15.2.2004

Ákall starfsmanna OR – sjálfhverf blaðamennska

 

Í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 15. febrúar, birtist yfirlýsing frá starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar eru stjórnmálamenn beðnir um að hætta „árásum á fyrirtækið“ en fyrirsögn yfirlýsingarinnar er „Nú er mál að linni.“ Í yfirlýsingunni segir:

„Stjórnmálamenn virðast gleyma því í hita leiksins, að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur er fyrst og fremst fólk - starfsfólkið sjálft. Fólk sem vinnur sín verk í samræmi við ákvarðanir stjórnar og stjórnenda af kostgæfni. Enn einu sinni grípa stjórnmálamenn til þess ráðs að draga málefni Orkuveitu Reykjavíkur inn í dægurþras. Úr hófi keyrir, þegar beinlínis er vegið að einstökum starfsmönnum fyrirtækisins.“  segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig: „Mest höfum við undrast þá tilhneigingu sumra stjórnarmanna fyrirtækisins að hlaupa með pólitísk átök sín á milli í fjölmiðla, sem oftar en ekki verður til þess eins að rýra orðspor fyrirtækisins. Við verðum að biðja stjórnmálamenn og að ekki sé talað um stjórnarmenn Orkuveitunnar að láta af þessari áráttu. Við teljum okkur öll vinna verk okkar af kostgæfni og að í engu sé hægt að kvarta undan því hvernig við sinnum meginhlutverki Orkuveitunnar - að sjá meira en helmingi þjóðarinnar fyrir rafmagni, vatni og heitu vatni.“ Formaður starfsmannafélags Orkuveitu Reykjavíkur, Dórathea Margrétardóttir, skrifar undir yfirlýsinguna.

Þetta er nefnt hér, vegna þess að fyrir tveimur árum, þegar tekist var á í borgarstjórnarkosningum og málefni Orkuveitu Reykjavíkur bar óhjákvæmilega hátt, var einnig látið að því liggja af fulltrúum starfsmanna, að umræður um fyrirtækið væru skaðvænlegar fyrir það.

Eðli máls samkvæmt taka umræður um fyrirtæki mið af því, sem þar er að gerast. Því miður verður að segja þá sögu eins og er, að tilefni til neikvæðra umræðna um OR eru meiri en almennt gengur og gerist um fyrirtæki. Þar er að sjálfsögðu ekki við starfsfólk OR að sakast heldur þá, sem stjórna för þess og störfum.

Ég sat um tíma í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og hreyfði því þá oftar en einu sinni opinberlega, meira að segja í ræðu á alþingi, að mér þætti fáheyrt, hvernig komið væri fram við stjórnarmenn, þegar þeir óskuðu eftir upplýsingum um fyrirtækið á vettvangi stjórnar. Í því efni nægir að vitna til bókana í stjórninni, sem lagðar voru fram af mér. Allt andrúmsloftið í stjórn fyrirtækisins er því miður þannig, að það laðar ekki menn til samstarfs eða sameiginlegra úrræða um málefni fyrirtækisins.

Hver veit til dæmis, hvað hinar umdeildu höfuðstöðvar OR kosta? Hvers vegna er ekki unnt að leggja fram yfirlit yfir kostnaðinn? Af hverju er alltaf hörfað í skotgrafir, þegar á þessi útgjöld OR er minnst? Sjónarspilið í kringum hugsanlega sölu OR á Perlunni, jók ekki álit neins á þeim, sem að því stóðu. Rökstuðningurinn fyrir tveimur gjaldskrárhækkunum á heitu vatni síðastliðið sumar, það er vísan til góðrar veðráttu, varð ekki til að auka álit almennings á fyrirtækinu.

Kveikjan að því, að starfsmannafélag OR sendi frá sér yfirlýsingu núna, kann að vera þessi frétt í sjónvarpi ríkisins að kvöldi fimmtudagsins 12. febrúar síðastliðinn:

„Orkuveita Reykjavíkur hefur líklega lagt um 500 milljónir króna í Tetra Ísland og forvera þess, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi sjálfstæðismanna í veitustjórn. Hann segist hafa beðið um upplýsingar fyrir tveimur mánuðum en ekki enn fengið svar.

Ekki er ljóst hve háum fjárhæðum aðaleigendur Tetra Íslands hafa varið í fyrirtækið og forvera þess. Orkuveita Reykjavíkur á 45% en Landsvirkjun 30. Nafnverð hlutafjár er hálfur milljarður. Bókfærðar fjárveitingar Landsvirkjunar í hitteðfyrra nema 200 milljónum króna en Orkuveitan er að láta taka saman heildarfjárframlögin fyrir fréttastofuna. Tetra Ísland leitar nú nauðasamninga við lánardrottna en skuldir nema 750 milljónum. Þorleifur Finnsson, stjórnarformaður Tetra Íslands hefur ekki verið á stjórnarfundum undanfarna daga um framtíð Tetra. Hann er sviðstjóri nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og hefur verið á vegum fyrirtækisins á Nýja-Sjálandi að kynna sér risarækjueldi. Þetta gagnrýnir stjórnarmaður í Orkuveitunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarmaður í OR (D): Ja, það er kannski lýsandi dæmi um það hvaða ógöngur orkupólitíkin er komin í hjá vinstri-meirihlutanum að þegar að fjarskiptafyrirtæki í nær helmingseigu Orkuveitunnar er að berjast í bökkum og er að fara fram á nauðasamninga um gjaldþrot að þá er stjórnarformaðurinn að skoða risarækjueldi í Nýja-Sjálandi.

Þórdís Arnljótsdóttir: Hefurðu einhverja hugmynd um það hvað Orkuveitan hefur lagt mikið fé í Tetra Ísland og forvera þess?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég hef nú nokkuð grófa hugmynd um það. Mér sýnist þetta vera kringum hálfur milljarður.

Guðlaugur Þór segist hafa beðið um upplýsingar fyrir tveimur mánuðum en ekki fengið ennþá.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Allt í kringum þetta mál er eitthvað sem að lítur ekki vel út. Og það að við fáum ekki upplýsingar þegar við biðjum um þær og menn láti líta út fyrir að, hafa látið líta út fyrir að hér var allt í lagi undanfarna mánuði og misseri að það gerir allt málið slæmt en það verður ennþá verra þegar að menn fá ekki þær sjálfsögðu upplýsingar sem þeir biðja um.

Risarækjueldistilraunir Orkuveitunnar fara fram í Ölfusinu og verða rækjurnar ræktaðar í gryfjum með heitu vatni. Fyrir þremur árum var áætlað að kostnaður við verkefnið næmi 40 milljónum króna. Reyndar tókst ekki betur til en svo í fyrra að fyrstu rækjurnar drápust á leiðinni til landsins en þær voru 30.000.“

Sem betur fer er ekki unnt að segja svona fréttir af mörgum opinberum fyrirtækjum. Þetta vandamál OR verður ekki leyst með því að drepa boðbera hinna válegu tíðinda, jafnvel þótt þeir séu stjórnmálamenn og sitji í stjórn OR. Af frásögn Guðlaugs Þórs má ráða, að hann glímir enn við sama vanda og blasti við mér á sínum tíma, að stjórn OR er ekki upplýst um málefni fyrirtækisins í samræmi við óskir stjórnarmanna um upplýsingar.

Að kvöldi föstudagsins 13. febrúar ræddi fréttamaður sjónvarps ríkisins við Guðmund Þóroddsson, forstjóra OR. Í þeirri frétt sagði meðal annars:

„Orkuveita Reykjavíkur ætlar að leggja 50 milljónir króna til fjarskiptafyrirtækisins Tetra Ísland í tengslum við nauðasamninga fyrirtækisins. Orkuveitan hefur þegar lagt 420 milljónir til fyrirtækisins og forvera þess. Forstjóri Orkuveitunnar telur stöðu Tetra grafalvarlega.

Tetra Ísland sem nú er að leita nauðasamninga við lánardrottna til að grynnka á 750 milljóna króna skuldum er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar að mestu leyti. Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarmaður í Orkuveitunni gagnrýndi í fréttum í gær að hann hefði ekki fengið umbeðnar upplýsingar um fjárframlög Orkuveitunnar til Tetra. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri segir þetta ekki allskostar rétt, Guðlaugur hafi fengið upplýsingar en á stjórnarfundi í næstu viku verði greint frá kostnaði Orkuveitunnar af Tetra Íslandi og forvera þess sem var í eigu Orkuveitunnar.“

Morgunblaðið  fjallar um fjárfestingar OR í fjarskiptafyrirtækjum í forystugrein laugardaginn 14. febrúar og segir meðal annars, að núverandi staða Tetra Íslands sé „enn ein staðfestingin á lánleysi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingar í fjarskiptarekstri. Lína.Net, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem hundruðum milljóna af peningum Reykvíkinga hefur verið dælt í án þess að einhver raunverulegur ávinningur sé sjáanlegur á móti, keypti á sínum tíma Irju og afskrifaði raunar mestallt kaupverðið fljótlega eftir það. Þegar kaupin voru gagnrýnd, svöruðu forsvarsmenn Línu.Nets því til að kaupin væru mjög arðbær. Eiríkur Bragason, þáverandi framkvæmdastjóri Línu.Nets, sem enn situr í stjórn Tetra Ísland, skrifaði hér í blaðið 4. maí 2001: „Til dæmis hefur því verið slegið upp að Lína.Net hafi kastað 250 milljónum út um gluggann með kaupum sínum á fyrirtækinu Irju. Í ljósi áætlaðrar ársveltu er ótvírætt, að hafi 200 milljónum verið kastað út um glugga, eins og fullyrt er, þá er ljóst að ríflegt hlutfall af 700 milljón króna árstekjum mun koma árlega inn um glugga með tilheyrandi ábata fyrir félagið.“ Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem á nú stærstan hlut í Tetra Ísland, skrifaði nokkrum vikum áður: „Þvert á móti hef ég fulla trú á að Lína.Net muni hagnast á því að hafa farið út í rekstur á Tetra-kerfi.“

Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Árstekjur Tetra Ísland eru ekki 700 milljónir heldur 100 milljónir. Borgarstjórnarmeirihlutinn og forsvarsmenn OR hljóta að vera farnir að velta því fyrir sér hvort þeim sé ekki margt betur gefið en að standa í fjarskiptarekstri.“

Sjálfskaparvítin eru verst, enda segir Guðmundur Þóroddsson nú, að staðan hjá Tetra Íslandi sé „grafalvarleg“ – efast þó enginn um, að Guðmundur og samstarfsmenn hans hjá OR hafi lagt sig fram um, að mál færu á annan veg.

Það er mikil einföldun hjá starfsmannafélagi OR að skilgreina vanda OR sem „pólitísk átök“ – umræðurnar snúast um margra milljarða króna óarðbæra ráðstöfun á fjármunum Reykvíkinga, eigenda Orkuveitu Reykjavíkur. Halda starfsmenn eða aðrir, að það sé tilviljun, að stjórnendur Garðabæjar og Hafnarfjarðar hafa kosið að selja hlut sinn í OR?

Vissulega er mál að linni, eins og starfsmenn OR vilja, en til að það gerist eiga þeir að beina máli sínu til annarra en þeirra, sem lýsa því, hvernig fjármunum fyrirtækisins er ráðstafað – og síðan þarf að hækka gjaldskrána vegna góðrar veðráttu!

Sjálfhverf blaðamennska.

Ég vakti máls á því fyrir nokkru, þegar Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, útgáfustjóri DV og stjórnarmaður í sjónvarps- , útvarps- og afþreyingarsamsteypunni Norðurljósum hélt því fram, að lög um samþjöppun fjölmiðla væru næsta óþekkt í Evrópu, að hann færi með rangt mál.

Frá því að þau orð féllu hér á síðunni hafa margir kunnáttumenn staðfest, að Gunnar Smári ræddi þetta mál af mikilli vanþekkingu, nema hann hafi vísvitandi viljað blekkja í þágu þess málstaðar, sem er rauður þráður í öllum skrifum hans í Fréttablaðinu, að löggjafinn megi ekki hafa afskipti af eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði.

Ýmsir taka svipaða afstöðu til þessa máls, meðal þeirra er Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, en hann var á sínum tíma aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi umhverfisráðherra, en því embætti gegndi Össur í tæp tvö ár frá 14. júní 1993  til 23. apríl 1995. Birgir virðist í vafa hvort setja eigi lög vegna fjölmiðla, af því að hann hafði greinilega samúð með aðilum, sem áttu hlut að máli, en hann beindi til mín spurningum um afstöðu mína sem menntamálaráðherra og svaraði ég honum í Morgunblaðinu laugardaginn 7. febrúar.

Í Vef-Þjóðviljanum á andriki.is er hinn 12. febrúar síðastliðinn sagt frá því, að Hallgrímur Thorsteinsson hafi rætt um hugsanlega lagasetningu gegn því að aðilar með mikil umsvif á öðrum sviðum eigi jafnframt fjölmiðla við Össur Skarphéðinsson á Útvarpi Sögu hinn 11. febrúar og í frásögninni kemur þetta fram: „Þáttastjórnandinn spurði Össur því eðlilega hvernig stæði á því að Samfylkingin væri ekki fylgjandi slíkum lögum. Svar Össurar var að hann vildi sjá hvernig hið nýja fyrirkomulag hjá Norðurljósum „reyndist“ áður en lög yrðu sett.“

Pistli Vef-Þjóðviljans  um þetta lýkur á þessum orðum:

„Það er fáheyrt að þingmenn hóti að beita valdi sínu með þessum hætti gegn tilgreindum einstaklingum og fyrirtækjum ef þau „reynist“ ekki vel. Ef þið „reynist“ ekki góðir eigendur fjölmiðla að okkar mati munum við setja lög sem banna ykkur að eiga fjölmiðla!“

Jakob F. Ásgeirsson rifjaði það upp í Viðskiptablaðinu 4. febrúar, að Gunnar Smári Egilsson hefði á sínum tíma sett fram afdráttarlausar skoðanir um, hve miklu skipti að átta sig á áhrifum eigenda fjölmiðla á efni þeirra. Í grein í Fréttablaðinu sunnudaginn 15. febrúar 2004 segir þessi sami Gunnar Smári:

„En hvaða máli skiptir hverjir eiga fjölmiðlanna? (svo!) Í sjálfu sér engu. Forsenda heilbrigðs fjölmiðlaumhverfis er frelsi frá afskiptum ríkisvaldsins….Ef vondir menn kaupa sér fjölmiðil og brugga í honum einhverja ólyfjan er engin ástæða til að ætla annað en að almenningur hafni viðkomandi miðli.“

Þetta segir ritstjóri blaðs, sem er sent inn til fólks, hvort sem það vill eða ekki, og hann er jafnframt útgáfustjóri DV ,  þar sem stóð, að Davíð Oddsson væri að ráðast á blaðburðarbörn, þegar hann vakti máls á því, að enginn væri óhultur fyrir því, að Fréttablaðinu væri troðið inn um bréfalúguna! Veruleikinn er oft þannig, að skáldsagnahöfundar hafa ekki einu sinni hugarflug til að spinna svo ólíklegan söguþráð.