1.5.2004

Forsætisráðherra í 13 ár - eignarhald á ljósvakamiðlum - útlendingalögin.

 

Í gær, föstudaginn 30. apríl, voru 13 ár liðin, frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína og samfellt síðan hefur hann gegnt embætti forsætisráðherra með einstökum glæsibrag.

Í Íslandssögunni hefur enginn setið svo lengi sem forsætisráðherra hvað þá heldur samfellt. Hitt er einnig jafneinstakt, að Davíð átti sjálfur frumkvæði að því að ákveða, hvenær hann lætur af embættinu, en það verður 15. september næstkomandi, samkvæmt samkomulagi milli hans og Halldórs Ásgrímssonar við myndun fjórðu ríkisstjórnar Davíðs fyrir tæpu ári.

Ég hef setið í ríkisstjórnum með Davíð í um átta ár af þessum 13 og lýst reynslu minni af því hér á síðunum, frá því að ég varð ráðherra í fyrsta sinn vorið 1995. Eins og lesendur mínir vita, hef ég aldrei hikað í stuðningi mínum við Davíð og tel hann í hópi hæfustu stjórnmálamanna, sem ég hef kynnst.

Þegar þetta er rætt má ekki gleyma því, að Davíð hefur verið í eldlínu stjórnmálanna síðan hann leiddi sjálfstæðismenn til sigurs í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1982 og varð dugmikill og framkvæmdasamur borgarstjóri eftir fjögurra ára sundurleita vinstri stjórn í Reykjavík.

Þrautseigja og stefnufesta að skýrum og vel skilgreindum markmiðum er meðal helstu eðliskosta Davíðs Oddssonar sem stjórnmálamanns og hann hikar ekki við að leggja skoðanir sínar í dóm kjósenda. Allt tal um, að hann óttist opinberar umræður er út í hött. Raunar hikar Davíð ekki að ganga fram fyrir skjöldu á þann veg, að þjóðin stendur á öndinni, eins og gerðist á bolludaginn 2003, þegar hann skýrði frá því, hvernig hann taldi fulltrúa Baugs flytja sér boð um mútur.

Um þessar mundir beinast spjót að Davíð vegna umræðna um eignarhald á ljósvakamiðlum. Ég hef í áranna rás lýst því hér á síðunni, hvernig sömu mennirnir eiga alltaf í erfiðleikum með að hemja hneykslan sína og reiði, þegar Davíð lætur að sér kveða. Finnst mér heiður af því, að þessir sömu menn eru nú teknir til við að elta viðhorf mín og embættisverk á svipaðan hátt ? þeir skrifa samkvæmt forriti, sem hentaði vinstri blöðunum, á meðan þau höfðu burði til að komast fyrir augu lesenda sinna. Nú eru þeir flestir komnir með dálk í Fréttablaðinu auk þess sem DV dregur stjórnmálamenn svo greinilega í dilka, að ritstjóri blaðsins kvartar til dæmis ítrekað undan því að vera spurður í fjölmiðlum, hvort hann hafi ákveðið að leggja mig í einelti.

Egill Helgason ritar grein um Davíð Oddsson í DV hinn 30. apríl, án þess að geta sérstaklega 13 ára setu Davíðs sem forsætisráðherra eða ákvörðunar hans um að hætta sem forsætisráðherra 15. september. Grein Egils er ekki rituð til heiðurs Davíð heldur í því skyni að hvetja, í skjóli nafnlauss viðmælanda, til uppreisnar gegn honum innan Sjálfstæðisflokksins! Egill harmar, að tækifærið hafi ekki verið notað í þessari viku, þegar Davíð fór í fyrirlestrarferð til Oxford til að ýta honum frá völdum. Að hinu leytinu snýst grein Egils um nauðsyn þess, að menn leggi rækt við rósemi hugans og geri ekkert af vanstillingu. Mér er spurn, eiga menn aðeins að gera kröfu um rósemi til annarra?

Egill heldur úti umræðuþætti, Silfri Egils, um þjóðmál í sjónvarpi og hefur gert í nokkur ár. Þátturinn hefur að margra mati rýrnað að gildi, eftir að hann fluttist á Stöð 2, líklega einkum vegna útsendingartíma. Nýlega hrósaði ég Agli fyrir góðan þátt með þeim Jóni Steinari og Hannesi Hólmsteini, en nú finnst mér honum bregðast bogalistin, þegar hann tekur sér fyrir hendur að boða uppreisn innan Sjálfstæðisflokksins.

Eignarhald á ljósvakamiðlum.

 

Umræður urðu um fjölmiðlaskýrsluna svonefndu á alþingi miðvikudaginn 28. apríl en hún var lögð fram ásamt frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögunum og samkeppnislögunum. Í umræðunum voru þingmenn sammála um ágæti skýrslunnar, en ólíkar ályktanir eru dregnar af henni.

Í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar segir meðal annars:

„Hafa ber í huga að hér hefur verið lýst stöðunni á íslenskum markaði eins og hún er þegar greinargerð þessi er rituð, og komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi ýmis einkenni samþjöppunar sem talin eru óæskileg út frá markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun. Er þá gengið út frá því, eins og rakið hefur verið, að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi sem vettvangur fyrir ólík viðhorf til stjórnmála og menningar í víðum skilningi, og sem vettvangur fyrir öflun upplýsinga og miðlun þeirra.


Af mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun. Á þeim grundvelli hefur ráðherraráð Evrópuráðsins samþykkt tilmæli R (99) 1 sem rakin eru hér að framan, þar sem settar eru fram hugmyndir að mismunandi leiðum að þessu markmiði. Á íslenska ríkinu hvílir því sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.“

Síðar í skýrslunni segir:

„Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.“

Í ræðu minni á þingi um fjölmiðlaskýrsluna vísaði ég einkum til þessara ábendinga frá nefndinni, þegar ég taldi, að álit hennar boðaði þáttaskil í umræðum um stöðu íslenskra fjölmiðla. Opinber athugun hefði ekki áður leitt til niðurstöðu eða ábendinga af þessu tagi og eðlilegt væri, að skoða mál í þessu ljósi og endurskoða afstöðu sína, ef svo bæri undir.

Í umræðum um þetta mál hefur verið vitnað til orða, sem ég lét falla á alþingi 13. febrúar 1995, þegar rætt var, hvort hætta stafaði af því, að Jón Ólafsson, þáverandi eigandi Stöðvar2 , keypti 35% hlut í Frjálsri fjölmiðlun hf., útgefanda DV. Þá sagði ég meðal annars:

„Um það hvort þurfi að setja sérstaka löggjöf varðandi þessa starfsemi þá dreg ég það í efa. Ég held að sú löggjöf sem er nú fyrir hendi geri mönnum kleift að stunda þessa starfsemi, bæði blaðaútgáfu, útvarpsstarfsemi og sjónvarpsstarfsemi með þeim hætti að fullnægjandi sé fyrir hagsmuni hins almenna borgara. Og ég mótmæli því að einhver þróun hafi átt sér stað hér í landinu sem miðar að því að færa upplýsingamiðlun á færri hendur. Hið gagnstæða hefur í raun og veru gerst.“   

Yfirlýstur tilgangur þessarar fjárfestingar Jóns Ólafssonar var einkum sá að styrkja samstarf fjölmiðlanna innan samsteypunnar til að færa sér í nyt nýja upplýsingatækni, en hún var að festa rætur með afgerandi hætti á þessum tíma. Ég hafði til dæmis opnað þessa vefsíðu nokkrum vikum áður og vísa til þess, þegar ég segir þróunina ekki vera hér á þann veg, að upplýsingamiðlun færist á færri hendur. Við vitum núna, hvernig fór fyrir þessu samstarfi Jóns Ólafssonar og Frjálsrar fjölmiðlunar. Jón er horfinn úr landi og Frjáls fjölmiðlun varð gjaldþrota ? fyrirtækin eru nú orðinn að nýrri heild og Fréttablaðið að auki.

Það sem vakti mesta athygli á þessum tíma við umræðurnar 13. febrúar 1995 var þessi yfirlýsing Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Alþýðubandalagsins, um nauðsyn ríkisblaðs:

„Skoðun mín er sú og það verður mitt eina innlegg í umræðuna að komið sé að því að þjóðin þurfi að eignast dagblað þar sem gilda svipuð lögmál og í Ríkisútvarpi og ríkissjónvarpi og Alþingi sjálft kjósi stjórn yfir slíkt dagblað. Ég skal taka undir með öðrum hv. þm. að ég mæli ekki með flokksblöðum. Ég treysti þeim ekki. En til þess að þjóðin fái upplýsingar sem má treysta þar sem aðhald er að ekki sé gerður munur á fólki eða málefnum og hið ískalda vald peninganna nái ekki að stjórna málum held ég að við þurfum málgagn allrar þjóðarinnar þar sem öll sjónarmið og allir þegnar landsins fá sömu meðferð. Ég sé ekkert athugavert við að við eignuðumst ríkisblað eins og ríkisútvarp og ríkissjónvarp.“  

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, hóf umræðurnar 13. febrúar 1995 um nauðsyn þess að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og sagði meðal annars:

„Ef álíka hringamyndun verður í fjölmiðlum og orðið hefur á þeim sviðum atvinnulífsins sem kennd eru við kolkrabbann og smokkfiskinn þá er verið að stefna lýðræðislegu eðli íslenskrar fjölmiðlunar í hættu. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, biðja hæstvirtan menntamálaráðherra að lýsa yfir viðhorfum sínum til þess að setja löggjöf með þessum hætti og jafnvel knýja á um það áður en þingi lýkur.“  

Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra útilokaði ekki, að nauðsynlegt kynni að vera að setja lög.

Undir lok umræðnanna sagði Ólafur Ragnar Grímsson:

„Ég vil þakka hæstvirtum menntamálaráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér og tel að í þeim felist mikilvæg viðurkenning á því að þessi mál þurfi að takast til sérstakrar könnunar og skoða mjög rækilega og með opnum huga hvort ekki þurfi að setja reglur og jafnvel lög sem tryggja trúverðugleika fjölmiðlunar í landinu og komi í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á þessu sviði. Það eru auðvitað gildar ástæður fyrir því að þróuð lýðræðisríki, bæði í Evrópu og Bandaríkin, hafa talið nauðsynlegt að setja slík lög og slíkar reglur vegna þess að máttur hinna stóru á þessu sviði er slíkur þótt um leið hafi tæknin opnað fyrir hina smáu að það er ekki hægt í lýðfrjálsu ríki að sætta sig við slíkt vald. Á sama tíma og menn eru að breyta stjórnarskrá í átt að meiri mannréttindum er nauðsynlegt að tryggja þetta....

Ég tel því miður að ritstjórn DV hafi fallið á fyrsta trúverðugleikaprófinu varðandi þennan samruna með því að flytja eingöngu þessa litlu frétt í blaðinu um þetta stóra mál, með því að segja ekkert annað um málið og með því að láta ritstjórann, Jónas Kristjánsson, vera á opinberum vettvangi réttlætingaraðilann fyrir þessa eignarsamsteypu, ritstjórann sem á að tryggja óháða og sjálfstæða ritstjórnarstefnu á viðkomandi blaði. Og mér þykir það leitt að sjá blaðið falla þannig á fyrsta prófinu varðandi trúverðugleika þessa máls. Það er þess vegna alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er okkar verkefni hér á Alþingi ekki bara að tryggja mannréttindi í stjórnarskrá heldur tryggja það að hringamyndanir og samþjöppun valds komi ekki í veg fyrir eðlilega, lýðræðislega þróun á Íslandi.“

Orð Ólafs Ragnars um trúverðugleikaprófið, DV og hlutverk  Jónasar Kristjánssonar við að réttlæta þann samruna, sem þarna varð, eru athyglisverð, þegar hugað er að því, að Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins er útgefandi DV og stjórnarmaður í Norðurljósum, sem er 100% eigandi blaðanna og Stöðvar 2 . Gunnar Smári er jafnframt sá, sem gengur fram af mestum þunga við að réttlæta óbreytt ástand og ráðast á Davíð Oddsson. Síðan bergmála minni spámenn á þessum miðlum eins og Illugi Jökulsson og Egill Helgason hið ritstjórnarlega eigendaviðhorf. Hvers vegna notar Egill ekki mat Hreins Loftssonar um ógnarstjórn á Íslandi til að réttlæta andúð sína á Davíð Oddssyni? Hreinn kom þó fram undir nafni.

Í þingumræðunum velti ég því einnig fyrir mér, hverra hagsmuna Samfylkingin væri að gæta í málflutningi sínum. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hún spurði full vandlætingar í umræðum um fjölmiðlaskýrsluna, hvar væri fyrirmyndin að lagafrumvarpinu með skýrslunni, hvers vegna þyrfti að fara hér aðra leið en annars staðar. Í hennar eigin greinargerð með þingsályktunartillögu hennar segir hins vegar:

„Þar sem lagaumhverfi er á hinn bóginn mjög breytilegt frá einu landi til annars er erfitt að finna rök fyrir frekari lagaskipan hér á landi með því að benda til útlanda. Rökin fyrir frekari takmörkunum í lögum um íslenska fjölmiðla verða því að spretta af íslenskum aðstæðum.“

Frumvarpið byggist einmitt á einstökum íslenskum aðstæðum, sem hefðu líklega aldrei komið upp annars staðar. Meginkjarninn í þessari tillögu samfylkingarfólksins er ekki að huga að eignarhaldi á fjölmiðlum heldur leiðum til að setja reglur um innra starf þeirra, að löggjafinn fari að hlutast til um innri starfsreglur fjölmiðlanna ? samskipti blaðamanna og ritstjóra eða ritstjóra og eigenda.

Ég spurði þingmenn Samfylkingarinnar án þess að fá svör, hvað hefði breyst hjá þeim síðan Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði þetta á þingi 19. nóvember 2003:

„Það hlýtur að vera hlutverk okkar á alþingi að tryggja réttlátar og skýrar leikreglur hvað varðar fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn rétt eins og aðra þætti. Það er okkar að móta leikreglurnar og hafa eftirlitið og annarra að vinna úr því. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.“

Eða síðan Össur Skarphéðinsson lét þessi orð falla 22. janúar 2002:

„Það er hins vegar Svarti-Pétur í stokknum. Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til þess að feta í fótspor verkalýðshreyfingarinnar og fara í viðræður við þá aðila, krefjast þess í nafni þjóðarheillar að þeir sýni ábyrgð og þeir lækki matarverð. Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.“

Hvað hefur breytt afstöðu Samfylkingarinnar? Hvers vegna vill hún ekki draga sömu ályktanir og aðrir af hinni ágætu fjölmiðlaskýrslu? Hverra hagsmuna er Samfylkingin að gæta?

Útlendingalög.

Breytingartillögur við útlendingalögin voru samþykktar á alþingi síðdegis í gær, 30. apríl, eftir nokkrar umræður við þriðju umræðu, sem er sjaldgæft, en endurspeglar þá viðleitni stjórnarandstöðunnar að gera veður út af málinu.

Athygli mín var vakin á því, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins talaði jafnan um útlendingafrumvarp Björns Bjarnasonar. Það væri sjaldgæft, að stjórnarfrumvörp væru persónukennd á þennan hátt. Tónninn í fréttaflutningi hljóðvarpsins um málið væri auk þess á þann veg, að þessi tengsl frumvarpsins við nafn mitt væru greinilega fremur áréttuð til að gera hlut minn verri en betri.

Ég kveinka mér síður en svo undan því, að nafn mitt sé í fréttum tengt þessum lagabreytingum. Ég tel mikils virði, að alþingi samþykkti frumvarpið óbreytt. Orðalagi á einstökum greinum var breytt lítillega við meðferð í nefnd, eins og venjulegt er um mál, þótt þau séu ekki jafnmikið undir smásjánni og þetta.

Við framkvæmd laganna mun best koma í ljós, hve fráleit gagnrýni á þau hefur verið. Lögin verða ekki til þess að þrengja að neinum, sem hefur allt sitt á hreinu. Þau auðvelda hins vegar yfirvöldum að grípa til ráðstafana gegn þeim, sem eru að stunda blekkingar, til dæmis með málamyndahjúskap. Að túlka lögin sem aðför að útlendingum eða ungu, ástföngnu fólki er til marks um málefnafátækt og viðleitni til að breiða yfir skortinn með því að höfða til tilfinninga.

Að því er varðar hagsmuni þeirra, sem eru 24 ára eða yngri, vísa ég í svar mitt við opnu bréfi, sem birtist hér á netinu. Lögin banna alls ekki, að Íslendingur gangi að eiga þann, sem er 24 ára eða yngri en hjúskapurinn leiðir ekki sjálfkrafa til þess, að makinn fái hér dvalarleyfi, hann kann hins vegar að vega þyngst við matið á umsókn um slíkt leyfi.

Ég hef ekki orðið þess var, að íslenskir fjölmiðlar hafi sagt frá því, að innanríkisráðherra Breta hefur nýlega skorið upp herör gegn málamyndahjónaböndum vegna umsókna um dvalarleyfi, þá hefur hann einnig hafið baráttu gegn málamyndanámsmönnum, það er þeim, sem sækja um dvalarleyfi Bretlandi á þeirri forsendu, að þeir séu að hefja nám, einkum í háskólum, en nota það aðeins sem yfirvarp gagnvart yfirvöldum til að komast inn í landið.

Sænska þingið felldi í vikunni frumvarp sænsku ríkisstjórnarinnar um að nýta sér sömu fyrirvara og við erum að gera með breytingu á útlendingalögunum um frjálsa för fólks innan EES-svæðisins eftir stækkun Evrópusambandsins. Má segja, að ekki sé einleikið, hve Göran Persson forsætisráðherra gengur illa að hafa stjórn á þingi og þjóð, þegar samskiptin við Evrópusambandið eru annars vegar. Sjónarmið hans um evruna urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslu og þegar hann var spurður að því á blaðamannafundi á dögunum, hvaða skýringu hann hefði á því að hrakspár hans um versnandi efnahag Svía utan evru-svæðisins hefðu ekki ræst sagðist hann einfaldlega ekki vita það, hvort nokkur vissi það ? og var þá hlegið að honum.