Blair í vanda - spenna innan ESB - landamæraeftirlit, vændi og mansal.
Í vikunni fór ég til Brussel til að stýra fundi innanríkis- og dómsmálaráðherra á Schengen-svæðinu. Gat ég verið hér frameftir degi á miðvikudag, flutt hádegisræðu um utanríkismál í Rotary-klúbbnum og greitt atkvæði um fjárlagafrumvarpið eftir aðra umræðu, áður en ég flaug til London. Gisti þar á flugvallarhóteli og notaði meðal annars tímann til að setja mig inn í umræður um þjóðfélagsmál þar með lestri blaða og með því að fylgjast með umræðum í sjónvarpi um stefnuræðu ríkisstjórnar Tonys Blairs, sem drottningin flutti einmitt þennan sama miðvikudag.
Pólitísku viðfangsefnin eru svipuð í Bretlandi og hér á landi. Stefnuræðan vakti einkum athygli fyrir tvö mál: ákvörðunina um að innheimta allt að 3000 pund í skólagjöld við alla háskóla landsins og tillögur um að herða reglur til að sporna við komu hælisleitenda til Bretlands.
Tony Blair er eindreginn talsmaður skólagjalda. Hann telur ekki unnt að búast við því, að almennir skattgreiðendur geti staðið straum af sífellt meiri kostnaði við háskólanám með fjölgun nemenda og harðnandi samkeppni á alþjóðamarkaði háskólastarfs við skóla, sem hafa heimild til að innheimta skólagjöld. Til að gera háskólum kleift að veita góða menntun og stunda rannsóknir sé óhjákvæmilegt, að þeir hafi heimild til til að innheimta skólagjöld.
Þessi skoðun nýtur síður en svo einróma stuðnings innan flokks Blairs, Verkamannaflokksins. Hafa þingmenn innan flokksins tekið höndum saman um andmæli við skólagjöldin og vekur það auðvitað miklar vangaveltur um styrk forsætisráðherrans. Hann hefur á hinn bóginn tekið til við að efna til funda með almennum borgurum í því skyni að kynnast því af eigin raun, hvað hvílir þyngst á þeim, svo að móta megi stefnu fyrir næstu kosningar með hliðsjón af því.
Umræður um hælisleitendur í Bretlandi bera með sér, að þar er talið, að stjórnvöld hafi alls ekki nægilega markvissa stjórn á málum og grípa verði til aðgerða til að sporna við ólögmætri dvöl fólks í landinu. Ekki síst þyrfti að taka betur á málum barna, sem komið hefðu ólöglega til landsins.
Þennan miðvikudag tókust þeir Tony Blair og Michael Howard á í fyrsta sinn í neðri deildinni. Vógu þeir hvor að öðrum bæði málefnalega og persónulega á þann veg, sem breskum stjórnmálamönnum er einum lagið. Skoðanakönnun undir lok vikunnar sýndi, að nú nýtur Íhaldsflokkurinn meira fylgis en Verkamannaflokkurinn og það einkum á kostnað Frjálslynda flokksins.
Yfirbragð Íhaldsflokksins er nú, að hann sé samhentur að baki formanni sínum eftir langvinn átök innan forystusveitarinnar en Verkamannaflokkurinn logar í innbyrðis deilum um menn og málefni.
Enn er ástæða til að árétta, hve fráleitt er að líta á bresku blöðin sem hlutlaus í deilum stjórnmálaflokkanna. Stefna þeirra ræðst að sjálfsögðu af afstöðu eigenda blaðanna, þótt ritstjórnir hafi sjálfstæði við ritun frétta og skoðana innan þeirra marka, sem eigendur ákveða.
Spennan innan ESB.
Að morgni fimmtudagsins voru áberandi fréttir um ágreining innan Evrópusambandsins (ESB), vegna þess að Frakkar og Þjóðverjar ætla að hafa stöðugleikasamninginn að baki evrunni að engu. Þeir ætla einfaldlega ekki að fara að þeim ákvæðum, sem þar eru sett um fjárlagahalla, og neita að grípa til þeirra ráðstafana heima fyrir, sem eru nauðsynlegar til að fullnægja stöðugleikasamningnum.
Hneyksluðust breskir fjölmiðlar á því, að Frakkar og Þjóðverjar kæmust upp með þetta í krafti stærðar sinnar, en ekki er langt síðan portúgalska ríkisstjórnin var sett í spennitreyju til að knýja hana til hlýðni við stöðugleikasamninginn. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, segir einfaldlega, að Þjóðverjar hætti bara greiða í sameiginlega sjóði ESB, fái þeir ekki sínu framgengt í þessu máli.
Þessi einstefna Frakka og Þjóðverja hefur aukið tortryggni í umræðum um nýja stjórnarskrá ESB, þar sem hið yfirþjóðlega vald á að auka.
Finnst smærri ríkjum hart, ef hinir stóru ætla að hafa það að engu, þegar mál varða þá sérstaklega, en gera kröfu um að hinir smærri verði að lúta því. Þá bætir ekki andrúmsloftið innan ESB, að um það skuli rætt af einhverri alvöru, að Þýskaland og Frakkland verði í raun eitt ríki með enn nánari tvíhliða samvinnu stjórnvalda.
Þótti mér tónninn í bresku blöðunum þannig að morgni fimmtudagsins, að ég sagði við embættismenn ESB, þegar ég hitti þá eftir morgunflug frá London til Brussel, að ég hefði velt því fyrir mér, hvort eitthvert vit hefði verið fyrir mig að fara til Brussel, þar sem ESB væri á barmi pólitísks taugaáfalls og hefði um annað að hugsa en Schengen-samstarfið.
Ráðherrafundurinn var auðvitað haldinn og í viðræðum fyrir hann kynntist ég enn þeirri ofurtrú, sem stjórnarerindrekar aðildarlanda ESB hafa á hlutverki sínu í Brussel. Einn þeirra hafði á orði, að heima fyrir hjá sér væru mjög íhaldssamir þjóðfélagskraftar að verki, besta leiðin til að brjóta þá á bak aftur væri að beita sér fyrir ákvörðunum í Brussel, sem menn yrðu síðan að kyngja á heimavelli, hvort sem þeim líkaði betur eða verr.
Þetta er andrúmsloftið hjá embættismannavaldinu, þar sem „added value“ ákvarðana felst í því að færa meira vald til yfirþjóðlegra stofnana. Snúist ríki gegn slíkum ákvörðunum er höfuðkapp lagt á, að þær nái ekki fram að ganga.
Ráðherrafundurinn snerist einkum um evrópska landamærastofnun, sem á að koma á fót 1. janúar 2005 til að samræma framkvæmd við landamæraeftirlit. Vilja Bretar og Írar endilega tengjast stofnuninni, þótt þeir eigi ekki aðild að Schengen-samstarfinu.
Virkt landamæraeftirlit, vændi og mansal.
Í upphafi vikunnar fór ég í heimsókn til Jóhanns Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, og Jóns Eysteinssonar, sýslumanns í Reykjanesbæ. Kynntist ég starfsemi embættanna.
Mest var nýmæli fyrir mig að sjá, hve skipulega og vel er staðið að vörslu landamæra okkar á Keflavíkurflugvelli. Hafði ég ekki áður átt þess kost að kynnast því, hve þetta starf er umfangsmikið og í hve mörg horn er þar að líta. Árásin á Bandaríkin 11. september 2001 varð til þess að allt eftirlit var hert frá því, sem áður var, auk þess sem Schengen-samstarfið setur það í meira alþjóðlegt samhengi en áður, þar sem íslensk stjórnvöld eru ekki síður gerendur en þiggjendur vegna þess tækjakosts og þeirra vönduðu vinnubragða, sem stunduð eru á vegum sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.
Er nokkuð langur vegur á milli þess veruleika, sem menn standa frammi fyrir við vörslu landamæra í Evrópu og Norður-Ameríku, og hugmynda, sem heyra má hreyft í almennum umræðum um það, hvernig eigi að taka á málefnum þeirra, sem leita af auknum þunga inn fyrir landamærin á misjafnlega traustum forsendum. Að sjálfsögðu á að skoða mál hvers og eins, vega og meta eftir því sem lög og reglur krefjast, en ekki má gleyma hinu, að alþjóðleg glæpastarfsemi snýst í vaxandi mæli um smygl á fólki og mansal í einni eða annarri mynd. Er því fleygt, að meiri fjármunir séu þar í húfi en við smygl á fíkniefnum, og er þá mikið sagt.
Umræður um mansal og móttöku hælisleitenda hafa verið töluverðar hér undanfarið og farið úr einu í annað. Ég mun svara spurningum um þessi mál á alþingi á næstunni og ætla ekki að segja meira um þau fyrir utan að minnast á svonefnt vændisfrumvarp, sem vakið hefur nokkurn hita. Ætla ég að birta tvær spurningar, sem ég fékk frá Morgunblaðinu um málið og svör mín við þeim, en aðeins hrafl úr þeim komst inn á síður blaðsins.
Morgunblaðið spurði:
1. Hver er afstaða þín til vændisfrumvarpsins? Ef einhverjar breytingar
þarf að gera, hverjar þá?
Svar mitt var þetta:
„Texti frumvarpsins er óskýr, enda er markmiðið með frumvarpinu að sögn fyrsta flutningsmanns þess að senda skilaboð um það, sem þykir ámælisvert. Þegar greinargerð frumvarpsins er lesin sést, að það tekur ekki síst mið af umræðum, sem fram hafa farið í Svíþjóð og vandamálum, sem við er að glíma þar í landi. Ég átti þess kost að hitta Margaretu Winberg, þegar hún kom hingað í sumar til að kynna hina svonefndu „sænsku leið“, en þá var hún ráðherra sænsku ríkisstjórninni en varð skömmu síðar sendiherra Svía í Brasilíu. Sagði ég henni eins og er, að hin svonefnda sænska leið hefði verið rædd hér á landi, meðal annars á alþingi, en ekki náð fram að ganga, og nefnd á vegum forvera míns sem dómsmálaráðherra hefði ekki mælt með, að hún yrði farin. Á fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda í Svíþjóð í sumar, sem leið, hefði ekki verið áhugi hjá neinum að fara þessa leið, þótt Finnar segðust ætla að skoða málið í ljósi reynslu Svía.
Ég ætla ekki að gera neinar tillögur um breytingar á þessu frumvarpi, því að ég tel það hafi fyrst og fremst umræðugildi til að varpa ljósi sá vandamál, sem er miklu brýnna úrlausnarefni annars staðar en hér á landi, þótt vissulega sé mikilvægt hér að huga vel og skipulega að öllum þáttum þessara mála. Hefur verið fróðlegt, að kynnast þeim viðhorfum, sem Svíar hafa flutt okkur vegna frumvarpsins, en eins og kunnugt er, telja þeir, sem hafa rannsakað áhrif sænsku laganna, með öllu óljóst eða óvíst, að þau hafi náð tilgangi sínum og jafnvel er sagt, að þau hafi leitt til verra ástands“.
Morgunblaðið spurði:
2. Hvernig eigum við að bregðast við vændi og mansali, með lagasetningu eða
öðru? Eru lögin fullnægjandi eins og þau eru í dag eða er breytinga þörf?
Svar mitt var þetta:
„Við höfum lög og reglur hér á landi til að sporna gegn mansali og í því efni skiptir mestu að halda uppi góðu eftirliti á landamærum eins og sannast hefur við handtöku Kínverja á Keflavíkurflugvelli nýlega. Þar var um tilraun til mansals að ræða, sem var stöðvuð vegna árvekni íslenskra löggæslumanna. Við höfum einnig lagaákvæði um vændi. Þessi ákvæði hafa nýlega verið endurskoðuð og hert. Jafnframt erum við aðilar að alþjóðasamningum og samstarfi til að ná betri árangri á þessu sviði. Mestu skiptir, að við högum öllum aðgerðum í samræmi við aðstæður hér á landi, um leið og haft er auga á alþjóðlegri þróun og aðstæðum í einstökum ríkjum, eins og til dæmis Svíþjóð.
Um það má lengi ræða, en án nokkurrar endanlegrar niðurstöðu, hvort lagaákvæði séu fullnægjandi, því að eins og við vitum eru afbrot framin, þrátt fyrir að hegningarlög séu í gildi. Í baráttu við afbrot er mikilvægt að um sé að ræða gott og opið samband milli almennings og lögreglu, þannig að lögreglu sé hiklaust skýrt frá því, ef grunur er um afbrot, svo að hún geti rannsakað mál, upplýst og tekið þá, sem eru sekir. Í þessu efni er einnig mikilvægt að forgangsraða í störfum lögreglu meðal annars á grundvelli rannsókna á tíðni afbrota. Nýlega hefur verið hrundið af stað viðamiklu verkefni á vegum dómsmálaráðuneytisins til að efla löggæslu í landinu. Samhliða því sem unnið er að því verkefni verður hugað að breytingum á hegningarlögum, séu þær taldar nauðsynlegar til að efla öryggi borgaranna og auðvelda lögreglu störf sín.“