9.4.2004

Jóhanna, Eiríkur, jafnrétti og Baugstíðindi

Í janúar 1990 var Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður félagsmálaráðherra og þá spurði Geir H. Haarde hana að því, hvað hún ætlaði að gera vegna ítrekaðra brota Svavars Gestssonar, þáverandi menntamálaráðherra, á jafnréttislögunum. Í svari sínu í þingumræðunum komst Jóhanna Sigurðardóttir að þeirri niðurstöðu, að hún gæti ekki gert neitt sem félagsmálaráðherra. Hún ætlaði hins vegar að flytja frumvarp að nýjum jafnréttislögum, þar sem mælt yrði fyrir um kærunefnd jafnréttismála. Í svari sínu við fyrirspurn Geirs sagði Jóhanna meðal annars:

„Jafnréttisráð fær á ári hverju allmargar kærur vegna meintra brota á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Tímabilið 1984--1986 voru kærur vegna meintra brota á lögunum samtals 28. Eitt mál frá þeim tíma er nú til meðferðar hjá dómstólum. Á árinu 1987 voru kærur vegna meintra brota á lögunum samtals 8 og á árunum 1988 og 1989 voru þær 14 hvort ár, en þær taka ekki aðeins til stöðuveitinga. Frá 1976, þ.e. 13 ára tímabili eða frá því að jafnréttislögin voru sett hefur Jafnréttisráð þrisvar úrskurðað að ráðherra [Svavar Gestsson] hafi brotið jafnréttislög. Um er að ræða þau tvö skipti sem fyrirspyrjandi nefnir auk þess sem Jafnréttisráð taldi á árinu 1986 að þáv. menntmrh. [Sverrir Hermannsson] hefði brotið ákvæði laga þegar hann skipaði karlmann lektor í íslenskum bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands.
    

Í eitt skipti var ekki kært en Jafnréttisráð tók málið upp að eigin frumkvæði og ályktaði að um brot á jafnréttislögum væri að ræða. Það var varðandi veitingu apótekaraleyfis [Svavar Gestsson], sennilega á árinu 1982 eða 1983.“

Á því þingi, sem nú situr og á nokkrum undanförnum þingum hafa þær Jóhanna Sigurðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar flutt frumvarp til breytinga á jafnréttislögunum frá árinu 2000. Þær vilja, að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi gagnvari málsaðilum og rökstyðja það meðal annars á þennan veg:

„Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd jafnréttismála bárust nefndinni 103 erindi á árunum 1991–2001. Í 55 tilvika taldi nefndin að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefðu verið brotin en langflest þeirra lutu að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna.....Iðulega hafa niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verið teknar upp á Alþingi, bæði varðandi stöðuveitingar og launajafnrétti kynjanna. ....

Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt. Jafnréttislög kveða á um að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum samfélagsins og að unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefnd virkar ekki eins og til var ætlast, því að veruleg undanbrögð eru á því að álit nefndarinnar séu virt. Frumvarp þetta á að bæta úr þeirri brotalöm. “

Þetta frumvarp Jóhönnu um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila hefur verið flutt oftar en einu sinni, jafnvel þótt allur þingheimur hafi árið 2000 samþykkt ný jafnréttislög. Frumvarpið hefur sem betur fer ekki komist lengra en í þingnefnd, en það endurspeglar þá staðreynd, að Jóhanna telur jafnréttislögin ekki geyma nógu harðar reglur um skyldu manna til að lúta vilja kærunefndarinnar. Jóhanna vill breytingar á lögunum til að knýja enn á um rétt og vald kærunefndar jafnréttismála. Það þarf því engan að undra, að hún hrópi upp yfir sig, þegar ég hreyfi öðrum sjónarmiðum. En hafa fjölmiðlar hlaupið upp til handa og fóta vegna þessarar gagnrýni Jóhönnu á jafnréttislögin og leitað álits manna hér og þar á því, hvers vegna fyrrverandi félagsmálaráðherra detti í hug,  eða á ég að segja dirfist,  að flytja tillögu um breytingu á lögum, sem hún samþykkti með öðrum þingmönnum árið 2000? Nei, auðvitað ekki – að sjálfsögðu er það réttur þingmanna, hvort sem þeir eru ráðherrar eða fyrrverandi ráðherrar að hafa skoðanir á lögum, sem þeir hafa tekið þátt í að samþykkja. 

Ég minni á þessar staðreyndir nú og þær tölulegu upplýsingar, sem koma fram í greinargerð Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrr í ræðu hennar sem félagsmálaráðherra til að sýna fram á, hve skrýtilegt er, að hún og Baugsmiðlarnir kippi sér sérstaklega upp við það nú, að ég skuli hafa sjálfstæða skoðun á niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Þau skipta í raun tugum tilvikin, þegar menn eru ósammála nefndinni og þrisvar sinnum mátti Svavar Gestsson sæta því, að Jafnréttisráð taldi hann brjóta jafnréttislögin. 

Ég hef fullan rétt og ríka ástæðu til að andmæla nefndinni, þegar hún telur sig hafa lagaheimild til þess að segja ákvörðun mína um skipan hæstaréttardómara byggða á kynferðislegri mismunun og lítur þannig á, að dómgreind hennar um hæfi umsækjenda eigi að vega þyngra en mín sem dómsmálaráðherra. Mér hafi borið að skipa konu hæstaréttardómara vegna þess að forverar mínir í embætti dómsmálaráðherra hafi ekki á undanförnum árum skipað nógu margar konur í réttinn. Af áliti kærunefndarinnar verður auk þess ráðið, að ég hefði farið á svig við jafnréttislögin, ef ég hefði valið annan þeirra, sem hæstiréttur taldi heppilegasta til setu í réttinum að þessu sinni. Hæstiréttur hafi með öðrum orðum verið að gefa mér vísbendingu um að brjóta lög.

Hver sem lítur þetta mál hlutlægum augum hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að eitthvað sé bogið við löggjöf, sem knýr kærunefnd til að komast að slíkri niðurstöðu. Það veikir að vísu röksemdafærslu um að lögin knýi kærunefndina til þessarar niðurstöðu,  að nýlega dæmdu  fimm hæstaréttardómarar, að kærunefndin hefði ekki farið lögum, þegar hún hafnaði ráðningu á leikhússtjóra á Akureyri, en sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála hafði forgöngu um þá ráðningu. – Ætti hún ekki að kunna lögin upp á sína tíu fingur? Ekki að mati kærunefndar jafnréttismála – hvað þá um aðra?

Til að árétta andstöðu mína við vinnubrögð kærunefndarinnar lét ég í ljós þessa skoðun í Morgunblaðinu miðvikudaginn 7. apríl:

„BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra segir jafnréttislög barn síns tíma. Óeðlilegt sé að þeir sem nú hafa veitingarvaldið séu bundnir af því að ráða konur frekar en karla, af því að forverar þeirra hafi ekki gert það, en kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur, í stöðu hæstaréttardómara. Í áliti nefndarinnar er bent á að tveir dómarar af níu við Hæstarétt séu konur. Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fært fyrir því rök gagnvart kærunefndinni að málið félli ekki undir hana, „vegna þess að það var ekki um neina kynferðislega mismunun að ræða í mínum athöfnum þegar ég veitti þetta starf.“

Björn minnir á að í umsögn sinni um umsækjendurna átta hafi Hæstiréttur talið þá alla hæfa en síðan talið tvo karla heppilegasta úr hópnum fyrir réttinn að þessu sinni. „Ef Hæstiréttur hefði talið jafnréttislög gera óhjákvæmilegt að kona yrði valin, hlyti rétturinn að hafa vakið máls á því í umsögn sinni,“ segir Björn. Hann segir þá röksemdafærslu kærunefndarinnar að ráða hefði átt konu í stað karls til réttarins ekki haldbæra. „Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. Sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála mátti sæta því að kærunefndin sagði hana brjóta jafnréttislög en niðurstaða fimm dómara Hæstaréttar í því máli var að kærunefndin hefði ekki komist að réttri niðurstöðu.““

Það fer ekki fram hjá neinum, sem fylgist með fréttum, að þessi orð mín hafa valdið nokkru uppnámi. Ég tel, að það stafi mest af því, að þau hafa verið afflutt á þann veg, að ég hafni jafnréttislögunum, þótt ég kalli þau barn síns tíma. –  Ég vísa hins vegar til þess ákvæðis laganna, sem bindur hendur kærunefndarinnar á þann veg, að á grundvelli tölfræði um fjölda fólks í ákveðnum stöðum sé veitingarvaldshafi bundinn af því að skipa konu í embætti. Ef þessi regla er í raun lögfest, er hún svo sannarlega meira en tímaskekkja, hún veldur því, að  svigrúm veitingarvaldshafans til sjálfstæðs mats á hæfum umsækjendum er þrengt svo mikið, að það er lítils ef nokkurs virði. Slíka reglu ber að nema á brott úr lögum. Þá er ástæða til að huga að því, hvort ekki skuli  setja í lög ákvæði um það, að unnt sé að kæra álit kærunefndarinnar til æðra stjórnvalds, það er til félagsmálaráðherra. Umboðsmaður alþingis hefur gagnrýnt endanlegt vald  nefnda á borð við kærunefndina og telur réttarstöðu borgaranna geta verið betri gagnvart þeim – réttur til málskots til æðra stjórnvalds eigi að vera fyrir hendi.  Í sömu andrá má geta þess, að  umboðsmaður og sérfræðingar í stjórnsýslurétti eru sammála um, að veitingarvaldshafi þurfi aðeins að færa rök fyrir því, hvers vegna hann skipar einhvern í embætti, honum sé ekki skylt að fara í mannjöfnuð, það er færa rök fyrir því, hvers vegna hann hafnaði einhverjum umsækjanda. – Meginkrafan á hendur mér í þessu máli fyrir kærunefndinni var, að ég skýrði, hvers vegna ég skipaði ekki kæranda, það er konuna. Ég hafnaði þeirri kröfu alfarið og taldi  kröfu um slíkan mannjöfnuð ekki byggjast á lögmætum forsendum. Kærunefndin ber hins vegar saman umsækjendur og telur sig hafa lögheimildir til þess, þótt hún eigi aðeins að leggja mat á það,  hvort um sé að ræða kynferðislega mismunun. Ef þessi afskipti af forsendum veitingarvaldshafans rúmast innan jafnréttislaganna, þarf að þrengja rétt kæurnefndinnar og laga hann að almennum stjórnsýslureglum.

Jóhanna Sigurðardóttir hrópar upp yfir sig af hneykslan vegna afstöðu minnar og segir á vefsíðu sinni:

„Furðulegt að það skuli vera sjálfur dómsmálaráðherrann sem segir að gildandi lög í jafnréttismálum séu úrelt og lætur sem hann þurfi þess vegna ekki að fara eftir þeim. Dómsmálaráðherrann brýtur ekki einasta lögin af því þau eru tímaskekkja að hans mati, heldur brýtur hann líka starfsreglur eigin ráðuneytis um jafnréttismál. Í starfsreglum dómsmálaráðuneytisins segir orðrétt: „Sú regla gildir hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess að hafa skal í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar.“ Þar höfum við það. En vart er það til eftirbreytni fyrir aðra að í stól dómsmálaráðherra sitji maður sem hvorki virðir lög né reglur í jafnréttismálum. Kannske er staðreyndin bara sú að lögin séu ekki tímaskekkja heldur sé það tímaskekkja að hafa mann eins og Björn í stóli dómsmálaráðherra. Það gæti þýtt stöðnun og afturhvarf til fortíðar. Ég hef nú beðið um utandagskrárumræðu um embættisverk dómsmálaráðherra við skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra við úrskurði kærunefndar jafnréttismála.“

Þessi röksemdafærsla Jóhönnu er lítils virði, þegar litið er til talnanna í hennar eigin máli um það, hve oft kærunefnd jafnréttismála hefur fundið að stöðuveitingum, án þess að það skipti máli til eða frá – einmitt þess vegna hefur Jóhanna viljað binda menn til hlýðni við álit nefndarinnar. Það, sem hún segir um starfsreglur dómsmálaráðuneytisins, er ekkert annað en útúrsnúningur. Að sjálfsögðu er ekkert í þessum starfsreglum, sem gengur lengra en jafnréttislögin eða bindur hendur ráðherra við ráðningu eða skipun í störf  umfram það, sem lög heimila.

Jóhanna Sigurðardóttir vill ganga lengra í þá átt að hneppa allt í fjötra í nafni jafnréttis en meirihluti þingmanna. Hún hefur hvorki þolinmæði né umburðarlyndi gagnvart andstæðingum sínum, eins og þessar upphrópanir hennar í minn garð staðfesta. Tími Jóhönnu kom að hennar eigin sögn fyrir nokkrum árum. Hefur hún síðan verið tímaskekkja? Að hún fái mig í þann flokk með sér, verður að minnsta kosti ekki á grundvelli samstöðu um breytingar á jafnréttislögunum. Hún vill breyta jafnréttislögunum til enn meiri valdhyggju og þar með allt annarrar áttar en ég, þótt hún hafi samþykkt lögin árið 2000.

Ástæða er til að halda því til haga, að Jóhanna vill breyta jafnréttislögunum, því að mér er talið það sérstaklega til skammar af þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að ég hafi hugmyndir um breytingu á lögunum og sjónvarp ríkisins bjó til sérstaka frétt um, að mér dytti í hug, að gera mætti lögin betur úr garði! Þetta sagði ég sama daginn og umræður urðu um það í upphafi þingfundar að frumkvæði Samfylkingarinnar, hvort ég mundi ekki örugglega beita mér fyrir breytingu á ákvæðum almennra hegningarlaga um reynslulausn – það er breytingu á ákvæðum frá 1999, sem samþykkt voru að fengnum tilmælum frá umboðsmanni alþingis vegna túlkunar á 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Samfylkingarmaðurinn, sem spurði mig um þetta var Ágúst Ólafur Ágústsson, en svo vildi til, að í hádegi þessa sama dags hafði samband við mig hlustandi útvarps Sögu, sem sagði Ágúst þennan hafa úthúðað mér í þætti Sigurðar G. Tómassonar fyrir andúð mína á mannréttindum – nú stóð Ágúst hins vegar upp í þingsalnum og spurði, hvort ég ætlaði ekki örugglega að breyta lagaákvæðum frá 1999, sem sóttu styrk sinn til mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrsti blaðamaðurinn, sem hringdi í dómsmálaráðuneytið síðdegis þriðjudaginn 5. apríl, þegar kærunefndin birti álit sitt, var Kristinn Hrafnsson, fréttastjóri á DV. Ég svaraði spurningum hans og sagði undir lok samtalsins, að ég vildi fá svör mín send í tölvupósti til yfirlestrar, áður en þau britust í blaðinu. Kristinn sagðist ekki mundu senda mér svörin heldur hringja og lesa það fyrir mig, sem eftir mér yrði haft. Ég sagði það ekki duga mér, því að ég vildi lesa það, sem birtist eftir mér í blaðinu – Kristinn sagði, að hjá DV giltu innanhúsreglur allt frá tímum sjálfs Jónasar Kristjánssonar um að senda viðmælendum ekki texta til yfirlestrar – ég sagðist ekki bundinn af þeim reglum og hann gæti þess vegna ekki haft neitt eftir mér. Kristinn virti þessi sjónarmið mín að engu og birti eitthvert hrafl úr samtali okkar daginn eftir í heimildarleysi.

Þessi vinnubrögð fréttastjórans koma mér ekki á óvart, enda nýtur DV  sífellt minna trausts eins og ný könnun frá Gallup, sem birt var 8. apríl sýnir, en þar segjast aðeins 17% lesenda treysta fréttum blaðsins og fær blaðið einkunnina 2,2 af 5 á mælistiku trausts. DV  birtir ekki aðeins ósannar fréttir, sem snerta mig, heldur falsar einnig ljósmyndir til að undirstrika gildi tilbúinna forsíðufrétta. Baugsveldið heldur DV úti á þessu lága plani til að auka virðingu Fréttablaðsins. Útgefandi DV er Gunnar Smári Egilsson  en hann er jafnframt ritstjóri Fréttablaðsins, heimatökin eru því hæg við stjórn beggja Baugstíðindanna.

Ég hef komið þeim boðum til Kristins Hrafnssonar, að ég hafi sett mér þá innanhúsreglu að svara aðeins skriflega spurningum frá DV . Reglan nær einnig til Fréttablaðsins.

Á forsíðu Fréttablaðsins fimmtudaginn 8. apríl er þessi flennifyrirsögn: Lagaprófessor segir Björn lifa í fortíðinni. Prófessorinn, sem þarna talar, er enginn annar en Eiríkur Tómasson og kynnir Fréttablaðið  hann  til sögunnar sem prófessor í réttarfari og forseta lagadeildar Háskóla Íslands. Undir þessum ábúðarmiklu titlum hefur blaðið eftir Eiríki:

„Ég skil ekki í Birni og finnst hann ætti að hugsa sinn gang. Ég hef ekki heyrt annað en flestir stjórnmálamenn séu fylgjandi jafnrétti, ekki bara í orði heldur einnig á borði. Það virðist því sem Björn lifi í fortíðinni en ekki nútíðinni.“ Þá segir Fréttablaðið „Aðspurður segir hann [Eiríkur] úrskurð kæurnefndarinnar mjög skýran, vel rökstuddan og eðlilegan í alla staði og bendir fólki á að lesa hann í heild sinni,“

Gott og vel. Forseti lagadeildar Háskóla Íslands skýrir frá því á forsíðu Fréttablaðsins að ég sé á móti jafnrétti og lifi þess vegna í fortíðinni! Þessa ályktun dregur hann af  Morgunblaðs-fréttinni, sem ég birti í heild hér að ofan. Fréttablaðið lætur þess ógetið í frétt sinni, að Eiríkur Tómasson var einn umsækjanda um dómarastöðuna í hæstarétti og er því málið meira en lítið skylt.

Eiríkur Tómasson hefur kvartað undan því við umboðsmann alþingis, að ég skipaði hann ekki og til þeirrar kvörtunar Eiríks er sérstaklega vísað í máli kæranda fyrir kærunefnd jafnréttismála. Fréttablaðið segir lesendum sínum auðvitað ekki frá þessari staðreynd. Er það vegna þess, að blaðinu þyki hún ekki fréttnæm? Eða skyldi umgjörðin valin til að draga ekki úr trúverðugleika Eiríks?  Það er vissulega ábúðarmeira að láta hann koma fram sem óhlutdrægan prófessor í lögfræði og forseta lagadeildar Háskóla Íslands en kvartanda til umboðsmanns. Var Eiríki ljós umgjörðin um orð hans, þegar hann var spurður? Vakti hann athygli blaðamannsins á því, að hugsanlega væri hann vanhæfur til að tjá sig um málið? Hefði Eiríkur komist að sömu niðurstöðu, ef hann hefði verið skipaður í stöðuna og kærunefndin hefði þá lýst sömu skoðun sinni á hinni kynferðislegu mismunun? Kærunefndin á ekki að fjalla um annað en kynferðislega mismunun milli hæfra umsækjanda. Konum hefði ekki fjölgað í hæstarétti, ef Eiríkur hefði verið skipaður til setu þar, en í áliti kærunefndarinnar segir: „Upplýst er að tveir dómarar af níu við Hæstarétt Íslands eru konur. Eins og málið liggur fyrir kærunefnd jafnréttismála bar kærða að gæta þess er hann gerði tillögu um skipun í embættið að velja konu enda teldist hún að minnsta kosti jafn hæf eða hæfari en sá karl sem embættið hlaut, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000.“

Í þessum málatilbúnaði öllum er þetta dæmi um Eirík Tómasson og Fréttablaðið ekki hið eina, þar sem spurningin um tengsl og frásögn af þeim vaknar. Í Vef-Þjóðviljanum á www.andriki.is segir meðal annars hinn 8. apríl:

„Tökum dæmi um tengsl sem engum dettur í hug að minnast á í fréttum. Í fyrradag sendi svokölluð Kærunefnd jafnréttismála frá sér niðurstöðu vegna skipunar hæstaréttardómara. Áliti nefndarinnar er víða tekið eins og hinu vandaðasta plaggi sem ekki verði deilt á. Samt er það nú svo að það eru einstaklingar af holdi og blóði sem standa að því. Þegar dómsmálaráðherra kynnti ákvörðun sína síðastliðið haust, urðu ýmsir reiðir. Einn þeirra sem ekki varð mjög ánægður var til dæmis Sif Konráðsdóttir nokkur, skeleggur lögmaður á lögmannsstofunni Mandat í Reykjavík. Hún skrifaði strax grein í Lögmannablaðið þar sem hún lýsti þeirri skoðun að nærtækt væri að álykta sem svo að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að velja þann mann sem hann kaus en ekki tiltekinn kvenkynsumsækjanda, Hjördísi Hákonardóttur. Næst gerist það að Hjördís Hákonardóttir fer af stað og kærir embættaveitinguna til kærunefndar jafnréttismála en svo skemmtilega vill til að þar sat í forsæti Björn L. Bergsson nokkur, skeleggur lögmaður á lögmannsstofunni Mandat í Reykjavík. Hann og þær tvær konur sem sátu með honum í nefndinni komust svo einróma að sömu niðurstöðu og Sif var búin að skrifa í Lögmannablaðið. Hefur nokkur maður heyrt minnst á það í fréttum að formaður hinnar óumdeildu úrskurðarnefndar sé félagi og sameigandi lögmanns sem sérstaklega hafi beitt sér með þessum hætti í máli sem svo kom til úrskurðar hjá nefndinni?“

Jóhanna Sigurðardóttir mun áreiðanlega halda áfram að tala um þetta mál eins og kærunefnd jafnréttismála hafi aldrei áður fundið að stöðuveitingu ráðherra. Baugstíðindi verða áfram við sama heygarðshornið. Undir gæðastimpli Háskóla Íslands eða annarra stofnana munu þeir, sem telja sig eiga harma að hefna, halda áfram að afflytja sjónarmið mín. 

Ekkert af þessu breytir þó rétti mínum til að taka þá ígrunduðu og málefnalegu ákvörðun, sem ég tók við skipun hæstaréttaradómarans. Ekkert af þessu breytir þó rétti mínum til að hafa skoðun á vinnubrögðum kærunefndar jafnréttismála og nauðsyn þess að setja henni nýjan lagaramma, ef hún er knúin til þess af honum að komast hvað eftir annað að rangri niðurstöðu. Ekkert af þessu breytir því, að hér á þessari síðu á ég þess kost að skýra afstöðu mína og bregða ljósi á það, hvernig staðið er að framsetningu mála í fjölmiðlum, án þess að viðleitni gæti þar til að sýna alla myndina.