4.9.2004

Flokksþingum lokið - „brjóstgóð“ stjórnmálastefna - ráðhúsflóttinn.

 

Flokksþingum demókrata og repúblíkana í Bandaríkjunum er lokið og nú eru 60 dagar, þar til kjósendur gera upp á milli frambjóðendanna en þrír mælast með merkjanlegt fylgi á þessari stundu, George W. Bush fyrir repúblíkana með 52%, John Kerry fyrir demókrata með 41% og Ralph Nader til vinstri við Kerry með 3%.

 

Fyrir tilstuðlan veraldarvefjarins er auðvelt að nálgast ræður á flokksþingunum og eftir að hafa lesið lykilræður af báðum þingum, er ég ekki í nokkrum vafa um að sóknarkrafturinn er mun meiri hjá repúblíkönum. Þeir standa hiklaust að baki sínum manni og hann er sjálfum sér samkvæmur.

 

Stutt brot í sjónvarpsfréttum á föstudagskvöld, þar sem sýnd voru viðbrögð Kerrys við ræðu Bush á fimmtudagskvöld og flokksþingi repúblíkana í New York, bar með sér, að Kerry áttaði sig á því, að hann ætti ekki í fullu tré við andstæðing sinn.

 

Þegar hlustað er á fréttir eða lesið í fjölmiðlum um það, sem gerðist á þessum þingum, er óhjákvæmilegt að hafa í huga, að þau blöð, sem einkum er vitnað til hér á landi The New York Times og The Washington Post eru engin stuðningsblöð Bush. Þau draga yfirleitt taum demókrata og gera það í þessari kosningabaráttu núna.

 

Í fréttum ríkisútvarpsins var oft gert meira úr framgöngu mótmælenda utan flokksþingsins en því, sem gerðist þar innan dyra og klykkt var út með viðtali við Davíð Loga Sigurðsson, blaðamann Morgunblaðsins, sem var yfirheyrður af öryggisvörðum, af því að hann færði sig nær Bush til að ná af honum mynd, eftir að hafa setið við hliðina á dularfullum manni, sem virtist ekki hafa hlustað á ræðu Bush til enda!

 

Hér á síðunni hefur áður verið minnst á David Brooks, dálkahöfund The New York Times, og þess getið, að hann var ráðinn á blaðið til að halda fram öðrum sjónarmiðum en vinstrisinna (liberals) á ritstjórnarsíðu blaðsins. Hann vekur máls á því, að ræða Bush á flokksþinginu sýni, að hann verði umbótaforseti (transformational president) á síðara kjörtímabili sínu, sé litið til þess, sem hann boðaði um breytingar á bandarísku þjóðlífi. Slær Brooks annan tón í grein sinni en við heyrum almennt í fréttum eða lesum í blöðum.

 

Ég er sammála þessu mati Brooks. Þegar ég las ræðu Bush, var ég undrandi á því, hve miklum tíma hann varði til að ræða bandarísk innanríkismál miðað við þá mynd, sem dregin hafði verið í fréttum. Meginboðskapur hans um innanlandsmál var sá, að ríkisvaldið skipaði sér við hlið borgaranna en segði þeim ekki fyrir verkum. Ríkisvaldið ætti að auðvelda fólki að lifa lífinu en ekki stjórna lífi þess. Bush sagði: „ Mörg af grundvallarkerfum okkar ? skattalögin, greiðslur heilbrigðiskostnaðar, lífeyrissjóðir, starfsmenntun ? eru sniðin að þörfum fyrri tíma en ekki framtíðarinnar. Við munum breyta þessum kerfum. “

 

„Brjóstgóð“ stjórnmál.

 

Í forystugrein Morgunblaðsins í morgun, laugardaginn 4. september, er stefna Bush í innanríkismálum, sem er skýrð á ensku með orðunum compassionate conservatism, kölluð „brjóstgóð íhaldssemi.“ Þetta er ekki góð þýðing.  Hér er engin hefð fyrir því að ræða stjórnmálastefnu á þeim forsendum, að hún sé „brjóstgóð “ og að nota orðið gerir stefnuna kannski hjákátlega í hugum einhverra. Ekki er líklegt, að það vaki fyrir blaðinu, þótt ekki sé það meðal ákafra stuðningsmanna og aðdáenda Bush og taki frekar mið af The New York Times  í afstöðu sinni til Bush en The Wall Street Journal, svo að nefnd séu tvö bandarísk blöð með ólík viðhorf til forsetans og stefnu hans.

 

Ef litið er til stjórnmálahefðar hér og leitast við að skýra, hvað vakir fyrir Bush og setti svip sinn á val ræðumanna á flokksþingi repúblíkana, er ekki auðvelt að benda á neina fyrirmynd. Átakamálin eru ólík í íslenskum og bandarískum stjórnmálum og hefðir allt aðrar. Ég hef til dæmis orðið þess var innan Sjálfstæðisflokksins, að þar geta menn skipst í fylkingar eftir því, hvort þeir hallast að sjónarmiðum repúblíkana eða demókrata.

 

Sjálfstæðisstefnan hefur þróast og verið túlkuð á þeim 75 árum, sem liðin eru síðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður. Engum dettur í hug, að segja, að sjálfstæðisstefnan sé „brjóstgóð“ þótt hún sé það auðvitað, af því að hún hefur velferð borgaranna að leiðarljósi, án þess að ætla ráða lífi þeirra.

 

Sjálfstæðislokkurinn er sprottinn af samruna Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins og í tímans rás hefur verið mismunandi hvors svip stefna hans hefur einkum borið, þótt einstaklingsfrelsið hafi aldrei lent þar utan garðs. Sjálfstæðisflokknum er hvorki unnt að líkja við flokk repúblíkana né demókrata, hann aðhyllist hins vegar þá stefnu, að ríkisvaldið eigi að auðvelda fólki að lifa lífi sínu en stjórnmálamenn eigi ekki að hafa vald til að segja fólki, hvernig lífinu skuli lifað.

 

Hér á landi hefur orðið til séríslenskt pólitískt hugtak félagshyggja, sem hefur ekkert skýrt eða viðurkennt inntak, eins og Ólafur Björnsson prófessor rökstuddi á skýran og skemmtilegan hátt á sínum tíma. Ég veit ekki, hvernig þetta hugtak er þýtt á erlend tungumál, svo að það segi erlendum mönnum strax, hvað í því felst. Engu að síður hefur hugtakið dugað sem hugsjónagrundvöllur fyrir samstarf vinstrisinna í ólíkum stjórnmálaflokkum hér á landi, eins og til dæmis með stofnun R-listans í Reykjavík.

 

Auðvelt er að halda því fram, að miklu auðveldara sé að skilja, hvað felst í þeirri stefnu Bush, sem kennd er við compassionate conservatism,  en að átta sig á því, hvað felst í félagshyggju.

 

Ráðhúsflótti

 

Hinn 13. júní síðastliðinn sagði ég frá því hér á síðunni, að Helgi Hjörvar, alþingismaður og varaborgarfulltrúi R-listans, hefði sagt í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu þann sama dag, að R-listinn væri að verða lítil klíka í Ráðhúsinu án þess að vera í tengslum við eitt eða neitt. Það hefði þó verið og verði verkefni R-listans að lokast ekki inni í Ráðhúsinu.

 

Með þessum orðum var Helgi að taka undir með Sverri Jakobssyni, sem er einn forystumanna vinstri/grænna í Reykjavík, en þeir eiga eins og kunnugt er aðild að R-listanum ? en Sverrir hafði komist þannig að orði, að klíka í ráðhúsi Reykjavíkurborgar væri að taka völdin af R-listanum.

 

Þegar spurt var um það, hverjir væru í þeirri klíku, sem hér er lýst af forráðamönnum R-listans, en Helgi var á sínum tíma einn af helstu hvatamönnum listans, fengust að sjálfsögðu engin svör.  Hins vegar hefur það síðan gerst, að flótti virðist brostinn í lið þeirra, sem starfa í ráðhúsinu.

 

Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður sagði starfi sínu lausu til að fara í betur launað lögmannsstarf hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður var ráðinn borgarlögmaður en hafði stutta viðdvöl í ráðhúsinu og hinn 1. maí 2004 var Gunnar Eydal, skrifstofustjóri borgarstjórnar, ráðinn borgarlögmaður til eins árs.

 

Þegar auglýst var eftir ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu sóttu þrír lykilstarfsmenn Reykjavíkurborgar um starfið, tveir úr ráðhúsinu: Helga Jónsdóttir borgarritari og Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur; og einn í nánum tengslum við ráðhúsið og borgarstjóra: Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri miðborgar. Ekkert þeirra fékk starfið en umsóknirnar bera með sér, að þetta áhrifafólk um stjórn Reykjavíkurborgar sé að hugsa sér til hreyfings.

 

Þórólfur Árnason borgarstjóri tók því illa á sínum tíma, þegar rætt var í borgarstjórn um málefni miðborgarinnar og flækjufót í stjórn málefna hennar undir forystu hans, að ég leyfði mér að nota orðið „silkihúfur“ um alla, sem kæmu að miðborgarmálum í stjórnunarstörfum. Taldi borgarstjóri mig fara niðrandi orðum um ágæta embættismenn með því að nota þetta orð! Nú eru þeir hins vegar að leita að störfum annars staðar. Hvað segir borgarstjóri þá? Hvað eða réttara sagt, hver veldur?

 

Ef ástand í einhverju ráðuneyti væri á sama veg og þessi flótti eða tilraun til flótta úr ráðhúsinu sýnir, myndu fjölmiðlar áreiðanlega gera sér mat úr því og leitast við að upplýsa málið. Ráðhúsklíkan vekur greinilega óróa og ótta innan R-listans og hún skapar ólgu meðal embættismanna en fjölmiðlar hafa ekki áhuga á að vita, hverjir eru í henni eða hvaða dilk hún dregur á eftir sér, hvert sem litið er.