12.5.2004

Af DV  og öðru vegna fjölmiðlafrumvarps

 

Vegna umræðnanna um fjölmiðlafrumvarpið svonefnda og þess hita, sem í þær hefur hlaupið, ætla ég að bregða út af venjunni og setja saman pistil í miðri viku.

Ádrepur, sem ég hef fengið í Baugsmiðlunum undanfarna daga og vikur, eru fleiri en ég get talið eða hef áhuga á að telja. Það hefur ekki dugað, að starfsmenn miðlanna finni að verkum mínum í sjálfum miðlunum, heldur hef ég einnig fengið tölvubréf þess efnis, að ég sé með rógsherferð á hendur þessum miðlum. Notaði bréfritari þar orð, sem Friðrik Páll Jónsson fréttamaður kaus að nota um skrif mín um Spegilinn, vinstrisinnaða fréttaskýringaþáttinn eftir kvöldfréttir í ríkisútvarpinu, vegna þess að ég vitnaði í fréttabréf vinstri/grænna og Þráinn Bertelsson, dálkahöfund Fréttablaðsins, um vinstri slagsíðuna á Speglinum.

Nú er ég sagður rógberi um starfsmenn Baugsmiðlana, af því að ég leyfi mér að nota orðin Baugsmiðlar eða Baugstíðindi hér á síðunni minni. Ég svaraði bréfritara því, að auðvitað réðist það af viðhorfi hvers og eins, hvort slík orðnotkun væri talin mönnum til lasts eða lofs. Ef starfsmenn þessara miðla teldu það rógburð að minna á höfuðeigendur þeirra, segði það meira um hug þeirra til vinnuveitenda síns en annað – mér þætti til dæmis heiður að því að vera sagður af Engeyjarætt, en vissulega kynnu einhverjir að kenna mig við bústað forfeðra minna mér til háðungar eða niðurlægingar.

*

Ég var að hlusta á viðtal í Speglinum rétt í þessu við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann sagði það hreinlega „þvætting“ og líkti því við trú á þá hugmynd, að jörðin væri flöt, að halda því fram, að forseti Íslands þyrfti áritaða tillögu ráðherra til að beita synjunarvaldinu um lög, sem getið er um í 26. grein stjórnarskrárinnar.

Stóryrði Svans vekja undrun, þegar til þess er litið, að Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi lagaprófessor, forseti hæstaréttar, dómari í mannréttindadómstóli Evrópu og dómari í EFTA-dómstólnum, hefur haldið þessu fram í fræðilegri ritgerð. Rök Þórs fyrir niðurstöðu sinni eru mun skýrari og haldbetri en rök þeirra, sem segja, að einmitt þegar að þessu ákvæði í stjórnarskránni kemur sé forsetinn ekki ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.

*

Sigurður Líndal, prófessor emeritus, er helst álitsgjafi Baugsmiðlanna um allt er varðar lögfræði, hæstarétt, fjölmiðla, vald og verksvið forseta Íslands, en Sigurður er á öndverðum meiði við Þór Vilhjálmsson í túlkun á synjunarvaldi forseta Íslands. Sigurður sagði í viðtali við Stúdentablaðið, að það væru „rökþrot“ að vísa til meistaraprófs í Evrópurétti við val á dómara í hæstarétt. Umboðsmaður alþingis tekur ekki undir þá skoðun Sigurðar í áliti sínu. Enginn er óskeikull.

*

Umræður um álit umboðsmanns fóru fram utan dagskrár á alþingi þriðjudaginn 11. maí að ósk Össurar Skarphéðinssonar. Þótti mér gott að fá tækifæri til að skýra mál mitt og afstöðu til álitaefna umboðsmanns fyrir þingheimi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók til máls, en krafðist þess ekki, að ég segði af mér eins og hún gerði, þegar hún ræddi málið í þingi að mér fjarstöddum. Hún hefur kannski gefið sér tíma til að lesa álitið og séð, hve langt hún skaut yfir markið. Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, lét ljós sitt ekki skína í umræðunum, en hann hafði einnig krafist afsagnar minnar, að mér fjarstöddum. Eins og kunnugt er lét Magnús Þór í ljós þá skoðun á spjallsíðu málverja, að það ætti að sprengja okkur Halldór Blöndal, forseta alþingis, í loft upp.

*

Þegar ég las DV  í dag, miðvikudaginn 12. maí, þótti mér, að forvitnilegt gæti verið að draga saman á einn stað yfirlit yfir frásagnir blaðsins af fjölmiðlafrumvarpinu. Hér kemur samantektin:

Stríðsletursfyrirsögn á forsíðu segir: Komdu heim herra Ólafur. Síðan kemur mynd af forsetahjónunum, Sigurði Líndal og hinu konunglega, danska brúðarpari. Haft er eftir Sigurði um forsetann: „Mér finnst hann eigi að vera á landinu hvort sem hann kýs að staðfesta lögin eða ekki.“ Ákall DV með aðstoð Sigurðar snýst um, að Ólafur Ragnar komi til landsins og grípi til synjunarvaldsins til að koma í veg fyrir að fjölmiðlalög Davíðs búti niður Norðurljós.

Efst í vinstra horni forsíðunnar er mynd af Hallgrími Helgasyni rithöfundi með þessari tilvísunarfyrirsögn: Óttaðist um starf pabba síns eftir Davíðsfund.

Á blaðsíðu 2. er mynd af mér og fyrirsögnin er þessi með henni: Lögfræðilegar vangaveltur. Þar er vísað til þess, að ég kalli niðurstöðu umboðsmanns alþingis innlegg í lögfræðilegar vangaveltu, en hafi þó notað rök úr fyrri úrskurði hans um kærunefnd jafnréttismála. Ef blaðið heldur, að í þessu sé einhver þverstæða er það misskilningur. Álit umboðsmanns eru að sjálfsögðu byggð upp á mismunandi hátt eftir einstökum málum, stundum er augljóslega um lögfræðilegar vangaveltur eða leiðbeiningar að ræða í öðrum tilvikum er tekið afdráttarlaus afstaða.

Neðst á síðunni eru birt orðaskipti úr sjónvarpsfréttaviðtali við mig frá 20. ágúst 2003, þegar ég sagðist hafa tekið ákvörðun um skipan hæstaréttardómara á málefnalegum forsendum og þess vegna væri hún hafin yfir gagnrýni. Í þingumræðunum túlkaði Ingibjörg Sólrún þessi orð mín á sinn sérkennilega hátt. – Engum er betur ljóst en mér eftir allt það, sem á undan er gengið, að unnt er að gagnrýna þessa ákvörðun mína eins og allt annað, sem ég eða aðrir gera. Ég var hins vegar þarna að svara spurningu fréttamanns um það, hvort ég hefði skipað dómarann vegna frændsemi hans við Davíð Oddsson – vegna hinna málefnalegu forsendna taldi ég skipunina hafna yfir slíka gagnrýni. Að DV  og Ingibjörg Sólrún skuli nú, um 8 mánuðum eftir að þessi orð féllu, hafa þau sem haldreipi í gagnrýni sinni, sýnir, að ekki er nú til dæmis mikið púður fyrir þau í áliti umboðsmanns.

Á blaðsíðu 3. er spurning dagsins: Er framkvæmdavaldið að niðurlægja þingið? lögð fyrir fimm álitsgjafa.

Á blaðsíðu 6 er sagt frá umræðum um álit umboðsmanns á alþingi undir fyrirsögninni: Össur segir umboðsmann fella dóm yfir Birni – Samfelld rassskelling.

Opnan á bls. 8 til 9 ber stóra fyrirsögn: Forseti getur einn stöðvað frumvarpið. Stærstu myndirnar þar eru af Sigurði Líndal og Ólafi Ragnari Grímssyni, síðan eru þeir einnig áberandi Jón Ágeir Jóhannesson með frétt undir fyrirsögninni: Norðurljósin verði bútuð niður og seld og Sigurður G. Guðjónsson með fyrirsögninni: Breytingarnar bjarga Skjá 1 en drepa Norðurljós. Þá er þarna birtur listi yfir þá, sem eru með fjölmiðlafrumvarpinu og á móti til að sýna þá niðurstöðu DV að flestir hafi lýst andstöðu sinni við frumvarpið, þótt einn og einn telji það af hinu góða.

Opnan á bls. 21 til 23 sýnir Skemmtilega fjölmiðlaspilið og þar er andlitsmynd af Davíð Oddssyni felld inn í risa-gervihnattadisk RÚV við Efstaleiti. Neðst í vinstra horni eru birtar andlitsmyndir af fjórum ungum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins undir fyrirsögninni: Frjálslynda fjórmenningaklíkan. Klipptu peðin út og komdu þeim fyrir á spilaborðinu. Spilið er kynnt með þessum orðum: „Nú þegar umræðan um fjölmiðlafrumvarpið er í algleymi virðist oft gleymast að í augum stjórnmálamanna er þetta allt leikur. Þá skiptir litlu þótt störf séu í húfi, heilu fyrirtækin eða eignir viðskiptajöfra á Íslandi. Það er allt lagt undir og DV tók því til þetta skemmtilega fjölmiðlaspil. Nú geta allir landsmenn fengið að vita hvernig litlu sjálfstæðismönnunum, frjálslyndu fjórmenningaklíkunni, líður sem peðum í þessu spili Davíðs.

Spilið byggist á því að kasta teningi og færa peð milli reita, þar sem ritstjórn DV leggur sitt af mörkum til að skemmta fólki á kostnað þeirra, sem ekki eru í náðinni hjá henni, eða þeim nákomnum. Í einum reitnum stendur til dæmis: „Eftir Sinfóníutónleika hefurðu á orði að Rut Ingólfsdóttir [eiginkona mín] sé meðal fremstu fiðluleikara í heimi. Þú ferð áfram um tvo reiti og bróðir þinn verður aðstoðarmaður aðstoðarmanns dómsmálaráðherra.“

Á bls. 30 eru nokkrir smádálkar helgaðir Davíð Oddssyni og því meðal annars haldið fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Jón Ólafsson, fyrrverandi aðaleigandi Norðurljósa, hafi stutt Davíð til frama í stjórnmálum.

Þá er brugðið sérkennilegu ljósi á umræðurnar utan dagskrár um álit umboðsmanns. Þar segir: „Birni ráðherra var ekki skemmt þegar Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður Samfylkingar líkti háttalagi hans í utandagskrárumræðu við það sem gerðist hjá sprúttsala sem staðinn væri að verki en hafnaði löggjöfinni. Það þótti merkilegt að einungis Davíð Oddsson forsætisráðherra og litli þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson komu ráðherranum fallvalta til hjálpar. Þess var beðið í ofvæni að Sigurður Kári gerði athugasemdir við refsilöggjöfina, sem reynst hefur honum skeinuhætt, en það varð ekki.“

Ég veit ekki, hvert þarf að leita til að finna fordæmi fyrir slíkri frásögn af umræðum á alþingi, svo full er hún af dylgjum og óvild, að ekki er undarlegt, að enginn blaðamaður vilji leggja nafn sitt við hana.

Á bls. 31. er heil síða helguð gagnrýni á Davíð Oddsson. Birtur er langur kafli úr viðtali Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu við Hallgrím Helgason, sem segir frá þeirri erfiðu lífsreynslu, þegar Davíð Oddsson bauð honum til samtals við sig í stjórnarráðshúsinu.

Neðst á þessari síðu er fyrirsögnin: Þingmönnum ofbýður bræðisköst Davíðs. Þar er sagt frá því að Davíð hafi gagnrýnt Samfylkinguna á þingi og síðan orðrétt:

 „Rannveigu Guðmundsdóttur [þingmanni Samfylkingar] var misboðið og segja heimildarmenn DV að hún hafi átt orð við Davíð eftir ræðuhöldin.

„Davíð svona tala foringjar ekki,“ sagði Rannveig við forsætisráðherra. Sjónarvottar segja að Davíð hafi þá gripið hendurnar á henni og sagt á móti: „Þú átt bara einn foringja og það er Jón Ásgeir.“

Rannveig er þessa dagana úti í Kaupmannahöfn. Þegar DV hafði samband sagðist hún ekki vilja tjá sig um atburðinn.“

*

Ég læt lesendum síðunnar eftir að meta, hvort DV  sé með þessu að þjóna hagsmunum eigenda sinna. Víst er, að þeir, sem eigendunum eru ekki að skapi, fá það óþvegið um blaðið allt. Þá er einnig ljóst á hverjum blaðið hefur velþóknun.