7.12.2003

Málsvörn fyrir Línu.net - stórmál á þingi - enn um hljóðvarpið.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var til fyrri umræðu í borgarstjórn fimmtudaginn 4. desember. Í upphafi máls síns vék Vilhjálmur Þ, Vilhjálmsson, oddviti okkar sjálfstæðismanna, að ræðu, sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti á aðventukvöldi í Dómkirkjunni sunnudaginn 30. október. Vilhjálmur sagði:

“Lýsing borgarstjóra á stórkostlega góðu ástandi í nánast öllum málaflokkum borgarinnar ber að vísu ekki alveg saman við þá yfirlýsingu forseta Íslands að Reykjavík sé borg eymdarinnar, þegar forsetinn vísaði í því sambandi til samfélagslegrar þjónustu.  Ég er síður en svo sammála forseta Íslands og tel fráleitt að halda því fram að Reykjavík sé borg eymdarinnar.  En ég hef hins vegar ekki orðið var við það að borgarstjóri eða borgarfulltrúar R-listans hafi vakið athygli á þessu og andmælt þessum, ég segi furðulegu yfirlýsingum forseta Íslands.”

Í umræðunum  vék Þórólfur Árnason borgarstjóri ekki einu orði að þessum neikvæðu ummælum forseta Íslands um Reykjavíkurborg né nokkur borgarfulltrúa R-listans; enginn þeirra kvaddi sé hljóðs um fjárhagsáætlunina. Borgarstjóri gekk hins vegar fram fyrir skjöldu í umræðunum til að verja um 3ja milljarða króna fjárfestingu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Línu.neti. Er það í fyrsta sinn svo ég muni, að borgarstjóri tekur að sér að mæla þessari glannalegu meðferð á fé OR bót.

Í málsvörninni rifjaði borgarstjóri upp,  að hann hefði verið á opnum fundi í verkfræðingafélaginu um fjarskipti og þar hefði aðeins einn maður bölsótast gegn áformum um lagningu ljósleiðara á vegum Línu.nets.  Það hefði verið forstjóri Landssímans.  Hann hefði fundið því allt til foráttu að verið væri að veita opinberu fé í slíkt, þótt hann stýrði sjálfur fyrirtæki í 100% eigu ríkisins á þeim tíma.  Fullyrti borgarstjóri, að ljósleiðaralagning Línu.nets hefði strax haft áhrif fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki og almennt hefðu þeir verkfræðingar, sem voru á fundinum, verið felmtri slegnir yfir að heyra það tal forstjórans, að ekki mætti byggja upp veitu af einum aðila en það mætti byggja hana upp af öðrum aðila.  Sín afstaða í þessu væri skýr, að lagningu ljósleiðara hefði enginn getað sinnt nema einhver opinber aðili. Það hefði enginn einkaaðili ráðist í lagningu ljósleiðara í samkeppni við Landssíma Íslands sem var þá að fullu í eigu ríkisins.

Þetta er sérkennilegt mat, þegar til þess er litið, að Línu.neti var komið á legg í því skyni að flytja gögn með raflinum, en þegar það gekk ekki eftir, var, til að fela upphaflegu ákvörðunina, farið út í ljósleiðaralagningu og gengið til fjárfestingar, sem hefur reynst óarðbær og aðeins aukið skuldir eigandans, Orkuveitu Reykjavíkur. Lína.net hefur einkum lagt áherslu á nokkra stóra notendur en alls ekki veitt eins víðtæka þjónustu og Síminn, sem veitir tugum þúsunda manns þjónustu. Breiðband Símans gerir hús í hverfum borgarinnar verðmætari en ella væri en ekki lagnir á vegum Línu.nets, eins og borgarstjóri gaf einnig til kynna í ræðu sinni.

Lína.net kærði Símann til samkeppnisyfirvalda, þegar hann ákvað að lækka gjaldskrá fyrir gagnaflutninga um 40% en samkeppnisráð félst ekki á þá skoðun Línu,nets að Síminn hefði gert þetta vegna þess að Lína.net var að koma inn á markaðinn. Þessari ársgömlu niðurstöðu samkeppnisráðs hefur af einhverjum ástæðum ekki verið haldið á loft, en talsmenn Línu.nets, sem kærðu lækkun Símans, hafa barið sér á brjóst í almennum umræðum og látið eins og þessi 40% lækkun sé þeim að þakka! Er það svo sem í samræmi við annað í blekkingarleiknum vegna þessa makalausa fyrirtækis.

Daginn áður en umræðurnar um fjárhagsáætlunina voru í borgarstjórn svaraði ég fyrirspurnum á alþingi og spurði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mig meðal annars að því, hvers vegna Tetra fjarskiptakerfið væri ekki komið um land allt. Sagði ég, að það byggðist á því, að fyrirtækið Tetra-Ísland, sem er í eigu Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur hefði ekki burði til þess að reisa senda í þessu skyni víðar en hér á suðvestur-horni landsins. Staða þessa fjarskiptafyrirtækis í eigu þessara stóru orkufyrirtækja er fjárhagslega mjög erfið.

Virðist sannast á Línu.neti og Tetra-Ísland, að best sé fyrir orkufyrirtækin að sinna því, sem er höfuðhlutverk þeirra, en láta aðra sjá um fjarskiptin. Að Þórólfur Árnason borgstjóri taki að sér að verja þau mistök, sem gerð voru með Línu.neti er í raun með ólíkindum og sýnir, hve langt er tilbúinn að ganga til að þjóna R-listanum og sérstaklega Alfreð Þorsteinssyni úr Framsóknarflokknum í þessu tilviki, en eftir að Helgi Hjörvar flutti tillöguna um Línu.net í veitustjórn Reykjavíkurborgar á sínum tíma, hefur Alfreð verið í því hlutverki að halda lífi í fyrirtækinu í krafti fjármuna OR.

 

Stórmál á þingi

 

Þessar umræður um fjármál Reykjavíkurborgar hafa af eðlilegum ástæðum fallið nokkuð í skuggann í vikunni, þegar athygli hefur beinst að samþykkt alþingis á fjárlögum fyrir árið 2004 og rætt hefur verið um öryrkjasamkomulag Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og frumvarp Árna Mathiesens, sjávarútvegsráðherra, um línuívilnun.

Framganga öryrkja gagnvart Jóni Kristjánssyni og okkur þingmönnum, sem höfum staðið að baki honum við framkvæmd samkomulagsins, sem hann handsalaði við Garðar Sverrisson, formann Öryrkjabandalagsins, í mars síðastliðnum, vekur áhyggjur um það, hvernig unnt er að halda á málum af þessum toga á þann veg, að sæmileg sátt skapist. Þegar ákveðið er að auka útgjöld á fjárlögum til öryrkja um einn milljarð króna í ríkisstjórn, er unnið að því á öðrum vettvangi, að þessi fjárhæð verði 1500 milljónir króna og þeir síðan sakaðir um svik, sem fallast ekki á þá kröfu.

Alþingi samþykkti sem lög í vikunni, að framlengja einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) um 15 ár og jafnframt einkaleyfi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Öryrkjabandalags Íslands til að reka talnagetraunir (lottó). Þegar ákvörðunin um HHÍ var komin á lokastig innan þingsins, gerðu talsmenn DAS harða hríð að málinu á þeirri forsendu, að einkaleyfi HHÍ væri að grafa undan starfsemi DAS, sem hefur ekki leyfi til að reka peningahappdrætti.

Vegna þessarar gagnrýni ákvað þingflokkur Samfylkingarinnar að standa ekki að afgreiðslu málsins með þessum rökum Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns flokksins:

“Fyrir liggur frv. ríkisstjórnarinnar um að veita Happdrætti Háskóla Íslands einkaleyfi til 15 ára. Þingmenn Samfylkingarinnar telja hins vegar ekki rökrétt að veita umrætt einkaleyfi til svo langs tíma á sama tíma og heildarendurskoðun á happdrættislöggjöfinni stendur yfir og einnig vegna þeirra efasemda sem nú liggja fyrir um lögmæti einkaleyfisins. Sömuleiðis eru ýmsar vísbendingar um að einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands og um leið einkaleyfisgjaldið sé bæði tímaskekkja og óréttlátt. Þess vegna munu þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.”

Ekki var Samfylkingin með neinn fyrirvara við frumvarpið um einkaleyfið vegna talnagetraunanna. Að lög sem alþingi samþykkir um þetta einkaleyfi geti stuðlað að óvissu um lögmæti þess er rökleysa og einkennilegt að sjá slíku haldið fram af alþingismanni, sem er löglærður. Sannaðist þanna enn sú tækifærismennska, sem einkennir mjög alla afstöðu samfylkingarmanna á þingi.

Enn um hljóðvarpið.

Starfsmenn hljóðvarps ríkisins halda áfram að hnýta í mig vegna þess að ég hef leyft mér að fjalla um Spegilinn hér á þessum síðum og einnig skýrt afstöðu mína í grein í Fréttablaðinu. Til að árétta enn einu sinni viðhorf mitt vil ég segja, að mér þykir ekkert óeðlilegt við, að stjórnendur hljóðvarps ríkisins heimili vinstrisnnaða skuggsjá til að skoða fréttir líðandi stundar. Mér finnst hins vegar, að þeir eigi að leyfa þeim, sem ekki skoða mál frá þessum sjónarhóli, einnig að fá rými í dagskránni. Frægt var á sínum tíma, þegar Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni var vikið frá sem pistlahöfundi í hljóðvarpinu, þegar Illugi Jökulsson þótti hafa farið yfir strikið.

Í Vef-Þjóðviljanum www.andriki.is laugardaginn 6. desember má lesa bréf, sem Friðrik Páll Jónsson, ritstjóri Spegilsins, ritar Vef-Þjóðviljanum vegna þess, sem hann hefur sagt um efnismeðferð í Speglinum.

Eins og ég sagði hér að ofan svaraði ég nokkrum fyrirspurnum Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur miðvikudaginn 3. desember á alþingi. Ræddum við saman um klukkan 20.00 og var Mörður Árnason eini þingmaðurinnn í salnum auk okkar Ástu Ragnheiðar.

Hef ég ekki heyrt eða séð neitt um þessi orðaskipti í fjölmiðlum, fyrr en ég heyrði samtal við Ástu Ragnheiði í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sunnudaginn 7. desember, þar sem hún skýrði málið frá sínum sjónarhóli og Gunnar Gunnarsson fréttamaður spurði á þeim forsendum, eins og það væri ekkert vitað um það, hvernig ætti að bregðast við á höfuðborgarsvæðinu, ef nauðsynlegt yrði að flytja þaðan fólk.

Þegar ég hlustaði á samtalið, datt mér helst í hug, að Ásta Ragnheiður hefði sjálf hringt í fréttastofuna til að koma því að, hve illa væri komið fyrir íbúum höfuðborgarsvæðisins vegna þess, að ekki væri til nein heildaráætlun um brottflutning allra íbúa þess. Fréttamaðurinn vék ekki einu orði að svörum mínum og þeim umræðum, sem fram fóru á þingi um málið, þegar Mörður Árnason sá sig meðal annars knúinn til að krefjast þess að bera af sér sakir vegna þess að ég lét orð falla á þann veg, að málflutningur hans og Ástu Ragnheiðar væri að nokkru svo fjarstæðukenndur, að engu væri líkara en um vísindaskáldsögu að ræða. Var Merði svo misboðið vegna þess að hann  vildi bera af sér sakir.

Að sjálfsögðu hafa þeir, sem huga að almannavörnum gert áætlanir um viðbrögð byggð á hættumati. Samstarf þessara aðila á öllu höfuðborgarsvæðinu hefur verið auðveldað með nýlegri heimild um að störf almannavarnanefnda skuli ekki bundin við sveitarfélagsmörk, en áætlanagerð almannvarna er á vegum sveitarstjórna, þótt heildarstjórn lúti ríkislögreglustjóra og almannavarnaráði ríkisins.

Með öryggi borgara að leiðarljósi er almennt talið skynsamlegast að fólk geti sem lengst búið á heimaslóð sinni og sé ekki flutt á brott. Allar áætlanir byggjast á rösktuddu áhættumati en ekki á óljósum hugmyndum um það, sem hugsanlega kynni að geta gerst við allra verstu aðstæður.

Gunnar Gunnarsson spurði Ástu Ragnheiði, hvort ekki væri gert ráð fyrir því í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, hvernig ætti að tæma höfuðborgarsvæðið. Virtist hún ekki hafa um það hugmynd, en þessi mál voru oft rædd fyrr á árum og voru hluti af aronskunni svonefndu, þegar menn voru að velta því fyrir sér, hvort ekki væri unnt að krefjast þess af Bandaríkjamönnum, að þeir smíðuðu brýr og leggðu vegi til að unnt væri að bjarga fólki á hættutímum. Þeir væru ekki aðeins hér til að verja landið heldur líka fólkið! Kannski fara einhverjir á stúfana núna og óska eftir því, að Bandaríkjamenn eða NATO greiði fyrir Sundabraut til að fjölga flóttaleiðum úr Reykjavík?! Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að Íslendinga eigi að sjá um þessi mál sjálfir.