17.1.2004

Níu ára afmæli vefsíðu - námskráin og lengd framhaldsskólans.

Eins og segir á titilblaði vefsíðu minnar kom hún til sögunnar 18. janúar 1995 og er því orðin níu ára. Ég ætla ekki að rekja uppruna síðunnar. Það hef ég gert áður í tilefni afmælis hennar. Ég ætla ekki heldur að geta alls þess góða fólks, sem hefur komið að því í áranna rás að aðstoða mig við að halda síðunni úti. Þar hefur verið um tæknilega aðstoð að ræða, efni á síðuna hef ég samið sjálfur. Aðeins sárasjaldan hef ég leitað aðstoðar við að skrifa ræðurnar, sem ég hef flutt og síðan birt hér.

Ég hef ekki minnstu hugmynd um, hvað efni síðunnar er orðið mikið að vöxtum, ef taldar eru greinar, ræður, pistlar og dagbókarfærslur á undanförnum níu árum. Mestu skiptir hafi ég haldið þræðinum sæmilega skýrum og ekki lent í mótsögn við sjálfan mig. Hafi ég sett eitthvað inn á síðuna, hef ég ekki breytt þar neinu, nema mér sé bent á ritvillur eða að greinilega sé rangt farið með einhverjar staðreyndir. Þakka ég þeim mörgu, sem hafa lagt mér lið við að leiðrétta slíkar villur með ábendingum.

Þá þakka ég þeim mikla fjölda fólks, sem hefur notað síðuna sem millilið til að senda mér tölvupóst og stofna til umræðna um eitthvað, sem þar stendur, eða annað bréfritara á hjarta. Hef ég leitast við að svara sem fyrst öllum bréfum, sem mér berast frá nafngreindu fólki. Hins vegar læt ég almennt undir höfuð leggjast að svara þeim, sem senda mér nafnlaus bréf. Komið hefur fyrir, að óprúttnir bréfritarar hafa misnotað aðgengi sitt að tölvum annarra til að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig, stundum með ruddalegu orðbragði. Það og skammarbréf almennt heyra þó til algjörra undantekninga innan þess mikla fjölda tölvubréfa, sem ég fæ.

Á síðustu níu árum hefur orðið gífurleg breyting á miðlun upplýsinga á Netinu og samskiptum fólks á þessum vettvangi. Hver stórviðburður í samtímasögunni hefur haft áhrif á það, hvernig Netið er notað í miðlun upplýsinga. Boðveiturnar eru einnig nú orðnar svo öruggar og góðar, að með ólíkindum er.

Í vikunni hringdi Sigríður Sól, dóttir mín, sem búsett er í London,  til mín, strax eftir að hún hafði séð Rut, móður sína, taka á móti viðurkenningu fyrir bestu sígildu plötu ársins 2003 (Kammersveit Reykjavíkur, Brandenborgarkonsertar Bachs) í beinni útsendingu sjónvarpsins frá afhendingu íslensku tónlistarverðlaunanna í Þjóðleikhúsinu. Hafði Sigríður Sól horft á atburðinn í fartölvunni heima hjá sér í London á vefsíðu www.tonlist.is . Vissi hún um niðurstöðuna um leið og heima í stofu hjá mér framan við sjónvarpið.

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust munu vafalaust marka enn ein þáttaskilin í því, hvernig stjórnmálamenn nýta sér þennan öfluga miðil til að nálgast kjósendur. Í prófkjörsbaráttu frambjóðenda demókrata hefur vakið sérstaka athygli, hvernig Howard Dean hefur notað Netið, meðal annars til að safna fé í kosningasjóð sinn.

Þjónusta fréttastöðva og blaða á Netinu er orðin þannig, að sú spá hefur ræst, að við getum hæglega búið til okkar eigin matseðil af fréttum og fengið hann sendan til okkar jafnoft og við kjósum og á þeim tíma, sem við viljum helst sjá hann birtast á skjánum hjá okkur. Auk þess sem í boði er að senda okkur sérstök boð í hvert sinn sem eitthvað einstaklega fréttnæmt er að gerast.

Í samanburði við margar vefsíður er mín einföld í sniðum og að baki henni hefur ekki búið áhugi á öðru en að halda utan um eigið efni á markvissan hátt og skrá það, sem mér hefur þótt merkilegast á líðandi stundu. Þakka ég öllum, sem hafa skráð sig á póstlista minn og vek enn og aftur athygli á því, að jafnauðvelt er að skrá sig af listanum og á hann.

Námskráin og lengd framhaldsskólans.

 

Vefsíðan hefur oft auðveldað mér að svara fyrir mig á einfaldari og auðveldari hátt en að skrifa blaðagrein. Ætla ég nú enn einu sinni að nota síðuna í þeim tilgangi.

Sunnudaginn 11. janúar skrifaði Björn Guðmundsson, efnafræðingur og framhaldsskólakennari, grein í Morgunblaðið gegn styttingu framhaldsskólans í þrjú ár. Undir lok greinarinnar komst hann þannig að orði, að í aðalnámskrá í náttúrufræðum fyrir framhaldsskóla frá árinu 1999 hefði, án raka og án þess að leita athugasemda,  fyrsta áfanga í eðlisfræði og fyrsta áfanga í efnafræði, sem fram að því höfðu verið tveir aðskildir þriggja eininga áfangar (6 einingar alls), verið steypt saman í einn þriggja eininga áfanga sem heitir NÁT 123, eðlis- og efnafræði. Það hefði ekki hentað Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra að færa fram rök eða leita athugasemda vegna þessa.

Björn Guðmundsson sagði einnig í sömu Morgunblaðsgrein:

„Björn Bjarnason og samstarfsmenn hans afrekuðu fleira. Þeir bjuggu til náttúrufræðibraut sem hægt er að ljúka með því að taka aðeins 15 einingar í stærðfræði. Það gleymdist alveg að náttúrufræðibraut hét einu sinni stærðfræðideild og til að útskrifast þaðan þurftu nemendur að kunna dálítið í stærðfræði enda þurftu þeir skv. eldri námskrám að ljúka 21 til 27 einingum í stærðfræði.“

Í tilefni af þessu bárum við Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sem var verkefnisstjóri við námskrárgerðina og leiddi það mikla verk af mikilli prýði saman bækur okkar og vorum sammála um að þessi ummæli Björns Guðmundssonar væru með öllu ómakleg um námskrárvinnuna.

Björn Guðmundsson lætur að því liggja, að námskrá framhaldsskóla hafi orðið til í skjóli myrkurs, samin af fámennri klíku í menntamálaráðuneytinu.  Þarna talar hann annað hvort af algerri vanþekkingu um aðdraganda, skipulag og verkferli námskrárgerðarinnar eða gengur það eitt til að gera hlut okkar, sem að verkinu komum, tortryggilegan.  Án þess að tíunda um of tæknileg atriði vil ég nefna þessi:

1. Námskráin og þ.m.t. stofnun sérstakrar náttúrufræðibrautar var grundvölluð í lögum.  Gert var ráð fyrir aukinni sérhæfingu í samræmi við mismunandi áherslur bóknámsbrautanna.

2. Þverpólitísk nefnd, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka á alþingi lagði meginlínur í upphafi.

3. Alls komu um 300 manns að gerð námskrárinnar, langflestir úr röðum kennara.   Unnið var fyrir opnum tjöldum og meira lagt upp úr samráði og kynningu en áður hefur þekkst.

4. Samtök kennara og fagfélög tilnefndu fólk í vinnuhópa sem sömdu námskrána þ.m.t. áfangaskipan og lýsingar einstakra greina.

  
5. Andi brautaskiptingarinnar var að tryggja ákveðið lágmark í kjarnagreinum til dæmis stærðfræði en gefa um leið kost á umtalsvert meiri sérhæfingu t.d. í raungreinum sem tækju þá mið af inntökuskilyrðum í háskóla og framtíðaráfornum einstakra nemenda.

6. Einstökum skólum var einnig veitt mikið svigrúm til að móta einstakar brautir með til dæmis að binda val nemenda og hafa þannig áhrif á samsetningu náms.
7. Þá var ætíð gert ráð fyrir að einstakir skólar gætu samið viðbótaráfanga í einstökum greinum til dæmis í lífrænni efnafræði vegna staðbundinna áherslna eða kennarakosts og fengið þá „vottaða“ í mrn.

Ekki er því með nokkrum rökum unnt að segja, að ný námskrá hafi þrengt að námi í raungreinum með þeim hætti sem Björn Guðmundsson nefnir. Þvert á móti geta nemendur lagt fleiri einingar að baki í raungreinum en áður.  Munurinn er sá, að nú er það hins vegar meira undir nemendanum komið að axla ábyrgð á námi sínu en skólapólitískri forræðishyggju.  Í raun má segja, að standi greinar eins og lífræn efnafræði höllum fæti sé skýringanna fremur að leita í áherslum einstakra skóla eða mistekist hafi að sannfæra nemendur um ágæti þess að nema slíka grein til undirbúnings frekara námi.

Björn Guðmundsson hefði hæglega getað kynnt sér sjónarmið mín um þetta efni með því að skoða vefsíðu mína. Þar hefði hann meðal annars séð, að ég heimsótti alla framhaldsskóla landsins þegar námskrárgerðin var á döfinni og efndi til funda með nemendum og kennurum, meðal annars um þá þætti, sem hann nefnir í grein sinni. Var það síður en svo til marks um, að ég vildi ekki umræður um þessi mál eða óttaðist þær.

Enn minni ég á, að skoðanir mínar á styttingu framhaldsskólans er að finna hér á síðunni. Ég tel, að mikilvægt sé að halda í sveigjanleika framhaldsskólakerfisins meðal annars þann tíma, sem nemendur taka sér til að ljúka stúdentsprófi, og ekki eigi að steypa þar alla skóla í sama mót.