23.8.2004

Kveðja frá Slóveníu - Ólympíuland?

Ég skrifa þennan pistil á hótelsvölum í Bled í Slóveníu með útsýni yfir vatnið og tindóttan fjallahringinn. Eins og sjá má á dagbókinni minni er ég hér í nokkra daga fríi í tilefni af því, að Rut fór hingað í tónleikaferð með Skálholtskvartettinum.

 

Við höfum einu sinni komið til Slóveníu áður, á fund menningarmálaráðherra Evrópuráðslanda, sem haldinn var í Portoroz, við Adriahafið. Nú kusum við að nota tímann til að sjá fjalla- og Alpafegurðina í Slóveníu.

 

Slóvenum hefur tekist betur að halda á eigin málum en öðrum þjóðum í Júgóslavíu fyrrverandi. Þeir lýstu yfir sjálfstæði sínu 25. júní 1991 og komust hjá blóðbaðinu, sem einkennt hefur aðra hluta Júgólavíu.  

 

Slóvenar eru sá hluti slava, sem fór lengst vestur á bóginn. Landið er um 20 þúsund ferkílómetrar og íbúarnir tæpar tvær milljónir. Ítalía, Austurríki, Ungverjaland og Króatía eiga landamæri með Slóvakíu. Þegar ekið er frá höfuborginni Ljubljana eru aðeins nokkrir tugir kílómtera til einhvers þessara landa.

 

Af því, sem við höfum séð, finnst mér þrifnaður og snyrtimennska einkenna það, sem við blasir, hvort sem er á mörkuðum; í höfuðborginni Ljubljana eða þegar ekið er eftir sveitavegum og um lítil þorp þar. Ég ætla ekki að segja neitt um stjórnmál hér í Slóveníu, þar sem ég þekki ekkert til þeirra, umfram það, sem má lesa eða heyra í fréttum, og þar sem þær eru almennt fáar af slóvenskum stjórnmálum í fjölmiðlum utan landsins, dreg ég þá ályktun, að stjórnarfarið sé farsælt og hér ríki sæmilegt jafnvægi. Eitt er víst, að Slóvenar telja það mikilvæga viðurkenningu á því, að vel hafi til tekist við stjórn landsins, eftir að það varð sjálfstætt, að Slóvenía varð aðili að Evrópusambandinu 1. maí síðastliðinn.

 

Ólympíuland?

 

Í The Financial Times laugardaginn 21. ágúst las ég stutta hugleiðingu eftir David Owen, íþróttaritstjóra blaðsins, um olympíuleikana. Hann talar þar um leikana sem sjálfstætt ríki og veltir fyrir sér hvort áhugi á þeim kunni að vera að minnka. Segir raunar, að slíkar vangaveltur megi kallast fráleitar, þegar talið sé að 3,9 milljarðir manna geti fylgst með þeim í sjónvarpi og fimm af stærstu borgum heims séu að kreppast um að fá að halda þá árið 2012. Hins vegar veki allir tómu áhorfendabekkirnir í „Olympíulandi“ þá tilfinningu, að þetta land eigi sér sjálfstæða tilveru, sé einangrað frá umheiminum og aðeins sé unnt að nálgast það í gegnum rafræna miðla.

 

Þær tvær vikur, sem leikarnir standi, minni umgjörð þeirra á það, sem venjulega einkenni sjálfstæð ríki. Svæði leikanna er skýrt afmarkað, þorp og keppnisstaðir séu aðeins opnir þeim, sem hafi keypt til þess miða eða fengið áritun. Til að komast inn á svæðið þurfi að nota sérmerkt farartæki. Móttaka þeirra, sem hafi fengið áritun, sé á þann veg, að tekið sé sérstaklega á móti þeim á flugvöllum og síðan fái þeir sína sérstöku passa til að komast inn í Ólympíulandið sjálft.

 

Í landinu birtist opinberir starfsmenn í gervi sérmerktra sjálfboðaliða, sem sinni öllum þörfum íbúanna. Landið eigi sinn eigin fána og hefðir eins og upphafs- og lokahátíðir sýni. Innan landsins sé eigin gjaldmiðill, þar sem aðeins megi nota Visa kredit eða debet kort til viðskipta innan marka þess. Landið ráði yfir eigin öryggissveitum og þótt það stundi ekki eigin matvælaframleiðslu sé það næstum sjálfbært, ef marka megi þau orð grísku skipuleggjendanna, að ekki sé nein sérstök þörf á áhorfendum, sem kaupi sína eigin miða, því að tekjur af þeim séu hvort sem er innan við 10% af rekstrarkostnaði skipuleggjendanna.

 

Ritstjórinn varar við því, að lengra sé haldið á þessari braut. Olympíuleikar 21. aldarinnar séu vissulega undraverðir, hvernig sem á þá sé litið, en hætti venjulegt fólk að leggja allt á sig, sem það má, til að geta að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni keypt miða á eitthvert eitt atriði þeirra – sama hvað það er – verði Ólympíulandið einskonar afgirt örríki án ferðamanna. Það yrði til marks um, að þessi mikli íþróttaviðburður væri byrjaður að syngja sitt síðasta.

 

Ég endursegi þennan texta hér vegna þess að hann skerpti í huga mér þá mynd, sem ég hef af þeim gífurlega viðburði sem ólympíuleikarnir eru. Eins og sjá má hér á síðunum átti ég þess kost að sækja tvenna leika, það er í Atlanta 1996 og Sydney 2000. Enginn einstakur atburður samtímans jafnast á við leikana. Að því er skipulagningu fyrir opinbera gesti varðar, tókst Áströlum mun betur að halda á málum en Bandaríkjamönnum.

 

Það er hárrétt hjá David Owen, að hafi maður verið skráður inn í Olympíulandið, er hann á sjálfstæðri sporbraut innan þess eftir því, hvernig hann er skráður, og verður að lúta þeim reglum, sem þar eru settar, þar til hann hverfur aftur til hins daglega lífs.

 

Ferðin inn í Ólympíulandið er mér ógleymanleg og örugglega öllum öðrum, sem hana hafa farið, hvert svo sem erindi þeirra hefur verið. Mestu skiptir auðvitað þátttaka íþróttamannanna sjálfra og ekki þarf annað en sjá ljómann í andliti þeirra að sigri unnum til að sjá, hve mikils virði er, að fá þetta einstæða tækifæri til að sýna, hvað í manni býr.

 

Fyrir leikana að þessu sinni var því spáð, að Grikkir mundu ekki ráða við þetta risastóra verkefni. Eftir því sem ráðið verður af fréttum, þegar leikarnir eru hálfnaðir, var hér um órökstuddar hrakspár að ræða. Megi takast að ljúka leikunum árið 2004 á farsælan hátt!