29.8.2004

Þingvellir og Þjóðminjasafn - Ólafs lykillinn

 

Í gær, laugardaginn 28. ágúst, var skjöldur afhjúpaður á Þingvöllum því til staðfestingar, að þeir hefðu verið skráðir á heimsminjaskrá UNESCO. Fransesco Bandarin, forstöðumaður heimsminjaskrifstofu UNESCO,  kom hingað til lands af þessu tilefni og afhenti mér skjal skráningunni til staðfestingar við hátíðlega athöfn á Þingvöllum.

Ákveðið var að slá upp tjaldi við fræðslumiðstöðina á Hakinu til að hýsa ræður við upphaf athafnarinnar, þar sem veðrið var annað þennan dag en daginn á undan og nú í dag, sunnudag, þegar sól skín að nýju. Það var skýjað og dálítil rigningarhraglandi í golunni. Veðrið setti þó síður en svo skugga á neitt, þegar við fórum síðan á Hakið og niður í Almannagjá, áður en aftur var snúið í tjaldið.

Eins og ég hef áður sagt hér á síðunni hefur verið ánægjulegt að taka þátt í því að Þingvellir fái þessa alþjóðlegu viðurkenningu og hátíðarstundin í gær mótaðist af þeirri virðingu, sem okkur ber að sýna þessum friðlýsta helgistað allra Íslendinga.

Aðdragandi þessarar athafnar hefur verið langur eins og aðdragandi þess, að Þjóðminjasafnið yrði opnað að nýju, en það verður nú miðvikudaginn 1. september. Árið 1998 var ákveðið að loka safnhúsinu við Suðurgötu og hefja á því gagngerar endurbætur. Þá strax var ljóst, að mikið verk væri fyrir höndum, sem í senn mundi kosta mikið fé og langan tíma.

Þegar litið er til alls þess mikla verks, sem unnið hefur verið í þágu Þjóðminjasafnsins undanfarin sex ár, er það rétt, sem Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir í blaðaviðtölum nú um helgina, að þessi sex ár eru ekki langur tími.

Full ástæða væri til þess að skrifa alla þessa sögu um endurreisn og endurnýjun  Þjóðminjasafnsins og allt það, sem gerst hefur á vettvangi þjóðminja ? og fornleifavörslu undanfarin ár. Ný kynslóð fræði- og safnamanna er komin til sögunnar og á þessum vettvangi hafa ekki síður orðið söguleg þáttaskil en svo víða annars staðar.

Aðgengi að menningarminjum er allt annað en áður og kröfur til kynningar á þeim hafa einnig gjörbreyst. Sömu sögu er að segja um varðveislu þessara minja utan sýningarsala og forvörslu en ekki síst á því sviði hefur öll aðstaða Þjóðminjasafnsins tekið stakkaskiptum. Þegar safnhúsið við Suðurgötu var tæmt, komu eðlilega í ljós hlutir og minjar, sem enginn vissi um, fyrir utan þá, sem komu þeim þar í geymslu á sínum tíma. Nú hafa þessi menningarverðmæti öll verið færð í eina skrá og sett í í trausta, sérhannaða geymslu, þannig að hlúð hefur verið að þeim samkvæmt nútímakröfum til varðveislu til langrar framtíðar.

Á sínum stóð valið á milli þess að loka safnhúsinu og gera það upp eða flytja safnið í önnur húsakynni og var í því efni meðal annars litið til SS-hússins svonefnda í Laugarnesi, en enn hefur ekki verið afráðið, hvað við það hús verður gert. Ef safnhúsið hefði ekki verið tæmt vegna viðgerðanna, hefði ekki orðið hið langa rof í sýningarhaldi þar.

Hinn 1. september næstkomandi er þessi tími án sýningar í safnhúsinu við Suðurgötu á enda og er ég þess fullviss, að allir sanngjarnir menn taka undir með Margréti Hallgrímsdóttur, að undanfarin sex ár hafi verið einstaklega vel nýtt til að styrkja innviði Þjóðminjasafnsins.

 

Ólafs lykillinn.

 

Da Vinci lykillinn er væntanlega með mest lesnu sumarleyfisbókunum á þessu ári, enda er hún ágæt skemmtun, sem byggist á því að leiða lesandann áfram í völundarhúsi með nýstárlega sýn á það, sem almennt eru talin viðurkennd sannindi, orðaleikjum og þrautum hvers konar. Allt eru þetta góðar brellur til að draga að sér lesendur og halda athygli þeirra og áhuga vakandi í gegnum tæpar 500 síður, að minnsta kosti hafði ég gaman að bókinni í sumarleyfi mínu. Mér þótti einnig fróðlegt að kynnast framandi og ógnvekjandi heimi í bókinni Bóksalinn í Kabúl. Þótt ólíku sé saman að jafna leiða báðar bækurnar lesandann inn á slóðir, sem flestum eru nýjar, önnur undir merkjum skáldskapar hin undir merkjum blaðamennsku.

Oft er að finna greinar og hugleiðingar í dálkum blaða, sem eiga að vera okkur til upplýsingar og skýringar á málefnum líðandi stundar, en eru miklu meira í ætt við Da Vinci lykilinn en Bóksalann í Kabúl. Það er að segja höfundurinn býr sér til einhverjar forsendur og leitast síðan við að gera þær trúverðugar með því að nefna til sögunnar menn, staði eða atburði úr samtímanum.

Margir munu skoða verk eftir Leonardo da Vinci frá öðru sjónarhorni eftir að hafa lesið bókina um lykilinn eða líta staði í sögunni öðrum augum en áður. Þótt da Vinci komi við söguna eða alþekktir ferðamannastaðir á hún sér ekki nokkra stoð í veruleikanum. Sagan hefur þó getið margt af sér eins og vefsíðuna www.davincicode.com og líflegar umræður um, hvað sé satt í henni og skáldskapur.

Þessi munur á skáldskap og veruleika sækir á huganna, þegar lesin er grein eftir Ólaf Hannibalsson í Fréttablaðinu í dag, sunnudaginn 29. ágúst. Ólafur hefur látið verulega að sér kveða á ritvellinum nú í sumar og stofnaði auk þess meðal annars þjóðarhreyfingu með þeim séra Erni Bárði og Hans Kristjáni Árnasyni til að berjast fyrir því, að þjóðin felldi fjölmiðlalögin, ef til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið. Meðal sérkennilegra umræðuafbrigða fjölmiðladeilunnar var ritdeila þeirra Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs um það, sem þeim fór á milli í kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar.

Grein Ólafs í Fréttablaðinu, en hún birtist á þeim stað, þar sem fastir dálkahöfundar blaðsins hafa aðsetur, hefst á þeirri staðhæfingu, að vísu innan sviga og með fyrirvara um, hvort eitthvað sé hæft í því  „sem birst hefur á prenti að fyrirliggjandi sé frumvarp í skúffum dómsmálaráðherra um að breyta skipan Hæstaréttar á þann veg að í embætti forseta dómsins verði skipað ævilangt í stað þess að nú kjósa dómararnir einn úr sínum röðum á tveggja ára fresti til forseta réttarins.“

Ég veit ekki, hvar Ólafur hefur séð þetta á prenti, en með einu símtali eða tölvubréfi hefði hann fengið staðfest hjá mér, að ekkert frumvarp um þetta efni er í skúffum mínum og það hefur ekki einu hvarflað að mér, að upp verði tekin sú skipan, sem er leiðarhnoðið í þessari grein Ólafs Hannibalssonar. Það hentaði Ólafi líklega ekki að leita að hinu sanna í þessu máli, áður en hann samdi grein sína, frekar en það hentar honum, að segja söguna alla, þegar hann tekur undir með Hreini Loftssyni um að hér á landi ríki „ógnarstjórn“ og vitnar í því samhengi til orða, sem féllu hér á þessari síðu hinn 20. júlí síðastliðinn og þess, sem James Madison, fjórði forseti Bandaríkjanna (1809-1817) sagði til varnar þeirri stjórnskipan Bandaríkjanna, að hafa skil á milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds.

Í þessum pistli 20. júlí síðastliðinn sagði:

„Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hefur skrifað reglulega um framgöngu fjölmiðla í þessum umræðum [um fjölmiðlafrumvarpið] og eru lýsingar hans á þeim aðferðum, sem beitt er í áróðursskyni, oft lyginni líkastar. Þá hefur Vef-Þjóðviljinn á www.andriki.is lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á hinum makalausa áróðri gegn frumvarpinu. Morgunblaðið snerist í ritstjórnargreinum á sveif með frumvarpinu, þótt stjórn Árvakurs væri annarrar skoðunar. Veist hefur verið að öllum þessum í Fréttablaðinu og DV á markvissan hátt, auk þess hafa þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Jón Steinar Gunnlaugsson sætt sérstöku  ámæli í Baugstíðindunum. Spjótum hefur þó sérstaklega verið beint að Davíð Oddssyni og í því efni hefur Illugi Jökulsson, ritstjóri DV, gengið úr fyrir öll mörk. Yfir mér hefur verið vomað af Baugstíðindum, eins og ég hef áður lýst. Höggin á okkur Davíð, Hannesi Hólmsteini og Jóni Steinari eru líklega látin dynja til að hafa áhrif á sálir í liði stuðningsmanna okkar.“

Það er lokasetningin í efnisgreininni, sem vekur hjá Ólafi hugmyndina um „ógnarstjórn“ og sú skoðun hans, að þingmenn meirihluta séu auðsveipir þjónar flokksforingja sinna og í Hæstarétt sé raðað frændum, vinum og pólitískum samherjum sömu manna. Lykilinn að réttmæti skoðunar sinnar fær Ólafur síðan með því að vitna í grein Jóns Þorlákssonar, fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins, um Jónas Jónsson frá Hriflu.

Ólafur er að skrifa sögu Bjarna Jónssonar frá Vogi, sem var áhrifamaður í stjórnmálum á tímum Jóns Þorlákssonar, en Jón gat ekki reitt sig á stuðning hans, þegar hann reyndi að mynda ríkisstjórn árið 1924. Við þá söguritun hlýtur Ólafur að tileinka sér vinnubrögð í anda höfundar Bóksalans í Kabúl, þótt hann skrifi þennan dálk sinn í Fréttablaðið í samsærisanda höfundar Da Vinci lykilsins.