24.7.2004

Vefsíðan og sagan.

Að gefnu tilefni og samkvæmt ábendingu frá glöggum lesanda síðunnar rifjaði ég upp upphaf hennar í janúar 1995. Við athugun mína studdist ég við gömul tölvubréf, sem gengu þá á milli okkar Arnþórs Jónssonar, forstjóra Miðheima, og Gunnars Grímssonar, sem hannaði upphaflegt útlit síðunnar.

Þar er staðfest, að Arnþór hvatti mig til að reyna fyrir mér með slíka vefsíðu um miðjan janúar 1995. Miðheimar voru þá að hasla sér völl sem einkarekið þjónustufyrirtæki á þessu sviði. Þeir buðu meðal annars námskeið um netið á þessum tíma í Tæknigarði, sem ég sótti. Þeim óx í augum, ef opinberar stofnanir eins og Háskóli Íslands ætluðu að verða einráðar á þessu sviði og töldu brýnt, að einkaframtakið fengi að njóta sín.

Þegar Arnþór sá, að Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Alþýðuflokksins á þeim tíma, hafði opnað vefsíðu undir handarjaðri Háskóla Íslands, spurði hann mig, hvort eðlilegt væri, að opinber aðili yrði vettvangur slíkrar starfsemi og hvort ég vildi ekki reyna fyrir mér með síðu hjá þeim Miðheimamönnum, þeir myndu aðstoða mig við að koma henni á legg. Ég sló til, sagðist eiga um 200 tölvutækar greinar og gæti sett þær inn á slíka síðu.

Við hófum síðan tilraunir með þetta um miðjan janúar 1995, en hér á síðunni hef ég nefnt tvær dagsetningar í sambandi við tilvist síðunnar, 18. janúar og 23. janúar. Við uppfærslu á síðunni hjá Hugsmiðjunni í eplica-kerfið, sem ég nota núna, voru tveir pistlar færðir inn sem pistlar 18. og 27. janúar 1995. Þegar betur er að gáð og litið er á efni þeirra, kemur í ljós, að sá frá 18. janúar á heima undir dagsetningunni 18. apríl 1995 og hinn undir 27. febrúar 1995. Verður þetta leiðrétt.

Í fyrstu var fært á síðuna, án þess að hún væri opinber en 16. febrúar 1995 virðist ég láta einhverja á fjölmiðlum vita um síðuna og fyrsti pistillinn, en það efni hefur vakið mesta athygli á síðunni, er dagsettur 19. febrúar 1995 og segir frá upplýsingatæknifundi á vegum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda þingkosninganna vorið 1995, en á þessum tíma höfðu margir af því nokkrar áhyggjur, að við Íslendingar værum að dragast aftur úr öðrum þjóðum í upplýsingatækni.

Ég segi frá þessu hér til að halda sögu síðunnar til haga og til að vekja athygli á því, að í tilefni af þessum athugunum mínum hef ég breytt ávarpinu á forsíðunni og nefni enga dagsetningu í janúar. Þá hef ég leitt hugann að því, hvers vegna engar ræður eða greinar eru færðar inn á síðuna núna fyrr en í maí 1995 og ætla að kanna það sérstaklega.

Vil ég enn og aftur þakka öllum þeim frábæru tölvumönnum, sem hafa gert mér kleift að halda síðunni úti í öll þessi ár. Stundum hefur hvarflað að mér, hvort þess virði væri að leggja tíma og vinnu í þetta starf. Einkum þegar þessi heimilisiðnaður minn er notaður af andstæðingum mínum sem sérstakt árásarefni á mig eða veist er að mér fyrir að bregða hér á leik til að átta mig á því, hvernig aðrir ganga um síðuna. (Ég hef nú að minnsta kosti sannað fyrir sjálfum mér, að frá hótelherbergi í Kína er bæði unnt að uppfæra síðu af þessum toga og einnig breyta efni eldri síðna. Hvort svo rúmt tjáningarfrelsi gildir fyrir aðra vefsíðusmiði í því mikla landi veit ég ekki.) Frá upphafi hef ég haft að leiðarljósi, að efni síðunnar sé ekki haldið að neinum. Í nokkur ár hef ég haldið úti póstlista og stækkar hann sífellt.

Vefsíðan er hvorki opinber eign né merkilegri heimild en þeir telja, sem líta á hana. Hún hefur hins vegar gefið mér einstakt tækifæri til að halda utan um allt, sem máli skiptir í störfum mínum sem ráðherra í ríkisstjórn með Davíð Oddssyni og oft hef ég leitast við að bregða skildi fyrir Davíð og störf hans hér á þessum stað, þegar ómaklega er að honum vegið að mínu mati. Á stundum eins og þessari, þegar Davíð hefur orðið að ganga undir erfiðan uppskurð, er ómetanlegt að eiga slíkar minningar á einum stað um allt hið merkilega, sem á daga hefur drifið. Ég færi vini mínum einlægar óskir um skjótan og góðan bata.

Oftar en einu sinni hef ég getið þess hér á síðunni, að kommúnistar og marxistar forðast í lengstu lög, að stjórnmálasaga Íslands á tuttugustu öldinni sé öll sögð. Af vorkunnsemi við þá, að þeir eigi nógu bágt yfir að lífshugsjónin lenti á ruslahaug sögunnar, eigi ekki að segja söguna alla heldur hlífa þeim. Ég er þessu innilega ósammála og hef nýlegt dæmi fyrir augunum um það, hvernig menn af þessu sauðahúsi geta ekki einu sinni sagt söguna alla, þegar kemur að atburðum í samtímanum.

Hér vísa ég til greinar í Morgunblaðinu eftir Hjörleif Guttormsson um skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO 18. júlí 2004. Hún virðist helst skrifuð honum sjálfum til heiðurs, þótt hann minnist einnig með réttu góðra starfa Eysteins Jónssonar og Péturs M. Jónassonar í þágu þeirrar hugsjónar að varðveita og vernda Þingvelli. Hjörleifur lætur hins vegar undir höfuð leggjast að segja söguna alla, líklega af því að þá kæmi í ljós, að hann átti engan þátt í því að Þingvellir komust inn á heimsminjaskrá UNESCO, þótt hann sæti í Þingvallanefnd fyrir meira en áratug. Raunar ætti að rifja upp afstöðu Þingvallanefnda í áranna rás, frá því að heimsminjaskráin kom til sögunnar árið 1972, til þess að Þingvellir færu á hana, en íslenska ríkisstjórnin staðfesti ekki aðild Íslands að heimsminjasáttmálanum fyrr en árið 1995.

Síðan gefur mér til dæmis færi á að halda litlum atriðum eins og þessu um Hjörleif, Þingvelli og UNESCO til haga fyrir mig. Þau þykja kannski ekki skipta miklu máli en segja þó sína sögu, sem mundi gleymast, ef hún yrði hvergi skráð. Össur Skarphéðinsson vék einhvern tíma að einhverju, sem hér stóð, sem „heimasíðusnakki“ en næsta dag leit á annað sem dæmi um eitthvað allt annað og mikilvægara. Enginn getur sagt fyrirfram, hvað geymist og hvað gleymist.