasta ríkisstjórn undir forystu Alþýðuflokksmanns, Benedikts Gröndals, sat sem minnihlutastjórn í nokkra mánuði veturinn og fram yfir áramót 1979/80 eða fyrir aldarfjórðungi og þá voru 20 ár liðin frá því að alþýðuflokksmaður, Emil Jónsson, hafði  leitt ríkisstjórn - einnig minnihlutastjórn í nokkra mánuði.

 

Samfylkingin var að öðrum þræði stofnuð úr leifum Alþýðubandalags og Alþýðuflokks til að skapa skilyrði fyrir því, að  menn með skoðanir af þeim toga, sem slíkir vinstri flokkar aðhyllast, gætu orðið annað en millistykki í pólitísku upplausnarástandi á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessi tilgangur Samfylkingarinnar var augljós í síðustu þingkosningum, þegar hún bauð fram sérstakt forsætisráðherraefni ? en slíkt hafði aldrei verið gert áður. Forsætisráðherraefnið, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom þó hvorki úr Alþýðubandalagi né Alþýðuflokki, heldur úr Kvennalistanum sáluga.

 

Langvinn gremja innan Samfylkingar og fylgifiska hennar yfir því að hafa ekki náð meginmarki flokksins í síðustu þingkosningum brýst fram í alls konar myndum. Vegna þess hve sundurlyndið er mikið innan hópsins, snýst stjórnmálastarf Samfylkingarinnar að mestu leyti um mjög þröng málefni, og þá einkum varðstöðu um hagsmuni stórfyrirtækja. Ástæða er til að vekja enn máls á því, hve dapurlegar umræður um stjórnmál verða, þegar leitast er við að snúa þeim upp í deilur um einstök fyrirtæki, hvort heldur í opinberri eigu eða einkaaðila.

 

Fjarskipti og útvarp

 

Í því felst þekkingarleysi á þróun fjarskipta- og sjónvarpsfyrirtækja að láta eins og að það sé ekki viðskipatækifæri fyrir Símann að fjárfesta í efni eins og enska boltanum. Breytingar í rekstri fjarskiptafyrirtækja eru svo örar, að í því fælist skeytingarleysi um rekstur og þróun Símans að nýta ekki tækifæri sem þetta, ekki síst þegar höfuðeigandinn, ríkið, hefur einsett sér að selja fyrirtækið á almennum markaði.

 

Andstaðan við þessa fjárfestingu Símans byggist að því er virðist frekar á umhyggju fyrir Norðurljósum en skilningi á hag Símans. Þar til Norðurljós keyptu stóran hlut í Og Vodafone létu andstæðingar fjárfestingar Símans eins og eitthvert voðaverk væri að sameina símafyrirtæki og sjónvarp. Eftir kaup Norðurljósa fóru talsmenn samsteypunnar að beina spjótum sínum í aðrar áttir og má þar til dæmis nefna, að í nokkra daga hefur á hverju kvöldi verið frétt í  Stöð 2, Norðurljósa, um að hvað sem hver segi viti fréttastofan, að Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, hafi haft afskipti af kaupum Símans á enska boltanum. Mér sýnist þetta enn eitt dæmið um það, sem ég kallaði einelti fjölmiðla í ræðu á Hólum fyrir nokkrum vikum.

 

Í mörg ár vakti ég máls á því sem menntamálaráðherra, að ríkisútvarpinu væri síður en svo nokkur greiði gerður með því að halda rekstrarfyrirkomulagi þess óbreyttu og sagði meðal annars á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir nokkrum árum, að ríkisútvarpið væri í „tilvistarkreppu.“ Ég kynnti hugmyndir um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins til að þar gætu menn nýtt sér það rekstrarform, sem skilar bestum árangri. Um þetta eða aðrar breytingar á ríkisútvarpinu hefur ekki náðst sátt á pólitískum vettvangi. Einnig má geta þess, að stofnaður hefur verið félagsskapur almennra borgara til að koma í veg fyrir breytingar á ríkisútvarpinu.

 

Í þessu ljósi þótti mér merkilegt að heyra orð Kára Jónassonar, fráfarandi fréttastjóra hljóðvarps ríkisins, þegar frá því var sagt í vikunni, að hann yrði ritstjóri  Fréttablaðsins frá 1. nóvember. Hinn 16. september sagði Kári meðal annars í kvöldfréttatíma hljóðvarpsins:

 

„ Ja, það þarf náttúrulega að búa þessari stofnun [ríkisútvarpinu] ákveðið og gott lagaumhverfi. Við höfum haft hérna hvern menntamálaráðherrann á fætur öðrum og það er hver nefndin á fætur annarri, sem koma hér og skila álitum og það á að gera þetta og það á að gera hitt og starfsfólkið hérna sumt er orðið dálítið leitt á því og þreytt að það skuli ekkert vera ákveðið, hvernig stofnun á þetta að vera, hvernig á hún að vera fjármögnum, hvernig á henni að vera stjórnað og þar fram eftir götunum. Og þetta er náttúrulega verkefni nýs menntamálaráðherra, að gera það.“ 

 

Allir helstu stjórnendur ríkisútvarpsins hafa lýst yfir vilja til þess, að stofnuninni verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, margir aðrir útvarpsstarfsmenn mega ekki heyra á það minnst og á stjórnmálavettvangi hafa verið reifaðar hugmyndir, sem taka ekki mið af því að styrkja innviði útvarpsins sem best með nýju skipulagi. Það er mikil einföldun á þessu máli, að nefna aðeins menntamálaráðherra og nefndir til sögunnar. Miklu nær væri að beina athygli að þeim, sem hafa snúist gegn öllum tilraunum til umbóta.

 

„Öryggissamfélag“ við Bandaríkin.

 

Valur Ingimundarson lektor flutti merkilegan fyrirlestur um samskipti Íslands og Bandaríkjanna í öryggismálum á ráðstefnu um smáríki í Háskóla Íslands í gær, laugardaginn 18. september, ef marka má frásögn Morgunblaðsins í dag.

 

Síðasta vor og sumar og reyndar áður voru íslensk stjórnvöld að hamra á því, að Bandaríkjastjórn gæti ekki tekið einhliða ákvörðun um breytingar á varnarsamstarfinu. Ég setti fram það sjónarmið, að ekki mætti líta á þetta sem tæknilegt úrlausnarefni bandaríska varnarmálaráðuneytisins heldur ætti að ræða málið á stjórnmálavettvangi og hafa um það samráð.

 

Valur sagði frá því í fyrirlestri sínum, að á sjöunda áratugnum hefðu lögfræðingar bandaríska varnarmálaráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu, að það jafngilti broti á varnarsamningi Bandaríkjanna og Íslands að kalla orrustuþotur til Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Þetta sjónarmið fékkst hins vegar ekki viðurkennt í fyrra, fyrr en að loknum afskiptum Davíðs Oddssonar og íhlutun George W. Bush forseta.

 

Í fyrirlestri sínum taldi Valur, að hernaðarlegt mikilvægi Íslands væri ekki lengur fyrir hendi í „öryggissamfélagi“ við Bandaríkin og einnig vantaði þar „umfangsmikinn efnahagsþátt.“ 

 

Um þessa niðurstöðu má deila. Innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna er ekki áhugi á því að rjúfa varnarsamninginn við Ísland. Spurningin snýst ekki um það heldur hitt, hvert skuli vera inntak varnarsamstarfsins og um það efni hefur verið tekist í viðræðum. Enginn getur sagt, hvert hernaðarlegt gildi Íslands verður eftir fáein ár ? eitt er víst að landafræðin breytist ekki. Hinu má ekki heldur gleyma, að í fjárfestingum hér á landi er enginn fremri Bandaríkjamönnum um þessar mundir, svo að ekki skortir „umfangsmikinn efnahagsþátt“ í samskipti ríkjanna.