29.5.2004

Stóra dúkamálið – örlög frumvarpa – kvótakerfið sigrar – glæsileg afmælisveisla.

„ Búið, “ sagði Davíð Oddsson stundarhátt um leið og hann gekk fram hjá sæti mínu, eftir að hafa frestað fundum alþingis um klukkan 20.30 í gærkvöldi, föstudaginn 28. maí, þremur vikum eftir að starfsáætlun þingsins hafði gert ráð fyrir frestuninni. Þinghaldið lengdist ekki síst vegna fjölmiðlafrumvarpsins svonefnda, sem var samþykkt sem lög frá alþingi og sent ríkisstjórn mánudaginn 24. maí eftir lengstu umræður um eitt mál í þinginu síðan EES-samningurinn var þar til meðferðar.

Þingmenn hlógu, þegar þeir heyrðu, hvernig Davíð kvaddi þingsalinn að loknum hörðum átökum síðustu vikna, þar sem ráðist hefur verið á hann af Baugsmiðlunum af meira offorsi en áður. Sérstaklega eru þessar árásir áberandi í DV og er furðulegt á hvaða stig þær eru nú komnar – snúast ekki síst um það síðustu daga, hvernig borðum er skipað í mötuneyti alþingis í skálanum, nýbyggingunni við alþingishúsið, og að þar skuli þrjú borð vera dúkuð og hið stærsta þeirra skuli einkum notað af okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem höfðum valið okkur samastað við borðið, áður en á það var settur dúkur og veit ég ekki til þess, að neinn okkar hafi sérstaklega beðið um hann.

Á vinnustöðum gerist oft, að einhverjum í hópnum finnst við hæfi að reyna að slá sér upp á kostnað samstarfsmanna sinna. Birtist slíkt í ýmsum myndum og ber misjafnan árangur. Eitt er víst, að það féll í góðan jarðveg hjá DV,  þegar Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls á því á kostnað okkar sjálfstæðismanna, að við nytum einhverra sérkjara í mötuneyti alþingis með dúkuðu borði (!)  auk þess hann lét að því liggja, að þar væri einhver stéttarskipting og það mætti ráða af vanafestu manna við val á sæti í matsalnum, hvernig þeir væru innrættir gangvart öðru fólki. Hvað skyldi hann segja um okkur fyrstu morgungestina í Sundhöllinni, sem alltaf viljum sama klefann og sturtuna og syndum jafnan á sama stað í lauginni?

Ég sé síðan að Margrét Frímannsdóttir notar viðtal við sig vegna fimmtíu ára afmælis síns í DV í dag, 29. maí, til að hnykkja á þessu stóra dúkamáli með því að velta því fyrir sér, hvort dúkurinn sé að verða „tákngervingur þess valdhroka og yfirlætis sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar“ og hún segist meira að segja finna það úti í búð, að allir séu búnir að fá nóg af hrokanum. Síðan hnykkir hún á með þeirri kveðju til mín í tilefni afmælisins, að ég  sé ekki nægilega hlýlegur við stjórnandstöðuna og sé holdgervingur valdhrokahópsins, en ég megi vera í minni skel hennar vegna! Ég þakka Margréti umburðarlyndið með innilegum heillaóskum og fögnuði yfir því, hve vel hún hefur náð sér af alvarlegum veikindum.

Hvernig ætli því hefði verið tekið í DV eða öðrum Baugsmiðlum, ef Davíð Oddsson eða ég hefðum notað afmælisviðtal til að veitast að stjórnmálaandstæðingum, öllum hópnum eða einstaklingi innan hans? Ætli það hefði ekki verið nefnt til enn frekari staðfestingar á yfirlæti og einhvers konar mannfyrirlitningu?

Ég nefni stóra dúkamálið hér til að benda á út í hvaða öngstræti umræður geta þróast og hvað getur orðið tilefni til árása á samstarfsmenn á vinnustað. Ég hef víða unnið en aldrei áður orðið fyrir áreiti af þessum toga enda aldrei fyrr haft slíkt fólk meðal samstarfsmanna.

Glöggur lesandi DV hafði á orði við mig, að með frásögnum sínum af stóra dúkamálinu og Davíð Oddssyni væri blaðið greinilega að gefa lesendum sínum til kynna, að í stóru og smáu mætti finna að skapgerð forsætisráðherra.

Viðleitni af sama toga blasti við í frásögn Illuga Jökulssonar, ritstjóra DV, af atkvæðagreiðslunni um fjölmiðlafrumvarpið, þegar Illugi flissaði á pöllunum með fleiri starfsmönnum DV , eftir að Halldór Blöndal, forseti alþingis, hafði gert grein fyrir atkvæði sínu. Þá leit Davíð eins og við fleiri þingmenn undrandi upp á pallanna og lýsti Illugi því, að Davíð hefði verið öskureiður. Ég held, að enginn í þingsalnum hafi reiðst, síst af öllu Davíð, sem situr í sömu röð og ég,  heldur hafi menn verið undrandi á þessu barnalega og háværa flissi á pöllunum, sem minnti á vanabundin viðbrögð vinstrisinna, þegar þeir telja of nærri sér vegið.   

Samhljómurinn í málflutningi DV og þingmanna Samfylkingarinnar um menn og málefni er á þann veg, að erfitt er að gera sér grein fyrir, hver gefur tóninn, hvort það eru þeir, sem stjórna árásunum í DV eða þingmennirnir. Hvernig sem því er háttað hafa báðir komist að þeirri niðurstöðu, eftir að mistókst að koma í veg fyrir samþykkt fjölmiðlafrumvarpsins, að nú skuli ekki lengur rætt um málefni heldur ráðist á menn og draga af þeim hina verstu mynd með hrokann sem meginstef.

Samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu taka á sig ýmsar myndir og ég á góð samskipti við þá stjórnarandstæðinga, sem ég kýs, aðra læt ég mér í léttu rúmi liggja.

 

Örlög frumvarpa.

 

Frumvörpin, sem ég lagði fram á þingi náðu fram að ganga fyrir utan tvö. Ég ákvað að afturkalla frumvarp um fullnustu refsinga, eftir að umsagnir bárust um það. Taldi ég þetta skynsamlegt til að búa málið í betri búning á grundvelli umsagnanna, enda hafa málefni af þessum toga aldrei fyrr verið lögð fram á alþingi, því að frumvarpið snýst að verulegu leyti um reglur, sem hafa til þessa verið að finna í stjórnvaldsfyrirmælum.

Ég sé, að stjórnarandstaðan kýs að leggja þessa ákvörðun út á neikvæðan hátt fyrir mig, á sama tíma og hún hrópar á nauðsyn þess í öðrum málum, að menn gefi sér meiri tíma og skoði mál milli þinga. Sannar þetta enn, að aldrei er unnt að gera henni til hæfis.

Undir þinglok óskuðu  samfylkingarmenn allt í einu eftir því, að hætt yrði við að afgreiða frumvarp mitt um breytingu á gjafsóknarákvæði einkamálalaganna. Þegar ekki var fallist á óskina, var frestun málsins sett sem skilyrði fyrir því, að samkomulag yrði um þinglok fyrir hvítasunnu. Til að greiða fyrir þingstörfum féll ég frá því, að frumvarpið yrði að lögum núna, enda um fjárhagslegt álitaefni að ræða, sem tengist afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og þess vegna ekki síður eðlilegt að taka málið fyrir á haustþingi.

Ég skil ekki, hvers vegna Samfylkingin kaus að setja þetta mál á oddinn, svo að hún gæti farið sæmilega sátt af þingi eftir allt, sem á undan er gengið. Ein skýring er sú, að vinstri/grænir beittu sér fyrir því, að frestað var afgreiðslu frumvarps um breytingu á lögum um opinbera starfsmenn, sem snýst um afnám áminningar við uppsögn. Þegar fallist var á þau tilmæli, vildu samfylkingarmenn ekki sitja skör lægra og töldu það verða til að bjarga eigin andliti, ef þeir fengju einu máli frestað!

Mér blöskraði málflutningur Bryndísar Hlöðversdóttur, talsmanns Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd, þegar hún ræddi um frumvarp til breytinga á lögunum um meðferð opinberra mála. Þar er meðal annars verið að veita lögreglu auknar heimildir til hlerana og lagði ég frumvarpið fram á grundvelli tillagna lögreglunnar, án þess að hafa leitað sérstaklega álits réttarfarsnefndar, þótt formanni hennar hefði verið skýrt frá málinu. Þetta taldi Bryndís til marks um hróplega óvönduð vinnubrögð og réðst með offorsi á starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og mig fyrir það, hvernig frumvarpið var lagt fyrir alþingi. Ég spurði hana, hvort hún vildi, að þingnefnd tæki afstöðu til álitaefna eða engu mætti breyta af alþingi, sem kæmi frá framkvæmdavaldinu, af því að einhverjir menn utan alþingis eða úti í bæ, eins og ég orðaði það hefðu lagt blessun sína yfir málið. Þá taldi hún mig vera að móðga réttarfarsnefnd með því að kalla þá, sem þar sitja menn úti í bæ!

Allsherjarnefnd kallaði fulltrúa réttarfarsnefndar á sinn fund. Í samráði nefndarinnar og ráðuneytisins var lögð fram tillaga um breytingu á frumvarpinu, sem veitir lögreglunni auknar heimildir til hlerana. Bryndís sagðist vera sammála því, sem segði í frumvarpinu eftir meðferð og breytingar í allsherjarnefnd en hún og Samfylkingin gætu þó ekki stutt það, vegna þess hve illa það hefði verið undirbúið! Eru þingmenn ekki að greiða atkvæði um efni lagafrumvarpa en ekki undirbúning þeirra? Samfylkingin var greinilega að gera hið síðara í þessu máli og er það mikið nýmæli, að ekki sé unnt að styðja mál, sem menn eru sammála vegna aðdraganda málsins.

Þegar ég spurði Bryndísi að því, hvort hún hefði talið nauðsynlegt að kalla á álit réttarfarsnefndar, þegar allsherjarnefnd var að ræða vændisfrumvarpið svonefnda, fór hún undan í flæmingi, enda hafði ósk um ráð frá réttarfarsnefnd verið hafnað af Bryndísi og fleirum í því máli.

Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður allsherjarnefndar á sínu fyrsta þingi og hefur mikið mætt á honum í vetur. Heyri ég jafnt úr röðum samherja sem stjórnarandstæðinga, að hann nýtur virðingar fyrir, hvernig hann hefur haldið á málum.  Þeir Sigurður Kári Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson koma einnig öflugir frá sínu fyrsta þingi og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framgöngu þeirra. Það er rós í hnappagati þeirra fjórmenninga, að Baugsmiðlarnir tóku að uppnefna þá Smánarkvartettinn, þegar stríðið um fjölmiðlafrumvarpið stóð sem hæst.

Kvótakerfið sigrar

 

Guðjón Hjörleifsson er einnig nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann leiddi sem formaður sjávarútvegsnefnd til þeirrar niðurstöðu, að sóknardagakerfið er úr sögunni og allar veiðar á bolfiski eru komnar í aflamarks- eða kvótakerfið. Er þetta glæsilegur árangur fyrir nefndina, þingið og Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Deilurnar um stjórn fiskveiða hafa ekki síst verið hatrammar vegna þess, að smábátar hafa verið í öðru veiðikerfi en stóru skipin. Nú er þessi ásteytingarsteinn horfinn og ekki verður lengur tekist á um þessi mál á þeim forsendum, að um tvöfalt kerfi sé að ræða,

Þegar fram í sækir, verður þetta talin ein merkasta niðurstaða þess þings, sem nú var að ljúka, þrátt fyrir allar deilur um fjölmiðlafrumvarpið.

Frjálslyndi flokkurinn varð til vegna ágreinings um leiðir við fiskveiðistjórnun og þegar sjávarútvegsnefnd lagði fram tillögur sínar sagði Magnús Þór Hafsteinsson, formaður þingflokks frjálslyndra, að hann og flokkur hans mundi beita „öllum brögðum“ til að koma í veg fyrir framgang tillagnanna á þingi – í þessu efni reyndist þingflokksformaðurinn eins og hvert annað pappírstígrisdýr. Raunar eru æsingafull stóryrði mannsins slík í ræðustól á þingi, að þau falla jafnan dauð.

Það kæmi mér ekki á óvart, að hinir skynsamari menn í þingflokki frjálslyndra tæku til við að velta fyrir sér, hvert sé pólitískt hlutverk þeirra, eftir að þessi breyting hefur verið gerð á stjórn fiskveiða. Eitt er víst, að þeir fiska ekki mikið með því að elta vinstri flokkanna í andstöðu þeirra við breytingar og framfarir – þessi andstaða kom skýrt fram, þegar Ögmundur Jónasson vinstri/grænum spratt á fætur við atkvæðagreiðslu um raforkumál og mótmælti sérstaklega orðinu „hlutafélag “ í lagatexta.

Glæsileg afmælisveisla

 

Sjálfstæðisflokkurinn varð 75 ára þriðjudaginn 25. maí. Í tilefni af því var efnt til veislu að hótel Nordica. Rúmlega 1000 manns sóttu veisluna og fögnuðu Davíð Oddssyni formanni sínum vel og lengi, eftir að hann hafði flutt snjallt ávarp í tilefni dagsins.

Mannfagnaðurinn var uppörvandi eftir orrahríðina um fjölmiðlafrumvarpið og sýndi mikla samheldni sjálfstæðismanna og samhug. Lögðu margir á sig löng ferðalög til að taka þátt í veislunni og fagna með vinum og samherjum.