23.5.2004

Lögfræði, stjórnmál, fjölmiðlar, málþóf.

 

Það er hluti af íslenskri stjórnmálahefð fram til 1987 níunda, að í ríkisstjórn eða alþingi sátu lögfræðingar með óumdeilda yfirburða þekkingu á stjórnlögum. Nægir í því efni að nefna prófessorana og hæstaréttardómarana Lárus H. Bjarnason, Einar Arnórsson, Bjarna Benediktsson, Ólaf Jóhannesson, Gunnar Thoroddsen og Gunnar G. Schram.

Í stjórnmálatíð þeirra hefðu umræður um þau mál, sem borið hefur hæst hér á landi undanfarið verið á allt annan veg. Þá hefðu prófessorar í lögum, starfandi eða fyrrverandi, ekki verið í þeim stellingum að deila á ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar á þingi á þann veg, sem gert er núna. Að breyta stjórnmálaumræðum í slíkar lagaþrætur er að verulegu leyti deila um keisarans skegg, því að stjórnmálamenn eiga síðasta orðið um pólitískt mat á ákvæðum stjórnarskrár og dómstóla er að leggja mat á það, hvort lög séu til orðin á stjórnskipulegan hátt og hvort lög séu að efni til andstæð stjórnarskránni.

Hvað svo sem menn á borð við Sigurð Líndal prófessor emeritus segja til dæmis um þingræðisregluna og synjunarvald forseta Íslands var Bjarni Benediktsson þeirrar skoðunar, að synjunarvaldinu yrði ekki beitt vegna þingræðisreglunnar. Ólafur Jóhannesson taldi, að hvað svo sem synjunarvaldinu liði samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar væri efni greinarinnar þannig úr garði gert, að varla þyrfti að reikna með lagasynjun, það er að greininni yrði breytt, en ef til kæmi, yrði sjálfsagt óhjákvæmilegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Væri eðlilegt, að sett yrðu almenn lög um það efni.

Nokkur ár eru liðin, frá því að síðasti lagaprófessorinn sat á þingi og nú skapast í mörgum málum einskonar þríhyrningur milli stjórnarmeirihluta, lögspekinga og stjórnarandstöðu í stjórnmálaumræðum. Stundum glyttir í þau viðhorf lögspekinga, að stjórnmálmenn geti ekki fjallað um lögfræðileg álitaefni án þeirra aðstoðar. Stjórnmálamenn noti pólitíska mælistiku en lögspekingarnir fræðilega og hún hljóti að ráða. Þetta er mikil og raunar barnaleg einföldun, en til hennar er gjarnan gripið til að þrengja ákvörðunarvald stjórnmálamanna. Ég er undrandi á þeim stjórnmálamönnum, sem beygja sig undir þessa skoðun, jafnvel þótt þeir telji það nýtast sér í stjórnarandstöðu – nema þeir telji sig dæmda til að sitja í henni til eilífðar?

*

Umræður vegna álits umboðsmanns alþingis eru að verulegu leyti um lögfræðileg álitaefni, þar sem þessi þríhyrningur milli stjórnarmeirihluta, lögspekinga og stjórnarandstöðu birtist að nýju. Stjórnmálamenn verða einnig í þeim umræðum að huga að svigrúmi sínu, jafnvel þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Að nota ræðustól alþingis til að kenna varðstöðu um þetta svigrúm við valdhroka einkennist af mikilli skammsýni.

Núna eru um tvær vikur, frá því að umboðsmaður alþingis birti álit sitt um skipan mína á hæstaréttardómara. Ég hef rætt málið á alþingi, fjallað um það hér á síðunni, birt ræður um það og rætt við fjölmiðla – alls staðar hef ég tekið fram, að ég muni skoða þetta álit af alvöru, engu að síður sé ég að jafnvel vandaðir blaðamenn slíta orð mín úr samhengi og telja mig hafa sýnt umboðsmanni óvirðingu!  Ég skil ekki, hverjum blaðamenn eru að þjóna með þessu frekar en að ég skilji gildi daglegra frétta í DV um símtal Davíðs Oddssonar og Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Ég tel, að í hvorugu tilviki sé um sérstaka umhyggju fyrir embætti umboðsmanns að ræða.

Ég sé, að Páll Hreinsson prófessor tekur undir með umboðsmanni alþingis og telur, að rannsaka hefði átt sérstaklega kunnáttu annarra umsækjanda en þess, sem ég skipaði hæstaréttardómara, í Evrópurétti, auk þess sem umboðsmaður hafi ekki verið að búa til nýja reglu með áður óþekktri túlkun sinni á 4. gr. dómstólalaga, þegar hann taldi, að ég hefði átt að spyrja hæstarétt, hvort þar vantaði mann með þessa sérþekkingu.

Með þessu er Páll að svara sjónarmiðum lögfræðinga, sem telja umboðsmann hafa gengið of langt í útlistun sinni og kröfum um rannsóknir af minni hálfu við skipun í þetta embætti.

Ég íhuga, þegar ég les þessar vangaveltur allar um álitið, hvort ég hafi stuðlað að of miklu gegnsæi og þar með deilum með því að skýra frá því málefnalega atriði, sem réð ákvörðun minni að lokum um það, hvern ég taldi hæfastan í hæstarétt að þessu sinni.

*

Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með því, hvernig Baugsmiðlarnir hafa gengið fram síðustu daga til að ýta undir óánægju fólks með fjölmiðlafrumvarpið og ríkisstjórnina. Öllum brögðum hefur verið beitt. Sumt hefur heppnast annað ekki.

Fyrir rúmri viku skrifaði Róbert Marshall, fréttamaður á Stöð 2, tölvubréf til nokkur hundruð manns og hvatti til að safnað yrði 35.000 nöfnum undir áskorun á forseta Íslands um að synja fjölmiðlafrumvarpinu, eftir að alþingi hefði gert það að lögum. Taldi Róbert, að forsetinn hefði lofað því í kosningabaráttu á sínum tíma að verða við slíkri fjöldaáskorun. Þessi fjöldi nafna átti að liggja fyrir eftir síðustu helgi, sem gerðist ekki, en að kvöldi sunnudags 23. maí var sagt frá því í hljóðvarpsfréttum ríkisins, að enn væri unnt að skrá sig og mátti auðveldlega skilja fréttina sem áminningu til hlustenda um að gera það.

Í hljóðvarpsfréttunum var sagt frá skoðanakönnun á vegum Vef-Þjóðviljans (www.andriki.is) , sem sýndi, að innan við 30% kjósenda hefði kynnt sér fjölmiðlafrumvarpið og að Sjálfstæðisflokkurinn með rúm 30% væri ívið stærri en Samfylkingin.

Í frásögn Vef-Þjóðviljans segir, að blaðið hafi fengið ParX-viðskiptaráðgjafa IBM til að gera könnunina, þar sem það hefði sjálft lýst andstöðu við frumvarpið og hefðu væntanlega fáir tekið mikið mark á skoðanakönnun, sem það sjálft myndi gera. Í þessu felst gagnrýni Vef- Þjóðviljans á keppinaut sinn Fréttablaðið, sem hefur, eins og kunnugt er, birt niðurstöðu í fjölda eigin skoðanakannana, um leið og það hefur af hörku barist gegn frumvarpinu.

Fréttablaðið hefur ekki aðeins barist gegn frumvarpinu heldur einnig beinlínis krafist þess, að stjórnmálamenn beittu sér gegn því eins og gert var í forystugrein blaðsins 14. maí síðastliðinn, þegar ráðist var á Þórólf Árnason borgarstjóra og R-listann fyrir að taka því ekki illa á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, að atvinnuöryggi starfsmanna Norðurljósa væri stefn í voða.

Strax þriðjudaginn 18. maí svöruðu R-listinn og Ólafur F. Magnússon, frjálslyndur og óháður, kalli Fréttablaðsins á borgarstjórnarfundi. Ályktun um þetta efni var samþykkt með mótatkvæðum okkar sjálfstæðismanna, enda töldum við með öllu óvíst og ósannað, að nokkrum manni þyrfti að segja upp hjá Norðurljósum vegna þessa frumvarps.

*

Nú liggur fyrir, að Mörður Árnason alþingismaður talaði lengst í umræðunum um fjölmiðlafrumvarpið eða í um 8 klukkustundir í mörgum ræðum, en umræðurnar um frumvarpið stóðu alls í tæpar 84 klukkustundir. Verulegur hluti þeirra snerist um þingsköp og kvartanir stjórnarandstöðunnar af ýmsu tagi.

Ég er undrandi á því, að stjórnarandstaðan skuli andmæla því, að hún hafi verið með málþóf vegna fjölmiðlafrumvarpsins.  Þótt Íslensk orðabók skýri málþóf sem þjark eða málalengingar, sem tefja umræður um mál, er það eina tæki stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir, að vilji meirihluta alþingis nái fram að ganga. Vissulega er oft réttmætt að beita þessu tæki og enginn stjórnmálamaður vill kasta því frá sér. Það er hins vegar vandasamt að stunda málþóf, svo að árangursríkt sé.

Stjórnarandstaðan vill sem sé ekki kannast við, að hún hafi verið í málþófi vegna frumvarpsins. Hún hafi verið að kynna almenningi efni þess og vara við hættunni af því. Skoðanakönnunin, sem gerð var fyrir Vef-Þjóðviljann sýnir að stjórnarandstöðuþingmenn hafa ekki haft erindi sem erfiði við uppfræðslu sína. Almennt virðist fólk láta sér efni frumvarpsins í léttu rúmi liggja.