29.10.2003

Ánægjuleg viðurkenning.

Íslensku vefverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Apótekinu síðdegis í dag, miðvikudaginn 29. október. ÍMARK og Vefsýn standa fyrir verðlaununum en þau eru styrkt af ISNIC.  Tilgangur verðlaunanna er að auka metnað íslenskra fyrirtækja í vefmálum og stuðla að aukinni atvinnumennsku við smíði vefa á Íslandi.

Söfnun tilnefninga fór fram 8.-18. október á vef Vefsýnar, www.vefsyn.is og hin íslenska vefakademía sem skipuð er fimm reyndum einstaklingum úr vef- og markaðsiðnaðinum, valdi úr tilnefningunum sigurvegara í hverjum flokki. Alls bárust um 10.000 tilnefningar. Verðlaun voru veitt í fimm flokkum.

Sem besti íslenski vefurinn voru þessi vefsetur tilnefnd:

www.hugi.is
www.tonlist.is
www.doktor.is
www.islendingabok.is
www.simaskra.is

Besti íslenski vefurinn: tonlist.is

Sem besti fyrirtækisvefur voru þessi vefsetur tilnefnd:

www.ikea.is
www.ogvodafone.is
www.vinbud.is
www.ossur.is
www.toyota.is

Besti fyrirtækisvefurinn: vinbud.is

Sem besti einstaklingsvefur voru þessi vefsetur tilnefnd:

http://arni.hamstur.is
www.katrin.is
www.b-man.dk
www.frettir.com
www.bjorn.is

Besti einstaklingsvefurinn: bjorn.is

Sem besti afþreyingarvefur voru þessi vefsetur tilnefnd:

www.islendingabok.is
www.hugi.is
www.mbl.is
http://visindavefur.hi.is
www.tonlist.is

Besti afþreyingarvefurinn: hugi.is

Sem besta útlits- og viðmótshönnun voru þessi tilefnd:

www.egillhardar.com
www.frelsi.is
www.nikitaclothing.com
www.lirfan.is
www.tonlist.is

Besta útlits- og viðmótshönnun: nikitaclothing.com

Stefán Hrafn Hagalín, markaðsstjóri hjá Skýrr, sem hefur verið í netsambandi við mig um árabil stjórnaði athöfninni í dag en Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin.

Þótti  mér það ánægjuleg viðurkenning og mikill heiður að vefsíða min skyldi valin besti einstaklingsvefurinn úr hinum mikla fjölda  glæsilegra vefsíðna, sem Íslendingar halda úti. Þakka ég þeim, sem völdu síðuna, en ekki síður hinum góðu vefurum og aðstoðarfólki, sem hefur lagt mér lið í þau tæp níu ár síðan Miðheimamenn undir forystu Arnþórs Jónssonar hvöttu mig til þess að tengjast inn á veraldarvefinn frá heimili mínu og síðan til að opna vefsíðuna.

Hafa margir komið að því að hanna útlit síðunnar í áranna rás og aðstoða mig við að setja efni inn á hana, þar til ég varð sjálfbjarga við það með fulltingi góðra forrita. Hugsmiðjan hannaði það útlit, sem er á síðunni minni núna.

Að halda úti síðu af þessum toga krefst aga og að gefa sér tíma til að sinna verkefninu. Að koma inn á vefsíðu, sem hefur verið umhirðulaus um nokkurra vikna eða mánaðaskeið, er eins og að heimsækja draugaborg, þar sem allt hefur verið skilið eftir án þess að kveðja eða loka á eftir sér.