6.3.2004

Sérsveit og sérkennilegur málflutningur.

Margt hefur verið á döfinni í vikunni, þegar litið er til mála á minni könnu sem dómsmálaráðherra. Ég ætla ekki að tíunda það allt hér í þessum pistli heldur vil nota tækifærið til að benda lesendum hans á dagbókina mína hér á síðunni.

Ákvörðunina um breytingar á skipulagi sérsveitarinnar, sem ég kynnti á blaðamannafundi 1. mars, hefur borið hæst í umræðunum. Mér finnst undarlegt, hvernig margir háværir einstaklingar og fjölmiðlar hafa brugðist við þessari ákvörðun. Fjölmiðlar Baugsveldisins hafa einkum leitast við að bregða öðru ljósi á ákvörðunina en efnislegt er auk þess sem Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur farið mikinn og njóta fráleit sjónarmið hans í málinu einkum velvildar í Fréttablaðinu ef marka má fyrirsagnir og útleggingar í ritstjórnardálkum.

Ákvörðunin er skýr og einföld: Frá og með 1. mars 2004 færast 16 sérsveitarmenn úr lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra og fyrir 1. júní 2004 verða ráðnir 10 nýir almennir lögreglumenn í lögregluna í Reykjavík. Þetta er gert innan ramma lögreglulaga en sérsveitin hefur starfað síðan 1979 og frá 1999 hefur yfirstjórn hennar verið hjá ríkislögreglustjóra, þótt mennirnir 16 hafi starfað í lögreglunni í Reykjavík. 16 sérsveitarmenn verða til taks sem stoðdeild við lögreglu alls staðar á landinu en munu ganga til almennra lögreglustarfa á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að styrkja öryggi lögreglunnar og þar með hins almenna borgara. Þetta kostar um 30 milljónir króna í ár og 60 milljónir króna á næsta ári.

Samhliða þessari ákvörðun er kynnt stefna í málefnum sérsveitarinnar og hún rökstudd með nýjum verkefnum og talið að fjölga þurfi í sveitinni í 50 manns meðal annars með því að efla hana sérstaklega á Keflavíkurflugvelli og Akureyri. Enginn tímarammi er settur vegna þessarar stækkunar en talið, að í fullri stærð verði kostnaður við svo fjölmenna sveit 250 milljónir króna á ári.

Þegar þessi kjarni málsins er hafður í huga, hlýtur öllum sanngjörnum mönnum að blöskra, hvernig lagt hefur verið út af honum hjá þeim, sem flissa vegna þessarar ákvörðunar eða leggja hana út á þann veg, að verið sé að stofna íslenskan her eða breyta Íslandi í lögregluríki. Sannast enn, hve erfitt er fyrir marga að ræða mál af þessum toga með málefnalegum rökum, þótt þeir séu gjarnan fyrstir til að ráðast á stjórnvöld og gagnrýna þau fyrir að vera ekki í stakk búin til að takast á við vandasöm verkefni og tryggja öryggi borgaranna.

Þessar umræður og annað, sem ég vík að hér síðar í þessum pistli, hlýtur að vekja fleiri en mig til umhugsunar um, hvort það hafi í raun nokkurn tilgang að rökræða mál af þessum toga og öðrum á almennum vettvangi hér á landi í von um, að málefnið ráði ferðinni frekar en persónuleg andúð og óvild.

Í umræðum um málið utan dagskrár á alþingi hinn 4. mars sagði Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars, að ég virtist skilja lögreglulögin þannig, að ég hefði opið umboð frá alþingi til að stofna íslenskan her og að í gildandi lögum fælust heimildir til að búa til slíkan her. Ég hefði lengi haft mikinn áhuga á íslenskum her og það væri nánast með hreinum ólíkindum, að hugmyndum um hann skyldi hrundið í framkvæmd á þennan veg.  Alþingi Íslendinga hefði fyrst átt að taka pólitíska umræðu um þá kúvendingu í öryggismálum sem það væri að stofna íslenskan her. Þetta væri með hreinum ólíkindum og sagðist Lúðvík þora að fullyrða, að hvergi nokkurs staðar í lýðræðisríki mundu menn leyfa sér slíkt.

Málstað manna er oft best að dæma út frá þeim rökum, sem þeir nota til að verja hann. Hér er Lúðvík Bergvinsson að tala um eitthvað allt annað en þá ákvörðun, sem kom til framkvæmda 1. mars 2004, en um framtíðarstækkun sérsveitarinnar verður að sjálfsögðu fjallað á alþingi. Þegar þingmaðurinn flutti þessa ómálefnalegu ræðu sína, hafði ég sagt, að sérsveitin starfaði áfram innan óbreyttra lögreglulaga. Síðan er sérstakt athugunarefni að rifja upp allar árásir Lúðvíks á forvera minn í embætti dómsmálaráðherra fyrir að gera ekki nóg til að efla og styrkja lögregluna.

Helgi Hjörvar, flokksbróðir Lúðvíks, var þó enn fjær raunveruleikanum í máli sínu. Hann sagði, að ég hefði lýst yfir, að uppáhaldskvikmynd mín væri Die Hard, en þar bjargaði hetjan hundruðum úr klóm hryðjuverkamanna. En þetta væri Ísland í dag en ekki Die Hard, og ég væri enginn Bruce Willis! Verkefnin í íslensku samfélagi væru knýjandi í almennri löggæslu, í eflingu fíkniefnalögreglunnar, í því að koma sýslumannsembættinu í Keflavík út úr gámunum, í því að tryggja dómstólunum starfsskilyrði. En í stað þess að ég færi í skýluna og sinnti þessum aðkallandi verkefnum stykki ég fram með stóreflingu sérsveitanna, Víkingasveitarinnar. Sveitin hefði sem betur fer ekki haft neitt allt of mikið að gera, og það væri ekkert í verkefnum hennar sem kallaði á þennan fjáraustur. Aukinn vopnabúnaður lögreglu mundi aðeins kalla á aukna hörku í glæpaheimum og þessi sveit mundi ekki ráða niðurlögum al Qaeda. Nú hefði það skyndilega gerst, að ég hefði  boðið mig fram gegn Geir H. Haarde til embættis utanríkisráðherra. Og rétt eins og George Bush sýndist mér vænlegt að nota öryggismál og skelfingar hryðjuverka til að markaðssetja mig í kosningabaráttu sem fram undan væri á milli okkar tveggja. Ég fengi ekki peninga í þennan leiðangur enda væri ódýrara fyrir ríkissjóð Íslands að kaupa handa mér einkennisbúning til að leika mér heima.

Þar sem ég er ekki viss um, að allir skilji skírskotanir Helga Hjörvars í ræðu hans, er rétt að fara yfir nokkur atriði til skýringar.

Hinn 25. ágúst 2001 birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig í DV og má sjá það hér á vefsíðu minni. Þar má meðal annars sjá þessi orðaskipti:

Kolbrún: Því var vikið að mér að þú værir mikill hasarmyndaáhugamaður? Nú er Bruce  Willis uppáhaldshasarhetjan mín, hver er þín?

Björn: „Ég er sammála þér, Bruce Willis er með þeim betri. Ég fer yfirleitt að sjá  hans myndir. Sjötta skilningarvitið er til dæmis mynd sem ég var hrifinn af, hún kom mér skemmtilega á óvart. Ég hefði viljað vera í sporum vinar míns sem fór til Parísar fyrr í sumar og sagðist hafa verið þar á kaffihúsi þegar Bruce Willis kom inn og settist við næsta
borð. Ég sé á þér, Kolbrún, að þú hefðir líka viljað vera þar."

Ég man ekki eftir að hafa farið lofsorði um Die Hard, þótt myndin sé ofarlega í huga Helga Hjörvars. Ákvörðun mín miðar að því að fjölga um 10 í almennri deild lögreglunnar í Reykjavík eins og fagnað var samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur síðdegis sama dag og Helgi var með stóryrði sín á þingi (Helgi er varaborgarfulltrúi). Fíkniefnalöggæsla hefur verið efld. Verið er að búa í haginn fyrir sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli með ákvörðun og stefnu minni varðandi sérsveitina og kom sýslumaðurinn að þessari stefnumótun. Unnið er að lausn á húsnæðisvanda sýslumannsins. Starfsskilyrði dómstólanna eru trygg. Tal Helga um skýluna er vísan til orða, sem ég lét falla þegar ég hóf keppni við Ingibjörgu Sólrúnu í borgarstjórnarkosningum. Ingibjörg Sólrún hefur eins og kunnugt er ákveðið að hætta í sundinu og er farin til London, en ég held mínu striki. Fyrir því eru skýr og málefnaleg rök að efla sérsveitina, alls ekki er um fjáraustur til hennar að ræða. Tal um að aukinn viðbúnaður kalli á meiri glæpastarfsemi er bábilja. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar, að menn ættu að lýsa framboði til ráðherraembættis, þótt Samfylkingin hafi valið þá leið með því að bjóða fram forsætisráðherraefni. Hannes Hafstein er eini ráðherrann, sem hefur átt einkennisbúning, ég hef ekki áhuga á að feta í þau fótspor.

Fréttablaðinu þótti mikið til raka og málflutnings Helga Hjörvars koma og hefur hampað honum hvað eftir annað síðan þessi dæmalausa ræða var flutt. Föstudaginn 5. mars var þessi fyrirsögn á bls. 12 í Fréttablaðinu: Björn Bjarnason er enginn Bruce Willis. Fast skotið á dómsmálaráðherra vegna hugmynda hans um að efla sérsveit lögreglunnar. Aðdáandi Die Hard á að fá einkennisbúning til að nota heima hjá sér segir Helgi Hjörvar. Verið að efla öryggi borgaranna segir ráðherra.

Ég get ekki tekið undir, að fast hafi verið skotið á mig vegna þessa máls, því að allt eru þetta púðurskot og einnig út í loftið. Má þar nefna pistil eftir Sigurjón M. Egilsson fréttastjóra Fréttablaðsins hinn 5. mars undir fyrirsögninni: Bruce Willis á þingi.

Skrif Sigurjóns eru álíka mikið framlag til rökræðna um þetta mál og ræða Helga Hjörvars, enda hefst pistill hans á beinni tilvitnun í ræðu Helga, þar sem hann ímyndar sér aðdáun mína á Die Hard. Sigurjóni finnst ekki mikið til þeirra áforma koma að fjölga í sérsveitinni. Hann segir stjórnarþingmenn „gáttaða“ vegna málsins, án þess að færa nánari rök fyrir því. Það hefur ekki komið fram á þingi, þótt menn telji, að varlega eigi að ganga um fjárhirslur ríkissjóðs. Ástæðan fyrir þessum stuðningi Sigurjóns við sjónarmið Helga Hjörvars kemur fram undir lok hugleiðinga hans. Hún er, að ég svaraði tölvubréfi frá blaðamanni Fréttablaðsins í fyrri viku á þann veg um vopnaburð lögreglumanna, að vísa til þess, sem ég hefði sagt um málið á vefsíðu minni. Með þessu hef ég greinilega brotið þannig af mér gagnvart Fréttablaðinu að ég á skilið „háðung“ þess og þá niðurstöðu, að nánast ég einn taki málið alvarlega.

Í Fréttablaðinu laugardaginn 6. mars hefur skynsemi komist að við umfjöllun þess um sérsveitina og þegar fréttaskýring blaðsins er lesin kemur í ljós, hve fráleitt er að halda því fram, að einhver tímamót varðandi eðli sérsveitarinnar felist í ákvörðun minni.

Í ritstjórnargrein Svarthöfða í hinu Baugsblaðinu DV er 3. mars rætt um ákvörðunina frá 1. mars á þennan málefnalega hátt:

„Svarthöfði gleðst ógurlega yfir fréttum um að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi nú tekið af skarið og stofnað íslenskan her.... Með þessum gjörningi hefur Generáll Björn ótvírætt tekið eina stærstu ákvörðun Íslandssögunnar....“

Ég læt öðrum eftir að skýra hvað býr að baki þessum viðbrögðum Fréttablaðsins og DV  við ákvörðunum um að styrkja lögregluna. Ekki er langt síðan blaðamaður DV leitaðist við að stilla mér upp við vegg vegna skorts á almennum lögreglumönnum í Reykjavík. Þegar ákveðið er að fjölga þeim um 10 telur blaðið, að verið sé að stofna íslenskan her!

Í vikunni sagði Sigurður Ingi Jónsson, varaþingmaður Frjálslynda flokksins, sig úr flokknum. Sigurður Ingi sagðist í Morgunblaðinu hafa ákveðið þetta, eftir að varaformaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, hafði verið kjörinn formaður þingflokksins. Aðdragandinn að þessu hefði verið langur og sneri að miklu leyti að tjáningarformi Magnúsar. Hann kynni ekki við hvernig Magnús hefði komið fram í ræðu og riti, jafnvel stundum í þingsal, og þó sérstaklega á spjallvef, sem nú væri orðinn þjóðþekktur fyrir tilstuðlan hans. Þar hefði hann hótað að sprengja upp forseta Alþingis og dómsmálaráðherra, sem hefði átt að vera grín. Síðan hefði verið röð af hlutum sem hann kynni ekki við. Magnús talaði um að hæstaréttardómarar væru misvitrir og hæstiréttur væri handbendi sjávarútvegsráðuneytisins.

Morgunblaðið vísaði til þessarar ákvörðunar Sigurðar Inga í forystugrein sinni 5. mars og sagði meðal annars:

„Það er óneitanlega athyglisvert að einstaklingur skuli ganga fram fyrir skjöldu og taka afstöðu til svona umræðuhátta með svo afgerandi hætti. Er það vísbending um að hinum almenna borgara sé að verða nóg boðið? Vonandi er að svo sé.

Kannski er tímabært að stjórnmálamenn, fjölmiðlar og allir þeir, sem á einn eða annan veg taka þátt í opinberum umræðum, taki höndum saman um að bæta umgengnishætti sína hver við annan að þessu leyti.“

Þessi orð Morgunblaðsins  eiga að mínu mati við um viðbrögð Helga Hjörvars og félaga hans vegna breytinga á skipulagi sérsveitarinnar. Ég er undrandi á því, að ekkert flokkssystkina Helga á alþingi skuli lýsa andúð á málatilbúnaði hans. Hann gengur til dæmis í berhögg við viðleitni Jóhönnu Sigurðadóttur við að styrkja lögregluna í Reykjavík. Í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu borgarfulltrúar R-listans burði til að líta málið öðrum augum en Helgi eins og ályktun borgarstjórnar frá 4. mars ber með sér, en hún var samþykkt með 13 atkvæðum af 15 eftir málefnalegar umræður um löggæslumál í Reykjavík og jákvæða þróun þeirra.

Ég hef oft áður vakið máls á því, sem menn leyfa sér að segja hér á netinu. Mér finnst sérstaklega ámælisvert, þegar ráðist er á aðra úr launsátri í skjóli nafnleyndar. Sigurður Ingi segir sig úr Frjálslynda flokknum vegna framgöngu Magnúsar Þórs undir nafni á síðu, þar sem flestir vega að náunga sínum í skjóli nafnleyndar og reka upp ramakvein, ef að því er fundið. Óvildin er oft mikil, þótt fáir fari í spor Magnúsar Þórs og skýri frá hugrenningum um að sprengja nafngreinda menn í loft upp.

Þriðjudaginn 2. mars fór ég í höfuðstöðvar RÚV við Efstaleiti og sat fyrir svörum Ævars Arnar Jósepssonar í dægurmálaútvarpi Rásar 2 um sérsveitarmál og annað. Þegar við Ævar Örn vorum að spjalla saman fyrir þáttinn, komu þar tveir umsjónarmenn og heilsuðu mér og spurði ég Ævar, hvort þar væri kominn Páll Ásgeir Ásgeirsson, sem var blaðamaður á DV. Hann sagði það rétt og hefði hann komið þarna til starfa daginn áður, 1. mars, sem einn umsjónarmanna dægurmálaútvarpsins.

Páll Ásgeir heldur úti vefsíðu og fjallaði þar hinn 4. mars, tveimur dögum eftir að við hittumst af tilviljun í Efstaleiti, en ég minnist þess ekki að hafa rætt nokkru sinni við hann, um eitt af hugðarefnum sínum. Snýst það um eyru og að þessu sinni um útstæð eyru og spurninguna um það, hvort þau séu greindarmerki. Hugleiðingum lýkur hann með þessum orðum:

„Svo mundi ég eftir stórum og útstæðum eyrunum á snillingnum Gunnari Þórðarsyni og fannst kenningin nánast sönnuð. Svo rakst ég á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og hann er vissulega með verulega útstæð eyru. Fyrst í stað fannst mér kenningin um tengslin milli útstæðra eyrna og snilligáfu vera hrunin til grunna en svo skildi ég að Björn var undantekningin sem sannaði regluna.“

Fyrir stjórnmálamenn er eitt að verja skoðanir sínar og ákvarðanir og leitast við að taka þátt í umræðum á málefnalegum forsendum. Annað er að sitja undir persónulegum ávirðingum eða hótunum af þeim toga, sem  hér hefur verið lýst með vísan til þeirra Helga Hjörvars, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, en þeir eru allir einstaklingar í þeirri stöðu, að gera verður kröfu til þess opinberlega, að þeir séu marktækir í málflutningi sínum. Áminningin í forystugrein Morgunblaðsins var tímabær og hún á við um orð fleiri en Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Hitt er svo annað mál, að menn og málstaður þeirra eru álíka mikils virði og aðferðirnar, sem þeir beita, til að ávinna skoðunum sínum stuðning.