27.12.2003

Valtýr – viðvörun Jakobs.

 

Jóladagana las ég um Valtý Stefánsson, ritstjóra Morgunblaðsins, eftir Jakob F. Ásgeirsson. Er mikill fengur að þessari bók fyrir sögu íslenskrar blaðamennsku fyrir utan þann höfuðtilgang hennar að bregða ljósi á líf Valtýs Stefánssonar og Kristínar Jónsdóttur listmálara, eiginkonu hans.

Valtýr var ræktunarmaður í öllum skilningi, hvort heldur litið er til landbúnaðar og nýtingar landsins í hans þágu og skógræktar eða til þjóðarinnar, menningar hennar og virðingar í öllu tilliti. Ég minnist Valtýs sem vinar föður míns og foreldra. En þegar ég var að komast til vits og ára og fór að kynnast starfi á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins upp úr miðjum sjötta áratugnum, var Valtýr tekinn að tapa heilsu. eins og lýst er af nærgætni í bókinni.

Fráleitt er að halda því fram eins og sést stundum, að Valtýr hafi falið föður mínum að koma fram fyrir sína hönd innan stjórnar Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, til að standa þar í baráttu við unga menn, sem voru um svipað leyti að stíga sín fyrstu spor í stjórn félagsins. Hitt kemur hins vegar fram í sögu Jakobs, að innan stjórnar Árvakurs var löngum nokkur togstreita á milli Valtýs annars vegar og kaupmannanna svonefndu hins vegar. Töldu hinir síðarnefndu eða einstaklingar í hópi þeirra blaðið ekki alltaf standa nægilega vel með versluninni og kaupmönnum.

Valtýr eignaðist hins vegar blessunarlega svo stóran hlut í blaðinu, að hann gat í raun  farið sínu fram við mótun ritstjórnarstefnu og framkvæmd hennar. Er ljóst af sögu hans, að hið sama á auðvitað við um Morgunblaðið og öll önnur blöð, að andi eigenda svífur þar yfir vötnum og galdurinn við farsælan rekstur blaðsins felst í því að finna hæfilegt jafnvægi milli áhrifa eigenda annars vegar og ritstjórnar hins vegar, sérstaklega eftir að stærsti eigandinn hætti að sitja á ritstjórastóli.

Af bók Jakobs ræð ég, að þetta jafnvægi við stjórn Morgunblaðsins skipti í raun miklu meira máli fyrir glæsilega sögu blaðsins en spurningin um tengsl þess við ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum. Engin ritstjórn blaðs getur tapað á því að eiga góð samskipti við áhrifamestu menn þjóðar sinnar á hverjum tíma. Slíkt samband þróast hvorki né þroskast nema á grundvelli gagnkvæmrar virðingar og trúnaðar. Hitt er síðan til heilla fyrir blað að velja sér að leiðarljósi stefnu og markmið í samræmi við það, sem best er fyrir lesendur þess og aðra viðskiptavini. Gæfa Morgunblaðsins felst í því að hafa gert þetta, þegar litið er til meginþátta í stjórnmálabaráttunni, hvort heldur um er að ræða stuðning við einkaframtakið í frjálsu markaðsþjóðfélagi eða heilladrjúga utanríkisstefnu og samleið með lýðræðisþjóðum andspænis einræði og kommúnisma.

Hin borgaralega menningarviðleitni Valtýs Stefánssonar svífur enn yfir ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins og við framkvæmd hennar er hollt að minnast þess, hve annt honum var um að skilgreina þessa stefnu og lýsa henni fyrir lesendum blaðsins og skapa þannig ritstjórnarlegt leiðarljós. Á tímum pólitískrar rétthugsunar og tískumála er mikils virði að láta ekki stundarfyrirbrigði í dægurumræðum draga að sér alla athygli – þá er hætta á því, að siglt sé eftir villuljósum.

Viðvörun Jakobs

Á tveimur stöðum í bók sinni um Valtý víkur Jakob F. Ásgeirsson að því, hve lítið Guðjón Friðriksson gerir úr hlut Valtýs í sögu íslenskrar blaðamennsku í bókinni Nýjustu fréttir! Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga. Bókin er gefin út að frumkvæði Blaðamannafélags Íslands og með blessun þess sem einskonar opinber saga íslenskrar fjölmiðlunar. Jakob segir á bls. 428:

„Guðjón gerir yfirleitt mjög lítið úr hlut Morgunblaðsins í sögu íslenskrar blaðamennsku í bók þessari. Hann gefur þá alröngu mynd af blaðinu í tíð Valtýs að það hafi verið þröngt harðsvírað flokksblað á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þetta gerir hann með því að þegja þunnu hljóði um margt sem kemur fram hér í þessari bók og draga fram stöku tilvitnanir sem hann hefur rekist á. Er frásögn Guðjóns Friðrikssonar með ólíkindum ranglát í garð Valtýs Stefánssonar. Hann segir til dæmis að Reykjavíkurbréfið sem Valtýr skrifaði vikulega í aldarfjórðung hafi „lengst af“ verið „útlegging á sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins“! Þá segir hann að það sé ekki fyrr en um 1960 sem það fari að „sjást merki um að reynt væri að skilja á milli frétta og stjórnmála“ í Morgunblaðinu! Ber mjög að gjalda varhug við heimildargildi bókarinnar Nýjustu fréttir! hvað Valtý Stefánsson og Morgunblaðið áhrærir.“

Óvenjulegt er, að ævisagnahöfundar sjái sig knúna til að gefa viðvörun eins og þá sem Jakob gerir með þessum orðum. Miðað við hve fréttnæmt þykir, að gagnrýnendur og bókmenntarýnendur telji sig geta fundið samsvörun á milli texta í ævisögu Hannesar H. Gissurarsonar um Halldór Laxness og frásagnar Halldórs sjálfs eða þeirra, sem fjallað hafa um bókmenntir Halldórs, er í sjálfu sér merkilegt, að enginn fjölmiðill hafi vakið máls á þessari viðvörun Jakobs um vafasamt heimildagildi einskonar opinberrar sögu íslenskrar fjölmiðlunar. Hvað skyldi valda því?

Þeir, sem virða ekki samhengið í sögu Morgunblaðsins og viðurkenna grunninn að velgengni þess í ritstjóratíð Valtýs Stefánssonar. fara villur vega. Þeir gera Valtý að minnsta kosti rangt til með því að kenna ritstjóratíð hans við eitthvert flokkslegt ofstæki. Blaðið tók á þeim tíma mið af samtíma sínum, eins og það hlýtur ávallt að gera. Blöðin, sem það keppti við, hafa siglt sinn sjó og nú verður að gefa blað, hvort sem fólk vill það eða ekki, til að Morgunblaðið sé ekki eina dagblaðið í landinu.