Fjölmiðlaspuni - skattaumræður - stjórn fiskveiða.
Yfirlit
Nú eru rúmar tvær vikur frá því að Davíð Oddsson veiktist hastarlega og hefur síðan orðið að ganga undir tvær miklar skurðaðgerðir. Fréttir af líðan hans og aðgerðunum hafa verið birtar í samráði við lækna hans og þegar þær eru skoðaðar sést, að ekki er ástæða til að draga af þeim neina aðra ályktun en þá, að Davíð muni snúna aftur til mikilvægra starfa, þegar hann hefur hvílst og náð sér eftir aðgerðirnar.
Með þetta í huga er ég undrandi yfir því, hvernig sumir fréttamenn eða fréttaskýrendur eru teknir til við að ræða um áhrif veikinda Davíðs á stjórnmálaþróunina eða lýsa meðferð sjúkdóms hans án tillits til tilkynninga, sem byggjast á frásögnum lækna hans og eru staðfestar af þeim. Við því var auðvitað að búast, að umræður af þessum toga yrðu í fjölmiðlum, en í þessu efni eins og öðrum verður að gera þá kröfu, að þeir, sem draga ályktanir, hafi eitthvað við að styðjast. Eitt er að spinna um málefni annað að gera það um líf manna og heilsu.
Síðdegis föstudaginn 6. ágúst var mér sagt, að Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður á sjónvarpinu, væri að reyna að ná í mig, af því að hún vildi ræða við mig um þróun mála á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, ekki til þess endilega að hafa neitt eftir mér heldur til að safna efni í einhvers konar fréttaskýringu. Ég hafði ekki tök á að ræða við hana og hugsaði, þegar ég hlustaði á kvöldfréttir sjónvarpsins, hvort það hefði í raun breytt nokkru, því að þar var meðal annars að finna getgátu eins og þessa, sem ég hef áður vikið að opinberlega og sagt algjörlega úr lausu lofti gripna:
„Margir höfðu reiknað með að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hyrfi úr ríkisstjórn í haust og héldi til starfa í utanríkisþjónustunni en við þessar breyttu aðstæður eru nú taldar hverfandi líkur á því.“
Ég veit ekki hverjir þessir „margir“ eru ? ég hef séð eitthvað um þetta í uppspunadálkum DV , en ekki hefur hvarflað að mér að fara til starfa í utanríkisþjónustunni og enginn samstarfsmaður minn hefur haft orð á því við mig, hvorki meðal ráðherra né þingmanna. Mér datt helst í hug, þegar ég heyrði þetta í sjónvarpsfréttunum, að nú væri einhver spunameistarinn að leiðrétta eigin ósannindi og nota veikindi Davíðs sem átyllu til þess.
Ég nefni þetta hér lesendum síðu minnar til varnaðar ? að þeir taki ekki of mikið mark á öllum þessum heimildarlausu vangaveltum í fjölmiðlum. Af reynslu minni vegna mála, sem ég gjörþekki, veit ég, að órökstuddar fullyrðingar um menn og málefni virðast eiga of greiða leið í gegnum ritstjórnarsigti sumra fjölmiðla.
*
Ég hef áður vikið að því, hvernig Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður fjallar um fjölmiðla í Viðskiptablaðinu og finnst enn ástæða til að hvetja áhugamenn um þróun þeirra að fylgjast með úttektum hans, því að þær eru upplýsandi um vinnubrögð og efnistök.
*
Í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 7. ágúst eru tvær greinar um nýjustu andófsmynd Bandaríkjamannsins Michaels Moores gegn George W. Bush. Myndin fékk Gullpálmann í Cannes fyrr í sumar og þar með gæðastimpil kvikmyndafólks.
Á baksíðu Lesbókarinnar er grein eftir Björn Þór Vilhjálmsson og undir mynd af Moore er þessi útdráttur úr greininni: „Ef áróðurshugtakið er notað í þessum skilningi er jafnljóst að kvikmynd Moores er ekki áróðursmynd.“ Útdrátturinn endurspeglar skoðun þess, sem tók hann út úr greininni, en ekki endilega skoðanir höfundar hennar. Björn Þór segir í grein sinni, að sé litið til skilgreiningar Íslenskrar orðabókar á orðinu „áróður“ megi „þykja ljóst að myndin er hreinn og klár áróður“ Sé orðinu „áróðri“ kastað fram af hugsunarleysi og áróðursmeistaranum lýst sem glæpamanni sé mynd Moores ekki áróðursmynd. Hefði ekki verið nær við val á útdrættinum að styðjast við ályktun Björns Þórs með vísan til orðabókarinnar?
Áhugamenn um veraldarvefinn eiga óteljandi tækifæri til að taka þátt í umræðum um Michael Moore. Sumir hafa sagt, að hann gegni álíka hlutverki fyrir vinstrisinnaða Bandaríkjamenn og Ann Coulter fyrir hina hægrisinnuðu, en ég hef áður vakið máls á skoðunum hennar.
*
Í Lesbókinni er á bls. 2 vitnað í www.murinn.is og það, sem Steinþór Heiðarsson, umsjónarmaður síðunnar, segir um síðasta vefpistil minn, þar sem ég vék að því, hve löðurmannlega er gengið til verks, þegar lögregla og björgunarsveitir eru gabbaðar, auk þess sem ég áréttaði mikilvægi þess, að skipulagi sérsveitar lögreglunnar hefði verið breytt. Orðaði ég það á þennan veg:
„Með fárra daga millibili hefur orðið að kalla sérsveit lögreglunnar á vettvang vegna atgangs vopnaðra mann, sem munda skotvopn og sagðir eru í annarlegu ástandi ? fyrst á Akureyri og síðan á Reykhólum. Minnir þetta á, hve mikilvægt er, að sérsveitin sé sveigjanleg og hreyfanleg, svo að hún sé ávallt reiðubúin að takast á við það, sem að höndum ber.“
Vinstrisinnunum á murinn.is er greinilega lítið um sérsveitina gefið og þessi orð mín um hana fara fyrir brjóstið á höfundi pistilsins, sem segir, að ég hafi ekki sagt, að á Akureyri hafi ekki verið „þörf á slíkri stormsveit“ (leturbr. mín en orðið vísar til stormsveita Hitlers). Hinni tilvitnuðu klausu í Lesbókinni lýkur á þessum orðum:
„Í nýlegu hefti af tímariti Landssambands lögreglumanna var einmitt bent á hversu litla þýðingu það hefði fyrir stóran hluta landsins að leggja höfuðáherslu á uppbyggingu slíkrar sérsveitar á einu landshorni.“
Ég hef einmitt vakið athygli á þessari grein í Lögreglumanninum en hugmynd höfunda hennar er sú, að allir lögreglumenn séu vopnaðir við störf sín.
*
Útlegging Steinþórs á murinn.is á þessum pistli mínum er með öðrum blæ en það, sem Símon Birgisson, blaðamaður á DV, hafði að segja um hann í blaðinu miðvikudaginn 4. ágúst. Símon vekur máls á því, að heimamenn á Reykhólum gagnrýni viðbrögð lögreglunnar en bregður hins vegar því ljósi á hin tilvitnuðu orð mín hér að ofan, að ég hafi „hrósað“ sérsveitinni. Þetta skrifar hann með heimatilbúinni DV-mynd af mér, þannig að uppspuni blaðsins nær ekki aðeins til orða heldur einnig mynda.
*
Úr því að ég er að ræða það, sem gerðist um verslunarmannahelgina get ég ekki annað en tekið undir með V-samtökunum, sem birtu heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 4. ágúst, þar sem stóð: Takk Actavis, Landsbankinn og allir hinir fyrir stuðninginn ? Baráttan heldur áfram, Vdagur ofbeldið burt. Að verðskulda slíkar sérstakar þakkir hlýtur að vera til marks um góðan stuðning við þarft málefni. Hitt er ekki síður þakkarvert, hve almennt virðist hafa verið tekið undir boðskap V-samtakanna um verslunarmannahelgina.
*
Ásgeir Friðgeirsson var á sínum tíma fjölmiðlarýnir og flutti pistla í ríkisútvarpið, þar sem hann sagði kost og löst á fréttamennsku. Hann annast nú kynningarmál fyrir Landsbankann og þá Björgólfsfeðga auk þess að vera varaþingmaður Samfylkingarinnar. Ásgeir þykir útsjónarsamur fyrir umbjóðendur sína og er margt, sem hann skipuleggur, vel gert og vandað.
Í Fréttablaðinu í dag, laugardaginn 7. ágúst, er spurt undir gm@frettabladid.is (Guðmundur Magnússon?): Nýr fréttamaður? og segir síðan: „Frétt Sjónvarpsins um fjárfestingar Björgólfs Thors Björgólfssonar í Tékklandi var um margt forvitnileg. Ekki síst fyrir þær sakir að fréttin barst fréttastofu Sjónvarpsins tilbúin um gervihnött. Sá sem spurði Björgólf í fréttinni er ekki starfsmaður Sjónvarpsins. Nei, hann er starfsmaður Björgólfs. Sá heitir Ásgeir Friðgeirsson og er einnig varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Allar spurningar Ásgeirs voru klipptar út áður en kynningu hans var sjónvarpað og Rakel Þorgeirsdóttir las þær inn að nýju.“
Ef rétt er, hvað hefði Ásgeir sagt um slík vinnubrögð sem fjölmiðlarýnir?
(Eftir að ég hafði sett þetta inn á vefsíðu mína fékk ég um það ábendingu, að Guðmundur Magnússon væri ekki höfundur þessa texta í Fréttablaðinu, netfang hans væri þarna fyrir mistök.)
Á hverju ári er rætt, hvort birta eigi upplýsingar um álagningu skatta. Þessar upplýsingar eru uppgrip fyrir Frjálsa verslun eins og greina má af fréttum um sölu tekjublaðs þess.
Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, sagði í samtali við sjónvarpið 3. ágúst, að blaðið lýsti ekki lengur tekjum hinna auðugustu í þjóðfélaginu og sagði síðan, að tekjur þeirra kæmu mest í gegnum fjármagnstekjur. Þeir greiddu 10% fjármagnstekjuskatt meðan hinn „vinnandi maður“ greiddi 45% með hátekjuskatti, þannig að við gætum verið að horfa á tifandi tímasprengju í íslensku þjóðfélagi, þar sem „ríka fólkið“ greiddi aðeins 10% fjármagnstekjuskatt en hinn „vinnandi maður“ greiddi 45%.
Í Staksteinum Morgunblaðsins er laugardaginn 7. ágúst vitnað til orða Birgis Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sem telur, að hvorki grundvallarregla né mikilvæg pólitísk hugmyndafræði hafi ráðið því, þegar fjármagnstekjuskattur var ákveðinn 10% og ekki jafnhár og tekjuskattur almennt. Ákvörðunin hafi ráðist af hentugleikum og tímabundnu ástandi, nú hafi umhverfi breyst og endurskoða beri skattheimtuna.
Í Staksteinum er einnig vitnað í Jónas Kristjánsson, sem ritar leiðara í gamla blaðið sitt DV. Jónas gefur sér, að „yfirstéttin“ greiði 10% fjármagnstekjuskatt en „almenningur“ rúmlega 40% tekjuskatt og segir síðan: „Yfirstéttin kemst upp með þetta af því að fjármagn er hreyfanlegra en vinnuafl og getur flotið milli landa eftir hentugleikum.“
Í Staksteinum er síðan tekið undir með þeim Birgi og Jónasi, engin rök séu fyrir því að skattleggja tekjur manna með mismunandi prósentu eftir því, hvort tekjur verði til vegna vinnu eða fjármagnseignar. Engin ástæða sé til þess, að þetta verði að einhverju pólitísku ágreiningsmáli. Núverandi ríkisstjórn eigi að jafna þennan mun!
Í Staksteinum er þessi ekki getið, að Jónas Kristjánsson telur nauðsynlegt, að Ísland gangi í Evrópusambandið til að unnt sé að hækka fjármagnstekjuskatt og koma í veg fyrir, að fjármagn streymi úr landi og leiti sér skjóls, þar sem það er minnst skattlagt. Þá er mikil einföldun í þeim orðum fólgin, að hugmyndafræði komist ekki að í umræðum um þetta mál.
Hart var tekist á um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki í 18%. Reynslan hefur á hinn bóginn sýnt, að lækkun skatta á fyrirtæki leiðir til hærri skatttekna ríkissjóðs. Hefði hækkun fjármagnstekjuskatts í för með sér lækkun skatttekna? Hefur það verið skilgreint, hverjir hafa stofnað félög um eigin tekjuöflun? Hverjir eru „auðmennirnir“ eða „yfirstéttin“, sem stefnt er gegn hinum „vinnandi mönnum.“
Í því hefti af The Spectator, sem er dagsett 31. júlí 2004, er að finna ritdóm eftir Owen Paterson, þingmann breska Íhaldsflokksins í kjördæminu North Shropshire og talsmann flokksins um landbúnað, sjávarútveg og matvæli, um bókina The End of the Line: How Over-fishing is Changing the World eftir Charles Clover (útg. Ebury Press, 320 bls.).
Paterson segir að framtak Clovers með ritun bókarinnar sé lofsvert, því að hann bregði ljósi á vanrækt viðfangsefni ? nauðgun hafsins ? eyðilegginguna af völdum nútímatækni við fiskveiðar. Um málið þurfi að fjalla þannig að höfði til almennings og Clover takist það prýðisvel. Vonandi nái bók hans til lesenda, sem annars hefðu ekki sýnt þessu máli neinn áhuga.
Paterson finnst Clover hins vegar of svartsýnn, hann sé of gagnrýnin á þá, sem sækja sjóinn, í stað þess að líta til þeirra, sem móta veiðireglur. Paterson segist sammála Clover um, að auðlindir hafsins eigi að vera eign fólksins en segir, að ríkisstjórnir eigi að setja nýtingarreglur í samvinnu við vísindmenn og útvegsmenn.
Paterson segist nýlega hafa heimsótt Ísland eins og Clover hafi gert og þeir hafi rætt við mikið af sama fólkinu hér ? auk þess sem Paterson fór til Færeyja, sem Clover gerði ekki ? og komist að því, að þar sem ríkisstjórnir móti reglur sætti útvegsmenn sig vel við að vinna í samræmi við þær og virða umtalsverð friðunarsvæði.
Clover sýni snilldarvel hve mikið tjón sé unnið með niðurgreiðslum, brottkasti, „svörtum“ fiski og bræðslufiski; þar sem stundaðar séu hagkvæmar fiskveiðar eins og á Íslandi og í Færeyjum sé þetta bannað. Þess vegna sé ekki unnt að vera sammála Clover um að „ofveiði“ per se sé vandamálið. Það séu óhæfar ríkisstjórnir, einkum innan Evrópusambandsins (ESB), sem geti ekki haft stjórn á fiskveiðum.
Jafnvel þegar ýsa sé í 30 ára hámarki í Norðursjó sé ekki unnt á grundvelli sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB að bregðast við á réttan hátt vegna þess að að ESB skorti nákvæmar upplýsingar um fiskstofna. Þessu sé allt öðru vísi farið á Íslandi, í Færeyjum og á Falklandseyjum, þar sem unnt sé að taka ákvarðanir með vísan til daglegra upplýsinga og loka megi svæðum með klukkustunda-fyrirvara í stað þess, að slíkt taki mörg ár, ef marka megi reynsluna innan ESB.
Paterson segir bók Clovers sýna, að stjórn Breta (en ekki ESB) á fiskveiðum við land sitt sé nauðsynleg frá líffræðilegu, umhverfsilegu, efnahagslegu og félagslegu sjónarmiði. Paterson er sammála þessu mati og þakkar Clover fyrir að gefa sér skotfæri í baráttunni, sem Paterson segist heyja sem málsvari Íhaldsflokksins í sjávarútvegsmálum.