12.9.2004

Stjórnmál, viðskiptalíf og  pólitískt hviklyndi.

 

Þegar fylgst er með umræðum um kaup Símans á hlut í Skjá einum og síðan um kaup Norðurljósa í Og Vodafone, er augljóst, að Norðurljósa- og Baugsmiðlarnir líta veröldina allt öðrum augum eftir því hver á í hlut. Þetta þrönga sjónarhorn á atburði í viðskiptalífinu háir þeim meira og meira, sem skrifa í þessa miðla og segja þar fréttir. Og vegna þess, hve starfsmönnunum er annt um að draga stjórnmálamenn í dilka við þessa hagsmunagæslu eigenda sinna, eru orð og gerðir stjórnmálamanna einnig metin á þessum forsendum.

Spyrja má: Er réttur kvarði á stefnu og störf stjórnmálamanna að draga þá í dilka með vísan til átaka á milli einstakra fyrirtækja? Er ekki verið að setja stjórnmálastarf í rangt ljós, þegar stjórnmálaskoðanir eru ekki lengur lagðar til grundvallar við mat á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum heldur afstaða til ákvarðana um kaup og sölu á fyrirtækjum? Hvar sjá menn fyrirmynd fyrir slíkum „stjórnmálaumræðum“ annars staðar?

Eftir hrun kommúnismans breyttust áherslur í stjórnmálaumræðum, þar sem ekki lék lengur neinn vafi um það, hvort lífvænlegra stjórnmálakerfi byggðist á kapítalisma eða kommúnisma.Varðstaða um rétt manna til að eiga fyrirtæki og reka þau án íhlutunar ríkisvaldsins eða forsjár þess varð óþörf. Því meira sem svigrúm einstaklinga er til frumkvæðis og viðskipta því betur vegnar þeim og þjóðfélaginu, sem heimilar slíkt frelsi. Löggjafarvaldið hefur frelsi til að setja leikreglur um fyrirtæki og markað og setja á laggir stofnanir til að halda þar uppi eftirliti. Eðlilegt er, að deilt sé um, hve langt skuli gengið við setningu slíkra reglna.

Í átökum um reglur af þessum toga hér á landi undanfarna mánuði hefur vígstaða í stjórnmálum tekið á sig nýja mynd. Fjölmiðlum hefur verið beitt skipulega til hagsmunagæslu eigenda sinna, sem töldu hinar nýju reglur setja sér of þröngar skorður. Stjórnmálamenn til vinstri, sem almennt vilja styrkja hlut ríkisins á öllum sviðum, hafa snúist á sveif með eigendum þessara fjölmiðla. Þeir fögnuðu því fyrir fáeinum vikum, að nýju reglurnar náðu ekki fram að ganga. Þeir krefjast þess nú, að aðrir fari að ákvæðum hinna afturkölluðu reglna, af því að nú þjóna ákvæði þeirra hagsmunum fyrirtækjanna.

Þessi þrætubókarlist verður stunduð áfram. Til hennar er stofnað með því að flétta saman fjölmiðla, stjórnmál og einarða fjárhagslega hagsmunagæslu – þá gæslu er hins vegar leitast við að fela eins og frekast er kostur.

Á undanförnum árum hefur stundum verið sagt, að líta beri til strauma í viðskiptalífinu til að átta sig á því, hvert þjóðfélagið stefnir, þeir séu miklu öflugri en það, sem sé að gerast á stjórnmálavettvangi. Eðlilegt er, að þetta sé sagt á þeim tímum, þegar stjórnmálamenn hafa verið að rýmka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra með því meðal annars að draga ríkið út úr atvinnurekstri. Í því felst hins vegar blekking, ef menn halda, að með þessari rýmkun hafi löggjafarvaldið afsalað sér valdi til að setja leikreglur.

*

Í viðtali við Morgunblaðið í dag, sunnudaginn 12. september, er Davíð Oddsson spurður af Agli Ólafssyni, blaðamanni:

„Löngu áður en þú lentir í þessum veikindum hafa menn talsvert verið að velta fyrir sér þinni pólitísku framtíð. Hugleiddir þú að hætta í stjórnmálum?“

Davíð svarar:

„Þegar fór að draga að þinglokum í vor ætlaði ég mér satt best að segja að fara yfir þau mál í rólegheitum. Síðan komu öll þessi undarlegheit upp í kringum fjölmiðlafrumvarpið, sem er í mínum huga enn algerlega óútskýrt hvernig gat gerst. Það hafa oft orðið átök í þjóðfélaginu en þetta fór á algerlega nýtt stig eftir að ríkisstjórnin og þingið voru með nýjum hætti sett upp við vegg af þeim sem á að gæta þess að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Þetta var því mikið áfall. Síðan komu veikindin og þá hugsaði ég með mér að það er best að halda bara sínu striki, sjá hverju fram vindur og taka til starfa. Ég vildi ekki láta atburði sem tengdust fjölmiðlafrumvarpinu né veikindin rugla mig í ríminu. En ef ég fæ ekki nægilega mikla krafta til að standa í mínu starfi þá er viðbúið að hætta því vegna þess að maður hefur ekkert leyfi til að vera í starfi sem maður getur ekki sinnt vegna líkamlegra burða. Þá getur maður yfirvegað tekið ákvarðanir um framhaldið.“

Og síðar eiga þessi orðaskipti sér stað milli Egils og Davíðs:

Egill:

„Stjórnmálamenn í stjórnarandstöðunni hafa talið að kaup Landssímans í Skjá einum séu til merkis um að ríkisstjórnin ætli ekki að setja ný fjölmiðlalög.“

Davíð:

„Þessi umræða er dálítið kúnstug. Því var haldið fram að fjölmiðlalögunum væri beint gegn sérstöku fyrirtæki. Nú kemur á daginn, aðeins nokkrum vikum eftir að þessi lög voru drepin fyrir okkur, að þetta voru almenn lög. Þá kemur stjórnarandstaðan og segir: „Þetta gengur þvert á fjölmiðlalögin, sem við vorum á móti.“ Maður bara hlustar á þetta með forundran, en þetta sannar fyrst og fremst að þetta voru almenn lög. En allir eiga rétt á að starfa í samræmi við þau lög sem í gildi eru, ekki bara eitt tiltekið fyrirtæki.“

*

Hér segir Davíð Oddsson, að örþrifaráðið, sem var notað til að stöðva framgang fjölmiðlalaganna, hafi orðið sér hvatning til að halda áfram virkri þátttöku í stjórnmálum og aðeins veikindi fái hindrað þann ásetning sinn. Hann bregður einnig ljósi á hviklyndi og staðfestuleysi stjórnarandstöðunnar, sem sveiflast í takt við hagsmuni einstakra fyrirtækja.

Staðfestuleysi af þessum toga er að verða John Kerry dýrkeypt í baráttunni um forsetaembættið í Bandaríkjunum. Hver könnunin eftir aðra sýnir, að almenningur treystir Bush betur til að gæta öryggis Bandaríkjanna en Kerry. Auk þess hefur Kerry orðið svo margsaga um afstöðu sína til þess, hvernig Bandaríkjamenn eiga að halda á málum í Írak, að einarðir stuðningsmenn hans lenda í standandi vandræðum við að skýra, hvað fyrir honum vakir.

Í sjónvarpsþættinum Meet the Press í dag sagði blaðamaðurinn Bob Woodward, að hann hefði setið með Bush í þrjá og hálfan tíma, þegar hann safnaði efni í bók sína Plan of Attack, og rætt við hann um afstöðuna til stríðsins í Írak. Bush skýrði sjónarmið sitt, færði fyrir því rök og setti í stærra samhengi. Á hinn bóginn fengist Kerry ekki til að ræða afstöðu sína við neinn heldur yrðu menn að draga ályktanir af setningum á kosningafundum, upphrópunum frekar en ígrundaðri afstöðu. Á meðan Kerry fengist ekki til að rökræða málið og skýra, væri ekki við því að búast, að hann nyti trausts.

Stöndum við ekki í svipuðum sporum hér á landi, þegar litið er til hinnar miklu deilu um fjölmiðlalögin? Annars vegar eru þeir, sem settu fram skýrar og ígrundaðar tillögur, byggðar á skýrslu sérfróðra manna, hins vegar eru þeir, sem vildu ekki ræða efni málsins og töldu sér henta að snúast gegn því, þótt þeir í hinu orðinu segðu nýjar leikreglur eiga rétt á sér – bara ekki þær, sem kölluðu á andstöðu Norðurljósa. Á meðan ekki er unnt að ræða almennar leikreglur um viðskiptalífið án tillits til sérgreindra hagsmuna einstakra fyrirtækja og fjölmiðlaáróðurs á vegum þessara fyrirtækja til að móta afstöðu ístöðulítilla stjórnmálanna, er líklegt, að enn verði deilt um umbúnaðinn og aðferðina frekar en efnið.