Sannleikurinn er afstæður - sannleikurinn er lygi!
Umræður um sérsveit lögreglunnar eru að jarðtengjast eftir heljarstökkið, sem ýmsir tóku, þegar ég kynnti skipulagsbreytingarnar frá 1. mars, það er að sérsveitin yrði stoðdeild á vegum ríkislögreglustjóra og fjölgað yrði um 10 almenna lögreglumenn í Reykjavík frá með 1. júní næstkomandi, auk þess sem stefnt væri að því á komandi árum að fjölga í sérsveitinni úr 21 manni í 50 til 52.
Mér gafst tækifæri til að ræða málið í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist þriðjudaginn 9. mars, og skýra þar meginþætti þess. Einnig skiptist ég á skoðunum um það í Pressukvöldi í sjónvarpi ríkisins að kvöldi miðvikudagsins 10. mars, þar sem ég svaraði spurningum þeirra Þórdísar Arnljótsdóttur og Arnars Páls Haukssonar hjá RÚV og Kristjáns Guy Burgess fréttastjóra á DV.
Á Pressukvöldinu gat ég sagt Kristjáni það í beinni útsendingu, að hann hefði skrifað alrangar fréttir, þegar hann sagði í blaði sínu, að allt léki á reiðiskjálfi vegna sérsveitarinnar í þingflokki sjálfstæðismanna. Engar deilur hafa orðið um sérsveitina á þeim vettvangi. Mér er í raun óskiljanlegt, hvaða kröfur gerðar eru til frétta á DV, ef svona heimasoðin uppspuni skrif stenst þær.
Ég las svo smápistil í Fréttablaðinu um þetta Pressukvöld eftir Eddu Jóhannsdóttur en við nafn hennar stendur þessi setning „lætur ofstækisfulla sannleiksboðendur fara í taugarnar á sér enda sannleikurinn afstæður.“ Í þessum pistli fjallar Edda um Gunnar í Krossinum, sem hafði verið í þætti Sigmundar Ernis á Skjá 1 og um Pressukvöldið með mér. Hún segir: „Báðir [við Gunnar] voru dapurlegt dæmi um ofstækið sem einkennir þá sem einir skilja og vita.“ Þá kemst Edda meðal annars þannig að orði: „Guðinn hans Gunnars er svo dómharður og leiðinlegur að ég næstum gubba, meðan minn er kærleiksríkur og alltumvefjandi.“ Hún segir síðar: „Birni hins vegar tækist seint að sannfæra mig um nauðsyn sérdeildarsveitar lögreglunnar og ég sat eftir með köfnunartilfinningu og óþol í sálinni, eins og alltaf þegar ég hlusta á málflutning Björns.“
Um leið og ég bendi Eddu vinsamlega á að slökkva á viðtækinu eða fara á aðra rás, þegar ég birtist á öldum ljósvakans - ekki vil ég bera ábyrgð á, að hún kafni - vek ég sérstaka athygli á þeim einkunnarorðum hennar, að sannleikurinn sé afstæður. Blaðamenn, sem telja ekki til neinn sannleika, eru ekki vel til þess fallnir að skrifa fréttir. Spyrja má, hvort þetta með afstæða sannleikann sé ný rétthugsun í blaðamennsku, á grunni póstmódernisma, þar sem allt er lagt að jöfnu og eitt er satt í dag og annað í sama máli á morgun.
Þegar þeir, sem taka að sér að leggja út af orðum og skoðunum annarra, geta ekki gert upp á milli viðhorfa annars vegar og sannleika hins vegar, er illa komið. Eitt er að leitast við að færa rök fyrir máli sínu og leggja alúð við að ræða mikilvæg málefni á efnislegum forsendum. Annað er að nálgast menn og málefni með tilfinningalegum fordómum og geta þess vegna ekki viðurkennt það, sem er satt og rétt.
Þriðjudaginn 9. mars varð sögulegur umsnúningur í stefnu R-listans í skipulagsmálum, þegar tilkynnt var, að hann væri hættur við að gera höfn í Geldinganesi, enda hefði verið gert samkomulag um hafnasamstarf milli Reykjavíkur, Akraness og hafnarstjórnar við Grundartanga í Hvalfirði.
Í tvennum borgarstjórnarkosningum árið 1998 og 2002 hefur framtíð Geldinganess verið meðal helstu átakamála. Við sjálfstæðismenn höfum viljað hverfa frá áformum um höfn í nesinu og reisa þar íbúðabyggð, enda eigi Reykjavík að halda áfram að vera borgin við Sundin. R-listinn hefur á hinn bóginn barist hatrammlega fyrir því, að höfn verði í Geldinganesi og hafið þar grjótnám til að búa í haginn fyrir hafnargerðina. Í síðustu borgarstjórnarkosningabaráttu sat ég til dæmis hvað eftir annað undir árásum um ábyrgðarleysi í atvinnumálum Reykjavíkur, af því að ég vildi ekki höfn í Geldinganes. Ég sagði þá eins og nú, að leita yrði annarra leiða til að tryggja Reykjavík eðlilega hafnarþjónustu, en Geldinganes ætti ekki að sprengja í loft upp vegna hafnargerðar. Slíkum yfirlýsingum var líkt við drottinssvik af R-listanum.
Nú bregður hins vegar svo við, að Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og formaður hafnarstjórnar, lætur eins og R-listinn hafi nauðugur viljugur verið að gæta hagsmuna aðalskipulags frá 1984 í tíð meirihluta sjálfstæðismanna og þess vegna haldið sig við höfn í Geldinganesi!
Kannski er það vegna þess, að sannleikurinn er afstæður sem fjölmiðlar leggja sig ekki fram um að brjóta þennan umsnúning R-listans í skipulagsmálum til mergjar. Í mínum huga er hann álíka sögulegur og það, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk á bak þeirra orða sinna að sitja sem borgarstjóri til 2006, ef R-listinn fengi meirihluta í kosningunum 2002.
Eftir þennan mikla umsnúning hefur það einnig gerst, sem við sjálfstæðismenn spáðum, að áhersla á íbúðabyggð í Geldinganesi myndi kalla á skjótar ákvarðanir um Sundabraut. R-listinn er almennt hræddur við ákvarðanir og þess vegna hefur Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður skipulags- og bygginganefndar, valið þann kost, að segja ósatt um stöðu Sundabrautar á kostnað ríkisins.
Innan borgarstjórnar Reykjavíkur er engin samstaða um að fara á svonefndri hábrú yfir Sundin. Við erum mörg þar, sem viljum skoða til hlítar kosti svonefndrar Eyjaleiðar, en hún er ódýrari og líklega einnig öruggari en hábrúin. Við bíðum nú eftir niðurstöðu í umhverfismati.
Velji borgaryfirvöld dýrari kost við gerð Sundabrautar en vegagerðin, er lögum samkvæmt unnt að krefjast þess af borginni að greiða mismuninn. Barnalegt er að segja, að deila um þetta snúist um það, hvort ríki eða borg greiði þennan aukakostnað ? að lokum lendir hann auðvitað á Reykvíkingum eins og skuldabaggar R-listans.
Árni Ibsen ræðir þetta mál í fjölmiðladálki Lesbókar Morgunblaðsins laugardaginn 13. mars í tilefni af sjónvarpsumræðum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, og Steinunnar Valdísar í Kastljósi þriðjudaginn 9. mars. Hann telur að umræður þeirra hafi einkennst af því, að þær hafi dottið „ofan í pytt hins steingelda pólitíska karps, þar sem deiluaðilar arta sig eins og þeim beri að vinna til stiga fyrir sitt lið í íþróttakeppni. Þarna svömluðu þær í blindni og tróðu hvor aðra niður í svaðið á víxl, uns umræðuefnið var orðið bæði fáránlegt og óskiljanlegt.“
Ég er ekki sammála þessum orðum Árna og finnst hann verða að rökstyðja þau nánar, til að hann sé marktækur. Eitt er að fólk sé ekki sammála í umræðuþáttum af þessum toga, annað hvernig stjórnendur þáttanna láta þá þróast. Margt bendir til þess, að Árni Ibsen sé í raun að ræða um það, hvernig þessu Kastljósi var stjórnað frekar en það, sem þátttakendurnir sögðu. Hann nefnir að minnsta kosti ekki eitt einasta efnisatriði til stuðnings þungum dómi sínum. Reiði hans snýr ekki aðeins að viðmælendunum heldur og ekki síður að stjórnanda þáttarins. Stjórnendur slíkra þátta bera ábyrgð á því, að umræður séu innan viðunandi marka. Þeir gefa tóninn og eiga að leiða umræðurnar í þágu áhorfenda.
Árni Ibsen víkur að sannleikanum eins og Edda Jóhannsdóttir í Fréttablaðinu og vitnar til staðhæfingar, sem hann segir, að hafi verið Pablo Picasso afar kær: „Sannleikurinn er lygi.“ Ég hefði kosið að sjá rök Árna Ibsens fyrir því, að þessi staðhæfing ætti við um viðræður þeirra Steinunnar Valdísar og Hönnu Birnu. Hvernig eiga stjórnmálamenn að læra af þeim, sem taka að sér að gagnrýna þá, ef þeir fjalla aðeins um umbúnaðinn en ekkert um efnið sjálft?
Ef til vill er Árni Ibsen þeirrar skoðunar, að ekkert sé sjálfsagðara en að R-listinn skipti um skoðun varðandi Geldinganesið og í því ljósi vilji hann ekki, að minnt sé á heitstrengingar R-listamanna um höfn á nesinu.
Stjórnmálaákvarðanir án skýringa á sögulegum bakgrunni er óskastaða þeirra, sem hafa eitthvað að fela ? til dæmis sannleikann! Þá er líka gott að segja sannleikann lygi eða bara afstæðan.