3.4.2004

Útlendingalög -  óflutt frumvarp - Schengen

„Glæpum fjölgar við stækkun ESB.

 Þýska lögreglan segir að stækkun Evrópusambandsins til austurs muni auðvelda glæpamönnum að smygla fíkniefnum og ólöglegum innflytjendum til Vestur-Evrópu. Eftirlit á austurlandamærum Evrópusambandsins verði ekki eins öflug og nú. Uwe Kranz, sérfræðingur Evrópulögreglunnar um skipulagða glæpastarfsemi í Austur-Evrópu, segir að mannlegi þátturinn verði höfuðvandamálið. Hætta sé á að landamæraverðir með lág laun freistist til að þiggja mútur.“

Þessi frétt var flutt í hljóðvarp ríkisins hinn 1. apríl síðastliðinn, hún var ekki aprílgabb og ég fékk hana framsenda frá áhugasömum hlustanda, sem ekki lét nafns síns getið í tölvubréfinu. Fréttin endurspeglar áhyggjur margra, sem sinna löggæslu innan Evrópusambandsins (ESB) og raunar á evrópska efnahagssvæðinu. Enginn vafi er á því, að breytingin, sem verður með stækkun ESB 1. maí næstkomandi, á ekki síður eftir að nýtast þeim, sem starfa á ólögmætan hátt í Evrópu en lögmætan. Á alþjóðavæðingunni er skuggahlið eins og öllu mannlegu atferli og hvarvetna keppast yfirvöld löggæslu við að gera ráðstafanir til að standa feti framar en þeir, sem stunda glæpastarfsemi.

Ég hef flutt frumvörp á alþingi, sem eiga að stuðla að því að efla tæki yfirvalda til að takast á við erfiðari og flóknari verkefni en áður í umhverfi, þar sem alþjóðleg glæpastarfsemi stendur nær okkur en nokkru sinni fyrr.

*

Fyrir tæpum tveimur vikum mælti ég á alþingi fyrir frumvarpi um breytingar á útlendingalögunum, sem taka mið af stækkun Evrópusambandsins og þar með evrópska efnahagssvæðisins og þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að nýta sér þá fyrirvara, sem eru í samkomulaginu um aðlögun að stækkuninni að því er varðar frjálsa för fólks um svæðið. Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði, sem styrkja tök Útlendingastofnunar á því að sinna þeim verkefnum, sem henni eru falin.

Ég er undrandi á því hvernig Alþjóðahús og prestur innflytjenda kjósa að bregðast við þessu frumvarpi, ekki síst því ákvæði þess, sem lýtur að málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Af því, sem þessir aðilar hafa sagt, má í fljótu bragði draga þá ályktun, að í frumvarpinu sé gengið að því sem vísu, að öll hjónabönd Íslendinga og útlendinga séu málamynda- eða nauðungarhjónabönd. Þetta er að sjálfsögðu fráleit túlkun, því að í frumvarpinu segir, að sá hjúskapur sem hefur þann tilgang einan að útvega dvalarleyfi fyrir annað hjóna geti ekki myndað rétt til dvalarleyfis. Auk þess sem markmið frumvarpsins er að stemma stigu við því, að unnt sé að fara í kringum útlendingalögin með slíkum málamyndagerningi er því ætlað að vernda þá, sem er hættara en öðrum við þrýstingi eða misneytingu af einhverju tagi, gegn því að falbjóða sig til hjúskapar. Í þessu skyni er lagt til að maki skuli vera eldri en 24 ára til að unnt sé að veita honum dvalarleyfi sem aðstandandi.

Alþjóðahús hefur túlkað þessa tillögu á þann veg, að með 24 ára aldrinum sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, af því að hjúskaparaldur hér á landi sé 18 ár. Þetta er röng túlkun. Hafi útlendingur fengið hér dvalarleyfi á öðrum forsendum en sem aðstandandi vegna hjúskapar, getur hann gengið að eiga Íslending, þótt hann sé ekki orðinn 24 ára. Tillaga mín snýst um það tilvik, þegar hjúskapur er forsenda dvalarleyfis og þá skal maki vera 24 ára til að fá hér dvalarleyfi sem aðstandandi -  útlendingalögin heimila að sjálfsögðu útgáfu dvalarleyfis á öðrum forsendum.

Mér finnst ekki hafa komið fram sannfærandi rök gegn þeirri tillögu í frumvarpinu, að Útlendingastofnun hafi heimild til þess að óska eftir því, að umsækjandi um dvalarleyfi eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis í því skyni að staðfesta, að um skyldleika sé að ræða.

Samkvæmt gildandi lögum skal sá, sem óskar eftir dvalarleyfi hér á grundvelli skyldleika við þann, sem hefur heimild til að búa hér á landi, sýna fram á þennan skyldleika.  Almennt er sýnt fram á skyldleikann með óvéfengjanlegum vottorðum, en lífsýnis- eða DNA-úrræðið er sett til vara og ætti að líta á það til hagsbóta fyrir umsækjanda, því að hans hagur snýst um, að sannað sé á óvéfengjanlegan hátt, hvort um skyldleika sé að ræða eða ekki.

Í andmælaskjali Alþjóðahúss kemur fram, þegar rætt er um lífssýnin, að útlendingalögin geri ekki ráð fyrir, að ættleiddir einstaklingar geti  verið hluti af sér erfðalega óskyldri fjölskyldu. Íslensk lög gera ráð fyrir því að ættleidd börn hafi sömu réttarstöðu og eigið barn ættleiðanda. Að baki ættleiðingu liggur skjalbundin heimild og er því auðvelt að sanna hana, án þess að lífsýnis sé þörf. Það liggur í hlutarins eðli, að engin rök eru fyrir því að tengja ákvæði um lífsýni sönnun fyrir ættleiðingu, lífsýni getur ekki sannað annað en blóðtengdir.

Um aðrar athugasemdi vegna þessa frumvarps ætla ég ekki að fjalla hér. Ég vil þó minna á þá almennu og augljósu röksemd fyrir því, að óskynsamlegt er fyrir okkur Íslendinga að hafa veikari ákvæði í okkar útlendingalögum en nágrannaþjóðir okkar. Við værum með því að kalla yfir okkur meiri vandræði en hljótast af því að hafa skýrar og ótvíræðar starfsreglur fyrir þá, sem gæta landamæra okkar. Útlendingar, sem hingað koma á lögmætum forsendum, hafa að sjálfsögðu ekkert að óttast vegna þessara lagabreytinga eða afskipta yfirvalda.

Óflutt frumvarp

Nokkrar umræður hafa orðið um frumvarp, sem ég hef fengið samþykkt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna, og snýst um breytingar á lögunum um meðferð opinberra mála. Þingflokkur framsóknarmanna samþykkti framlagningu frumvarpsins miðvikudaginn 31. mars og var það tilkynnt skrifstofu alþingis hinn 1. apríl, lokadag slíkra tilkynninga fyrir frumvörp, sem flutt eru á vorþinginu, og verður frumvarpinu dreift næstkomandi mánudag. Frumvarpið er enn óflutt á alþingi, því hefur ekki einu sinni verið dreift þar og það hefur hvergi verið birt í heild. Ég hef ítrekað neitað fréttamönnum að tjá mig um frumvarpið opinberlega, fyrr en það hefur verið lagt fram á alþingi.

Ég hef heyrt í útvarpi og séð í blöðum, að lögmenn og þingmenn stjórnarandstöðunnar telja sig í aðstöðu til að taka afstöðu til þessa frumvarps, án þess að hafa það í höndunum, svo að ég viti. Minnir þetta á það, þegar þeir töluðu mikið um bók Hannesar Hólmsteins, vinar míns, um Halldór Laxness, sem ekki höfðu lesið hana. Ég hélt raunar, að lögmenn hefðu það fyrir reglu að tjá sig ekki opinberlega um efnisatriði mála af þessum toga, nema þeir hefðu að minnsta kosti getað kynnt sér efni þeirra af eigin raun en ekki afspurn.

Miðað við efni þessa frumvarps var við því að búast, að ekki yrðu allir á einu máli um það. Í því felast hins vegar haldlítil rök, sem ég heyrði einn lögmann segja, að sett hefðu verið ákvæði í lög um þetta efni árið 1999 að vel athuguðu máli og þess vegna væri ekki ástæða til að breyta ákvæðunum árið 2004 að lítt athuguðu máli, ef ég skyldi lögmanninn rétt.

Stundum líður jafnvel enn skemmri tími en þessi á milli þess að lögum sé breytt, þegar í ljós kemur, að við framkvæmd þeirra eru brotalamir eða aðstæður breytast á þann veg, að nauðsynlegt þykir að æskja nýrra lagaheimilda. Þessar breytingatillögur á lögunum um meðferð opinberra mála lúta allar að störfum lögreglumanna og taka mið af erfiðara og hættulegra starfsumhverfi þeirra.

Ég ætla ekki að hvika frá þeim ásetningi, að tjá mig ekki um efnisatriði þessa frumvarps opinberlega, fyrr en því hefur verið dreift á alþingi. Mér þykja það ekki góð vinnubrögð, þegar ráðherrar ræða flókin og viðkvæm lagafrumvörp opinberlega, áður en þeim hefur verið dreift í þingsalnum, öllum til fróðleiks og athugunar.

Schengen

Ég skrapp í vikunni til Brussel og tók þar þátt í dómsmálaráðherrafundi Schengen-ríkjanna.

Umræður snerust einkum um rétt ríkis til krefjast þess af farþegaflytjendum, að fá hjá þeim farþegaskrár, áður en farartæki koma til viðkomandi ríkis og nota upplýsingar í þessum skrám til landamæraeftirlits og til að upplýsa sakamál, ef  nauðsyn krefst.

Í útlendingalögunum íslensku eru ákvæði, sem heimila yfirvöldum að krefjast slíkra upplýsinga og hafa þau komið hér að góðum notum. Bretar styðjast einnig við slík ákvæði við landamæravörslu sína. Meginlandsríki hafa önnur viðhorf en eyríki í þessu efni og var verkefni fundarins þriðjudaginn 30. mars ekki síst að samræma þessi ólíku sjónarmið. Það tókst á forsendum, sem féllu að hagsmunum Breta og okkar, þrátt fyrir töluverða andstöðu Frakka.

Í tengslum við ráðherrafundinn fékk ég einnig tækifæri til að ræða við sérfræðinga um viðbrögð á vettvangi Evrópusambandsins við hryðjuverkaárásinni í Madrid 11. mars síðastliðinn. Föstudaginn 19. mars var efnt til fundar innanríkis- og dómsmálaráðherra ESB-ríkjanna í Brussel. Þar gekk Nicolay Zarkosy, innanríkisráðherra Frakka, fram með meiri þunga en sumum öðrum fundarmönnum þótti við hæfi og ætlaði meðal annars að ráða meginniðurstöðu fundarins en varð að sætta sig við, að fleiri kæmu að því að semja hana.

Ég spurði, hvort það endurspeglaði andrúmsloftið á fundinum rétt, sem haft var eftir Zarkosy í einhverju blaði, að það þýddi ekkert að vænta þess, að jafnalvarlegt mál væri rætt að nokkru viti á fundi 50 ráðherra, sem allir vildu láta ljós sitt skína. Þetta var staðfest sem nokkuð góð lýsing á því, sem þarna gerðist. Eftir fundinn óskaði Zarkosy eftir því, að ráðherrar G-5 ríkjanna [Bretland, Frakkland, Ítalía, Spánn og Þýskaland] innan ESB hittust einslega og ræddu málin og gekk það eftir. Fundur G-5 um málið þykir enn staðfesta, hvernig breyting kann að verða á samstarfinu á vettvangi ESB, eftir að það stækkar 1. maí næstkomandi.

Hafa verður í huga, að samstarf um innri öryggismál er ákaflega vandmeðfarið og eðli máls samkvæmt eru engir varari um sig í því efni en forstjórar leyniþjónustu og njósnadeilda. Tortryggni er söguleg staðreynd milli slíkra stofnana innan einstakra ríkja hvað þá heldur milli ríkja. Hitt er jafnframt ljóst, að blóðugar árásir á almenna borgara eins og sú, sem gerð varð í Madrid 11. mars knýja stjórnmálamenn og ríkisstjórnir til að stíga skref, sem hefðu þótt óhugsandi, áður en óhæfuverkið er framið.