2.8.2004

Öryggi um verslunarmannahelgi og í Bandaríkjunum.

Góður undirbúningur og skipulag lögreglu hefur skilað árangri núna um verslunarmannahelgina. Hvarvetna hefur á markvissan hátt verið leitast við að tryggja, að útihátíðir fari sem best fram. Þegar ekið er eftir þjóðvegum, er augljóst, að lögregla heldur þar uppi virkri gæslu.

Með fárra daga millibili hefur orðið að kalla sérsveit lögreglunnar á vettvang vegna atgangs vopnaðra mann, sem munda skotvopn og sagðir eru í annarlegu ástandi – fyrst á Akureyri og síðan á Reykhólum. Minnir þetta á, hve mikilvægt er, að sérsveitin sé sveigjanleg og hreyfanleg, svo að hún sé ávallt reiðubúin að takast á við það, sem að höndum ber.

Viðbúnaður og samvinna margra aðila að því, að tryggja sem best öryggi þeirra, sem notuðu helgina til útivistar og skemmtunar, minnir á, hve löðurmannlegt er að misnota öryggiskerfið eins og gert var á fimmtudag, ef kallið þá um, að franskir ferðamenn væru illa á sig komnir og í hættu, reynist gabb.

Þótt kallið hafi verið skrýtið, þar sem ekki var tilkynnt um dvalarstað þeirra, sem voru í hættu, var sjálfsagt að kalla út tiltækt lið björgunarsveitarmanna og þyrlu til að leita á þeim slóðum, sem helst voru taldar tengjast kallinu. Eiga þeir miklar þakkir skildar, sem ávallt eru reiðubúnir að leggja á sig erfiði og hættu í þágu meðborgara sinna, hvernig sem á stendur.

Að bregðast við slíku kalli, þótt gabb reynist, er ekki síður mikilvægt en að taka alvarlega, þegar hafðar eru í frammi hótanir um að sprengja mannvirki eða ræna flugvél, þótt slíkar hótanir séu sem betur fer oft markleysa. Ef ekki er alltaf brugðist við af alvöru, er slakað um of á öryggisgæslu í þágu hins almenna borgara.

Fréttir frá Bandaríkjunum herma, að þar hafi viðbúnaðarstig nú verið aukið og öryggisgæsla hert vegna ótta yfirvalda við, að hryðjuverkamenn kunni að ráðast á höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Washington eða fjármálafyrirtækja í New York. Bandarísk stjórnvöld grípa reglulega til slíkra varúðarrástafana en nú er sagt, að þær byggist á upplýsingum frá háttsettum al-quaeida manni, sem var handtekinn í Pakistan í síðustu viku.

Eftir að ráðist var á New York og Washington 11. september 2001, hefur hver úttektin eftir aðra verið gerð á viðbúnaði bandarískra yfirvalda til að standast slíkar árasir. Viðamesta skýrslan um málið kom út fyrir skömmu og þar er lagt til, að kraftar lögreglu og leyniþjónustu og einstakra greina leyniþjónustunnar verði sameinaðir sem mest. Allra flokka menn koma að þessari niðurstöðu skýrslunnar og hlýtur stefnan að vera tekin í þá átt, hver sem verður næsti forseti Bandaríkjanna. George W. Bush hefur sagt, að hann sé hlynntur því, að komið sé fót nýju embætti í því skyni að sameina öll innri öryggismál undir yfirstjórn þess.

Demókratar héldu flokksþing sitt í Boston í síðustu viku. John Kerry forsetaefni og John Edwards varaforsetaefni gerðu þar grein fyrir sér og sínum. Í ræðum þeirra beggja var áhersla á nauðsyn þess að tryggja öryggi bandarísku þjóðarinnar mikil. Kerry telur sér það sérstaklega til framdráttar, að hann tók þátt í Víetnam-stríðinu, þótt öflug fylking fyrrverandi hermanna þar berjist af miklu þunga gegn honum vegna tvískinnungs hans varðandi stríðið og þá, sem þar börðust.

Þegar ráðist var á New York og Washington 11. september 2001, urðu nokkrar umræður um það, hvort árasin mundi ýta undir einangrunarhyggju meðal bandarískra stjórnmálamanna eða hvetja þá til meira alþjóðlegs samstarfs.

Ekkert bendir til vaxandi einangrunarhyggju meðal ráðamanna í Washington. Þegar ég fór til viðræna í Washington í byrjun maí, var ætlan mín meðal annars að átta mig á því, hvort stefnubreyting hefði orðið í þá veru. Ég sneri aftur með þá skoðun, að áhugi á alþjóðasamstarfi væri meiri en áður, að Bandaríkjastjórn teldi það lykilatriði í stríðinu við hryðjuverkamenn að eiga mikið og náið samstarf við ríkisstjórnir annarra þjóða.

Hið sama var uppi á teningnum í orðum demókrata í Boston um utanríkis- og öryggismál. Þeir telja Bandaríkjunum síður en svo fyrir bestu að standa ein og segja raunar, að þeir séu betur til þess fallnir en Bush og samherjar hans að afla Bandaríkjunum vina og bandamanna meðal ríkja heims.

Kosningabaráttan mun að nokkru snúast um það, hvernig Bandaríkjamenn geta best þróað samstarf sitt við aðrar þjóðar á sama tíma og þeir leggja meira á sig sjálfir til að gæta eigin öryggis. Hún snýst þó tæplega um aðild Bandaríkjamanna að Kyoto-bókuninni né alþjóðasakamáladómstólnum, þar sem Bush og Kerry virðast báðir þeirrar skoðunar, að ástæðulaust sé fyrir Bandaríkin að gerast aðilar að bókuninni eða dómstólnum. Kosningabaráttan mun ekki heldur snúast um það, hvort Bandríkjastjórn eigi að breyta um stefnu gagnvart Ísraelsstjórn, því að hvorki Bush né Kerry vilja hverfa frá stuðningi við Ísrael.

Kosningabaráttan snýst að meginþunga um traust – það er hvorum treysta Bandaríkjamenn betur til að tryggja öryggi sitt – Bush eða Kerry.