Spjallfundur með Davíð - Zukofsky snýr aftur - árasir á Jakob F. - myndlíking varaformanns
Spjallfundur var með Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, í Valhöll í morgun klukkan 11.00. Hafsteinn Þór Hauksson, formaður SUS, stjórnaði umræðum. Að lokinni um 20 mínútna ræðu Davíðs svaraði hann fyrirspurnum, sem snerust um útflöggun skipa, skattamál, varnarmál, Evrópumál, heilbrigðismál, borgarmál og pólitíska framtíð Davíðs sjálfs.
Davíð endurtók varnaraðarorð sín úr áramótagreininni í Morgunblaðinu, að því færi fjarri að fengist hefði niðurstaða í viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda í varnarmálum, þótt tekist hefði sl. sumar að þoka þeim málum á æðri viðræðuvettvang ? en eins og vitað er, tókst Davíð síðastliðið sumar að breyta viðræðunum úr því að snúast einvörðungu um tæknileg atriði í tvíhliða skoðanaskipti við Condoleezzu Rice, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, sem flutti Davíð boð beint frá forsetanum.
Spurt var um björgunarþyrlur varnarliðsins og eldsneytisvélina, sem gerir þeim kleift að fljúga lengra á haf út en ella væri. Davíð sagði Íslendinga ekki eiga neina kröfu á því að hér væru björgunarþyrlur á vegum Bandaríkjamanna eða eldsneytisvél ? á hinn bóginn fylgdu þessar vélar orrustuvélunum, en brottför þeirra héðan hefur verið þyrnir í augum íslenskra stjórnvalda.
(Hér er innan sviga rétt að minna á, að íslenskum stjórnvöldum er jafnan tilkynnt, hvernig ferðum eldneytisvéla er háttað, því að langdrægni þyrlna varnarliðsins á hverjum tíma hefur áhrif á það, hve langt þyrlur Landhelgisgæslunnar eru sendar til björgunarstarfa á hafi úti. Ég hef heyrt óljósar vangaveltur um, að Íslendingar ættu sjálfir að fylla skarðið vegna fjarveru bandarískra eldsneytisvéla. Að láta sér detta það í hug sýnir mikið þekkingarleysi á þessum búnaði á heimsvísu, því að aðeins Bandaríkjamenn búa yfir þessum tækjakosti og eiga nóg með að standa undir kostnaði við hann.)
Davíð minnti á, að í umræðum um efnahagsmál mætti ekki gleyma því, að umhverfi, mótað af stjórnvöldum, gæfi fólkinu færi á að njóta sín og hann notaði orðið „dásamlegt“, þegar hann lýsti því, hve vel hefði til tekist hér og hvernig horfði í efnahagsmálum þjóðarinnar næstu ár. Unnt yrði að lækka skatta vegna þess að sjálfstæðismenn hefðu beitt sér fyrir því, að kakan stækkaði og því væri samhliða unnt að halda uppi öflugu velferðarkerfi með ríkið að bakhjarli. Hugur til þeirra, sem ættu undir högg að sækja, kæmi hvað skýrast fram í því, hve aðstoð við öryrkja hefði verið aukin mikið undanfarin ár ? nú síðast um milljarð sérstaklega ? og væri sérkennilegt að snúa slíkri ákvörðun ríkisstjórnar í árásarefni á stjórnvöld. Umhugsunarefni í þessu sambandi væri, hve öryrkjum hefði fjölgað mikið undanfarin ár.
Davíð taldi þann tíma mundu koma að nýju, að sjálfstæðismenn næðu meirihluta í Reykjavík, þótt þeir ættu ekki að útiloka samstarf við aðra um stjórn borgarinnar. Hann sagði með ólíkindum í hvílíkt skuldafen R-listinn hefði leitt borgina.
Davíð minnti á, að það hefði í raun verið einstakt happ á árunum 1989 til 1993, að sú glufa opnaðist gagnvart Evrópusambandinu að unnt var að gera við það samning eins og EES-samninginn. Eftir að hann tók við formennsku í flokknum hefði verið horfið frá þeirri stefnu hans að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið og sjálfstæðismenn hefðu á alþingi haft forystu um gerð EES-samningsins og rutt honum þar braut. Hefði það verið mikið gæfuspor og samningurinn reynst okkur vel ? sambærilegur samningur við Evrópusambandið hefði ekki síðan staðið neinum þjóðum til boða. Þær hefðu annað hvort orðið að gerast aðilar að sambandinu eða standa alfarið utan samrunaþróunarinnar í Evrópu. Af samtölum sínum við ýmsa evrópska stjórnmálamenn væri sér ljóst, að þeir hefðu gjarnan viljað fá það tækifæri, sem Íslendingar nýttu sér með gerð EES-samningsins.
(Hér verð ég enn innan sviga að lýsa undrun minni á þeim sjónarmiðum, sem gægjast fram í greinum ýmissa vinstrisinnaðra andstæðinga Davíðs, að hann eigi það sérstaklega Jóni Baldvini Hannibalssyni, þáverandi utanríkisráðherra, að þakka, að Ísland varð aðili að EES. Ég var á þessum tíma formaður utanríkismálanefndar alþingis og fylgdist náið með framvindu mála og hafði stundum á orði, að mál tengd samningsgerðinni næðust fram á þingi, þrátt fyrir framgöngu Jóns Baldvins við afgreiðslu þeirra ? að sjálfsögðu voru það við sjálfstæðismenn, sem lögðum til þann atkvæðafjölda á þingi, sem dugði til að koma þessum samningi í höfn. Eftir á vilja ýmsir þá Lilju kveðið hafa, meðal annar sagði Ingibjörg Sólrún einhvern tíma, að hún hefð haft sömu afstöðu til EES-samningsins og ég ? hún sat þó hjá, þegar ég og aðrir greiddu atkvæði með samningnum!)
Líklega ríkti mest spenna á fundinum með Davíð, þegar hann svaraði spurningu um framtíð sína í stjórnmálum. Davíð sagðist hafa metið stöðu mála þannig eftir síðustu kosningar, að höfuðmáli skipti, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í ríkisstjórn. Það markmið hefði náðst og væri hann sáttur við þá niðurstöðu. Í kosningarbaráttunni hefði andróður gegn sjálfstæðismönnum að verulegu leyti byggst á því, að tími væri kominn til að skipta um stjórnarforystu og hann teldi þann málflutning í lýðræðisþjóðfélagi vissulega á rökum reistan, að 12 ára samfelldur starfstími forsætisráðherra væri alveg nógu langur ? hvað þá heldur 16 ár. Nú hefði verið búið þannig um hnúta, að við næstu kosningar hefði hann ekki setið sem forsætisráðherra í 16 ár og þess vegna gætu menn ekki gert ágreining um það. Öðru máli gegndi um frekari þátttöku sína í stjórnmálum og formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Nú í vor yrðu 13 ár frá kjöri hans til þess mikla trúnaðarstarfs ? aðeins einn maður hefði setið lengur við þann stjórnvöl en hann ? Ólafur Thors, sem hefði verið formaður í 27 ár. Sagðist Davíð hreinlega ekki hafa gert þessi mál upp við sig til að svara á annan veg en með slíkum vangaveltum ? og hann fagnaði því þegar gripið var fram í og hann hvattur til að verða utanríkisráðherra til að forða Íslandi frá inngöngu í Evrópusambandið ? sagði sér hafa verið bjargað úr þeirri klípu að þurfa að ræða eigin framtíð frekar.
Zukofsky snýr aftur
Ég minnist þess af viðtölum við samstarfsmenn mína í stjórnmálum fyrir 10 árum, að þeir töldu það höfða til fárra, þegar ég var að beita mér fyrir því, að þannig yrði búið um hnúta við Sinfóníuhljómsveit æskunnar (SÆ), að Paul Zukofsky, fiðluleikari og stjórnandi, gæti starfað við hana áfram. Hljómsveitin var afsprengi Zukofsky-námskeiðanna, sem Paul efndi hér til og vöktu athygli í tónlistarheiminum út fyrir landsteinana, því að þau höfðuðu til ungs tónlistarfólks í mörgum löndum.
Með því að leggja leið sína í gagnasafn Morgunblaðsins geta menn fundið smjörþefinn af þeim deilum, sem urðu, þegar Zukofsky var hrakinn frá SÆ og ætla ég ekki að vekja upp þann draug eða setja salt í sárið, sem Zukofsky, vinur minn, varð fyrir og olli því, að hann hefur ekki fyrr en föstudaginn 22. janúar 2004 komið hingað til Íslands frá því að hann lauk við að hljóðrita Tímann og vatnið eftir Atla Heimi Sveinsson með Kammersveit Reykjavíkur í júní 1994. Sú upptaka, sem kom út hjá hinni þekktu þýsku útgáfu CPO árið 2002, hefur fengið lof víða um lönd. Fyrir hana var Zukofsky tilnefndur tónlistarmaður ársins 2002 í þýska tímaritinu Fono Forum.
Nú kemur Zukofsky, tæpum tíu árum síðar, til að stjórna Kammersveitinni á tónleikum í Langholtskirkju sunnudaginn 1. febrúar klukkan 17.00. Heita tónleikarnir: Zukofsky snýr aftur ? og eru þetta 30 ára afmælistónleikar Kammersveitarinnar. Þar verður frumflutt verk eftir Hauk Tómasson tónskáld og frumflutningur verður á Íslandi á verki fyrir kvennakór og hljómsveit eftir Olivier Messien. meðal flytjenda verður margt af því unga tónlistarfólki, sem hlaut ómetanlega þjálfun og reynslu í SÆ undir stjórn Zukofskys á sínum tíma. Eru þetta jafnframt upphafstónleikar Myrkra músikdaga, sem er jafnan mikilvægur viðburður í íslensku tónlistarlífi.
Meðal þess, sem er að finna í gagnasafni Morgunblaðsins um Zukofsky er grein eftir Súsönnu Svavarsdóttur blaðamann frá 3. júlí 1994 og ber hún fyrirsögnina: Frelsi fæst með reglum. Hún hefst á þessum orðum:
„Paul Zukofsky starfaði hér á landi um fimmtán ára skeið. Hann var elskaður og dáður, hataður og umdeildur. Flestir, sem til hans þekkja, kalla hann snilling. Þeir, sem ekki líkaði starfsaðferðir hans, kalla hann harðstjóra. Súsanna Svavarsdóttir ræddi við þennan umdeilda en óneitanlega sérstæða persónuleika.
Frá því árið 1977 hefur hljómsveitarstjórinn Paul Zukofsky lagt leið sína til Íslands að minnsta kosti einu sinni á ári; fyrst til að halda hin þekktu Zukofsky-námskeið, sem enduðu með tónleikum, og síðar til að stjórna Sinfóníuhljómsveit æskunnar. Hann var aðalstjórnandi hennar frá byrjun og gerði meira en að stjórna. Hann hélt námskeið fyrir tónlistarnemendur og undirbjó þá fyrir flutning flókinna verka, sem sjaldan eða aldrei höfðu heyrst hér á landi.
Eins og hver önnur árstíð mætti Zukofsky - á það gátu menn reitt sig. En hvers vegna, var þeim ráðgáta. Svo mikil ráðgáta að árið 1993 voru gagnrýnendur enn að spyrja hvað það væri sem laðaði Paul Zukofsky hingað til „þessarar hrjóstrugu eyju nyrst í Atlantshafi ár eftir ár“ um leið og viðurkennt var að honum yrði seint fullþakkaður sá skerfur, sem hann hefði lagt fram til íslensks tónlistarlífs“
Við, sem metum Zukofsky mikils, fögnum því, að hann leggur að nýju leið sína til Íslands. Vil ég láta þess getið, að leiðir okkar Thors Vilhjálmssonar rithöfundar lágu fyrst saman á förnum vegi í orrahríðinni vegna Zukofskys, þar sem okkur var báðum kappsmál, að hið mikla starf hans hér yrði virt að verðleikum. Síðan met ég Thor meira með hverjum fundi, sem við eigum.
Ég hef áður hér á þessum síðum vikið að því, hve harkalega er brugðist við þeim orðum, sem Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur hefur látið falla í umræðum síðustu vikna í tilefni af gagnrýni fyrir jólin, einkum í sjónvarpi. Taldi ég einhvern pistlahöfund í Víðsjá á rás 1 í hljóðvarpi ríkisins fara út fyrir eðlileg mörk í persónulegum árásum á Jakob. Eiríkur Guðmundsson, einn af stjórnendum Víðsjár hjó í sama knérunn mánudaginn 19. janúar og réðst að Jakobi vegna þess, að Jakob hafði svarað grein Guðna Elíssonar í Lesbók Morgunblaðsins, en svar Jakobs er tilefni heilsíðu greinar eftir Guðna í Lesbókinni í dag, sem Guðni telur þó, að enginn nenni að lesa nema helst Jakob. Er nokkur huggun í því, að Guðni segist ekki ætla að svara, þótt Jakob finni enn að orðum hans og dómum um menn og málefni.
Þegar ég var starfsmaður Morgunblaðsins, var jafnan nokkurra vikna bið, eftir að efni kæmist á síður Lesbókarinnar. Nú bregður hins vegar svo við, að bókmenntafræðingarnir Jón Karl Helgason og Guðni Elísson fyrir utan þau Helgu Kress og Hannes Hólmstein Gissurarson komast inn á síður Lesbókarinnar með greinar í ritdeilustíl, en líftími þeirra er almennt skammur, eins og menn vita. Jón Karl lagði þar út af pistli eftir mig, án þess að ég yrði nokkru vísari um það, hvað knúði hann til svo skjótra svara nema viðleitni til að standa örugglega á gráu svæði í hita átakanna vegna bókarinnar Halldór eftir Hannes Hólmstein.
Davíð Þór Jónsson skrifar grein um Jakob F. Ásgeirsson í DV laugardaginn 24. janúar undir fyrirsögninni: Fræðimaður deyr. Þar segir meðal annars, að Jakob hafi „lagt sig í líma við að fremja akademsískt sjálfsmorð á síðum blaðanna undanfarið.“
Fyrir áhugamenn um þróun opinberra umræðna er fróðlegt að fylgjast með því, hvernig gengið er fram gagnvart Jakobi. Sérstaklega kemur á óvart, hve hart er sótt að honum persónulega í Víðsjá hljóðvarps ríkisins en þar flytja menn einkaskoðanir sínar á mönnum og málefnum, án þess að viðkomandi sé gefinn kostur á að bera hönd fyrir höfuð ? það er þó venjulega unnt að gera með svargrein eða athugasemd á síðum blaðanna. Hvað sem öðru líður er ljóst, að Jakob hefur hitt á viðkvæman streng í brjóstum þeirra, sem leggja sjaldan gott til sjálfstæðismanna í opinberum umræðum.
Vegna fyrri athugasemda minna um skrif nafnleysingja á spjallrásum hér á Netinu fagna ég því, að einn huldumannanna þar hefur tekið til við að skrifa þar undir nafni, Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins. Og hvað gerist? Hann kemst strax á bls. 2 í Morgunblaðinu vegna þess, sem hann sagði á malefni.com, og lýsir yfir því í blaðinu, að hann sé „alveg reiðubúinn að biðjast afsökunar“ á þeim orðum að ætla að „sprengja Stebbafr [Stefán Friðrik Stefánsson sjá tenglasafn mitt] og Halldór Blöndal [forseta alþingis] til helvítis“ og „bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans.“
Í vikunni féll stjarna Howards Deans í prófkjörsslagnum um forsetaembættið meðal demókrata í Bandaríkjunum, vegna þess hve hann öskraði ógurlega eftir að hafa tapað í Iowa. Vegna skorts á dómgreind hans telja margir af flokksmönnum hans hann einfaldlega úr leik.
Hvað ætli flokksmenn frjálslyndra segi um framgöngu varaformanns síns Magnúsar Þórs? Skyldu þeir mælast til þess við hann að biðjast afsökunar, úr því að einhver þarf að fara þess á leit við hann? Enginn hefur verið siðavandari í stjórnmálaskrifum undanfarin misseri en Sverrir Hermannsson, sjálfur guðfaðir Frjálslynda flokksins ? hvert er viðhorf hans?