• Ríkisstjórnarfundur 14. september 2004

14.9.2004

Breytingar við ríkisstjórnarborðið

 

Eitt af síðustu embættisverkum Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra var að rita mér bréf og tilkynna mér, að forseti Íslands hefði að tillögu Davíðs sett Geir H. Haarde fjármálaráðherra til að taka ákvörðun um veitingu embættis hæstaréttardómara, sem auglýst var laust til umsóknar 13. ágúst síðastliðinn en  hinn 10. september tilkynnti ég forsætisráðherra eftirfarandi:

„Embætti dómara við Hæstarétt Íslands var auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingarblaðinu hinn 13. f. m. Meðal umsækjenda er Hjördís Hákonardóttir dómstjóri. Hún var einnig meðal umsækjenda um það dómaraembætti sem Ólafi Berki Þorvaldssyni var veitt hinn 19. ágúst 2003 og bar þá skipan undir kærunefnd jafnréttismála. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun mín um skipan í það embætti hefði brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, og beindi því til mín að finna „viðunandi lausn á málinu“. Viðræður í því skyni hafa farið fram en er ekki lokið. Meðan þær hafa ekki verið til lykta leiddar tel ég að aðrir umsækjendur megi með réttu draga í efa óhlutdrægni mína við val á umsækjendum í það embætti sem nú er laust, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim sökum tel ég ekki verða hjá því komist að víkja sæti við meðferð og töku ákvörðunar um veitingu þess skv. 4. gr. s. l.“

Í þessari tilkynningu minni felst með öðrum orðum, að ég tel mig með vísan til stjórnsýslulaga vanhæfan til að skipa í það embætti hæstaréttardómara, sem nú er laust. Ég komst að þessari niðurstöðu með vísan til þess sem að ofan segir.

Tilkynning sem þessi kallar á viðbrögð af hálfu forsætisráðherra, sem gerir tillögu til forseta Íslands um staðgengil og í þessu tilviki, að Geir H. Haarde komi í minn stað. Var þessi tillaga forsætisráðherra kynnt á ríkisstjórnarfundi laugardaginn 11. september (en lögum samkvæmt eru allar tillögur til forseta kynntar í ríkisstjórn) og með bréfi 13. september tilkynnti forsætisráðherra mér, að forseti hefði fallist á tillögu hans og sendi forsætisráðuneytið umsækjendum bréf þess efnis sama dag. Er þetta mál þar með úr mínum höndum og mun Geir H. Haarde taka ákvörðun í því að fenginni umsögn hæstaréttar um umsækjendur.

Ríkisstjórnarfundurinn laugardaginn 11. september var hinn fyrsti sem Davíð stjórnaði frá því að hann veiktist. Síðan var haldinn fundur í ríkisstjórninni að nýju þriðjudaginn 14. september, þar sem Davíð sat enn við stjórnvölinn – en í síðasta sinn í þessari lotu, sem staðið hefur frá 30. apríl 1991! Var fundurinn hinn 960. í röðinni á þessum langa tíma. Davíð hefur verið forsætisráðherra þremur árum og tveimur mánuðum lengur en sá forsætisráðherra, sem næstlengst hefur setið; Hermann Jónasson.

Af ráðherrum, sem setið hafa í ríkisstjórnum Davíðs þennan tíma, hef ég setið næst lengst með honum – næst á eftir Halldóri Ásgrímssyni  - báðir komum við í stjórnina í apríl 1995, en ég hvarf frá í rúmt ár til að taka slag við R-listann í Reykjavík. Okkur samherjum mínum í þeim slag tókst ekki fella meirihluta R-listans en við löskuðum hann þó þannig, að hann minnir helst á stefnu- og stjórnlaust rekald um þessar mundir, höfuðandstæðingurinn á þeim tíma, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. hrökklaðist úr brúnni, nauðug viljug, og veldur nú meiri vandræðum innan Ríkisstjórnarfundur - Halldór og DavíðSamfylkingarinnar en gagnvart öðrum flokkum.

Hér á þessum síðum hef ég oftar en einu sinni tekið slaginn með Davíð og leitast við að leggja honum lið í baráttu, sem hefur á stundum verið hörð og óvægin. Alltaf hefur á hinn bóginn verði ánægja að berjast með Davíð vegna þess hve einarður og baráttuglaður hann er. Nú á þessum tímamótum hefur hann komist þannig að orði, að á huga sinn hafi oft leitað á undanförnum árum á hvern hátt hann myndi yfirgefa forsætisráðherrastólinn, hvort hann mundi ráða einhverju um það sjálfur eða hrökklast þaðan. Nú væri hann viss um, að hann hefði ekki getað valið sér betri leið en þá, sem hann er að ganga þessa daga, þegar þeir skiptast á ráðherrastólum Davíð og Halldór.

Í frétt sjónvarpsins um kvöldið sagði: Og það var óvenjulegt í morgun að heyra lófatak frammi á gang af ríkisstjórnarfundi, sem er afar sjaldgæft.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra: Nei, það var nú ekki gert. Ég lagði til að við klöppuðum bara fyrir ríkisstjórninni í heild, þannig að svona var ekkert spes klapp fyrir mig.

Það er rétt sem í fréttinni sagði, lófatak á ríkisstjórnarfundum er afar sjaldgæft, ég  man að minnsta kosti ekki eftir að það hafi áður verið klappað við ríkisstjórnarborðið.

Ég ætla ekki að fara yfir það, sem hæst hefur borið undanfarin 13 ár. Hitt vil ég minna á, að allan þann tíma, sem ég hef setið í stjórn með Davíð, hef ég haldið úti þessari síðu og sagt frá ýmsu þar, sem á dagana hefur drifið. Ég vek einnig athygli á ræðu, sem ég flutti á Hólum nú í ágúst, þar sem ég leit yfir farinn veg frá 1991 og hve margt gott hefur áunnist. Ef að líkum lætur mun ég einnig fjalla hér síðar um eitthvað af því, sem aðrir hafa um Davíð og ríkisstjórnir hans að segja á þessum tímamótum.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sat sinn síðasta ríkisstjórnarfund að sinni í morgun og er vissulega skarð fyrir skildi, þegar hún kveður, því að Siv er skeleggur málsvari þess, sem hún tekur sér fyrir hendur.