21.12.2003

Qi gong myndband – eftirleikur eftirlaunamáls – ásakanir um meiðyrði – óheillaverk við Aðalstræti.

Aflinn – félag iðkenda qi gong (tsjí gong) á Íslandi hefur gefið út myndbandið Lífsorka – qi gong með Gunnari Eyjólfssyni. Þar er að finna um 45 mínútur með hópi fólks að stunda hinar árþúsunda gömlu, kínversku lífsorkuæfingar undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar leikara. Í inngangsorðum lýsir Gunnar grunnþáttum qi gong og myndbandinu fylgir bæklingur, þar sem æfingarnar eru skýrðar í stuttu máli. Æfingarnar voru myndaðar á Miklatúni síðastliðið vor og er framleiðandi bandsins Rafn Rafnsson hjá BaseCamp ehf.

Gunnar Eyjólfsson hefur undanfarin ár leitt og þjálfað hópa qi gong iðkenda í og utan Reykjavíkur og stofnuðu þeir félagið Aflinn 1. júní 2002. Ákveðið var, að Aflinn stæði að gerð myndbandsins í því skyni að koma til móts við hinn mikla og vaxandi áhuga á qi gong og nýta til þess ómetanlega reynslu og hæfileika Gunnars. Hann leiðir á myndbandinu æfingar eins og þær, sem félagsmenn í Aflinum stunda í mismunandi hópum, nokkrum sinnum í viku hverri yfir vetrarmánuðina.

Framkvæmdarstjóri verksins fyrir hönd Aflsins var Viðar H. Eiríksson, ritari félagsins.

Ég hef komið að gerð þessa myndbands sem formaður Aflsins en eins og áður hefur komið fram á þessum síðum tók ég við því trúnaðarstarfi við stofnun félagsins 1. júní 2002. Var ég einnig einn af þátttakendunum á Miklatúni hinn fagra vordag, þegar æfingarnar voru festar á myndband. Er vert að geta þess í heimildarskyni, að þarna renndum við í gegnum þessar rúmu 40 mínútur í einni striklotu og þurfti ekki að endurtaka neitt síðan.

Okkur, sem höfum iðkað qi gong undir leiðsögn Gunnars, þykir auðvitað sérstakt happ, að hann skyldi hafa lagt þá alúð við leiðsögnina, sem myndbandið geymir. Prentaði textinn með bandinu á að auðvelda þeim, sem aldrei hefur kynnst qi gong að gera þessar æfingar.

Þegar um þetta er rætt, skal þess getið, að qi gong æfingar eru að sjálfsögðu mun fleiri en finna má á myndbandinu og segja má, að hver meistari eða leiðbeinandi hafi sínar aðferðir og áherslur. Gunnar Eyjólfsson lýsir qi gong á þennan hátt í kynningartexta á kápu myndbandsins:

Qi gong er aðferð mannsins til öflunar, varðveislu og dreifingar orku um líkama sinn.

Qi er lífskraftur, hreyfiafl alheimsins. Maðurinn er kjarni, orka og  vitund  Vitundin stjórnar orkunni og orkan glæðir kjarnann.

Á íslensku er qi gong  best lýst með orðinu ræktun. Iðkun qi gong á uppruna sinn austur í Kína og hefur þróast þar í aldanna rás.

 Qi gong er þríþætt:  hugleiðslu qi gong, bardaga- eða baráttu qi gong og heilsu qi gong. Undirstaðan er agaður líkamsburður – öguð öndun og  öguð hugsun eða einbeitni.

Qi er afl. Qi gong er viðleitni einstaklinga til eigin orkuvæðingar. Iðkandinn gengur til móts við lífsorkuna, gengur henni skilyrðislaust á hönd og öðlast þegnrétt í ríki hennar.

Undir leiðsögn Gunnars og merkjum Aflsins hefur aldrei verið leitast við að skilgreina eða skýra lækningarmátt qi gong. Inn á það svið viljum við ekki fara en tökum skýrt fram í allri kynningu okkar, að hjartveikir, þeir, sem eiga erfitt með öndun, og vanfærar konur skuli halda sig frá æfingunum. Aðeins vel þjálfaðir geti gert þær allar í samfellu, best sé að þjálfa sig til þeirra allra í áföngum.

Eftirleikur eftirlaunafrumvarps.

Vegna þess sem ég skrifaði hér á síðuna um síðustu helgi um stjórnarandstöðuna og frumvarpið um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, þingmanna o.fl. var mér boðið til sjónvarpsviðræðna í Silfri Egils sunnudaginn 14. desember með Margréti Frímannsdóttur og síðan sama kvöld  í Kastljósið með Ögmundi Jónassyni undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar.

Vandinn við Silfur Egils er hið sama og áður, þótt hann sé á nýrri stöð, að erfitt er að fá þar tækifæri til að ljúka máli sínu og koma því á framfæri, sem maður vill í sæmilegum friði. Egill lætur orðið um of vera hjá þeim frekasta og þá verða aðrir að setja sig í sama gír, sem endar oft með því, að hver talar upp í annan. Margrét Frímannsdóttir hrifsar gjarnan til sín orðið og bar þátturinn á köflum nokkurn skaða af því, að ekki var unnt að greina, hvað við vorum að segja!

Ögmundur Jónasson var mun rólegri viðmælandi en Margrét. Skoðanir hans eru á hinn bóginn svo víðsfjarri mínum í mörgu tilliti, að það skapast kannski aldrei viðræðuþráður, sem gaman er að rekja.

Mánudaginn 15. desember var Davíð Oddsson í Kastljósinu og svaraði spurningum þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Sigmars Guðmundssonar. Var áberandi þar, að sjónvarpsmennirnir virtust meira að vera að hugsa um að króa Davíð af með spurningum sínum en gefa honum færi á að svara þeim til hlítar. Ef þáttarstjórnendur ætla að slá keilur á kostnað viðmælenda sinna, af því að þeir telja sig sæta gagnrýni einhverra ella, ættu þeir að velja sér annað fórnarlamb en Davíð Oddsson. Það sannaðist enn einu sinni í þessum þætti.

Lokaorðið um þetta eftirlaunamál hér á síðum mínum ætla ég að veita Atla Rúnari Halldórssyni, fyrrverandi þingfréttaritara hljóðvarps ríkisins, en Stöð 2 leitaði álits hans á málinu í fréttatíma sunnudaginn 14. desember. Atli Rúnar sagði:

„Mér finnst niðurstaðan í þessu máli fyrir stjórnarandstöðuflokkana alla með tölu, það er bara útreið. Mér finnst þeir hafa misst niður um sig, allir með tölu, alveg ótrúlega. Það er, þeir eru ekki trúverðugir lengur, það er víst alveg klárt mál, ekki í þessu máli.“

Ásakanir um meiðyrði

Baugstíðindi, Fréttablaðið og DV, héldu áfram stríði sínu við Davíð í vikunni einkum á grundvelli eftirlaunamálsins. Þau fengu nýjan efnivið, þegar Jón Ólafsson ákvað með aðstoð Ragnars Aðalsteinssonar og Sigríðar Rutar Júlíusdóttur lögmanna að höfða meiðyrðamál á hendur Davíð. Sunnudaginn 21. desember birtir Fréttablaðið forsíðuviðtal við Ragnar um óttann (líklega við valdamenn) í þjóðfélaginu og opnuviðtal við þau Ragnar og Sigríði Rut, greinilega í því skyni að sýna lesendum, hvílík hetjudáð það sé hjá Jóni að draga Davíð á þennan hátt fyrir dómstólana.

Borgarstjórn kom saman til fundar fimmtudaginn 18. desember til að ræða í annað sinn fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. Þar benti ég á, að enn væri að sannast, hve óeðlileg viðskiptin hefðu verið sumarið 2002, þegar Reykjavíkurborg undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur keypti svonefndan Stjörnubíóreit við Laugaveg af Jóni Ólafssyni fyrir 140 milljónir án þess að vita, hvað við reitinn ætti að gera, og nú ætti að breyta honum í bílastæðakjallara fyrir að minnsta kosti 740 milljónir, þó minna en hálfnýtt bílastæðahús væri við Vitatorg í um það bil 300 metra fjarlægð. Á hinn bóginn hefði verið hætt við svonefndan Tjarnarkjallara fyrir bílastæði, þótt hann hefði verið lang-efstur á dagskrá, þegar lóðin var keypt af Jóni.  Í ræðu minni komst ég þannig að orði:

„Um svipað leyti sumarið 2002 og rætt var af ákefð um Tjarnarkjallarann ákvað R-listinn að kaupa Stjörnubíóreitinn svonefnda af Jóni Ólafssyni kaupsýslumanni, sem kenndur er við Skífuna, og hefur nú selt allar eigur sínar á Íslandi í skjóli nætur, eins og frægt er orðið.“

Þessi orð mín kveiktu sérstakan áhuga Róberts Marshalls, fréttamanns á Stöð 2, sem tók við mig viðal á þeirri forsendu meðal annars, að ég hefði gefið til kynna eitthvert ólögmætt athæfi með orðunum „í skjóli nætur“ og Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, fór í andsvar við ræðu mína og lét þess getið, að ég kynni að hafa gerst sekur um meiðyrði!

Satt að segja er erfitt að átta sig á því út í hvaða ógöngur þeir eru komnir, sem telja það brot á meiðyrðalöggjöf að taka til orða á þann veg, sem ég gerði hér að ofan. Minnir það aðeins á ranghugmyndir, sem sóttu að fólki í galdrafári fortíðarinnar. Einmitt þannig er þó því miður málflutningur margra, sem láta hæst til sín heyra um þessar mundir og eru hættir að gera mun á aðalatriðum og aukaatriðum í öllum málum, stórum og smáum. Allt er lagt að jöfnu einkum í þeim tilgangi að bæta hlut þeirra, sem eru ámælisverðir. Þetta minnir á samanburðarfræði kommúnista á tímum kalda stríðsins, sem höfðu að markmiði að sanna, að þrátt fyrir allt væru Sovétríkin ívið betra risaveldi en Bandaríkin!

Óheillaverk við Aðalstræti

Í ræðu minni í borgarstjórn síðastliðinn fimmtudag fann ég enn og aftur að þeirri ákvörðun, að setja minjar um landnámsbæinn í hótelkjallara. Við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt þetta harkalega, en ekki komist upp með moðreyk, enda er framkvæmdavilji R-listans og meðreiðarsveina hans einbeittur. Hefur mér þótt undarlegt, að engir hafi kvatt sér hljóðs um þetta opinberlega á sama tíma og hátt er mótmælt vegna áforma um að rífa Austurbæjarbíó – R-listinn vill ekki að borgin eigi Austurbæjarbíóreitinn eins og Stjörnubíóreitinn enda er munur á Jóni og séra Jóni þar á bæ.

 Freysteinn Jóhannsson blaðamaður á Morgunblaðinu er í hópi andmælenda framkvæmdanna við Aðalstræti. Hann sagði í Viðhorfsgrein í blaðinu 3. desember síðastliðinn:

 „Nú þegar leið mín liggur um gamlar Morgunblaðsslóðir í Aðalstræti svíður mér að sjá framkvæmdirnar á horni Aðalstrætis og Túngötu. Mér finnst hreint úr sagt óafsakanleg sú fyrirætlan að reisa þarna hótel, beint ofan á Landnámsskálann, sem þarna er fundinn. Skálarústina á að varðveita í sýningarskála undir hótelbyggingunni. Það finnst mér þunnur þrettándi.

Það er undarlegt með okkur Íslendinga, eins og við viljum vera stoltir af bókmenntaarfinum, hversu ósýnt okkur hefur lengst af verið um aðra hluti þjóðararfsins. En einmitt þegar ég hélt að sólin væri komin upp er slökkt á henni í Aðalstræti. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hætt við þessa hótelbyggingu? Hvernig geta menn misséð svona, standandi á árdegi Íslandssögunnar? “

Grein sinni lýkur Freysteinn á þessum orðum:

„En aftur niður í Aðalstræti. Finnst nú engin þjóðhetja, sem getur gengið þar fram fyrir skjöldu; fengið menn til þess að hætta við hótelið og gert okkur kleift að ganga inn í andrúm upphafsins, festa hönd á þessari hugsun; hér bjó fyrsti landnámsmaðurinn? Við erum eina þjóðin í heiminum, sem er í færum til þess.

Vel má vera að einhverjum finnist komið nóg af söfnum. En eigum við nóg af Ingólfum Arnarsonum?“

Svarið við spurningu Freysteins um þjóðhetjuna er einfalt. Þrátt fyrir ítrekuð andmæli á vettvangi borgarstjórnar, heldur R-listinn sínu striki og vill minjarnar í hótelkjallarann, hvað sem tautar og raular. Hið einkennilega er, að fyrir utan borgarstjórnina hefur enginn málsmetandi maður á sviði minjaverndar risið til andmæla. Hvað veldur? Að mínu mati er trúverðugleiki margra í húfi, fyrir utan minjarnar sjálfar.