16.11.2003

Sviptingar í fjölmiðlun

 

 

Sviptingar í fjölmiðlun eru miklar: DV skiptir um eigendur og kemur út að nýju í nýjum búningi undir nýrri ritstjórn; Jón Ólafsson selur hlut sinn í Norðurljósum og aðrar eignir sínar á Íslandi til Kaupþings Búnaðarbanka og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi; Morgunblaðið sendir frá sér Tímaritið, sunnudagshluta sunnudagsblaðs síns í nýjum búningi; Fréttablaðið og Morgunblaðið berjast á smáauglýsingamarkaði; útvarpsráð ræðir tillögur um hlutverk fréttasviðs við ritsjórn fréttaskýringaþátta með vísan til umræðna um vinstri slagsíðu Spegilsins.

 

Nýir ritstjórar DV segjast hafa fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði og ekki vera á neinn hátt háðir eigendum sínum og því síður bundnir af fastmótuðum pólitískum skoðunum. Umræður hefjast enn á ný um það, hvort nauðsynlegt sé að setja í lög ákvæði um eignarhald á fjölmiðlum til að útiloka of mikla samþjöppun. Ingibjörg Sólrún Gísladótti, varaformaður Samfylkingarinnar, segist ekki sjá nauðsyn þess núna, úr því að Morgunblaðinu hafi verið skapað mótvægi á markaðnum!

 

Nýtt DV birtir fyrsta útgáfudag sinn, föstudaginn 14. nóvember, óborganlega forsíðumynd frá Reykjavíkurflugvelli af Jóni Ólafssyni, þar sem hann stígur úr einkaþotu, nýkominn frá London, og gengur inn í svartan Benz með opið skott, þar sem sést í rauðan varúðarþríhyrning.

 

Að kvöldi 14. nóvember birtist þetta samtal við Jón á Stöð 2:

 

„Kaupþing Búnaðarbanki og Jón Ásgeir Jóhannesson sitja nú yfir því sem áður var veldi Jóns Ólafssonar.

Jón Ólafsson: Það eru þessir báðir aðilar. Jón Ásgeir hefur séð um alla samninga við mig og ég vil taka það skýrt fram að hann hefur það gert með slíkum brag að ég er virkilega, virkilega ánægður og stoltur af því að hafa átt þessi viðskipti við hann. Drengurinn er höfðingi.

Og Jón Ólafsson segist skilja sáttur við Ísland.

Jón Ólafsson: Og ég er mjög glaður í dag og það eru forréttindi að hafa fengið að gera það sem ég hef gert á Íslandi.

Og hann blæs á hugmyndir um að hann vilji með sölunni, koma sér undan löngum armi íslenskra skattayfirvalda.

Jón Ólafsson: Ég hef alltaf staðið mína plikt og ég mun gera það í þessu máli sem öðrum. Þetta er algjörlega rangt.

Þór[Jónsson fréttamaður]: Þú munt standa skil á öllu þínu gagnvart íslenskum skatti?

Jón Ólafsson: Það mun ég gera, hef alltaf gert.“

Á sínum tíma sagðist Jón hafa ákveðið að flytja frá Íslandi til að tryggja börnum sínum góða menntun. Lýsti hann sér sem einskonar pólitískum flóttamanni undan lélegu menntakerfi.

Í samtali við hljóðvarp ríkisins að kvöldi 15. nóvember sagði hann hins vegar, að fyrir rúmum 5 árum hefði legið fyrir, að hann stefndi á það að færa athafnasvæði sitt frá Íslandi til útlanda og hann hefði verið að vinna að því allar götur síðan. Hann mundi starfa í Englandi og til að byrja með í Norður-Evrópu.

Umræður um stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart stjórnmálamönnum og flokkum hafa til þessa einkum snúist um það, hvort stjórnmálaflokkarnir hefðu of mikil áhrif á fjölmiðlana. Var það til dæmis ofarlega í huga ýmissa forráðamanna Morgunblaðsins í tilefni af 90 ára afmæli þess 2. nóvember síðastliðinn. Í samtali í sjónvarpsfréttum að kvöldi 2. nóvember áttu þessi orðaskipti sér stað milli fréttamanns og Haraldar Sveinssonar, stjórnarformanns Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins:

„G. Pétur [Matthíasson fréttamaður]: Þannig að það er sjálfstæðið sem hefur skipt sköpum?

Haraldur Sveinsson: Já, það er alveg rétt. Enda sérðu það að ef að við ættum bara að hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins fyrir lesendur þá værum við ekki með nema 30 þúsund eintök, eitthvað svoleiðis en erum með 55 held ég.“

Conrad Black, aðaleigandi The Daily Telegraph í London fer ekki í grafgötur með skoðanir sínar og andstöðu við Verkamannaflokkinn í Bretlandi. Hann hefur barist af mikilli hörku við Rupert Murdoch eiganda The Times . Fór Murdoch í verðstríð til að sigra Black en atlagan tókst ekki og er The Daily Telegraph enn stærsta gæðablaðið í Bretlandi.

Laugardaginn 8. nóvember var viðtal við Black í Weekendreview The Times í tilefni af útkomu bókar hans um Franklin Delano Roosevelt. Í viðtalinu er hann spurður um afstöðu sína til breskra íhaldsmanna. Hann segist aldrei hafa getað fyrirgefið þeim aðförina að frú Thatcher og hann kunni vel við Blair. Þá spyr blaðamaðurinn hvers vegna The Daily Telegraph þurfi alltaf að styðja Íhaldsflokkinn. Black segir blaðið ekki alltaf gera það og muni ekki gera það. Enn spyr blaðamaðurinn, hvort blaðið muni ekki styðja íhaldsmenn í næstu kosningum. „Við verðum bara að bíða og sjá. Ekki er unnt að ganga að því vísu en mér er ljóst, að flestir gera það,“ segir Black og bendir á að 40% lesenda blaðsins séu kjósendur Verkamannaflokksins.

Þeir Haraldur Sveinsson og Conrad Black segja báðir, að blöð þeirra eigi stærri lesendahóp en kjósendur ákveðins stjórnmálaflokks. Spurning er, hvort þeir líti þannig á, að þeir eigi lesendur úr þeim flokki alltaf vísa, hvernig svo sem blaðið er. Hitt er einnig jafnan fyrir hendi, að aðrir útgefendur komi og nái til sín  þeim hópi, sem einhver telur sig eiga vísan. Hvers vegna skyldi það ekki gerast? Sveiflast ekki lesendur á milli blaða eins og auglýsendur?

Þótt The Daily Telegraph hafi staðið að baki Íhaldsflokksins hefur hann ekki sigrað í tvennum síðustu þingkosningum í Bretlandi og sé tekið mið af afstöðu blaða, er talið, að fyrir Verkamannaflokkinn og Tony Blair hafi skipt miklu, að Rupert Murdoch og síðdegisblað hans The Sun hafi lagt þeim lið.

Rupert Murdoch sagði hins vegar í viðtali, sem sagt var frá á vesfíðu BBC 15. nóvember, að The Sun  kynni að styðja Íhaldsflokkinn í næstu þingkosningum. Hann sagðist ætla að fylgjast með því, hvernig nýrri forystusveit Íhaldsflokksins vegnaði undir forystu Michaels Howards en mundi þó ekki fljótt gleyma því hugrekki, sem Tony Blair hefði sýnt síðustu mánuði á alþjóðavettvangi. Murdoch telur hina nýju stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem ríkisstjórn Blairs er hlynnt, „mjög hættulega“ og vill ekki sjá meira framsal á efnahagslegu fullveldi. Segist hann ætla að berjast gegn stjórnarskránni, ef hún breytist ekki.

Hvað sem sagt er á ritstjórn blaða, er ljóst af þessum orðum, að þeir, sem eiga blöðin eða koma fram fyrir þeirra hönd, hvort sem er hér á landi eða erlendis, telja sig geta talað af nokkrum þunga um stefnu blaðanna. Að sjálfsögðu gera þeir það ekki nema vegna þess, að þeir vita, að orð þeirra hafa áhirfamátt, hvort sem þeir eru með puttana í daglegum ritstjórnarskrifum eða ekki.

Einmitt þess vegna er mikill áhugi á því á meðal stjórnmálamanna hér á landi og annars staðar, þegar fjölmiðlar skipta um eigendur. Raunar er þessi áhugi ekki bundinn við stjórnmálamenn, því að allir eiga rétt á gegnsæi í þessum efnum til að geta áttað sig á því frá hvaða sjónarhóli þeir líta, sem standa að útgáfu blaða eða rekstri útvarpsstöðva. Feluleikur í þessu efni er oft aðeins tilraun til að sigla undir fölsku flaggi í því skyni að blekkja einhverja til að kaupa af sér þjónustu.