6.7.2004

Brellufrétt um ekki neitt

 

 

 

Það er dálítið skrýtið að vera hér í Peking og fylgjast með því á netinu og í símtölum við fréttamenn, hvernig ég er dreginn inn í umræður um fjölmiðlalögin vegna orða, sem ég lét falla hér á vefsíðunni 3. júní, þegar ég kallaði það brellur, sem Sigurður Líndal prófessor nefndi, þegar hann sagði, að alþingi gæti bara breytt lögunum, eftir að forseti Íslands synjaði þeim.

 

Ég fékk það á tilfinninguna, að nú yrði tekið til að vitna til þessara orða minna og túlka þau á þann veg, að ég væri andvígur því, sem ríkisstjórnin og þingflokkar hennar hafa ákveðið. Af því tilefni gerði ég smá tilraun með þetta efni á vefsíðu minni, tók fyrst úr orðið brellur, setti það síðan inn aftur í gæsalöppum og loks færði ég síðuna að nýju í sitt upprunalega horf, enda hef ég það fyrir reglu, að breyta því ekki, sem ég hef látið á síðuna nema um augljósa villu er að ræða. Fæ ég oft ábendingar um slíkt, til dæmis notaði ég í þessum pistli 3. júní orðið pontificus yfir brúarsmið en mér var ítrekað bent á það af glöggum lesanda, að þar ætti að standa pontifex og leiðrétti ég það.

 

Þegar ég kom að tölvu minni eftir langan fundardag í Peking að kvöldi mánudagsins 5. júlí beið mín bréf frá Sigríði Dögg Auðunsdóttur, blaðamanni á Fréttablaðinu, um það, hvort ég stæði við orð mín frá 3. júní um brellurnar.

 

Ég svaraði henni á þennan veg klukkan 14.29 að íslenskum tíma eða 22.29 að kínverskum:

 

Sæl Sigríður

 

Þakka þér fyrir fyrirspurnina. Ég mælist til þess, að þú birtir eftirfarandi, ef þú ætlar að hafa eitthvað eftir mér:

 

Ég stend við, að unnt er að líta á þetta sem Sigurður Líndal var að kynna sem brellu. Ríkisstjórnin hefur valið aðra leið en hann gerði með því að gera ráð fyrir að fresta gildistöku laganna fram yfir næstu þingkosningar, þannig að kjósendum gefst færi á að segja álit sitt á þeim á sama hátt og þeir segja álit sitt á breytingum á stjórnarskránni.


Á þeim mánuði, sem liðinn er síðan ég skrifaði þetta, er ljóst, að það stefnir í deilur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar vegna þess hve 26. gr. stjskr. er illa úr garði gerð. Það er hlutverk ríkisstjórnar að stuðla að sem mestum friði í þjóðfélaginu og með þeirri leið, sem hún og þingflokkar hennar hafa valið, er það gert auk þess sem þingræðisreglan er enn áréttuð.´


Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

 

Síðar, eftir að ég var sofnaður, fékk ég þetta svar frá Sigríði Dögg:

 

Sæll Björn,

ég þakka skjót viðbrögð.


Ég tók eftir því að eftir að ég sendi þér fyrirspurnina var textanum í umræddum pistli breytt. Fyrst var orðið "brellur" tekið út og setningunni breytt í: "Ef slíku yrði breytt...". Síðan var gerð önnur breyting, orðið "brellur" var sett innan gæsalappa og setningin var svohljóðandi: "Ef slíkum "brellum" yrði beitt...".

Ég var að vonast til þess að þú gætir svarað mér hvers vegna þessar breytingar voru gerðar á pistli þínum og einnig hvort það sé algengt að gömlum pistlum sé breytt á heimasíðu þinni?


Einnig skil ég umræddan pistil þinn sem svo að það séu þín orð að það sé brella að afturkalla lög. Við hvaða tilefni lýsti Sigurður Líndal þessari aðferð sem brellu?

 Með kveðju,

Sigríður D. Auðunsdóttir

 

Ég svaraði þessu bréfi Sigríðar á þennan veg um klukkan 23.30 á íslenskum tíma um 07.30 á kínverskan að morgni 6. júlí:

 

Sæl Sigríður Dögg


Ég var einmitt að kanna, hvort ekki væri verið farið að fylgjast með þessum texta á vefsíðu minni og ákvað að gera þessa tilraun héðan frá Peking til þess að sjá, hvort einhverjir sætu ekki yfir honum, breytti honum því tvisvar sinnum með stuttu millibli, áður en ég setti hann aftur í sitt upprunalega horf. Tilraunin var þess virði, eins og bréf þitt sýnir. Ég þakka þér fyrir að taka þátt í henni. Ef hún verður þér fréttaefni, staðfestir það enn í mínum huga, hve mikils síða mín er metin og það, sem þar stendur.


Síðunni er ekki breytt eftir að efni er komið inn á hana nema um augljósa villu sé að ræða - í þessum texta sem hér er um að ræða breytti ég til dæmis orðinu Pontificus í pontifex eftir ábendingu.


Hugmynd Sigurðar Líndal er brella í mínum augum en með því að hafa kosningar á milli fyrir gildistöku laganna fá kjósendur sama rétt til að segja álit sitt á þessum lögum og breytingu á stjórnarskránni.


Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

 

Á vefsíðunni Visir.is las ég síðan þetta eftir Sigríði Dögg hinn 6. júlí:

 

Björn kallar afturköllun brellibrögð

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tók einnig alfarið fyrir þann möguleika að Alþingi afturkallaði fjölmiðlalögin. Í pistli á heimasíðu sinni 3. júní segir hann: "Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einhvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni."

 

Í grein í Fréttablaðinu 1. júní leggur Sigurður Líndal lagaprófessor það til að Alþingi afturkalli fjölmiðlalögin. Þessu svaraði Björn Bjarnason tveimur dögum síðar: "Ég sé, að vísu, að Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, sem helst hefur lagt sig fram um að lýsa yfir persónulegu valdi forseta til að skjóta málum til þjóðarinnar, lætur nú eins og alþingi geti bara breytt lögunum og þannig komist hjá því, að þjóðin segi álit sitt á þeim. Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni," segir Björn.

 

Í sama pistli segir Björn jafnframt að það sé "...ljóst, að sú skylda hvílir á okkur ráðherrum að framfylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar og efna eins fljótt og kostur er til þjóðaratkvæðagreiðslu."

 

Björn breytir pistli sínum

Fréttablaðið sendi Birni fyrirspurn í tölvupósti kl. eitt í gær þar sem hann var spurður hvort hann stæði enn við ummæli sín varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og afturköllun fjölmiðlalaganna sem hann birti á heimasíðu sinni 3. júní? Þess má geta að Björn er staddur í Kína.

 

Í kjölfar fyrirspurnar Fréttablaðsins var textanum í pistli Björns breytt tvívegis á heimasíðunni. Fyrst var orðið "brellur" tekið út og textinn var: "Ef slíku yrði beitt...". Stuttu síðar var textanum breytt á ný og orðið "brellur" sett innan gæsalappa. Textinn er nú svohljóðandi: "Ef slíkum "brellum" yrði beitt...".

 

Björn svaraði fyrirspurn Fréttablaðsins svohljóðandi: "Ég stend við, að unnt er að líta á þetta sem Sigurður Líndal var að kynna sem brellu. Ríkisstjórnin hefur valið aðra leið en hann gerði með því að gera ráð fyrir að fresta gildistöku laganna fram yfir næstu þingkosningar, þannig að kjósendum gefst færi á að segja álit sitt á þeim á sama hátt og þeir segja álit sitt á breytingum á stjórnarskránni."

 

"Á þeim mánuði, sem liðinn er síðan ég skrifaði þetta, er ljóst, að það stefnir í deilur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar vegna þess hve 26. gr. stjskr. er illa úr garði gerð. Það er hlutverk ríkisstjórnar að stuðla að sem mestum friði í þjóðfélaginu og með þeirri leið, sem hún og þingflokkar hennar hafa valið, er það gert auk þess sem þingræðisreglan er enn áréttuð," sagði Björn í svari sínu.

--------

 

Ég færi þetta hér inn á síðuna til að halda þessu litla atviki úr umræðunum um fjölmiðlafrumvarpið til haga. Mér finnst í raun verið að leita að hálmstráum, þegar verið er að eltast við orð mín hér á síðunni á þennan hátt. Þetta sannar mér aðeins, að umræðurnar snúast um allt annað en kjarna málsins, eins og svo oft vill verða.

 

Orðið brella verður að brellibrögðum til áhersluauka í frétt, sem aldrei nær því að snúast um kjarna málsins. Það er : ef talið var í lagi, að bregðast þannig við synjun Ólafs Ragnars að breyta lögunum, er einfalt að draga þá ályktun af orðum mínum, að ég telji það brellur. Ef lögin eru hins vegar afturkölluð er málið öðru vísi vaxið og einnig ef ákveðið er, að ný lög taki ekki gildi fyrr en eftir næstu þingkosningar. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þingflokkanna snýst um þetta. Síðan er það sjálfstæð ákvörðun, að flytja annað frumvarp um sama efni, þar sem komið er til móts við atriði, sem sættu gagnrýni.

 

Ríkisstjórnin og þingflokkar hennar hafa með þessu tekið ábyrga afstöðu, sem byggist í senn á rétti þeirra samkvæmt stjórnarskrá og einnig viðleitni til að sætta sjónarmið í þjóðfélaginu, því að deilur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu stefndu í að verða á svipaðan veg og deilurnar um fjölmiðlalögin, þar sem stjórnarandstaðan lætur öll málefni lönd og leið en hamast í formsatriðum um þingsköp og setur á svið deilur um keisarans skegg, það er að segja í anda brellufréttarinnar, sem var í raun um ekki neitt og átti að kóróna með frétt um sýndarbreytingar mínar á eigin vefsíðu.