18.7.2004

Enn um fjölmiðlalög - í Hvíta húsinu - um söguskoðun.

 

 

Þegar fjölmiðlafrumvarpið var til meðferðar á þingi í vor, kvartaði stjórnarandstaðan mjög undan því, að gefinn væri of skammur tími til að afgreiða málið. Þegar fjölmiðlalögin og breytingar á þeim eru til meðferðar á þingi nú þessa fögru sumardaga, kvartar stjórnarandstaðan mjög undan því, að málinu sé ekki hraðað í gegnum þingið.

Þessi afstöðubreyting stjórnarandstöðunnar og hávaðinn, sem hún gerði í vor um skort á tíma og nú um að of mikill tími sé notaður, er liður í viðleitni hennar til að komast hjá því að þurfa að ræða efni málsins. Liggur þó fyrir, að breytingar, sem gerðar hafa verið með nýju frumvarpi, eru í samræmi við sjónarmið Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, og Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns frjálslyndra.

Ég er mest undrandi á því, að fjölmiðlamenn skuli ekki leita eftir því hjá þessum ágætu mönnum, hvað frekar þurfi að gera vegna þessarar lagasetningar, til þess að þeir sætti sig við efni hennar.  Er það mun mikilvægara athugunarefni heldur en hitt, hvort allsherjarnefnd hittist klukkutímanum fyrr eða síðar.

*

Vef-Þjóðviljinn á www.andriki.is tók saman, hvernig Fréttablaðið hefur sagt frá fjölmiðlalögunum síðustu 50 daga fram að 11. júlí og birti yfirlitið þann dag. Það sýnir, að Fréttablaðið er hreint áróðursblað, þegar að þessu máli kemur.

Viðbrögð þeirra á Fréttablaðinu hafa verið á þann veg að gera Vef-Þjóðviljann tortryggilegan og sneiða að þeim, sem í hann rita. Er markmiðið greinilega að koma í veg fyrir, að Vef-Þjóðviljinn haldi áfram að segja álit sitt á fjölmiðlamálinu, enda gengur skoðun hans í berhögg við sjónarmið Fréttablaðsins. Er óvenjulegt að sjá blað bregðast við á þennan hátt, vegna þess sem fram kemur á vefsíðu ? líklegasta skýringin er, að  ritstjórn Fréttablaðsins svíði undan hinni vel rökstuddu gagnrýni Vef-Þjóðviljans á málatilbúnað Fréttablaðsins.

*

Margt af því, sem ratar inn á síður blaðanna í bardaganum vegna fjölmiðlamálsins, mun þykja undarlegt, þegar frá líða stundir. Er með ólíkindum, hve langt er stundum seilst til að gera andstæðinga  tortryggilega eða grafa undan trúverðugleika þeirra.

Allt talið um fánýta hluti eða persónulegt uppgjör vegna alls óskyldra mála breytir ekki þeirri staðreynd, að ríkisstjórn og alþingi standa frammi fyrir nýju viðfangsefni ? synjun forseta Íslands á lögum. Aldrei fyrr hafa stjórnmálamenn staðið í þessum sporum. Ýmsar leiðir eru færar til að ljúka málinu og hefur komið fram síðustu daga, að lögfróðir menn eru ekki á einu máli um ágæti þeirra.

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins var hinn 12. júlí sagt frá því, að Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefði komið fyrir allsherjarnefnd alþingis. Fréttin var á þennan veg:

„Páll Hreinsson svaraði í sínu áliti þeirri spurningu hvort alþingi mætti fella úr gildi lög sem forseti hefði synjað staðfestingar og ekki hefðu ekki verið lögð undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Hans niðurstaða er í stuttu máli sú að það sé hafið yfir vafa. Alþingi sé allra stofnanna æðst og heimildir þess til lagasetningar ekki takmarkaðar af öðru en sannfæringu þingmanna og ákvæðum stjórnarskrár. Nærtækasta skýringin á 26.grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta sé sú að ákvæðið takmarki ekki vald alþingis til að fella lögin úr gildi, enda virðist meginmarkmið ákvæðisins að orða það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir frambúðargildi laganna að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um þau. Páll tók ekki afstöðu til þess hvort fella ætti fjölmiðlalögin gömlu úr gildi eða setja ný lög í þeirra stað enda væri það ekki lögfræðileg spurning heldur pólitísk eða stjórnspekileg.“

Mér finnst sú skoðun Páls, að alþingi sé allra stofnana æðst og heimildir þess til lagasetningar ekki takmarkaðar af öðru en sannfæringu þingmanna og ákvæðum stjórnarskrárinnar, snerta kjarna þessa máls. Ég skil ekki í þeim þingmönnum, sem vilja ekki standa vörð um þessa grundvallarreglu. Ég skil ekki, hvernig unnt er að túlka stjórnarskrána á þann veg, að 26. grein hennar taki þann rétt af alþingi að kalla aftur lög og setja ný lög, enda eru þeir í minnihluta meðal lögfróðra manna til vitnisburðar fyrir allsherjarnefnd, sem halda þessu fram.

Sérstæð er sú skoðun, að alþingi megi afturkalla lög en ekki setja ný um sama efni, fyrr en nokkur tími hafi liðið. Er nýmæli, að gildi laga ráðist af því, hve lengi var unnið að gerð lagafrumvarps eða hve lengi málið var til umræðu á alþingi.

Í Hvíta húsinu

Eins og fyrri daginn hefur nafn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors oft sést á síðum blaðanna í tengslum við fjölmiðlalögin. Hannes Hólmsteinn lætur víða að sér kveða og þótti einnig í frásögur færandi á dögunum, að hann fylgdist með Davíð Oddssyni forsætisráðherra, þegar hann hitti George W. Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu þriðjudaginn 6. júlí. Hannes Hólmsteinn var þar með sjónvarpstökumanni til að festa þennan sögulega atburð á myndband, en Hannes Hólmsteinn hefur rutt brautina meðal prófessora við Háskóla Íslands við gerð heimildarmynda.

Frá því að Ísland varð lýðveldi hafa þrír forsætisráðherrar farið til viðtals við Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu: Bjarni Benediktsson með Lyndon B. Johnson 1964, Þorsteinn Pálsson með Ronald Reagan 1988 og Davíð Oddsson að þessu sinni með George W. Bush.

Ég var með föður mínum, þegar hann fór í Hvíta húsið 1964 en það var undir lok langrar ferðar um Íslendingabyggðir Kanada og til Seattle, San Fransisco og Los Angeles. Fyrir utan að hitta Johnson í skrifstofu hans í Hvíta húsinu var einnig ógleymanlegt að fara að gröf Johns F. Kennedys í Arlington-kirkjugarði og taka þátt í að leggja þar blómsveig. Thor Thors var þá enn sendiherra Íslands í Washington og Ingvi S. Ingvarsson, síðar sendiherra, var þá sendiráðsritari hjá Thor.

Lyndon B. Johnson hafði komið til Íslands sem varaforseti og vakti athygli fyrir frjálsmannlega framgöngu sína við stjórnarráðshúsið, þar sem hann dreifði pennum með nafni sínu og kveikjurum.

Að loknum fundinum í Hvíta húsinu gengum við með Johnson út í garðinn við Hvíta húsið og komu þá hundar hans hlaupandi og flöðruðu upp um húsbónda sinn, sem tók í eyrun á öðrum þeirra. Ljósmyndarar voru þarna og tóku mynd af atvikinu, sem mæltist ekki vel fyrir hjá öllum dýravinum. Ef ég man rétt, þótti Þjóðviljanum sáluga þetta að sjálfsögðu merkilegast við fund fyrsta fund forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra Íslands.

Þessir fundir forsætisráðherra með Bandaríkjaforseta hafa alltaf kallað fram sérkennilegan tilfinningahita í umræðum heima fyrir, sem byggist kannski að einhverju leyti af pólitískri afbrýðissemi. Þegar Þorsteinn Pálsson hitti Reagan, voru straumarnir svo stríðir í stjórn hans, að við lá á tímabili, að einhverjir töldu skynsamlegast fyrir Þorstein að fara hvergi.

Umrótið var mikið í stjórnmálunum heima fyrir, þegar Davíð hitti Bush, eins og við vitum ? alþingi rétt komið saman til að bregðast við lagasynjun af hálfu Ólafs Ragnars Grímssonar.

Viðræður Davíðs og Bush snerust af þessum þremur fundum af mestum þunga um viðamestu samskiptamál Íslands og Bandaríkjanna, þar sem óvissa er um framkvæmd varnarsamstarfsins og inntak varnarsamningsins, sem hvorki var 1964 né 1988. Bandaríkjaforseti efndi ekki til þessa fundar með Davíð Oddssyni til að binda enda á þetta samstarf, þótt nú eins og jafnan áður hljóti það að laga sig að aðstæðum.

Umræður heima fyrir hjá þeim, sem vilja ræða aukaatriði vegna fundarins í Hvíta húsinu, snúast ekki að þessu sinni um eyrun á hundum forsetans, heldur um það, hvort Hannes Hólmsteinn hafi sungið afmælissönginn fyrir Bush!

Um söguskoðun

Í nýjasta hefti tímaritsins Sögu er stutt grein eftir Guðmund Jónsson prófessor. sem heitir Myndin af 20. öldinni. Þar ræðir hann annars vegar um sjónvarpsþáttaröðina Saga 20. aldar, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu en þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Ólafur Þ. Harðarson, prófessorar í stjórnmálafræði, komu að gerð þáttanna. Hins vegar ræðir hann um þáttaröð Stöðvar 2 20. öldin. Brot úr sögu þjóðar eftir Jón Ársæl Þórðarson fjölmiðlamann en bók með sama nafni var gefin út árið 2000 undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar.

Ég ætla hvorki að fjalla um þessar þáttaraðir né grein Guðmundar að öðru leyti en því, að undir lok hennar segir hann um þætti þeirra Hannesar Hólmsteins og Ólafs, að þeir falli vel að áformum hægrimanna í menntamálum. Síðan segir Guðmundur orðrétt:

„Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, sagði í berorðri lokaræðu á Íslenska söguþinginu 1997 að endurskoða þyrfti sögubækur og annað námsefni skólanna með það fyrir augum að laga söguskoðanir sem í þeim birtast að ríkjandi hugarfari ? sem vill svo til að fer nærri pólitískum viðhorfum hans sjálfs. Hann hefur gengið vasklega fram í þessu efni, bæði með því að láta endurskoða námskrár skólanna og styðja við þá aðila sem líklegastir eru til að festa í sessi þá orðræðu og sögusýn sem fellur að þessum áformum. Nokkrir aðilar leituðu fjárstuðnings menntamálaráðuneytis við útgáfu nýrra námsbóka í sögu í samræmi við nýja námskrá fyrir nokkrum árum en aðeins Nýja bókafélagið, sem rekið var af pólitískum skoðanabræðrum ráðherra, fékk styrk, a. m. k. fyrstu árin, og nam hann mörgum milljónum króna.“

Auðvelt er að nálgast þessa ræðu mína hér á síðunni. Mér finnst Guðmundur setja hana í sérkennilegt ljós og draga of miklar ályktanir af orðum mínum, auk þess sem hann dregur upp ranga mynd af samstarfi menntamálaráðuneytisins og Nýja bókafélagsins, þar var ekki verið að hygla neinum heldur stofnað til samstarfs á fullkomlega eðlilegum forsendum.

Í ræðunni á söguþinginu sagði ég meðal annars:

„Hvort heldur um er að ræða kennslubækur um sagnfræði eða íslenskar bókmenntir er mikils virði, að þær veki ekki þá ímynd, að jafnvel nánasta fortíð sé eins og fornöld vegna þess, að hún er kynnt með skírskotun til skoðana, sem fallið hafa um sjálfar sig eða eiga heima í geymslum minjasafna til marks um tímabundinn útúrdúr.“

Mér sýnast orð prófessorsins til marks um vonbrigði og óþol vinstrisinna, sem brýst fram á ólíklegustu stöðum og á ólíklegasta hátt. 

Þessar útlistanir í Sögu segja meira um ríkjandi hugarfar meðal vinstrisinnaðra menntamanna en afrek mín við endurskoðun Íslandssögunnar!