10.1.2004

Talað í stað þess að lesa um Halldór

 

„Gísli Gunnarsson, prófessor í sagnfræði segir deilt um tvær mismunandi aðferðir í sagnfræði þegar Halldór, bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sé gagnrýnd. Bókin fylli flokk fjölda alþýðurita sem komið hafi út undanfarin ár. Gísli, sem segist vera vinstrimaður, hrósar bókinni en segist hafa verið skammaður fyrir að hafa lesið hana.“ Þannig hófst frétt Þórdísar Arnljótsdóttur í sjónvarpinu föstudagskvöldið 9. janúar, daginn eftir blaðamannafund Hannesar Hólmsteins og skelegga framgöngu hans í Íslandi í dag og Kastljósi, þar sem hann varði fræðimanns- og höfundarheiður sinn.

Í frétt sjónvarpsins sagði einnig:

 

„Gísli Gunnarsson, prófessor í sagnfræði bendir á að Hannes haldi því fram að bókin sé bæði alþýðurit og fræðirit og því segist Hannes ekki geta haft eins margar tilvísanir eins og gerðar eru kröfur um í venjulegum fræðiritum. Hér fylgi Hannes ákveðinni hefð innan sagnfræðinnar eins og fram komi til dæmis í bók Þórunnar Valdimarsdóttur um Snorra á Húsafelli. Gísli segist vera í þeim hópi að viðurkenna ekki þessa mismunandi skilgreiningu á fræðiritum og alþýðuritum, dæmin sýni að almenningur þoli vel tilvísanir og númer eins og fram komi í bókum Þórs Whiteheads og Vals Ingimundarsonar þar sem sé fullkomið tilvísanakerfi.

 

Gísli Gunnarsson, prófessor í sagnfræði við HÍ: En ég sem sagt tel að hér eigi að gera alltaf jafn strangar kröfur, hvort sem við ætlum að hafa þetta metsölubók eða ekki.

 

Þórdís Arnljótsdóttir: En hvað þykir þér þá um þessa bók eftir að hafa lesið hana?

 

Gísli Gunnarsson: Bókin er bæði skemmtileg og fróðleg og gefur mér ákaflega, gefur mér að mörgu leyti nýja sýn á höfundinn og þóttist ég þó þekkja Halldór Laxness nokkuð vel fyrir.

Það hafi þó farið í taugarnar á Gísla að tilvísanir voru ekki á þeim stöðum sem hann reiknaði með og hann hefði viljað hafa þær fleiri. Það eigi hins vegar við um ótal aðrar bækur sem eigi að vera alþýðurit og hafi komið út síðustu áratugi.

 

Gísli Gunnarsson: Þannig að í raun og veru erum við að deila um tvær mismunandi aðferðir hér.

Gísli telur ekki hægt að tala um ritstuld hjá Hannesi þegar hann notar texta úr bókum Halldórs og Peters Hallbergs því yfirleitt sé hægt að finna tilvísun þó hún sé kannski ekki á þeim stað sem að hann myndi óska eftir. Enginn sem á annað borð þekki Laxness fari í grafgötur með það að Hannes sé að taka frá honum.

 

Þórdís: Má þá skipta þeim sem gagnrýna, fjalla jákvætt um bókina og neikvætt, eftir því hvort það aðhyllist stjórnmálaskoðanir svipaðar eins og Hannes hefur?

 

Gísli Gunnarsson: Ja ég sjálfur er nú Samfylkingarmaður og hef alltaf talist til vinstri í stjórnmálum og ætti þess vegna samkvæmt reglunni að vera á móti Hannesi. En ég hins vegar tala hér sem fræðimaður, ekki sem stjórnmálamaður. En mér finnst að margir fræðimenn megi aðeins fara að hugsa sinn gang í þeim efnum og skilja þar greinilegar á milli. Ég tek sem dæmi að ég hef heyrt marga gagnrýna bók Hannesar og þá spyr ég, eruð þið búin að lesa bókina? Dettur það ekki í hug, segja viðkomandi, kemur það ekki til hugar. Og svo er ég skammaður fyrir að lesa bókina af félögum mínum hér í Háskólanum.“

 

Ég lýsti í síðasta pistli skoðun minni á bók Hannesar Hólmsteins og hef engu frekar við hana að bæta. Hitt hefur vakið vaxandi furðu mína í orrahríð vikunnar, hver margir telja sér fært að segja álit sitt á bókinni, án þess að hafa lesið hana. Í Íslandi í dag á Stöð 2  fimmtudaginn 8. janúar spurði Hannes Hólmsteinn meira að segja, hvort öruggt væri, að gagnrýnandi þess þáttar hefði lesið bókina!

Guðmundur Magnússon sagnfræðingur hefur um nokkurt skeið haldið úti vefsíðunni Frá degi til dags http://www.dagar.blogspot.com/ . Hann segir í pistli föstudaginn 9. janúar meðal annars:

„Ég hlustaði síðdegis á þrjá góðborgara á Akureyri ræða um bókina [Halldór eftir Hannes Hólmstein] í drjúgan hálftíma á Rás tvö og sitt sýndist hverjum. Mér fannst þeir hver öðrum gáfulegri og skemmtilegri. Menntaskólakennari í hópnum var harðorður og taldi að höfundi hefðu verið mislagðar hendur og hefði fáar málsbætur. Í lok þáttarins kom svo í ljós, eins og ég átti von á, að enginn þátttakenda hafði lesið bókina og raunar mun stjórnandinn ekki heldur hafa gert það.

Er þetta til mikillar fyrirmyndar. Kynni menn sér mál of vel áður en þeir tjá sig um þau opinberlega er hættan sú að þeir verði þurrir og þreytandi á að hlýða. "Umræðan" í þjóðfélaginu má alls ekki við slíku.“

Guðný Halldórsdóttir hefur kveðið einna fastast að orði um bók Hannesar Hólmsteins um föður sinn, meðal annars í Morgunblaðinu 10. janúar. Þar segir meðal annars:

„Guðný segir að hún hafi ekki lesið bókina og ætli ekki að gera það, en hún hafi gluggað í hana og greinargerðin sé bara yfirklór. "Það er alltaf að koma meira og meira í ljós það sem hann er að taka upp eftir öðru fólki og gera að sínum texta. Til dæmis úr bók Ólafs Ragnarssonar og annarri sem heitir Nærmynd af Nóbelskáldi. Hann hefur varla skrifað orð í þessa bók, manngreyið." Að sögn Guðnýjar eru margar rangfærslur í bók Hannesar og rangt farið með.“

Hér hef ég nefnt þrjú ólík dæmi, sem sýna, að menn hika ekki við að segja álit sitt á bók Hannesar Hólmsteins og fjalla um efnistök hans, án þess að hafa lesið bókina. 

Í Víðsjá á rás 1 hjá RÚV föstudaginn 9. janúar fór einhver, sem ég heyrði ekki hvað heitir,  reiðum orðum um grein Jakobs F. Ásgeirssonar rithöfundar um Halldór og Hannes Hólmstein í Viðskiptablaðinu  8. janúar. Blés útvarpsmaðurinn upp, að Jakob hefði nefnt til sögunnar „gáfumanna“-félag vinstrisinna og þótti greinilega ekki maklegt. Að gera þetta að aðalatriði í grein Jakobs vekur þá spurningu, hvort pistlahöfundurinn hafi lesið hana, að minnsta kosti gefur áherslan á vinstri “gáfumennina” algjörlega ranga mynd af greininni. Inngangur Jakobs að grein hans lýsir því best um hvað hann var að fjalla:

„Árásirnar á bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Laxness koma ekki á óvart í ljósi atgöngunnar gegn honum síðastliðið haust. Árásartilefnið kemur mönnum hins vegar í opna skjöldu. Virðist sem fjandmenn Hannesar hafi hvorki fundið ástæðu til árása á bókina vegna staðreyndavillna eða skorts á nærgætni við skáldið. Í örvæntingu sinni hengja þeir hatt sinn á heimildanotkun Hannesar. Úr skúmaskotum Háskóla Íslands spretta fram í dagsljósið fótnótufræðingar tveir, Helga Kress og Gauti Kristmannsson, og herja á Hannes í nafni fræða sinna. Þeim finnst ekki vera nógu margar fótnótur í bók hans!“

Í þessum Víðsjár-þætti, þar sem fundið var að grein Jakobs, var dagskrá rofin til að segja frá þeim stórtíðinum, að daginn eftir, laugardaginn 10. janúar klukkan 10.30, ætluðu þrír ævisagnahöfundar að efna til blaðamannafundar í Reykjavíkurakademíunni til að lýsa vinnubrögðum sínum. Þótti sérstaklega fréttnæmt í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 þennan sama laugardag, að Hannes Hólmsteinn hefði komið sem „boðflenna“ á fundinn! Kannski hlustaði hann á Víðsjár-þáttinn og heyrði stórtíðindin um fundinn? Hvers vegna blaðamannafundur boðaður í beinni útsendingu Víðsjár-þáttar? Eða sagt frá því í Speglinum að kvöldi 8. janúar, að Hannesi Hólmsteini og blaðamannafundi hans yrði svarað næsta morgun?

Hvað gerist næst? Auðvitað má búast við því, að þeir, sem hafa tjáð sig um bók Hannesar Hólmsteins, án þess að hafa lesið hana, láti að nýju til sín heyra eftir lestur hennar. Víst er, að Hannes Hólmsteinn er sestur við að rita annað bindið af ævisögunni um Halldór.