13.12.2003

Misheppnaður herleiðangur vegna eftirlauna.

 

 

Umræður voru á alþingi frá klukkan tæplega 11.00 í dag, laugardaginn 13. desember, þar til um klukkan 16.00 með 30 mínútna matarhléi um frumvarp fulltrúa allra stjórnmálaflokka á alþingi um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Frumvarpið var lagt fram að kvöldi miðvikudagsins 10. desember sem samkomulagsmál allra flokka, enda voru það fulltrúar þeirra í forsætisnefnd þingsins, Halldór Blöndal Sjálfstæðisflokki, Guðmundur Árni Stefánsson Samfylkingu, Jónína Bjartmarz Framsóknarflokki, Þuríður Backman vinstri/grænum, auk Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. sem fluttu málið.

 

Þegar ég heyrði fyrst um frumvarp þetta rætt nú í vikunni, var það kynnt á þann veg, að um samkomulagsmál væri að ræða milli formanna stjórnmálaflokkanna og forsenda þess, að frumvarpið yrði lagt fram, væri stuðningur við það í öllum þingflokkum, eins og venja er, þegar lögð eru fram mál af þessum toga. Jafnframt var mér skýrt frá því, að lengi hefði verið um það rætt af hálfu forráðamanna stjórnarandstöðunnar, að stöðu þeirra ætti að viðurkenna með launabundinni umbun.

 

Málið var til umræðu í þingflokkum miðvikudaginn 10. desember og í þann mund, sem rætt var um frumvarpið, heyrði ég, að í þingflokki Samfylkingarinnar hefði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður flokksins, hreyft athugasemdum við tillögu um 50% álag á þingfararkaup þeirra alþingismanna, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hafa hlotið að minnsta kosti þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar.

 

Í umræðum á þingi í dag kom fram, að Rannveig Guðmundsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd alþingis, sem fjallaði um málið milli umræðna, hefði lagt til, að 50% álagið yrði ekki bundið við þingfararkaup, þannig að flokksformenn, sem ekki eru þingmenn fengju greiðslur úr ríkissjóði. Ingibjörg Sólrún situr ekki á þingi eins og kunnugt er, en hefur boðað, að hún verði formaður Samfylkingarinnar eftir tvö ár.

 

Frumvarpið olli miklu uppnámi meðal forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, sem sátu á fundi að morgni fimmtudagsins 11. desember. Um hádegisbilið þann dag fóru að berast fregnir af því, að þeir teldu frumvarpið hinn mesta vágest og yrðu þeir að endurskoða kröfur í komandi kjarasamningum vegna þess. Jafnframt var efnt til mikillar auglýsingaherferðar og umræðna í ljósvakamiðlum til að kalla saman mótmælafund á Austurvelli við alþingishúsið klukkan 17.00 þennan sama fimmtudag.

 

Ég var kominn í þinghúsið rétt um klukkan 16.00 á fimmtudag og fylgdist með mótmælunum úr glugga þess eins og sjá mátti daginn eftir á forsíðumynd í Fréttablaðinu. Var ég undrandi á því, hve fáir urðu við hinu örlagaþrungna útkalli verkaðlýðsforystunnar og sýndist mér innan við 200 manns vera á Austurvelli, þótt ég heyrði í einhverri útvarpstöðinni sagt, að þarna hefðu 700 manns komið saman.

 

Ýmsir ályktuðu af þessu tilefni, þar á meðal stjórn verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Hún „mótmælir alfarið þeim gerræðislegu hugmyndum“ sem fram koma í frumvarpinu „en þar er gert ráð fyrir 50% hækkun á þingfararkaupi formanna þriggja stjórnmálaflokka og 80% til 100% hækkun á þingfararkaupi ráðherra, auk þess sem þingfararkaup annara (sic!) þingmanna hækkar um 4%.“

 

Endurspegli ályktun Hlífar umræður meðal verkalýðsforingja sýnir hún í hnotskurn, að þeir, sem stóðu að henni, höfðu ekki hugmynd um málið, þegar þeir ályktuðu um það. 50% vegna formanna stjórnarandstöðuflokkanna er rétt. Það, sem sagt er um laun ráðherra og þingmanna, er tóm vitleysa. Þingfararkaup lækkar um 1°% vegna hækkunar á lífeyrisiðgjöldum.

 

Á þessum forsendum eða svipuðum tóku verkalýðsforingjar í Samfylkingunni ákvörðun um að segja sig úr flokknum, ef einn þingmaður hennar greiddi atkvæði með frumvarpinu. Hófst nú dapurlegur kafli í stuttri stjórnmálasögu Samfylkingarinnar. Þingmenn annarra flokka kynntust upplausnaranda innan flokksins óbeint í þinghúsinu að kvöldi fimmtudagsins 11. desember, þegar samfylkingarþingmenn voru kallaðir á teppið hjá verkalýðsforingjum auk þess sem Ingibjörg Sólrún lét að sér kveða í þinghúsinu í samtölum við einstaka þingmenn.

 

Ég var ekki í þinghúsinu þetta kvöld en fékk af því fréttir, að með ólíkindum hefði verið að sjá fátið á samfylkingarliðinu og enn hafi þar birst klofningurinn á milli þeirra í þingflokknum, sem styðja Össur annars vegar og Ingibjörgu Sólrúnu hins vegar. Eins og áður sagði var Rannveig Guðmundsdóttir send í allsherjarnefnd, að sögn vegna þingreynslu hennar og til að greiða fyrir framgangi málsins.

 

Af ræðu Rannveigar um málið að morgni laugardagsins 13. desember mátti ráða, að hún taldi sig á fimmtudagskvöld í raun hafa haft neitunarvald um málið innan nefndarinnar. Úr því að hún sætti sig ekki við niðurstöðu allsherjarnefndar, ætti meirihluti nefndarinnar ekki taka málið úr nefndinni og beina því til afgreiðslu þingsins. Vísaði hún raka eins og þeirra, að tíminn hefði ekki verið réttur eða nógur og ekki hefði verið vitað, hvað kostaði að framkvæma frumvarpið. Þótti henni brotið blað í þingsögunni, að nefndarmeirihlutinn undir formennsku Bjarna Benediktssonar hefði ekki fellt sig við, að duttlungar hennar réðu framgangi málsins. Rannveig hélt fram málstað Ingibjargar Sólrúnar en Guðmundur Árni Stefánsson, flutningsmaður frumvarpsins af hálfu Samfylkingarinnar, hélt sínu striki og studdi frumvarpið við aðra umræðu málsins, svo að Halldór Björnsson verkalýðsforingi og kannski fleiri hljóta nú að vera gengnir úr flokknum, ef marka má hótanir þeirra til að buga samvisku þingmanna.

 

Þegar komið var til ríkisstjórnarfundar að morgni föstudagsins 12. desember, lá í loftinu, að menn töldu frumvarpið líklega úr sögunni, þar sem  samfylkingarforystan treysti sér ekki til að standa að því, vildi meiri tíma en gaf einnig til kynna, að hann mundi þó kannski ekki duga til að leysa málið.

 

Ég lagðist eindregið á þá sveif, að menn héldu sínu striki með frumvarpið og létu vandræðagang Samfylkingarinnar, klofning innan hennar og hræðslu ekki ráða ferðinni. Mér þótti málflutningur andstæðinga málsins utan þings einnig svo greinilega því marki brenndur, að þeir vissu annað hvort ekkert um málið eða væru að afflytja það, að alls ekki mætti láta fávisku þeirra eða ofsa ráða ferðinni.

 

Var síðan gengið til þess verks að ljúka meðferð málsins í allsherjarnefnd og þá gerðist sá furðulegi atburður, að einn nefndarmanna og flutningsmaður málsins, Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, snerist gegn eigin frumvarpi á þeirri forsendu, að ekki væri fallið frá því ákvæði þess, að formenn stjórnarandstöðuflokka fengju 50% álag á þingfararkaup.

 

Sigurjón leitaðist við að skýra þessa afstöðu sína í umræðunum laugardaginn 13. desember, án þess að nokkur þingmaður vissi í raun, hvað olli sinnaskiptum hans. Sigurjón átaldi þá, sem hafa gagnrýnt eftirlaunaákvæðin um forsætisráðherra og sagðist styðja þau en taldi það óþolandi afskipti af innanflokksmálum stjórnmálaflokka, að greitt skyldi 50% álag á laun formanna þeirra utan ríkisstjórnar. Voru ýmsir stjórnarandstöðuþingmenn þeirrar skoðunar, að flokkarnir ættu bara að fá meira ríkisfé og ákveða síðan laun formanna sinna.

 

Þuríður Backman flutti tvær breytingartillögur við eigið frumvarp, sem snertu álagið á þingfararkaup flokksformannanna og voru þær báðar felldar.

Tveir flutningsmanna gerðu sem sagt ágreining vegna þessa sama atriðis í frumvarpinu en fettu ekki fingur út í eftirlaunaákvæði þess.

 

Hlynur Hallsson, varamaður Steingríms J. Sigfússonar á þingi, lýsti andstöðu við frumvarpið og þótti það einkennilegt í ljósi samþykkis Steingríms J. við að málið skyldi flutt. Steinunn K. Pétursdóttir, varamaður Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, snerist einnig gegn frumvarpinu, þrátt fyrir samþykki Guðjóns A.

 

Steinunn flutti ræðu og taldi „gífurlegar kjarabætur“ felast í frumvarpinu, sem benti til þess, að hún hefði byggt mat sitt við gerð ræðunnar á ályktun stjórnar Hlífar í Hafnarfirði eða öðrum álíka traustum heimildum. Þá fjallaði hún um hlutskipti fyrrverandi þingmanna og ráðherra og eftirlaunagreiðslur á þann veg, að hún virtist ekki hafa hugmynd um, hve framganga stofnanda flokks hennar, Sverris Hermannssonar, hefur spillt áliti á fyrrverandi þingmönnum og ráðherrum, þegar rætt er um verkefni fyrir þá við brotthvarf af þingi. Þær raunir allar eru meðal annars bókarefni í frásögn Sverris fyrir þessi jól og ekki eykur sú lýsing líklega áhuga manna á því að ráða menn af þessu sauðarhúsi í vinnu hjá sér.

 

Í umræðunum vék Páll Magnússon, varaþingmaður Framsóknarflokksins, að því, að dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hefði í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins sagt, að frumvarpið væri til marks um æskilega þróun í þágu heilbrigðara lýðræðis og heilbrigðara stjórnkerfis. Fyrir fólk í góðum störfum og á góðri leið í sínum starfsframa yrði að vera ljóst, að það gæti lokið störfum í stjórnmálum yngra að árum en nú er í stað þess að búa þyrfti til sendiherrastöður fyrir það eða útvega því einhver störf hjá hinu opinbera, eins og nú væri. Þetta væri stærra mál en samanburður á launum milli stétta á einhverju sérstöku tímabili.

 

Páll var eins og aðrir málsvarar frumvarpsins mjög hneykslaður á útreikningum ASÍ vegna frumvarpsins. Þeir drægju úr öllu trausti til slíkra talna frá ASÍ. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, minnti á, að alþingi veitti styrk til að reka hagdeild ASÍ, hann þyrfti greinilega að hækka, ef menn hefðu ekki meiri burði en þessir útreikningar sýndu til að leggja mat á lífeyrisréttindi fólks.

 

Full ástæða er til að efast um, að hækkun á þessum styrk mundi breyta nokkru um niðurstöðu ASÍ. Lagt var af stað af hálfu forystu ASÍ með því hugarfari í garð þingmanna í þessu máli, að fyrst var skotið og síðan hugsað. Í þeirri stöðu lenda menn fljótt í vandræðum, sama hve margir fræðingar eru saman komnir.

Síðdegis laugardaginn 13. desember las Bjarni Benediktsson á þingi bréf frá Talnakönnun, þar sem lagt var mat á kostnað vegna frumvarpsins. Þar kemur fram, að breyting á áfallinni eftirlaunaskuldbindingu allra ráðherra geti orðið á bilinu 66 milljónir til 211 milljónir króna samkvæmt frumvarpinu. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, hefur hins vegar sagt kostnað ríkisins af eftirlaunaskuldbindingu vegna núverandi forsætisráðherra eins geta orðið á bilinu 106 til 240 milljónir króna.

 

Talnakönnun segir, að hækkanir vegna frumvarpsins á áfallinni lífeyrisskuldbindingu ríkisins séu á bilinu 0 til 7%.

 

Ég ætla að láta staðar numið við þessa lýsingu mína á þessu máli, sem setti verkalýðsforystuna, ýmsa fjölmiðlamenn og síðan samfylkingarfólk á alþingi gjörsamlega úr skorðum.  Málið sýndi einnig, að Frjálslyndi flokkurinn er stefnulaust rekald á þingi og innan vinstri/grænna er tekist á milli formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar, formanns þingflokksins.

 

Baugsblöðin, Fréttablaðið og DV, hafa farið hamförum vegna málsins. DV-ritstjórarnir nota rangar upplýsingar um efni frumvarpsins til að tala sig í mjúkinn hjá eigendum sínum og stjórnarformanni og forstjóra Kaupþings/Búnaðarbanka með ómaklegum árásum á Davíð Oddsson. Þá fá fjölmiðlamenn útrás fyrir ótrúlega fordóma í garð stjórnmálamanna, sem aðeins miða að því að grafa undan lýðræðislegum stjórnarháttum – að reiða jafnhátt til höggs vegna þessa máls og raun ber vitni er í besta falli til marks um að láta stjórnast af fáfræði og vankunnáttu. Síst ferst þeim, sem þannig vinna, að gagnrýna þingmenn fyrir fljótfærni og hröð vinnubrögð.

 

Verkalýðsforystan hljóp á sig með því að líta ekki á efni málsins, áður en lagt var í herleiðangurinn. Henni tókst að vísu að sýna Samfylkinguna sem máttlaust pólitískt afl með hvorki skoðun né innra þrek, en henni mistókst hrapallega að virkja almenning til fylgis við sig. Nú er framkvæmdastjóri ASÍ kominn í varnarstöðu vegna ógætilegrar túlkunar og talnaflóðs, sem er að drekkja trúverðugleika hans.

 

Traust er forsenda þess, að samstarf takist milli manna í stjórnmálum eins og á öðrum vettvangi. Í þessu máli sannaðist enn, að stjórnarandstöðunni er ekki unnt að treysta. Samfylkingin er rótlaust rekald og þar að auki klofinn milli tveggja fylkinga – hún er ekki samstarfshæf, féll á fyrsta prófinu að kosningum loknum og má enn þakka fyrir, að hún komst ekki í ríkisstjórn með svo fúna innviði.